laugardagur, 30. júní 2012

Would you like to supersize that sir?
Það er voðalega mikið að gera hjá mér akkúrat núna. Ég er að skila af mér gömlu vinnunni og er rífandi í hár mitt og skegg vegna þess að mér finnst ekki neinn geta tekið við af mér og gert verkefnunum nógu góð skil. Svona er ég nú hrokafull. Ég er líka að reyna að koma heim eftir langan vinnudag og skrifa hluta af masternum. Þarf að skila inn litlu broti helst í næstu viku. Það gengur nú svona upp og ofan. Svo er ég að reyna að þrífa og pakka niður smáhlutum til að gera tilbúið fyrir málarann sem er að koma á mánudaginn til að fiffa upp á húsið. Ég er líka á fullu að hlaupa og reyna að koma Park Run í gang ásamt því að reyna að bæta við smá vöðvapumpi. Á toppnum trónir svo nýjasta tilraunin mín hvað mataræði varðar. Ég er að búa til mína eigin útgáfu af hellisbúafæðu. Mér finnst paleo (hellismannafæða) alveg rosalega áhugaverð fræði og ég er alveg tilbúin að kaupa kenningar þeirra um að líkamar okkar hafa ekki þróast eins og fæðuval okkar og að við séum hönnuð til að borða í skorpum, mest megnis prótein og fitu og að flest kolvetni eigi að koma frá grænmeti og ávöxtum fremur en frá unnum kolvetnum eins og við flest borðum núna.Mér finnst þetta allt hljóma sannfærandi. Það eru ljómandi góðar upplýsingar á þessari síðu ef einhver hefur áhuga. Þegar ég tala svo um mína útgáfu þá meina ég að ég er búin að aðlaga hitt og þetta að því sem mér hentar. Ég er nefnilega ekki hellisbúi og verð að skera minn stakk dálitið eftir þeim vexti. Ég er líka með nett ofnæmi fyrir öfgum sem þýðir að ég get ekki gert þetta 100%. Ég ætla t.d aldrei að hætta að borða grískt jógúrt. Það bara kemur ekki til greina. Eins á ég smávegi erfitt með að gefa hafra upp á bátinn þó ég sé til í að minnka neysluna aðeins. Það sem ég mest hrifin af er þessi tilraun til að skera út alla milliliði og reyna að hafa matinn minn eins ferskan og óunninn og ég mögulegast kemst upp með sem nútímamanneskja. Ég er algerlega sannfærð, og hef verið lengi, um að því nær náttúrunni sem við færum matinn okkar því betri er hann og því meira af honum getum við borðað. Og ég er afskaplega hrifin af öllu þessu sem segir að maður eigi að borða alvöru mat. Þannig á maður að borða smjör, ekki létt og laggott.

Ég er vön að byrja daginn á sætum hafragraut. Þannig skiptir litlu máli hvort ég fæ mér hrágraut eða haframúffur ég hef alltaf sett rúsínur og sæta möndlumjólk eða hlynsýróp eða hnetusmjör til að gera það sætt. Ég ákvað að prófa að borða ósætt í morgunmat til að kanna hvort það hafi áhrif á sætulöngun það sem eftir lifir dags. Þar að auki hef ég alltaf lesið að prótein haldi manni söddum lengur og að þannig sé best að byrja daginn. Ég hef þessvegna verið að fá mér eggjaböku í morgunmat. Egg, kotasæla og fullt af grænmeti bakað saman. Prótein og kolvetni. Ég finn engan mun á sætuþránni og ég er aðframkomin af hungri um það bil klukkutíma síðar. Hafragrautur heldur mér saddri fram að hádegi.

Í hádegismat fæ ég mér gommu af grænmeti, kjúklingabringu og svo hrágrautinn minn í eftirrétt. Ég bara get ekki sleppt honum. Hér er ég að taka út brauðið sem ég er vön að borða í hádeginu ásamt jógúrti og ávöxtum. Ég er líka að minnka skammtinn dálítið. Ég er pakksödd eftir hádegismatinn og verð ekki aftur svöng fyrr en um fimmleytið. Áður var ég aftur orðin svöng um þrjúleytið og þurfti að fá mér snarl. Því hef ég getað sleppt núna.

Ég fæ svo kjöt og grænmeti í kvöldmat. Og verð aftur svöng stuttu síðar. Þannig svöng að mig verkjar í rifbeinin og meiði mig. Ég fæ mér frosin bláber með rjóma eða avókadósúkkulaði en er samt svöng. Og þarf að fara þannig að sofa.

Ég er yfirfull af orku og hef lést heilmikið þrátt fyrir að hitaeiningar séu í hærri kantinum. Ég er líka algerlega laus við að vera "bloated" (þanin) í maganum og hef engan bjúg. Ég er sannfærð um að sleppa brauði og ávöxtum að miklu leyti sé ástæðan fyrir því. Ég er líka rosalega kát yfir smjöráti og rjómaneyslu. Það finnst mér sko ekki leiðinlegt. Og eins furðulegt og það hljómar þá er ég ánægð með að vera svöng, það er svo óvanalegt fyrir mig að finna í alvörunni fyrir hungri að mér finnst það bara skemmtilegt. Hitt er svo hversu lengi  mér kemur til með að finnast það og hvort það leiði að lokum til einhverskonar vitleysu en akkúrat núna finnst mér ekki eins og það verði útkoman.

Enn og aftur sanna ég þó fyrir sjálfri mér að ég sé bara ekki eins og fólk er flest og að það þýði ekkert fyrir mig að fylgja reglum og ráðum frá öðrum. Þannig er það "gefin staðreynd" að prótein og fita sé það sem haldi manni söddum sem lengst en ég er bara alveg þveröfug við það og það gaula í mér garnirnar. Það var nú alveg eftir mér að vera á skjön við allt og alla.


