sunnudagur, 3. júní 2012

Það er hellidemba hér í Rhos. Það passar. Þegar Mæj-Orkan er á Íslandi pissrignir hér. Ég fór nú samt 6km hringinn minn. Mér finnst eiginlega betra að hlaupa í rigningu, svo lengi sem ekki er rok. Ég fór hringinn öfugan í dag svona til að hrista aðeins upp í mér. Var ægilega glöð til að byrja með því kílómetra langa brekkan sem ég enda vanalega á var núna ljómandi góð upphitun niðurávið. Það hlakkaði reyndar ekki jafn mikið í mér þegar ég fattaði að afgangurinn af hringnum var svo vægt uppávið alla leið. Síðustu 600 metrarnir heim liggja svo um göngustíg sem er í skóg. Þéttur trjáskógur sem felur vel að það eru hús bara nokkra metra frá. Þegar ég var að koma upp á stíginn heyri ég hróp og köll og svona mikil kallalæti. Sem betur fer var ég þannig stödd við sveigju á stígnum að ég sá þá áður en þeir sáu mig. Þrír ungir menn, allir berir að ofan í hellirigningu, öskrandi og æpandi, berjandi í hvorn annan, allir greinilega út úr því af dópneyslu. Off their tits, eins og bretinn myndi segja. Ég stoppaði. Ef ég myndi halda áfram myndi ég mæta þeim á þröngum stíg með þéttum trjám allt í kring. Snúa við og þeir myndu sjá mig og gætu hlaupið mig uppi. Ég hafði ekki um neitt að velja en að fara inn í skóginn, fela mig bak við tré og bíða eftir að þeir færu framhjá. Ég veit að ég var kannski að vera of varkár en ég skal bara segja að ég var skíthrædd. Og fannst betra að hafa vaðið fyrir neðan mig. Ég hélt niður mér andanum meðan þeir fóru framhjá og ég er alveg viss um að ég hafi tekið rétta ákvörðun. Það var svona óbeislað ofbeldi og vonska sem stafaði frá þeim öllum. Um leið og ég heyrði ekki í þeim lengur fór ég aftur upp á stíginn og tók sprettinn heim. Bókstaflega. 600 metrar á þremur mínutum. Mikið var ég svo glöð að koma heim. Ég hef aldrei áður orðið hrædd á ferðum mínum hér um, samt er ég alltaf ein og oftast að hlaupa um í myrkri.

Á meðan ég hljóp leitaði hugurinn aftur og aftur að tölunni sem ég sá á vigtinni í morgun. 92 kg. Ég hef enga afsökun, enga ástæðu fyrir því að hafa leyft þessu að gerast. Offituvandamálið er margþætt. Við erum að kljást við offramboð á mat á sama tíma og aðrir í heiminum svelta. Við erum líka að berjast við að maturinn sem við borðum er næringafræðilega séð vantandi. Valdamiklir matarframleiðendur hafa talið okkur trú um að fæðupíramídinn líti út eins og betur hentar þeim en okkur. Hollur og heill matur er svo of dýr fyrir mörg okkar og við erum neydd til að borða mat sem er klénni. Margir vita svo bara ekki betur, og láta low-fat, sugar-free ruglið ná sér.

Ég get ekki notað neitt af þessu. Ég hef oftast nógu mikið á milli handanna til að geta leyft mér að kaupa gæðamatvæli. Að mestu leyti. Ég er nógu vel upplýst til að vita hvað er í alvörunni hollusta og hvað er ekki. Ég læt ekki neinn segja mér hvað er gott fyrir mig. Ég er nógu vel gefin til að taka upplýstar ákvarðanir. En ekkert af þessu stoppaði mig í þessari viku þegar mér var boðið súkkulaðikex í vinnunni. Eða þegar ég ákvað að elda belgískar franskar kartöflur. Eða þegar ég bauð upp á Juicy Lucy borgarar, Man vs Food style. Hvað þá að ég hafi stoppað við þegar ég keypti chunky kit kat og Double Decker.Eða þegar ég borðaði pain au chocolat. Öll mín þekking, gáfur og meðvitund og ég borða samt.

Ég held að ég sé alltaf að leita að lækningu.  Og ég held að því fyrr sem ég get sleppt þeirri hugsun því fyrr kemst ég aftur í rétt hugarfar. Ég þvertek fyrir að ég sé sjúklingur, eða veik eða að þetta sé ástand. Ég er búin að eyða mest allri ævinni í að misbjóða líkama mínum og sál með ofáti og hreyfingarleysi og ég bara get ekki ætlast til þess að það sé ekkert mál, einn, tveir og hoppsasa að breyta því. 3 ár eru stuttur tími á miðað við þau 30 sem á undan fóru. Ég hugsa meira að segja að það sé kannski útséð með að mér takist að útrýma algerlega þeirri hegðun sem kom mér í 130 kíló. Ég held að það sé ekkert að lækna. Þetta snýst bara um að halda sér við efnið og stjórna hegðuninni. Og sannleikurinn er að ég hef einfaldlega hætt að hafa sömu stjórn á hegðan minni og ég hafði áður og ég hef leyft gömlum siðum og venjum að laumast aftur inn. Ég hef gert mig seka um að leyfa mér að velta mér upp úr þeim lúxus að geta pælt í þessu öllu saman. Og á meðan ég var að rembast við að vera gáfuleg á svipinn að analýsera sjálfa mig leyfði ég mér að glopra grundvallaratriðunum frá mér. Það er nefnilega engin sérstök lausn eða eitt svar eða ein leið að heilbrigðum lífstíl. Hann er búin til úr hverri einustu smáákvörðun sem þú tekur yfir daginn. Frá því maður vaknar og þangað til maður fer aftur að sofa snýst þetta um að taka fleiri góðar ákvarðanir en slæmar.

Afhverju tók ég fleiri slæmar ákvarðanir þessa vikuna? Ég veit það ekki. Hroki kannski? Sjálfshatur? Leti? Gleymska? Ég hreinlega veit það ekki. Það skiptir í raun litlu máli, ég er hætt að leyfa sjálfri mér þetta "over indulgence" sem allar skilgreiningarnar eru. Þetta er allt hluti af minni sögu, af minni reynslu og ég er þakklát fyrir þetta allt saman. Ég er búin að að lofa sjálfri mér í þetta ferðalag fyrir lífstíð.


Engin ummæli: