mánudagur, 31. maí 2010

Þegar ég fyrst byrjaði á þessu heilsubrölti mínu var ég alveg á botninum. Ég var búin að rannsaka magaaðgerðir og hafði ákveðið að það væri það eina sem ég gæti gert til að ná af mér þessu helvíti sem ég var búin að kljást við nánast allt ævi. Ég átti ekkert eftir nema örvæntingu.
"Átið hefur núna alveg tekið yfir allt í lífinu og ég er komin á eitthvert stig sem ég kannast ekki við áður. Ég fæ panikk atakk ef það er ekki til ákveðið mikið magn af sælgæti. Og ég er að tala um alvöru panikk atakk; ég fæ hjartaflökt og svitna, á erfitt með að anda og fyllist sorg, depurð og reiði. Þetta er ný geðveiki sem hefur tekið völdin af mér. Allavega, magateygja er ekki valmöguleiki, nú einfaldlega vegna kostnaðar. Fyrir nokkrum mánuðum var það vegna þess að ég ákvað að ég gæti ráðið við þetta sjálf, nú hef ég viðurkennt að það er ekki satt, ég bara hef ekki efni á aðgerðinni. Þangað til verð ég að reyna að gera eitthvað. Verð að viðurkenna að ég er hálf vondauf með þetta, ég fæ ekki séð að megrun númer 4979 komi til með að virka eitthvað betur en hinar 4978. " (Febrúar, 2009)
Ég gaf sjálfri mér því síðasta tækifærið, eitt tækifæri til að reyna að ná stjórn á fíkninni. Tók mynd af mér og skoðaði með hryllingi og byrjaði svo. Hvar byrjar maður eiginlega þegar verkefnið er svo stórt, svo viðamikið að það virðist í alvörunni óyfirstíganlegt? Jú, á sama hátt og maður byrjar á að klífa fjall; með einu skrefi. Og svo því næsta og svo því næsta. Eitt í einu. "Ég er uppfull af þrótti, von og bjartsýni akkúrat núna. Mér líður eins og eldingar renni í æðum mér og nánast ekkert sé ómögulegt." (Mars, 2009) Hvað gerðist eiginlega? Jú, ég byrjaði að hreyfa mig. Rannsóknir sýna að fólk sem breytir mataræði til hins betra og byrjar að hreyfa sig léttist ekkert meira en þeir sem bara laga mataræðið en til langtíma litið þá kemur í ljós að þeir sem ná að koma hreyfingunni almennilega fyrir í nýjum lífstíl eiga mun meiri möguleika á að viðhalda fitutapi. Og ég er alveg sannfærð um að lyftingarnar og hlaupin hafi skipt öllu máli í þessu hjá mér. Engu að síður þá hefur eitthvað breyst síðan ég var með eldingar í æðastað hérna fyrir rúmu ári. Ég er bara eitthvað að tussast um núna. Héðan í frá er því dagur númer eitt. Ég ætla að byrja upp á nýtt. Telja og vigta, búa til vikumatseðla og reyna að hugsa um sjálfa mig sem 95 kílóa manneskju sem þarf að léttast um 21 kíló, ekki 125 kílóa manneskju sem er hálfnuð með verkefnið. Læra upp á nýtt það sem fékk mig til að lýsa því yfir að hafragrautur væri gjöf frá Guðunum og að spínat væri leyndamálið að eilífri hamingju. Það getur verið að ég hætti að setja hér inn hvað ég léttist mikið, það má vera að þess í stað fari ég að tala um bættan hlaupatíma eða kílóafjölda í bekkpressu. Ég sé til. Það er bara eitt sem ég veit fyrir víst. Að það er endalaust hægt að koma sjálfum sér á óvart.