þriðjudagur, 26. júní 2012

Franskar kartöflur! má vera að þið hrópið upp yfir ykkur í forundran! Hvað er hún eiginlega að spá? Að bjóða upp á franskar í matinn svona á þriðjudagskvöldi? Og vanalega væri það líka alveg forkastanlegt að gera slíkt og ég myndi sjálfsagt ekkert vera neitt að flíka því. En hlutirnir eru ekki alltaf einfaldir og stundum er hægt að draga vitlausar ályktanir. Þetta eru nefnilega ekki kartöflur. Og því síður að þær komi frá Frakklandi. Nei, hér er um að ræða hollenska rófu. Já, ég sagði rófu. Ég hef hingað til einungis fengið rófu með einhverju sem er harðíslenskt eins og út í kjötsúpu, eða stappaða með saltkjöti og soðna með saltfiski (umm saltfiskur....ætli ég gæti búið til minn eiginn nætursaltaðan ef ég finn góðan þorsk einhverstaðar?). Ég átti til þessa einu rófu af einhverjum ástæðum og datt í hug að prófa að skera hana niður í báta og baka í ofni. Hélt helst að hún myndi kannski verða eins og bakað grasker. En þegar ég skar hana niður minntu bútarnir mig á franskar og ég ákvað að skvetta yfir smá ólívuolíu og krydda svo með síserall (season all) og geymdi svo inni í ofni í 45 eða 50 mínútur. Og út komu þessar líka fínu "franskar". Ég hafði með breskt sausage og dýfði í chili sósu. Og fannst alveg hrikalega gott. Alltaf gaman að prófa nýtt.

laugardagur, 23. júní 2012

Heimild
Þetta er heilagur sannleikur þessi teikning hér til hliðar. Ég hef verið að sannreyna þetta síðastliðin þrjú ár og ég held að núna í morgun hafi þessi sannleikur aldrei verið jafn skýr.

Ég gaf sjálfri mér ekki leyfi til að pæla í þessu of mikið í morgun áður en ég lagði af stað.Ef ég hefði hugsað um hvað ég var að fara að gera hefði ég örugglega hætt við. Ég vaknaði, klæddi mig í hlaupagallann og fór út. Fyrsta hlaup og hittingur hópsins sem vonandi verður upphafið að Parkrun í Wrexham átti að vera í Borras sem er hverfi sem ég þekki lítið. Ég þurfti þessvegna að bæta enn einu við óþægindin: að taka strætó eitthvað sem ég hafði aldrei komið áður og eiga á hættu að villast. Ég var heilmikið stressuð, hvað ef ég gæti ekki haldið í við þau, hvað ef þetta væri eitthvað glatað eins og kickboxing tilraunin, hvað ef það mætti enginn, hvað ef, hvað ef. Ég fann rétta strætóinn og bílstjórinn var undarlega hjálplegur og sagðist myndi stoppa þegar við værum komin á réttan stað í Borras. Þegar þangað var komið benti hann mér í rétta átt og brosti til mín. Mjög óvanalegt, hér eru strætóbílstjórar vanalega afsprengi djöfulsins.

Borras er ljómandi fallegt hverfi með stórum einbýlishúsum og þar er líka Acton Park, stór almenningsgarður þar sem við ætlum að hlaupa um. Hér býr greinilega fólk sem er betur stöndugt en bótapakkið sem býr allt í kringum mig í Rhos. Göturnar hreinar og fallegar og allir garðar vel snyrtir. Ég rölti aðeins um og þegar klukkan nálgaðist níu fór ég þangað sem átti að hittast. Þar hitti ég svo fyrir Darren og Angie sem eru þau sem ætla að koma Parkrun í gang. Þau eru bæði að æfa fyrir hálfmaraþon en eins og ég eru bara áhugafólk. Við spjölluðum aðeins saman og biðu smá eftir fleirum að bætast við. Bara ein stelpa kom í viðbót og við lögðum af stað. Hlupum á rólegheitahraða um Acton og Borras og spjölluðum. Angie og Darren hægðu heilmikið á sér til að leyfa mér og Jade að hafa í við þau. Það var bæði ánægjulegt og skrýtið að hlaupa með öðru fólki, þetta er svo ofboðslega persónulegt athæfi hjá mér vanalega. Ég var fegin inni í mér að það var ekki ég sem stjórnaði hæga hraðanum, ég hefði getað farið hraðar en Jade er algjör byrjandi og þurfti að fara hægt yfir. Þegar við vorum svo búin að fara 5 km enduðum við á kaffihúsi þar sem við lögðum á ráðin með hvað gerist næst. Við ætlum að byrja á að koma reglulegum 5 km hlaupum á þar sem fólk tímatekur sig bara sjálft og jafnvel reyna að halda bara hópinn svona eins og við gerðum í dag til að skapa hópkennd og samstöðu. Það bætist alltaf í hópinn á Facebook og Twitter og vonandi að fólk taki við sér og fari að koma með okkur á laugardagsmorgnum. Svo er það að fá Bæjinn með okkur í lið til að fá afnot af almenningsgarði til að hafa samastað. Parkrun gefur svo hjálp til að koma uppsetningunni af stað og hjálpar til með að gera tímatökuna ákveðna.

Svona eitthvað er bara af hinu góða fyrir bæ eins og Wrexham. Það er ekki Parkrun í neinum af bæjunum hér í kring, ekki einusinni í Chester og við gætum þessvegna dregið að fólk allstaðar að hér í kring. Hvað samfélagsanda og innlegg í heilsusamlegan lífstil  varðar er þetta náttúrulega bara jákvætt. Ég er upprifin og meira en tilbúin til að taka þátt og leggja mitt af mörkum. Hugsa sér hvað það er flott og jákvætt að vera hluti af hópnum sem kom Parkrun af stað í Wrexham!?

Þetta var algerlega það sem mig vantaði. Ég er spennt og kát og finnst eins og ég hafi eitthvað að vinna að núna. Algerlega frábært.

fimmtudagur, 21. júní 2012

Það er alltaf smávegis eins og það sé úr mér allur vindur eftir skipulagða atburði eins og hlaupið núna á sunnudaginn. Þannig fylgdi smávegis týnt tímabil eftir fyrsta 10 km hlaupið, ég fór algerlega yfir strikið eftir Bangor og þessi vika er svo búin að vera erfið. Ekki það að ég sé að troða í mig snickers, ég geri bara hrokafullu mistökin mín sem fylgja súpervikum, þ.e. ég hætti að vigta og skammtar stækka og þó ég sé að borða hollt og gott þá byrja ég alltaf að borða of mikið. Og um leið og ég borða of mikið þyngist ég. Ég bara má ekki fá mér einu grammi of mikið af nokkrum sköpuðum hlut og þá fitna ég. Og ég er ekki bara að tala um eitt kíló á vigtinni sem aðrir mættu túlka sem eina góða ferð á tojarann. Þegar ég þyngist um eitt kíló á vigtinni þá tek ég eftir því á fötunum mínum, á hringunum á fingrunum og á andlitslaginu mínu. Ég tek mark á vigtinni minni.

