miðvikudagur, 28. maí 2008

GWlAD YR IA vs. CYMRU!

Hið óhugsandi mun eiga sér stað í kvöld. Ísland keppir við Veils í knattspyrnu. Og til að viðhalda hamingju á heimilinu hef ég þurft að segja að vonandi vinni Veils af því að "it´s more important to you sweetheart." SJÉNS! Auðvitað tökum við þessa ræfla, þetta eru allt pínkulitlir tittir í karlakór með sérlegan áhuga á sauðfé! ÁFRAM ÍSLAND!

fimmtudagur, 22. maí 2008

Eitthvað finnst mér standardinn á júróvisjón hafa hrakað, heyri ekki grípandi slagara sem mér finnst ég hafa heyrt hér á árum áður. Fordómafull kannski en kenni Austur-Evrópu um. Lúkas hitti naglann á höfuðið þegar léttklæddar Tékkneskar dömur stigu á sviðið; gapandi stundi hann upp "what is that horrible noise mummy?"

sunnudagur, 18. maí 2008

Ég lá á hnjánum í gærkveldi og bað allar góðar vættir um að leyfa mér að vinna lóttóið en ekki dugði, ég þarf að mæta í vinnuna á mánudaginn. Það væri bara svo gaman að eiga 7 milljón pund. Já, þá væri sko gaman að vera til, og ekki bara hjá mér heldur líka hjá öllum í kringum mig. Uppáhaldsdagdraumurinn minn núna er hvað ég myndi gera við peningana. Ég get eitt löngum tíma í að eyða þeim í huganum. Verst að ég klára þá eiginlega alltaf. Allavega, fyrsta talan sem upp kom var á miðanum mínum og ég æstist öll upp, en svo ekki meir. Þannig að nýja þvottavélin sem ég þurfti að kaupa í dag er bara venjuleg þvottavél. Ég hafði sko séð fyrir mér að ef ég ynni lottóið þá myndi ég skapa atvinnu handa minni eigin þvottakonu/manni.

Enn og aftur fer Júróvisjón framhjá mér, eitt "drawback" við að búa erlendis. Ég veit ekki einusinni hvernig breska framlagið hljómar í ár. Ég ætla nú samt að gera mitt besta til að horfa um næstu helgi. Er nú samt hugsað til besta júróvisjónlagsins frá upphafi og þess að það vann ekki! Hvílík hneisa.

föstudagur, 16. maí 2008

Sjóntækjafræðingurinn var í fríi í dag, hann er að halda upp á fimmtugsafmælið sitt, þannig að við vorum í rólegheitum í vinnunni í dag. Það er mjög lítið um búðarrápara hjá okkur, þannig að ég kom með útvarp með mér og við sátum mest allan daginn, hlustuðum á popptónlist og lásum slúðurblöð. Ágætt að fá svona dag öðruhvoru, slaka á, þurfa ekki að vera næs við fólk og þurfa ekki að "selja". Merkilegt að það sé erfitt að vera næs, en ég held að það sé það sem mér finnst vera mest þreytandi við starfið. Allir kjánarnir sem ég þarf að brosa til og samþykkja vitleysuna sem þeir segja og þetta endalausa spjall um veðrið. Stundum langar mig bara til að segja við fólk: "DO I look bovvered?" og "computer says no". Væri það ekki gaman?

mánudagur, 12. maí 2008

Þessi færsla þarf engar útskýringar. Bara hreint mont, grobb og oflát.


laugardagur, 10. maí 2008

Djöfullinn sjálfur! Laugardagskvöld og ég að ímynda mér að ég sé ennþá 17 ára. Búin að drekka einn bjór og væri til í marga í viðbót. Er að hlusta á gamla slagara og er í dúndurstuði. Mikið væri gaman að geta boðið í partý núna.
Ég kveikti á tölvunni í morgun og verð að segja að þegar ég sá hitastigið í Wrexham og hitastigið í Hveragerði (26 á móti 8) þá hugsaði ég með mér að það væri kannski ekki svo slæmt að búa hérna. Já, blessuð sólin elskar allt og maður verður bara eitthvað svo kátur þegar veðrið er svona gott, afslappaður og kærulaus. Manni er meira að segja bara alveg sama þó að þvottavélin sé biluð, og að maður vinni ekki í lottónu. Það er bara nóg að setjast úti í garði og láta sér líða vel.

Til að allir geti séð hvernig lífið gengur fyrir sig hérna í Wrexham þá er heldur bærinn úti vefmyndavél frá Queen´s square sem er torgið í miðbænum. Þar er hægt að fylgjast með hverju sem á gengur. Reyndar á rólegheitahorni en ég gætí veifað til ykkar á leiðinni í vinnuna á þriðjudaginn!

fimmtudagur, 8. maí 2008

Mamma! Ég sagði við hann:"Segðu halló við ömmu og afa" og hann hélt að hann gæti séð ykkur í gegnum myndavélina. "Where did they go?" spurði hann.

miðvikudagur, 7. maí 2008

Við njótum enn dæmalausrar veðurblíðu hérna megin og höfum gott af. Við borðum kvöldmatinn úti í garði, enda er miðdegis-og kvöldsólin sterkust hér í garðinum. Ég þarf að kaupa nýja sláttuvél (kláraði þá gömlu síðasta sumar) og hef ákveðið að með kaupum á slíku tæki fari í hönd nýjir tímar, tímar þar sem ég huga almennilega að garðinum. Það er synd að eiga allt þetta svæði og geta ekki nýtt sér það almennilega. Garðurinn á að vera aukaherbergi á sumrin.

Hvað um það, Lúkas er hér í garðinum á hjólinu sínu, hann hefur mest notað lítið plast þríhjól, en er núna búinn að ákveða að hann sé of stór fyrir það. Honum finnst "hot wheels" hjólið dálítið þungt að eiga við en er alltaf að verða flinkari.

mánudagur, 5. maí 2008

Þetta er betra, búin í smá fjallgöngu, er miklu hressari. Og er búin að eyða smá tíma á netinu að rannsaka ljósakrónur og bekk. Vantar núna bara að finna £200. Þá myndi mér líða MIKLU betur.
Ég sit hérna og stari á skjáinn og er bara ekki í stuði. Nei, ég er því miður með heimþrá í dag. Við erum í fríi (1.maí færist yfir á mánudag til að búa til langa helgi) og planið er að fara að gefa kanínunum og geitinni eitthvað að maula og anda að sér fersku lofti, en ég er bara ekki í stuði. Voðalegt þegar þetta gerist svona.