sunnudagur, 30. maí 2010

Mér sýnist að ég sé svona einna helst eins og íslenskir stjórnmálaflokkar. Segi fullt af fínum setningum sem þýða samt ekki neitt þegar maður spáir í það og hef hjakkað í sama farinu mánuðum saman. Er með ægilega fína stefnuskrá en ekki neinar sérstakar leiðir til að framkvæma loforðin. Er eins og heilög nunna alla vikuna en velti mér svo upp úr spillingunni þegar enginn sér til. En eins og Reykvíkingar ætla ég núna að segja fokk jú við sjálfa mig, velta mér úr sæti og kjósa nýtt afl inn. Og öfugt við sjálfstæðismenn þá skil ég fokk jú og þykist ekki hafa unnið neinn varnarsigur og ætla bara að hypja mig. Ég er búin að vera að ausa úr bátnum með hriplekri fötu og hef ekki unnið neinn varnarsigur með að standa í stað síðan um jól nánast. Nei, ég er bara búin að skíttapa. En skítt og laggó með það, ég er búin að fremja valdarán hérna og nú er bara gaman. Nýtt plan, nýr kraftur.

laugardagur, 29. maí 2010

Hver veit um manneskju sem hleypur 15 km í einni viku og tekst samt að þyngjast um kíló? Ég er svo spes.

fimmtudagur, 27. maí 2010

Allri ofurvinnu lauk í gær og ég því frjáls til að rækta mig í morgun. Á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum lyfti ég lóðum en á þriðjudögum og fimmtudögum hleyp ég. Ég ákvað að halda bara því plani þó að mig langaði miklu meira til að lyfta enda farin að sakna járnsins. Aaarg aarg gargaði vekjaraklukkan á mig klukkan 5:40 í morgun og ég fór á fætur. Mig langaði ekkert svakalega í ræktina, ekkert svona frekar en mig langaði að mæta í vinnu en svona er þetta bara stundum, ég skorast undan hvorugu. Ég er búin að koma heilastarfseminni þannig fyrir að ég sé ekki mun á að mæta í rækt eða mæta í vinnu; óhjákvæmilegt bæði tvennt. Hinu verður svo ekki neitað að þá daga sem ég lyfti þá valhoppa ég hress og kát framúr og í rækt, en hlaup-dagana þarf ég að svona ýta mér áfram. Og það var erfiðara í morgun en oft áður, kannski eftir að hafa verið í fríi. Þannig að þegar maður bætir svo tímann sinn um heila mínútu þrátt fyrir að vera ekki í stuði þá verður maður bara enn kátari eftir á! Þetta er eins og súkkulaði, þetta er svo ávanabindandi. Ég er reyndar með smá verk í hnénu núna, er kannski búin að ofreyna það oggulítið.

En það er öllum sama um sár hné þegar maður fær fínt í matinn. Í kvöld svissaði ég lauk og völdu grænmeti, gulrætur, baunir, spergilkál, hvítlaukur, maís, saman á pönnu. Maukaði saman dós af kjúklingabaunum, 2 msk af grófu náttúrulegu hnetusmjöri, 1 eggi, ristuðum sesamfræjum, furuhnetum og sólblómafræjum og marókkóskri kryddblöndu. Hrærði svo grænmetið út í og mótaði 6 klatta sem ég bakaði í 40 mínútur inn í ofni. Spínatsalat með bulgur, hummus og kotasæla og hamingjan er mín. Í eftirrétt eru svo jarðaber og grísk jógúrt. Ofurgott.

þriðjudagur, 25. maí 2010

Nú teygja angar ársins 2007 sig hingað enn frekar og ég komst í akkorðsvinnu svona út á það. Já, nú er svo mikið að gera við að afskrifa skuldir örsnauðs pöpulsins að ég komst í uppgrip. Ég sit sveitt við tölvuna og þeyti vöxtum og vaxtavöxtum út um gluggann frá klukkan sjö á morgnana og langt fram á kvöld, ég vinn meira að segja í hádeginu svona til að fá enn meiri yfirvinnu. Ég bara get ekki afþakkað svona tækifæri til að fá smá aukaaur en það þýðir að ég hef ekki tíma í ræktina. Það er ekkert ósvipað fyrir mér komið og þessu fólki sem á ekki fyrir reikningunum sínum. Í mörg á notaði ég kalóríur sem ég átti ekki fyrir. En nú er komið að skuldadögum og ég strita við að borga tilbaka það sem ég ofnotaði árum saman. Og það er nú fátt sem jafnast á við að vera skuldlaus. Verst bara að það getur enginn afskrifað mína vexti.