Það er því við hæfi að gera eitthvað til að skora á mig. Ég er ekkert sérlega mannblendin. Mér finnst rosalega erfitt að "spjalla". Ég hef afskaplega lítið að segja svona um daginn og veginn. Ég get hellt mér út í umræður um hluti sem skipta mig máli og ég er ekki feimin, ég bara kann ekki að spjalla. Og þessvegna er ég ekkert mikið að blanda geði við fólk. Ég er líka rosalega löt og nenni illa og lítið að taka þátt í starfsemi ýmiskonar. Þetta er skapgerðarbrestur sem ég tók fyrst eftir þegar ég fór í sumarbúðir á Úlfljótsvatn hjá Skátum. Ég man eftir að hafa hugsað með mér hversu kjánalegt þetta væri að ganga í svona flokk og þurfa svo að samsvara sér með stórum hópi. Ég nennti aldrei í leikfélag, eða að taka þátt í félagsstarfsemi í menntó né í háskóla. Ég bara get ekki "tekið þátt". Það er þessvegna þreföld áskorun í gangi núna. Dave benti mér á um daginn að það var náungi að auglýsa eftir fólki til að stofna hlaupagrúppu í Wrexham. Maðurinn sá fyrir sér að reyna að koma af stað því sem heitir Park Run hérna í Wrexham. ParkRun er rekið út um allt Bretland og það virkar þannig að maður getur gengið að því að klukkan 9 á laugardagsmorgni sé 5 km hlaup í gangi í einhverjum almenningsgarði og hlaupið er tímatekið. Og hann vildi fá sjálfboðaliða til að hjálpa sér að koma þessu í gang.

Ég þarf semsagt að hitta ókunnuga og spjalla. Ég þarf ekki bara að ganga í félagastarfsemi heldur þarf ég að bjóðast til að gera eitthvað til að hjálpa. Og ég þarf að hlaupa. Hversu langt út fyrir þægindahringinn er hægt að fara??

sunnudagur, 17. júní 2012

Ég hélt ég væri ægilega þreytt núna í eftirmiðdaginn eftir hlaup. Ekki nóg með nefnilega að ég hafi farið í hlaup og haldið upp á þjóðhátíðardaginn þá er hér feðradagur í dag og við Lúkas bjuggum til fínan hádegismat handa Dave. Ég sá orðið stofusófann fyrir mér sem áfangastaðinn seinnipartinn. Leggjast í sófann, taka góðan lúr á sunnudagseftirmiðdegi, vakna svo og horfa á boltann, klóra mér jafnvel í pungnum... En nei, ég byrja að vaska upp, svo sé ég buxur af Lúkasi sem þarf að pressa fyrir morgundaginn, svo man ég að ég ætla að hafa með mér harðsoðið egg í morgunmat og set það upp. Á meðan ég bíð eftir að eggið sjóði fer ég og næ í þvottinn sem ég stakk inn í vél í morgun og hengi upp. Spjalla við Ástu á meðan og næ mér svo í kúst og sópa stofuna og eldhúsið. Inni í eldhúsi sé ég poka af pistasíuhnetum og fæ hugljómun. Set hneturnar og lófafylli af rúsínum með teskeið af hlynsírópi í matvinnsluvél og mauka. Strái svo ristuðum kókóshnetuflögum í botninn á sílíkón muffinsformum, smyr pistasímaukinu í botninn og set svo gommu af súkkulaði avókadómúsinni þar á. Sting inn í frysti í smástund. Og ég er búin að hanna súkkulaðiostaköku. Og núna get ég lagst í sófann. Með köku.

Pístasíu og rúsínubotn...

Avókadósúkkulaðimús...

og kókósrjómi og kókósflögur. 

Svona á að byrja daginn! Safna pening til styrktar krabbameinsrannsókna, hlaupa sér til heilsubótar, leggja inn sjötta hlaupið í "12 á 12" áskoruninni og finna fyrir samfélagsandanum í Wrexham. Ekki skemmir fyrir að maður getur sönglað "Hæ, hó og jibbí jei, það er kominn sautjándi júní!" svona inni í sér. 
Ég er nú vön að hita bara upp á meðan ég hleyp fyrsta kílómetrann en það er svo gaman þegar það eru  svona margir saman að maður verður að taka þátt. 


Komin í mark. Ég festist fyrir aftan stóran hóp af konum sem röltu  þetta og það tók því smá tíma að komast af stað, og ég fattaði ekki fyrr en ég var komin rúma þrjá kílómetra að ég var enn bara að lulla eitthvað. Slóðin lá í gegnum skóg og akur sem var orðinn að hálfgerðu drullusvaði eftir rigningarnar að undanförnu þannig að það tafði aðeins fyrir líka en ég átti þá líka heilmikla orku eftir í tanknum til að spretta síðasta kílómetrann. 

Enn ein medalían í safnið og á besta 5km tíma hingað til; 32:56. Sem er dálítið skemmtilegt því í fyrsta sinn í dag var ég ekki að hugsa um þetta sem eitthvað mikilvægt hlaup eða sem merkisatburð í heilsuferðalaginu mínu, ég var einfaldlega að leggja mitt af mörkum og njóta þess að geta þetta. 5km eru ekkert mál fyrir mig núna, ég þarf bara að léttast til að geta farið að hlaupa hraðar. Ég gat þessvegna bara skilið eftir heima allar væntingar og kröfur til sjálfrar mín og bara notið þess að vera hluti af svona stórum hóp með sameiginlegt markmið. 


fimmtudagur, 14. júní 2012

Þetta er búin að vera alger súpervika. Mér finnst eins og ég hafi komið mér að miklu leyti fyrir inni í "Hringrás velgengninnar" þar sem hver góð ákvörðun leiðir af sér aðra góða ákvörðun. Ég er búin að borða  rosalega vel, hef legið yfir uppskriftum, eldað og borðað og það veitir mér ómælda gleði að fá að njóta þess bara að fullnægja þessari matarástríðu minni. Ég skil ekkert í því af hverju ég reyni að neyða sjálfa mig til að hugsa ekki um mat, þetta að fá að velta mér bara upp úr uppskriftum er greinilega mun áhrifaríkara. Þegar ég er í svona stuði horfi ég tilbaka og klóra mér hreinlega í hausnum yfir því að ég skuli í alvörunni stundum borða snakk og snickers. Ef því fylgir vanlíðan á meðan að hrágrautur og hafrarjómi veitir gleði og fyllingu, hversvegna að borða snakkið og snickersið? Ég held að maður gleymi sér bara, það er svo mikill vani að teygja sig í eitthvað gamalkunnugt. Þannig að ég ætla að koma upp með eitthvað trix sem minnir mig á þessa vellíðan næst þegar ég ætla að graðga einhverja vitleysuna í mig. Slá í viðbeinin.

Í ofan á lag við mataræðið þá er mér líka farið að líða vel aftur í líkamanum hvað hreyfingu varðar. Ég er búin að hlaupa í vikunni hraðar og öruggar en ég hef verið að hlaupa núna lengi. Mér finnst eins og líkaminn sé að sýna mér þakklæti fyrir að fæða hann vel. Góð næring, gott hlaup. Elementary Watson. Þessi kraftur er reyndar líka að skila sér í að ég er með hálfgert óþol í mér við skrifstofuvinnuna. Mig langar til að vinna líkamlega vinnu. Datt reyndar ekkert í hug nema að verða annaðhvort skógarhöggsmaður eða hóra. Og þar sem ég get orðið rifið upp heilu trén með rótum með rassinum einum er tæpt á milli að sjá hvort starfið liggi betur fyrir mér.

Kickboxið fór reyndar ekki jafnvel og ég hafði vonast eftir, mér leist mjög illa á allt í því gymmi. En tek þann jákvæða punkt að ég var enn spenntari fyrir hópæfingum og er tilbúin til að fara að prófa gymmið sem var verið að opna í Wrexham. Þeir eru með svona BodyCombat og BodyAttack og Boxersise sem eru svona eróbikk/lightweight útgáfur af bardagaíþróttum. Og ég ætla núna að prófa þetta allt saman. Kick the shit outta summit.

Ég er spennt fyrir að prófa að vera með öðru fólki. Alveg frá upphafi hef ég gert þetta allt alveg ein, meira að segja þegar ég var hjá Röggu þá hitti ég hana aldrei, ég stjórnaði alveg hvað ég var að gera. Og ég hef aldrei látið stjórnina eða völdin í hendurnar á neinum öðrum og hef aldrei þurft að svara fyrir hvað ég er að gera. Allt veltur á mér. Mér datt þetta dálítið í hug út frá hlaupinu sem ég er að fara í núna á sunnudaginn, Race for Life. Hingað til þegar ég hef tekið þátt í skipulögðum hlaupum hef ég bara farið fyrir mig. Ég hef ekkert pælt í fjáröfluninni sem flest þessi hlaup eru gerð fyrir. Ég hef alltaf bara hugsað um sjálfa mig. Gert þetta fyrir eigin heilsu. En í þetta sinnið er ég búin að safna 40 pundum. Engin stjarnfræðileg upphæð en nóg til að ég get hugsað um hlaupið út frá stærra sjónarhorni en bara minni eigin heilsu; það að ég geti hreyft mig verður til þess að Cancer Research UK fá meiri pening til að rannsaka lækningu við brjóstakrabbameini. Það setur óneitanlega víðari vinkil á þetta og mér finnst eins og það að ég sé hraust hafi þar með merkingu fyrir ekki bara mig heldur líka fyrir heiminn sem ég lifi í. Og að það sé kominn tími fyrir mig að hafa það gaman saman.

Ég hef sagt það áður; vera í stuði og halda hópinn.

þriðjudagur, 12. júní 2012

Paula Radcliffe; á hækjum sér. 
Eitthvað misreiknaði ég mig í gær. Ég var búin að æsa sjálf mig upp í svaka hlaupastuð allan daginn og var ægilega spennt fyrir löngum túr. Þegar ég var svo rétt lögð af stað í 7km hlaup fann ég að ég þurfti að pissa. Meira en það, ég var alveg í spreng. Mér datt í hug að gera bara Paulu Radcliff og láta gossa á meðan ég hljóp. En svo mundi ég eftir því að ég þyrfti að fara í strætó og það er nú nóg að vera pungsveitt sitjandi í strætó þó ég sé ekki hlandblaut líka. Fyrir utan að vera ekki nærri nógu hardcore fyrir piss á hlaupum. Ég gat ekki hugsað mér að hætta að hlaupa, ég hefði þá hvort eð er þurft að hossast um í spreng í strætó. Ég byrjaði þessvegna að skimast um eftir hentugu tré, helst einu sem stæði ekki inni í garði hjá neinum. Og lukkan var yfir  mér; ég kom að villtu skóglendi og snéri snarpt til vinstri og undir runna. Reif lycrað niðrum mig og settist á hækjur mér. Leit í kringum mig og fattaði að ég var húkandi í miðjum brenninetlurunna. Ég sá þann kost vænstan að hoppa vagurt hægra hopp til að komast úr netlunum. Tókst svona ljómandi vel til, komst út úr netlunum og fékk loks lausn. Stóð upp skælbrosandi og í sömu andrá togaði ég lycrað upp um mig en út af hægra hoppinu hafði ég ekki tekið eftir því að fyrir aftan mig var núna myndarleg trjágrein. Og gleði mín yfir léttinum sljáknaði fljótt þegar ég tók skref fram á við og uppgötvaði að téð grein var nú girt ofan í lycrað. Ég var með hálft tré í rassinum. Og það sem eftir lifði hlaups var ég að finna laufblauð sem ég þurfti að grafa eftir og losa mig við. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir að ásamt því að eiga góða hlaupaskó og vera fitt þyrfti maður að kunna Flora Britannica utanbókar.

