Þegar ég fyrst byrjaði á þessu heilsubrölti mínu var ég alveg á botninum. Ég var búin að rannsaka magaaðgerðir og hafði ákveðið að það væri það eina sem ég gæti gert til að ná af mér þessu helvíti sem ég var búin að kljást við nánast allt ævi. Ég átti ekkert eftir nema örvæntingu.
"Átið hefur núna alveg tekið yfir allt í lífinu og ég er komin á eitthvert stig sem ég kannast ekki við áður. Ég fæ panikk atakk ef það er ekki til ákveðið mikið magn af sælgæti. Og ég er að tala um alvöru panikk atakk; ég fæ hjartaflökt og svitna, á erfitt með að anda og fyllist sorg, depurð og reiði. Þetta er ný geðveiki sem hefur tekið völdin af mér. Allavega, magateygja er ekki valmöguleiki, nú einfaldlega vegna kostnaðar. Fyrir nokkrum mánuðum var það vegna þess að ég ákvað að ég gæti ráðið við þetta sjálf, nú hef ég viðurkennt að það er ekki satt, ég bara hef ekki efni á aðgerðinni. Þangað til verð ég að reyna að gera eitthvað. Verð að viðurkenna að ég er hálf vondauf með þetta, ég fæ ekki séð að megrun númer 4979 komi til með að virka eitthvað betur en hinar 4978. " (Febrúar, 2009)
Ég gaf sjálfri mér því síðasta tækifærið, eitt tækifæri til að reyna að ná stjórn á fíkninni. Tók mynd af mér og skoðaði með hryllingi og byrjaði svo. Hvar byrjar maður eiginlega þegar verkefnið er svo stórt, svo viðamikið að það virðist í alvörunni óyfirstíganlegt? Jú, á sama hátt og maður byrjar á að klífa fjall; með einu skrefi. Og svo því næsta og svo því næsta. Eitt í einu. "Ég er uppfull af þrótti, von og bjartsýni akkúrat núna. Mér líður eins og eldingar renni í æðum mér og nánast ekkert sé ómögulegt." (Mars, 2009) Hvað gerðist eiginlega? Jú, ég byrjaði að hreyfa mig. Rannsóknir sýna að fólk sem breytir mataræði til hins betra og byrjar að hreyfa sig léttist ekkert meira en þeir sem bara laga mataræðið en til langtíma litið þá kemur í ljós að þeir sem ná að koma hreyfingunni almennilega fyrir í nýjum lífstíl eiga mun meiri möguleika á að viðhalda fitutapi. Og ég er alveg sannfærð um að lyftingarnar og hlaupin hafi skipt öllu máli í þessu hjá mér. Engu að síður þá hefur eitthvað breyst síðan ég var með eldingar í æðastað hérna fyrir rúmu ári. Ég er bara eitthvað að tussast um núna. Héðan í frá er því dagur númer eitt. Ég ætla að byrja upp á nýtt. Telja og vigta, búa til vikumatseðla og reyna að hugsa um sjálfa mig sem 95 kílóa manneskju sem þarf að léttast um 21 kíló, ekki 125 kílóa manneskju sem er hálfnuð með verkefnið. Læra upp á nýtt það sem fékk mig til að lýsa því yfir að hafragrautur væri gjöf frá Guðunum og að spínat væri leyndamálið að eilífri hamingju. Það getur verið að ég hætti að setja hér inn hvað ég léttist mikið, það má vera að þess í stað fari ég að tala um bættan hlaupatíma eða kílóafjölda í bekkpressu. Ég sé til. Það er bara eitt sem ég veit fyrir víst. Að það er endalaust hægt að koma sjálfum sér á óvart.
6 ummæli:
flott viðhorf, þú stendur þig vel!
frábærir pistlar hjá þér ég þekki svo þessi spor hjá þér baráttukveðjur af djöflaeyjunni
kv Hjördís
Þú ert alltaf jafn frábær, elsku stelpan mín!
Ég er búin að standa í nákvæmlega sömu sporum og þú.
Var komin með svo innilegt ógeð á sjálfri mér og þoldi ekki að sjá myndir af mér þegar ég var 131 kg. Er núna búin að missa 45 kg og þekki varla manneskjuna í speglinum og trúði því ekki fyrr en ég reyndi það á laugardaginn að ÉG gæti hlaupið 10 km.
En ég er samt búin að standa í stað á vigtinni í u.þ.b. mánuð og verð að fara að taka mataræðið eitthvað í gegn aftur.
Úff þettar er endalaus barátta!
Líst vel á að þetta plan hjá þér mín kæra, ef eitthvað er ekki að virka þarf að endurskoða aðgerðaráætlunina. Þú munt komast á áfangastað ef hausinn er rétt skrúfaður á og aðferðirnar réttar. Er á hliðarlínunni að hvetja þig áfram.
Mér finnst þetta flott viðhorf hjá þér. Nú er bara 125 - 95 kaflanum lokið og ekkert annað að gera en að skipuleggja næstu skref í "mínus95" kaflanum!
Skrifa ummæli