sunnudagur, 23. maí 2010


Ég hugsa að ég hafi sjaldan verið eins stolt af sjálfri mér eins og í dag. Þrátt fyrir að hafa hlaupið 5km á brettinu í vikunni og ég vissi að ég gæti þetta svo sem alveg þá var það eitthvað svona merkilegra að gera þetta með númerið á bringunni. Ég var líka smá nojuð yfir veðrinu, ég er ekki vön neinum stórræðum í 27 stiga hita. Alyn Waters Country Park í Llay er líka ókannað svæði fyrir mig þó það sé bara hérna rétt hjá. En þegar á svæðið var komið var ekki annað hægt en að hrífast með andrúmsloftinu, þarna voru samankomnar 1600 konur, allar í bleiku og svakalega skemmtileg stemning að skapast. Eftir smá upphitun var hlaupurum skipað fremst, í miðjunni voru svo skokkarar og þær sem ætluðu að labba aftast. Ég kom mér fyrir með skokkurunum og Dave og Lúkas fóru að reyna að taka myndir. En um leið og hlaupið hófst komst ég að því að ég var of aftarlega, allar í kringum mig röltu af stað þannig að ég tafðist heilmikið á meðan ég var að reyna að hlaupa í kringum þær allar. Eftir uþb kílómetra var þetta orðið fínt, flestar í kringum mig að hlaupa líka. Svo reyndar fór að slá í þær og aftur þurfti ég að þræða mig framhjá gangandi kellingum. Eftir þrjá og hálfan kom ég svo út úr skóginum og leiðin var yfir nýslegið gras. Mér fannst það smávegis erfitt en þegar ég var við að gefast upp sá ég skiltið; 500m! Ég trúði þessu ekki! Bara 500 metrar eftir! Ég spítti því í og þrusaði í gegnum þá og að endamarkinu. Sá Dave og Lúkas bíða eftir mér og leit á klukkuna; ég hafði gert þetta á rétt tæpum 33 mínútum. Ég hafði sagt við Dave að þetta tæki mig örugglega 45 mínútur af því að ég er um 38 að hlaupa þetta á bretti. Hann missti því af andartakinu þar sem ég kom í mark af því að hann átti ekki von á mér strax og var ekki tilbúinn með myndavélina. Sjálf skil ég ekkert í þessu. Ég hlýt að geta aukið hraðann á brettinu um heilmikið, ég get greinilega hlaupið miklu hraðar en ég geri þar. Eða þá að keppnisandinn er svona gífurlegur í mér. Hvað um það, ég verð að segja að það er gott að ég er með eyru af því að annars myndi ég brosa allan hringinn og hausinn detta af mér. Jei fyrir mér!

laugardagur, 22. maí 2010

Ætli að það sé ekki bara hátt í þrjátíu stiga hiti hér í dag og hver getur verið fúll í svona veðri? Fúll af því að enn eina vikuna stend ég í stað. En ef satt skal frá segja þá bara nenni ég ekki að pæla í þessu í dag. Er eiginlega komin með upp í kok af kalóríum, próteini, brennsluæfingum, fjölómettuðum fitusýrum og skynsemi. Ég ætla ekki að hugsa um þetta í eina sekúndu í dag, hlaupa í 5 kílómetra kapphlaupi á morgun, borða svo einn lakkríspoka og svooo skal ég ákveða hvað ég geri næst. Góðar stundir.

miðvikudagur, 19. maí 2010

Ég setti komment hjá Röggu Nagla um daginn og hún kommentaði tilbaka þar sem hún var að velta fyrir sér afhverju ég hef staðið í stað að undanförnu. Ég varð uppnumin og ofboðslega æst; nú myndi atvinnumanneskja í lífstíl segja mér "töfralausnina"! "Já, Svava mín, ef þú borðar súkkulaðikökuna á undan pizzunni þá léttistu um 12 kíló í svefni. Eða; Já, Svava mín ef þú snýrð þér undan vindi á meðan þú borðar heilt kíló af ristuðu brauði með smjöri þá rennur af þér spikið." O.sv.frv. Þetta er nú meiri andskotinn. Eftir rúmt ár þar sem ég hef séð ljósið er ég enn innst inni að vonast eftir töfralausn þar sem ég borða sykur í tonnavís. Ég veit vel afhverju ég stend í stað; það er af því að ég borða of mikið um helgar. Ég er 95 kíló á laugardagsmorgni, á mánudegi er ég 97.5 og svo er ég alla vikuna með damage control að ná þessu aftur af mér. Einfalt ekki satt? Ég hef alltaf sagt að þetta sé einfalt. Auðvelt? Nei, ekki svo mikið. Og þangað til ég tek í rassgatið á mér og laga helgarnar bara get ég ekki kvartað. Ef ég ætla að hafa þetta svona, nú þá verð ég líka að taka því að ég léttist ekki. Ef hinsvegar mig langar til að léttast meira þá verð ég að finna lausn á þessu helgarsukki. Nú er að ákveða sig. Hvort langar mig í meira, snickers eða 70 kíló? Mitt er valið.

þriðjudagur, 18. maí 2010

Sunnudagurinn 17.janúar var merkisdagur í lífi mínu (en hvað það er sniðugt að halda svona dagbók til að geta flett þessu upp) en þá reimdi ég á mig asics skóna, festi á mig i-podinn og hljóp út í fyrsta skiptið. Ég byrjaði á því að fylgja C25k prógramminu en gafst upp á því í viku 5 en hélt alltaf áfram að hlaupa bara svona eins og mér hentaði. Ég er þessvegna afskaplega stolt að tilkynna að í dag, nánast ákkúrat 4 mánuðum síðar, tókst mér að hlaupa 5 kílómetra. Á bretti, ókei sem er kannski auðveldara en að hlaupa úti en mér til varnar er ég með það stillt á 2% halla. Og það tók mig 39 mínútur að komast þessa 5 kílómetra sem þykir kannski klént en by God I did it! Ég geri þetta aftur á fimmtudaginn og ætti þá að vera tilbúin í að taka þátt í Race for Life á sunnudag. Húrra! Húrra! Húrraaaaa!! Og svo vinna í því að ná mínútunum niður í 30. Það er víst alltaf hægt að betrumbæta eitthvað.

sunnudagur, 16. maí 2010


Mikið svakaleg var gaman á Matarhátíðinni Miklu í Wrexham. Sólin skein og það var mikil stemning í loftinu. Allir sem voru með bása ofboðslega ánægðir með viðtökurnar og ekkert mál að leyfa að smakka á öllu og prútta aðeins með verð. Á myndinni til vinstri er allt sem ég leyfði mér að kaupa. (Takið líka eftir geðveikisglampanum í augunum.) Irish Cream Fudge, Maple Pecan Brownies, Red Chili Leicester Cheese, Tomato and chili chutney, Welsh Dragon sausage (sem er ekki búin til úr velskum dreka þrátt fyrir nafnið) og Hamborgarar, Tractor Wheel Pork Pie og Rapeseed Oil. Rapeseed er frábær að því leytinu til að hún er jafn góð á bragðið og ólífuolía þannig að það má nota hana til að bragðbæta salöt en það má líka hita hana miklu meira en ólífuolíu áður en hún brotnar niður og verður óholl. Og svo það sem ég er ánægðust með, Blue Thunder Sauce. Sósa búin til úr bláberjum, soja sósu og kryddi sem er hægt að skella út á salat, á fisk eða kjúkling eða nota til að dýfa brauði í. Ég hefði viljað kaupa allar bragðtegundirnar en ákvað að fá bara þessu einu og svo getum við bara farið á sunnudagsrúnt á bóndabæinn og keypt meira þegar þarf. Þá ætla ég líka að kaupa bláberja og súkkulaði sósuna sem er víst ídeal út á hafragrautinn eða jógúrtið. Það er svo gaman að uppgötva svona nýtt og að fólk hérna í nágrenninu sé að gera svona spennandi hluti er náttúrulega bara æði.