sunnudagur, 10. júní 2012

Avókadó eitthvað í bígerð, Chai granóla tilbúið í dós. 
Skvapið er fljótt að fara þegar maður leggur sig aðeins fram. Heilt kíló síðan á miðvikudagsmorgun. Best er þó að mér finnst þetta allt saman aftur vera orðið gaman. Og ég efast ekki um að þessi eldhúsgleði spilar hér stærstan hluta. Ég skil ekki afhverju ég leyfi sjálfri mér að fara út í það að reyna að skapa fjarlægð og hatur á mat, það er svo miklu, miklu betra að leyfa mér bara að stússast í eldhúsinu. Hollustukokkar hljóta að eyða jafn miklum tíma og ástríðu í að elda og finna up hollan mat eins og Nigellur og Barefoot Comtessas þessa heims. Hvað um það. Ég byrjaði daginn á að búa til Chai kryddað granola. Chai er svart te sem er sterkt kryddað með kanil, negul, aniseed og fleirum svoleiðis kryddum og er eiginlega eina teið sem ég get drukkið. Ég reyndar set út í það flóaða og strokkaða vanillusojamjólk og sötra með mikilli ánægju þannig að það er svo sem lítið hollt eftir af því þegar ég er komin með það i mallann. Engu að síður þá er kryddblandan ægilega fín og þegar ég sá minnst á chai kryddað granola á Tastespotting datt mér í hug að í staðinn fyrir að finna til allar kryddtegundirnar þá væri kannski hægt að nota bara te ið sjálft.

Og það svínvirkaði. Ég sauð saman í potti sweet freedom, vatn, kókosolíu og te og hellti svo yfir blöndu af höfrum, quinoa, möndlum og fræjum og bakaði á vægum hita í tæpan hálftíma áður en ég setti svo líka þurrkuð epli rúsínur og kókósflögur. Þetta fannst mér gott. Kryddað og mun léttara en granólað sem ég hef verið að nota að undanförnu sem er meira hnetusmjörsbundið.

Avókadóálegg með spæleggi
Ég átti enn til avókadó eftir súkkulaðimúsina og datt í hug að búa til eitthvað fínt til að setja ofan á brauðið sem ég var að baka. Einfalt sveitabrauð og mér fannst við hæfi að búa til eitthvað einfalt til að setja á það. Kramdi saman kjúklingabaunir og avókado og hrærði saman við það vorlauk, sítrónusafa, pipar og cumin og kóreander. Setti svo á brauð með salati og spældu eggi. Verð að viðurkenna að það vantaði alla dýpt í þetta og mér datt bara ekkert í hug sem myndi gera þetta betra. Nema beikon. Beikon myndi gera þetta að ljómandi áleggi. Kannski að ég nái bara í smá beikon.

Brauðið var reyndar ægilega gott. Gróft og einfalt, stökkt að utan og mjúkt að innan. Mér finnst fátt skemmtilegra en að baka brauð, það er eitthvað svo sjálfbært. Hveiti, vatn og ger. Og svo töfrarnir sem gerast þegar maður hrærir saman, hnoðar, bíður og bakar. Og út kemur ilmandi heitt brauð, sem getur verið undirstaðan undir nánast hvað sem er. Algjör galdur.

 Afgangnum af deginum ætla ég svo að eyða með Kobo og dónabókinni sem ég er að lesa. Ég hef sumsé látið fallast fyrir múgæsingnum sem Fifty Shades hafa skapað og er eldrauð í framan að plægja í gegnum textann. Það er best að ég klári þetta hérna heima. Það er bara vandræðalegt að lesa í strætó. Og allt of erfitt að taka niður glósur.laugardagur, 9. júní 2012

Í nokkra daga núna í röð er ég búin að prófa eitthvað nýtt hvað hreyfingu varðar og hef núna uppskorið lag eftir lag af áhugaverðum og alveg nýjum harðsperrum. Hvað áhugaverðustu harðsperrurnar eru óneitanlega þær sem ég hef allt umkringum rifbeininin. Þær tel ég að hafi komið eftir flúnku nýtt pilates prógram. Þar helst í hendur að ég er að færa mig upp úr miðjustigi og í erfiðari æfingar ásamt því að hafa lesið mér nákvæmlega til um hvernig ég á að vera að beita innri vöðvum. Ég er semsagt á fullu að "zipper" upp öllum vöðvum og það þýðir heldur snarpari æfingu.

Ég fann líka nokkrar skemmtilegar æfingar í Tabata stíl á netinu og er búin að prófa mig aðeins áfram með þær. Gaurinn á myndbandinu er reyndar svo hrikalega fyndinn að ég átti í mestu erfiðleikum með að halda uppi dampinum fyrir hlátri. Hann er að sýna fólki að það sé hægt að stunda líkamsrækt hvar og hvenær sem er og að það séu bara ekki til neinar afsakanir. Þannig er myndbandið sem ég hoppaði með tekið upp inni á klósettinu heima hjá honum og ber titilinn "How to lose weight in the toilet. (Without taking a shit)." En hlátur lengur nú víst  líka lífið og æfingin var óneitanlega auðveldari og skemmtilegri fyrir vikið. Þessar æfingar hafa svo skapað ægilega skemmtilegar harðsperrur í kálfum og framhandleggjum.