Bás eftir bás af girnilegum mat, ólífur og hnetur, sólþurrkaðir tómatar, salami og skinka, brauð og kökur, sósur og chutneys, ostar í kílóavís, súkkulaði og ís. Þegar við vorum búin að rölta aðeins um var ég orðin svo uppveðruð að það þurfti að fara með mig til að setjast og ná andanum og skynseminni aftur. Svo vildi til að við settumst niður þar sem kokkur var með sýnikennslu í að búa til þennan líka djúsí berjadesert þannig að ég þarf núna að prófa hann næst þegar ber og rjómi og sykur er á matseðlinum. Ég róaði mig svo nógu mikið niður til að njóta dagsins. Við smökkuðum allt, skoðuðum og völdum svo uppáhaldshlutina okkar. Settumst niður og borðuðum samlokur fylltar með svínakjöti sem var heilgrillað á staðnum og hlustuðum á tónlist í sólskininu. Ég hefði getað keypt miklu meira en maður verður víst að vera smá skynsamur líka. Ég sé reyndar smá eftir að hafa ekki kippt með mér tómötunum. Svonalagað gerir svo skemmtilegt andrúmsloft í bænum og það er svo gaman að vita af öllu þessu fólki hérna í kring að framleiða góðan mat á heilbrigðan og umhverfisvænann hátt. Ég vildi óska að ég hefði tök á að fara einu sinni í viku á rúnt um bóndabæjina og kaupa allt svona ferskt. En nútíminn þýðir enginn tími og Tesco fær alltaf peninginn minn að lokum. Sorglegt eiginlega. Best að fara að fá sér smá ost og chili chutney...mmmm....

laugardagur, 15. maí 2010


Í dag er FA Cup Final day, sá sjötti sem ég upplifi hér í Bretlandi. Alltaf skemmtileg stemmning og að sjálfsögðu höldum við með Pompey í dag. Við Lúkas ætlum reyndar að fara út að leika á meðan leiknum sjálfum stendur svona til þessa að leyfa Dave að njóta þess að horfa í friði. Það er svo fínt veður, enda segir í leikreglunum að veðrið eigi að vera gott á cup final day, þannig að við skellum okkur í stúss útivið. Á morgun ætlum við svo að fara á Wrexham Food Festival en ég er ekki alveg með á hreinu að það sé góð hugmynd. (Sér í lagi af því að enn stend ég í stað. Ég bara virðist ekki komast úr 95. Mikill pirringur í gangi núna.) Þar verða samankomnir lókal framleiðendur og hægt að kaupa djúsí, lífrænan mat, allt framleitt hér í nágrenninu. Þannig að matnum fylgja engar ferðamílur sem er að sjálfsögðu bara gott mál, maður styður við litlu framleiðendurnar frekar en að gera Tesco og Asda ríkara og svo er þetta svo ofboðslega gaman. Allir í svo góðu skapi, matur í lange baner sem er svo fallegur, tónlist og matur sem er svo fallegur og skemmtiefni og svo fallegur matur. Það sem fær mig til að halda að þetta sé ekki svo góð hugmynd er að það verða þarna einir fimm básar með mismunandi súkkulaði, heimagerður ís, brauð og kruðerí og last but not least Tractor Wheel Pork Pie for crying out loud! Bresk matargerð er nú ekki rómuð um heiminn og að mestu leyti er maturinn þeirra ekki að mínu skapi. Það er allt svo gróft einhvernvegin og feitt. Steiktar pulsur, brún sósa, smjördeig, og edik. En eitt er það sem ég hef alveg fallið fyrir og það er pork pie. Ég reyndar borða ekki svoleiðis lengur enda er pork pie svínakjötshakkbolla úr fitu og kryddi sem er troðið inn í shortcrustpastry og bakað. En það er eitthvað við það sem fær mig bara til að skjálfa á beinunum af hamingju, hvort það er deigið, eða fitan eða kjötið eða blandan af því öllu... I don´t know. En allavega fyrir 300 kalóríur í munnbita þá hef ég bara alveg sleppt þessu. En það má vera að ég láti eftir mér að fá mér eina á morgun. Ég meina, hver getur staðist pork pie, og hvað þá Tractor Wheel Pork Pie?

miðvikudagur, 12. maí 2010

Mín versta martröð rættist í morgun. Ég gleymdi brjóstahaldaranum mínum heima. Ég trilla mér í ræktina í íþróttagallanum og tek vinnufötin með mér í tösku. En þegar ég tók upp úr töskunni var enginn haldari. Og það er ekki á boðstólum að leyfa stelpunum að vera frjálsum á meðal fólks. Ég hafði því ekkert um að velja nema að skola og vinda úr íþróttahaldaranum og fara í honum í vinnu. Ég hef áður gleymt handklæði, vindþurrkaði mér bara á handþurrku, ekkert mál, en þetta var alveg hræðilegt. Og ég sem tók svívirðilega sveitt á því á brettinu. Ég er orðin svo gömul að ég hlusta á hljóðbækur en ekki rokk þegar ég hleyp. Já, eftir nokkrar vikur með rokk í eyrunum var það bara hætt að hvetja mig áfram. Alveg sama hvað ég gróf upp; eftir eitt eða tvö hlaup vantaði mig eitthvað nýtt. Svo fór ég að hlusta á Radio 1 og morgunhaninn þar, Chris Moyles, kom mér í gegnum nokkur hlaup. En svo var það ekki nóg heldur. En svo datt ég niður á það: hljóðbækur. Og það er það sem ég hlusta á núna. Sem stendur er það The Angels Game eftir Carlos Ruiz Zafon sá er skrifaði Skugga Vindsins. Alveg merkilegt hvað ég þarf á afþreyingu að halda þegar kemur að hlaupunum. Ég get hangið á skíðavélinni í klukkutíma og bara starað út í loftið en þegar ég hleyp er ég alveg týnd án i-podsins. Kannski er það af því að ég hef í alvörunni ekki gaman af að hlaupa. Ég elska tilhugsunina um mig sem hlaupara, ég elska keppnina við sjálfa mig, við tíma og vegalengd en ég meika ekki hlaupið sjálft. Á meðan ég hleyp tel ég niður mínúturnar. En á eftir. Á eftir líður mér eins og ég sé ósigrandi, eins og í morgun þegar ég steig skjálfandi af brettinu eftir 36 mínútur, 4.3 km, 600 kalóríur og 4 12 km/klst spretti. Þegar ég geri svoleiðis veit ég að ég get allt. Nema mætt brjóstahaldaralaus í vinnuna. Það bara get ég alls ekki.

mánudagur, 10. maí 2010

Þetta er ekki ég á myndinni. Ég er sko kjélling. Þessi á myndinni er hinsvegar fitt náungi að gera pull ups. En það sem við eigum einmitt sameiginlegt er að ég kann líka að gera svona pull ups. Ég er reyndar ekki jafn stóísk á svipinn og hann, ég er meira svona eitthvað að rymja og gretta mig, en það forðar því ekki okkur finnst þetta báðum jafn skemmtilegt. Ég nota líka mótvægi og sem stendur er ég með 70 kílóa mótvægi þannig að ég er að toga upp 25 kíló. En í hverri viku minnka ég mótvægið um 5 kíló og það ætti að enda með að ég geti gert þetta án aðstoðar. How cool is that? Það er gífurlegur misskilningur í gangi hvað varðar svona vöðvauppbyggingu. Þær hinar í ræktinni eru farnar að segja við mig að ég verði að passa mig á þessu annars verði ég of vöðvastælt bla bla ba, og það virðist engu máli skipta hversu oft ég segji að það er nánast útilokað fyrir konur að massa sig svo upp að þær verði eins og vaxtaræktarkappar. Meiri vöðvar þýða einfaldlega hraðari brennsla og betra þol, og til þess er leikurinn gerður að mínu mati. Ég held að mér finnist bara ekkert jafn kúl og að vera sterk og fitt.