Hvað segirðu? Tvö-núll fyrir Þýskalandi? Nú, þýðir þetta ekki það? 
Það var þessvegna bara rólegheita hlaup í morgun. Ég er vön að fara lengri leiðir á laugardögum en bara gat það ekki í dag. Á leiðinni tilbaka stoppaði ég við hjá veðmangaranum. Nú er Evrópumeistarmót í fótbolta hafið og ég hef algerlega ákveðið að umfaðma það af sama krafti og ástríðu og hollan lífstíl. Ef ég geri það ekki þá gætum við Dave allt eins sleppt því að vera gift. Hann er ákafur fótboltaunnandi og nýtur þess að spá og spekúlera í öllu sem þessu viðkemur og þá sérstaklega statíkinni, nörri sem hann er. Mér finnst bara sjálfsagt að ég taki þátt og hafi gaman af þessu með honum og sýna áhugamálinu hans áhuga. Hann hlustar jú, andagtur á mig þegar ég röfla að spýjubökkum um hitaeiningar og hveitikím. Ég ákvað að besta leiðin fyrir mig væri að velja og halda með ákveðnu liði, og leggja alvöru í það. Og með alvöru á ég við pening. Hjarta mitt slær með Spáni en þeir eru taldir sigurstranglegastir, þrátt fyrir að statíkin segi að ekkert lið hafi nokkurn tíman áður unnið Evrópumótið og heimsmeistaramót og svo Evrópumót aftur (sko hvað ég er að hlusta á hann!), og ég er vanari að halda með "underdogs".  Spánn var því ekki möguleiki. Mér datt í hug Danmörk eða Holland en þeir spiluðu fyrsta leikinn sinn við hvort annað og ég gat ekki valið. Eitthvað togaði mig að Þýskalandi.Örugglega út af Angelu Merkel. Mér finnst einhvern vegin eins og það sé komið að þeim. Ég lagði þessvegna 10 pund undir að þeir vinni. Ég fæ reyndar bara 30 pund tilbaka ef þeir vinna, sem er ekkert svakaleg mikið. Dave hinsvegar búinn að leggja 10 pund á Ítalíu. Hann fengi 160 pund í vinning sem er miklu skemmtilegri upphæð og það er ekki eins og það sé útilokað að Ítalía hafi þetta. Hann er svo mest hræddur um að England vinni. Það væri martröð að hans mati. Ég er viss um að mínir menn taki þetta, þeir eru sko Úber alles, er það ekki?

föstudagur, 8. júní 2012

Eftir miklar vangaveltur hef ég ákveðið að umfaðma algerlega þessa ást mína á mat. Ég hef gefið sjálfri mér 100% leyfi til að hugsa um mat eins og mig lystir allan liðlangan daginn. Algerlega án nokkurs samviskubits eða með neinum áhyggjum af því. Ég er búin að fatta að ég fúnkera miklu betur ef ég fæ bara leyfi til að spá og spekúlera í mat eins og mér sýnist. Þegar ég geri það þá beini ég allri orkunni í að búa til hollan og næringarríkan mat bæði í huganum og í alvörunni. En þegar ég reyni að temja ástríðuna enda ég bara í brjálæðiskasti étandi eitthvað rugl. Ég er ástríðukokkur og það er best að leyfa mér bara að fá útrás fyrir ástríðuna.

Í allan dag er ég búin að vera að plana að búa til avókadósúkkulaðimús. Ég er búin að sjá ýmsar útgáfur af þesari uppskrift og ákvað að prófa allra einfaldasta mátann.

2 mjúk avókadó
1/2 bolli kakó
1 msk góðir vanilludropar
60 ml sweet freedom (eða hunang eða hlynsýróp eða sætuefni að eigin vali)

Allt maukað saman og svo kælt aðeins. Ég setti svo kókóshneturjóma og ristaðar macadamiu hnetur ofan á.

Þetta var ríkt og þungt og smá sletta var nóg til að fullnægja súkkulaðibragðlaukunum.

Ég er svo með allskonar hugmyndir um viðbætur... kaffi, hnetusmjör, hafrarjómi, pístasíur... the possibilites are endless!

fimmtudagur, 7. júní 2012

Ég lét loksins verða af því sem ég er búin að vera að hugsa um núna í langan tíma og fór í dag til að skoða kickboxing gym hérna í Wrexham. Ég er ægilega uppveðruð yfir þessu og hlakka hrikalega til að byrja almennilega eftir að hafa fengið smá sýnikennslu og túr um stöðina í dag. Mig vantaði svo rosalega eitthvað nýtt og skemmtilegt til að hressa upp á hreyfinguna hjá mér. Mér finnst meira að segja eins og ég sé orðin smávegis leið á hlaupunum en er viss um að með sparkbox svona til að krydda tilveruna hressist ég aftur við í hlaupunum líka. Ég er smávegis hrædd um að hné séu ekki alveg tilbúin í þetta en ég veit það ekki fyrr en ég prófa. Þannig að ég ætla galvösk næsta þriðjudagskvöld.

Ég var svo uppveðruð eftir þetta að ég ákvað að halda stemningunni uppi og áfram inn í eldhús. Ég var búin að lofa manninum spag bol í kvöldmat en er ekki spennt fyrir að borða pasta akkúrat núna. Ekki að það sé einhver bannvara, ég er bara aðeins að reyna að slaka á hveitinu. Þannig að í kvöld prófaði ég að rífa niður sæta kartöflu í langa, mjóa strimla og bjóða með bol-inu í spag staðs. Ég skrallaði eina aflanga sæta kartöflu og flysjaði svo niður í langa, þunna strimla með grænmetisskrallaranum mínum. Setti svo í pott með slettu af ólífuolíu og vöðlaði um í nokkrar mínútur. Salt, pipar og smá basil. Með spínat á kantinum og bolognese og smá parmesan og ég gæti ekki verið kátari.
miðvikudagur, 6. júní 2012