laugardagur, 8. maí 2010

Það er ýmislegt búið að gerast þessa viku sem vanalega hefði orðið til þess að ég sæti hérna núna með nagandi samviskubit og súkkulaði í munnvikjum og niður á höku. En án þess svo sem að skilgreina öllu frekar hvað ég er mikill lúsúúseeeeeerr og dvelja við það þá ætla ég frekar að einbeita mér af the big picture. Í síðustu viku léttist ég um 1.8 kíló. Í þessari viku léttist ég um akkúrat ekki neitt. Stóð í stað eins og þrjóskt múldýr. Þessar tvær vikur voru smá tilraunastarfsemi. Í þeirri fyrri voru einu kolvetnin sem ég fékk grænmeti og ávextir. Ég borðaði ekkert kornmeti. Ekkert brauð, hafra, kartöflur, quinoa, ekkert. Í þessari viku er ég hinsvegar búin að fá mér brauð þá daga sem ég lyfti og svo pasta á laugardagskvöldið. Og það er nokkuð ljóst að high protein, low carb er tvímælalaust leiðin til að léttast hratt og fallega. Hinsvegar er svo sú staðreynd að ég eeeeeehhhehelska brauð. Og hafra og kartöflur og quinoa. Og ég er ekki tilbúin í að borða ekki svoleiðis. Og að auki hef ég lesið rannsóknir sem sýna að fólk sem sker út kolvetni léttist mikið til að byrja með en þegar skoðað var árangur fólks sem einfaldlega hélt sér við 1500 kal á dag og borinn saman yfir 12 mánuði kom í ljós að fólkið hafði lést um sama kílóafjölda yfir allt. Þannig að ef maður vill sjá mega tölu á vigtinni þá á maður að sleppa brauðinu en ef maður vill langtímaárangur þá á maður að borða góðar 1500 kal. Ég er þessvegna búin að vera að reyna að finna hinn gullna meðalveg þessa viku. Hvað má ég borða mikið kornmeti þannig að ég sé bæði hamingjusöm og þannig að ég léttist eins mikið og hægt er? Og er bara nokkuð sátt við svarið. Ég minnka kornskammtinn aðeins í næstu viku og svo sjáum við hvað gerist með það. Svo reyndar verður meira cardio í næstu viku af því að það líður senn að Race for Life 5k hlaupinu og ég er enn föst á 23 mínútum. Ég ætla að reyna að taka aðeins á því. Ég fæ nú aðeins skjálfta við tilhugsunina um að hlaupa í alvöru hlaupi. Mamma mía!

fimmtudagur, 6. maí 2010

Hér er gengið til kosninga í dag, og ég fæ bara að taka þátt í gegnum eiginmanninn. Sem betur fer ákvað hann að þar eð að ég borga mína skatta þá deildi hann atkvæðinu sínu með mér. Við ræddum þetta fram og tilbaka og því miður urðum við bæði að játa að við höfum bæði tapað af alvöru málsins enda er hér lítill fréttaflutningur af því sem skiptir máli en öll umræða tapast í róg og baknag. En þegar við fórum svo að skoða málið þá komumst við að því að við ættum helst að gefa Liberal Democrats okkar atkvæði. Gordon Brown er jú ábyrgur fyrir því að ég er núna í illa borgaðri vinnu og ekki getum við kosið þennan uppskafning Cameron. Enda ætlar hann að auka skattana á okkur litla fólkið. Ekki viljum við að ríkir verði ríkari! Dave tók smá út fyrir að setja x-ið sitt á annað en verkamannaflokkinn, hér kýs maður eftir sínu stéttarskipulagi, en við urðum sammála um að það væri tími til kominn á breytingar. Það verður spennandi að fylgjast með hvað gerist en ég verð líka að játa að það er ósköp lítil stemning einhvern vegin á miðað við hvernig þetta er heima. Eins og eiginlega öllum sé alveg sama. Það er allavega ekki hægt að rölta með glas í hendi á milli kosningaskrifstofa hér. Ég fylgist með kosningavöku á Channel 4 eins lengi og ég nenni og skipti svo aðeins yfir á BBC til að fá meiri alvöru upplýsingar. Áfram Clegg!

þriðjudagur, 4. maí 2010

Slæmu fréttirnar eru að fíni viðtalskjóllinn minn heldur víst áfram að vera viðtalskjóll um tíma. Það er einfaldlega of mikil samkeppni um störf og fólk með mun meiri reynslu af stjórnun en ég að keppa um sama starfið og ég. Draga djúpt inn andann og leyfa vonbrigðunum aðeins að taka yfir, öll reynsla er til að læra af henni.

Góðu fréttirnar eru að ég hef enga löngun í að drekkja sorgum mínum í súkkulaði. Enga. Og ég er eiginlega svo glöð yfir þeirri tilfinningu að ég er næstum því ánægt að hafa ekki fengið vinnuna til að hafa uppgötvað þetta. Þvílíkur sigur! Ég er að upplifa tilfinninguna, ekki deyfa hana með sykurþoku. Þetta er sárt en ég get ekkert gert nema tekið sigurinn frá þessu. Er nokkuð hægt að komast nema upp á við héðan?

mánudagur, 3. maí 2010


Við hjónakornin skemmtum okkur konunglega á laugardagskvöldið, fórum á The Black Lion og drukkum nokkur vínglös og spjölluðum við fastagestina. Það er alltaf gaman að fara aðeins út og sjá annað fólk. Við Dave erum alltof sátt við að vera bara heima, erum allt of heimakær. Svo finnst mér líka enn gaman að fara á breskan pöbb, eftir 7 ár hérna úti er breskur pöbb enn skemmtiefni fyrir mig, hvernig er innanhorfs, fólkið sem er þar, það sem er drukkið, tónlistin, stemmningin, allt er þetta enn rannsóknarefni fyrir mig. Og það er líka alltaf gaman fyrir mig að sjá Dave í essinu sínu. Hann er svo skrafhreifinn og þetta kemur honum svo eðlilega að spjalla um allt og ekkert við ókunnugt fólk. Sunnudagurinn var svo uppfullur af sigrum og ósigrum. Ég borðaði miklu meira en planað var, en það sem ég valdi að borða var ekki svo slæmt. En í dag er ég ekki jafn róleg. Ég er búin að halda mér á plani, ekkert mál, en er alls ekki sátt við það. Mig langaði að baka köku í dag, og éta hana alla. Mig langaði EKKERT í salat og melónu. Við fórum í sund til að dreifa huganum sem var ekki góð hugmynd því ekkert gerir mig jafn svanga og sund. Engu að síður, þá komst ég í gegnum daginn, það er of seint að fá sér eitthvað núna og ég þekki hvernig þetta virkar fyrir sig hjá mér. Ég vakna á morgun og það eitt að hafa komist heil á húfi í gegnum daginn í dag þýðir að ég fyllist heilögum eldi til að velja rétt á morgun. Og svo verður það auðveldara og auðveldara. Ég dundaði mér líka aðeins við það sem mér finnst ægilega gaman að gera. Ég þykjustu keypti mér íslenski nammi. Fer á nammi.is, set heilu kílóin af nammi í innkaupakörfuna og svo þegar það kemur að því að borga þá bara smelli ég út af síðunni. Og mér líður betur. Twisted, I know, en maður bara gerir það sem maður þarf að gera.

laugardagur, 1. maí 2010

Þetta gekk bara ljómandi vel í gær, ég svaraði öllum spurningum greiðlega og flestum án nokkurra vandkvæða. En maður veit aldrei. Eitt veit ég að það var ólíkt skemmtilegra að sitja þarna og bara hafa áhyggjur af að koma vel fyrir en ekki líða eins og maður þyrfti að vera helmingi betri en allir aðrir til að bæta upp fyrir að vera helmingi feitari en allir aðrir. Það er svo ekki löng bið, þau ætla að láta fólk vita á þriðjudag. Og þá er víst best að vera með áætlun tilbúna svona ef þetta fer ekki eins og best væri og ég fer eitthvað að eygja snickers til að lina þjáningarnar. Ég léttist nefnilega um 1.8 þessa viku og hef engan áhuga á að skemma þetta momentum sem ég er í núna. Sama gildir um þessa helgi. Ég ætla að telja kalóríur af kappi um helgina til að passa að það fari ekkert í rugl þó ég sé í fríi. Lúkas er í sleepover í kvöld og ég og Dave ætlum að nota tækifærið og skella okkur á hverfispöbbinn þannig að ég þarf að gera ráð fyrir fljótandi kalóríum og svo er sunnudagur á morgun. Ég er búin að leyfa sunnudögum að vera frjáls máltíð allan daginn í staðinn fyrir að hafa bara eitt blow-out. Nú verður það tekið aftur fyrir. Það er kominn tími núna til að byrja að léttast aftur, ég er búin að vera stopp nógu lengi. Ég segji nefnilega og stend við það; nothing tastes as good as skinny feels.