Kirkjan í Gresford. 
Ég skipti leiðinni heim úr vinnunni í þrjá kafla svona í huganum. Fyrsti hluti er Chester til Manchester Roundabout. Svo tekur við annar kafli í gegnum fallegu þorpin Pulford, Rossett og Gresford og til Wrexham. Þriðji kaflinn er svo með öðrum strætó frá Wrexham og til Rhosllannerchrugog (eða Rhos) þar sem ég bý. Og ég er núna búin að hlaupa alla þrjá kaflana. Einn í einu, jú víst, en samt, ég hef hlaupið þá alla. Í dag fór ég þann síðasta sem ég átti eftir, miðjuhlutann í gegnum þorpin. Ég guggnaði næstum á þessu, það var svo þétt rigning að umferðin var stopp í gegnum Chester og ég var komfý kósí í þægilegu sæti í strætó í miðjum spennandi kafla á Kóbóinu mínu. En svo þegar við vorum komin yfir Manchester Roundabout var hætt að rigna, ég var í hlaupagallanum og við vorum komin yfir vegbútinn þar sem er ekki hæft fyrir gangandi vegfarendur. Ég minnti sjálfa mig á að þetta er ekki valkostur, þetta er það sem ég geri. Það er svo langt síðan ég hef sagt svoleiðis setningar við sjálfa mig. Ég er búin að eyða svo löngum tíma í að gefa sjálfri mér valkosti. Án þess að skilja að ég var stanslaust að velja að halda áfram að meiða sjálfa mig. Stundum hlakkaði í mér þegar ég fékk mér of mikið að borða, svona eins og ég væri að gefa öllum sem hafa bannað mér að borða eða horft á mig með vandlætingarsvip fokkmerki. En það er algerlega orðið ljóst að eina manneskjan sem fær að sjá fokkmerkið er ég sjálf. Þannig að ég smeygði á mig bakpokann, hoppaði út úr strætó og lagði af stað. Og eins og alltaf sá ég ekki eftir því þegar ég var komin af stað. Það er svo gaman að hlaupa um nýjar götur og ekki skemmir fyrir hvað allt er fallegt þarna í Cheshire. Og nú er bara að reyna að tengja saman kaflana og lengja leiðina. Hálfmaraþon. Bara rétt sí sonna.

þriðjudagur, 5. júní 2012

Eggja-og grænmetisbaka á grænu salati með tahini dressing.
Í dag, þennan síðasta dag þessarar löngu helgar, hef ég notað tímann vel og er búin að stússast inni í eldhúsi í mest allan dag. Ég er búin að grilla kjúkling til að eiga tilbúinn i morgun- og hádegismat,bjó til bestu salatdressingu sem ég hefi nokkurn tíman smakkað, grófplanaði matseðilinn það sem eftir lifir viku og svo betrumbætti ég gamla klassík. Það er heillangt síðan ég síðast eldaði grænmetisbökuna mína, hef grun um að ég hafi ofgert henni á tímabili. En það var bara svo mikið til að afgöngum að hún var alveg eðal til að klára allt upp. Ég setti í hana soðnar sætar kartöflur, maísbaunir og létti heilmikið á kotasælunni. Það fór líka í hana smávegis skinka. En aðal atriðið voru tómatsneiðarnar ofan á. Það er ótrúlegt hvað það breytti miklu að leggja nokkrar sneiðar af tómötum ofan á og baka með. Bæði hvað bragð og útlit snerti. Ég fékk mér sneið í hádegismat og hreinlega hlakka til að fara í vinnuna á morgun. Ekki hvað síst vegna þess að með verður grænt salat með tahini dressingu. Ég hef aldrei verið hrifin af tahini dressingum sem ég hef prófað hingað til en mér áskotnaðist krukka af tahini um daginn og ég er búin að vera að gera tilraunir síðan og er komin niður á þetta.

1/4 bolli tahini
2 mtsk góð ólívuolía
1 hvítlauksgeiri í mauki
smá salt, smá pipar
nokkrir dropar sítrónusafi
1 tsk sweet freedom (eða hunang)

Allt þeytt saman og sett út á salat i því magni sem hentar hverjum og einum. Ég nota bara örlítið og geymi í skál inni ísskáp. Allra, allra best er þetta út á gufusoðið grænmeti, brokkolí, gulrætur og blómkál til dæmis. Ég bara tárast af gleði við tilhugsunina eina. Ég sver það.

mánudagur, 4. júní 2012

Sólin skein aftur í morgun eftir hellidembu síðustu daga. Við höfðum farið til Chester í gær til að sjá Rómverja  sýna bardagalistir en það var örlítið endasleppt vegna úrhellisins. Dagurinn engu að síður bráðskemmtilegur, við fórum bara út að borða og fengum fínan mat og drukk. Það er alltaf gaman í Chester, hvort sem rignir eða sól skín. Í morgun var hinsvegar planlagður dagur í Ty Mawr að sjá víkinga og kelta sýna hernaðarlistir. Þegar ég leit út og sá að dagurinn ætlaði að verða heitur og fallegur hugsaði ég með mér að það væri við hæfi að fá mér smoothie í morgunmat. Ég hafði hent inn í frysti um daginn banana sem var við það að skemmast og ég sá í hendi mér að það væri bráðsniðugt að prófa kókóshnetumjólk með banana. Náði í pokann úr frystiólfinu, sturtaði úr honum í smoothie makerinn um leið og ég hellti mjólkinni yfir og í sekúndubrotsuppljómun henti ég teskeið af maca dufti og nokkrum cacao nibs út í líka. Kveikti á tækinu og hellti svo í glas þegar allt var orðið blandað saman. Hellti í fallegt glas, horfði á sólina út um gluggann og tók gúlsopa. Og þvílíkur viðbjóður. Ég hef aldrei á ævinni smakkað annan eins hrylling. Þvílík vonbrigði. Ég horfði agndofa ofan í glasið. Hvað var að? Ég smakkaði kókósmjólkina, nei hún var í lagi. Ekkert að nibsunum og maca duftið fínt. Ég hellti ógeðinu í vaskinn, fékk mér brauðsneið og svo héldum við til Ty Mawr að sjá víkingana.

Eftir bráðskemmtilegan dag við að sjá víkinga og kelta berjast, fá að sjá handverk og prófa hjálma og vopn og taka þátt í einni orustu komum við heim og Lúkas bað um kjúklinganagga í kvöldmat. Og um leið og ég fór inn í frysti til að ná í naggana rann upp fyrir mér ljós. Ég hafði sett þá í poka til að spara pláss í frystinum. Eins poka og bananann. Og þarna var bananapokinn. Ég hafði semsagt búið til svona líka fínan próteinsjeik í morgun, naggasmoothie. Það er nú meira sem maður er mikið "meat head"!

Nagga smoothie!

sunnudagur, 3. júní 2012

Það er hellidemba hér í Rhos. Það passar. Þegar Mæj-Orkan er á Íslandi pissrignir hér. Ég fór nú samt 6km hringinn minn. Mér finnst eiginlega betra að hlaupa í rigningu, svo lengi sem ekki er rok. Ég fór hringinn öfugan í dag svona til að hrista aðeins upp í mér. Var ægilega glöð til að byrja með því kílómetra langa brekkan sem ég enda vanalega á var núna ljómandi góð upphitun niðurávið. Það hlakkaði reyndar ekki jafn mikið í mér þegar ég fattaði að afgangurinn af hringnum var svo vægt uppávið alla leið. Síðustu 600 metrarnir heim liggja svo um göngustíg sem er í skóg. Þéttur trjáskógur sem felur vel að það eru hús bara nokkra metra frá. Þegar ég var að koma upp á stíginn heyri ég hróp og köll og svona mikil kallalæti. Sem betur fer var ég þannig stödd við sveigju á stígnum að ég sá þá áður en þeir sáu mig. Þrír ungir menn, allir berir að ofan í hellirigningu, öskrandi og æpandi, berjandi í hvorn annan, allir greinilega út úr því af dópneyslu. Off their tits, eins og bretinn myndi segja. Ég stoppaði. Ef ég myndi halda áfram myndi ég mæta þeim á þröngum stíg með þéttum trjám allt í kring. Snúa við og þeir myndu sjá mig og gætu hlaupið mig uppi. Ég hafði ekki um neitt að velja en að fara inn í skóginn, fela mig bak við tré og bíða eftir að þeir færu framhjá. Ég veit að ég var kannski að vera of varkár en ég skal bara segja að ég var skíthrædd. Og fannst betra að hafa vaðið fyrir neðan mig. Ég hélt niður mér andanum meðan þeir fóru framhjá og ég er alveg viss um að ég hafi tekið rétta ákvörðun. Það var svona óbeislað ofbeldi og vonska sem stafaði frá þeim öllum. Um leið og ég heyrði ekki í þeim lengur fór ég aftur upp á stíginn og tók sprettinn heim. Bókstaflega. 600 metrar á þremur mínutum. Mikið var ég svo glöð að koma heim. Ég hef aldrei áður orðið hrædd á ferðum mínum hér um, samt er ég alltaf ein og oftast að hlaupa um í myrkri.

Á meðan ég hljóp leitaði hugurinn aftur og aftur að tölunni sem ég sá á vigtinni í morgun. 92 kg. Ég hef enga afsökun, enga ástæðu fyrir því að hafa leyft þessu að gerast. Offituvandamálið er margþætt. Við erum að kljást við offramboð á mat á sama tíma og aðrir í heiminum svelta. Við erum líka að berjast við að maturinn sem við borðum er næringafræðilega séð vantandi. Valdamiklir matarframleiðendur hafa talið okkur trú um að fæðupíramídinn líti út eins og betur hentar þeim en okkur. Hollur og heill matur er svo of dýr fyrir mörg okkar og við erum neydd til að borða mat sem er klénni. Margir vita svo bara ekki betur, og láta low-fat, sugar-free ruglið ná sér.

Ég get ekki notað neitt af þessu. Ég hef oftast nógu mikið á milli handanna til að geta leyft mér að kaupa gæðamatvæli. Að mestu leyti. Ég er nógu vel upplýst til að vita hvað er í alvörunni hollusta og hvað er ekki. Ég læt ekki neinn segja mér hvað er gott fyrir mig. Ég er nógu vel gefin til að taka upplýstar ákvarðanir. En ekkert af þessu stoppaði mig í þessari viku þegar mér var boðið súkkulaðikex í vinnunni. Eða þegar ég ákvað að elda belgískar franskar kartöflur. Eða þegar ég bauð upp á Juicy Lucy borgarar, Man vs Food style. Hvað þá að ég hafi stoppað við þegar ég keypti chunky kit kat og Double Decker.Eða þegar ég borðaði pain au chocolat. Öll mín þekking, gáfur og meðvitund og ég borða samt.

Ég held að ég sé alltaf að leita að lækningu.  Og ég held að því fyrr sem ég get sleppt þeirri hugsun því fyrr kemst ég aftur í rétt hugarfar. Ég þvertek fyrir að ég sé sjúklingur, eða veik eða að þetta sé ástand. Ég er búin að eyða mest allri ævinni í að misbjóða líkama mínum og sál með ofáti og hreyfingarleysi og ég bara get ekki ætlast til þess að það sé ekkert mál, einn, tveir og hoppsasa að breyta því. 3 ár eru stuttur tími á miðað við þau 30 sem á undan fóru. Ég hugsa meira að segja að það sé kannski útséð með að mér takist að útrýma algerlega þeirri hegðun sem kom mér í 130 kíló. Ég held að það sé ekkert að lækna. Þetta snýst bara um að halda sér við efnið og stjórna hegðuninni. Og sannleikurinn er að ég hef einfaldlega hætt að hafa sömu stjórn á hegðan minni og ég hafði áður og ég hef leyft gömlum siðum og venjum að laumast aftur inn. Ég hef gert mig seka um að leyfa mér að velta mér upp úr þeim lúxus að geta pælt í þessu öllu saman. Og á meðan ég var að rembast við að vera gáfuleg á svipinn að analýsera sjálfa mig leyfði ég mér að glopra grundvallaratriðunum frá mér. Það er nefnilega engin sérstök lausn eða eitt svar eða ein leið að heilbrigðum lífstíl. Hann er búin til úr hverri einustu smáákvörðun sem þú tekur yfir daginn. Frá því maður vaknar og þangað til maður fer aftur að sofa snýst þetta um að taka fleiri góðar ákvarðanir en slæmar.

Afhverju tók ég fleiri slæmar ákvarðanir þessa vikuna? Ég veit það ekki. Hroki kannski? Sjálfshatur? Leti? Gleymska? Ég hreinlega veit það ekki. Það skiptir í raun litlu máli, ég er hætt að leyfa sjálfri mér þetta "over indulgence" sem allar skilgreiningarnar eru. Þetta er allt hluti af minni sögu, af minni reynslu og ég er þakklát fyrir þetta allt saman. Ég er búin að að lofa sjálfri mér í þetta ferðalag fyrir lífstíð.