mánudagur, 30. maí 2016

Af macros

Það er til stór skrá í henni Ammríku sem heitir National weight control registry, um allar fitubollur sem hafa lést um 30 kíló að meðaltali og haldið af sér í 3 ár eða meira. Þetta er stórmerkileg skrá sem inniheldur gífurlegar upplýsingar um hegðun fitubolla. Sjálfri finnst mér að fólkið í þessari skrá sé ahugaverðasta fólkið til að rannsaka, fólkið sem tókst þetta verkefni sem flestir flaska svona á. Ég myndi eyða öllum mínum rannsóknartíma í þau, fremur en að skoða í eina mínútu í viðbót hvort maður eigi að forðast sykur eða fitu, eða lyfta eða hlaupa eða létta sig hratt eða hægt. Þetta fólk hefur svarið. Þegar ég skoða samnefnarann sést að 75% vigta sig vikulega, 78% borða morgunmat, 62% horfa minna en 10 klst á viku á sjónvarp. Að öðru leyti eru samnefnararnir mun lægri og vart nógu há prósentustig til að geta talist markhæf sem samnefnarar.
Þegar ég hugsaði málið kom líka í ljós að ég geri þessa þrjá hluti. Ég vigta mig að minnsta kosti vikulega, ég borða alltaf morgunmat og ég horfi reyndar aðeins meira en 10 stundir á viku á sjónvarp en það fer líka alltaf minnkandi. Ég ætla líka að segja að ég hafi haldið nógu miklu spiki af mér í nógu langan tíma til að vera lögleg á þessari skrá. Og ætla þessvegna að halda því blákalt fram að þegar kemur að spiki þá er ég sérfræðingur.
Eða sko, ég er sérfræðingur í Svövu Rán. Það er kannski þar sem hundurinn er grafinn. Ef þú vilt ná einhverjum tökum á spikinu þá verðurðu að verða sérfræðingur í sjálfum þér. Það er svo augljóst að hver og einn verður að finna sinn sannleika. Engin ein aðferð virkar fyrir alla. Ekki einu sinni að vigta sig, borða morgunmat og hætta að horfa á sjónvarp. 
Ég er sérfræðingur í sjálfri mér. Og ég veit hvað virkar fyrir mig. Eitt það besta er þegar ég get sökkt tönnunum í eitthvað nýtt. Ég er búin að vera að hugsa mikið um aðferðapýramídann (þar sem grunnurinn er hitaeiningar, svo bætir maður við næringarefnum, tímasetningu og að lokum bætiefnum) og hef loksins viðurkennt fyrir sjálfri mér að ég er núna tilbúin í að komast á næsta level. Ég er fullútskrifuð úr beisikkinu, að telja hitaeiningar og nú þarf ég að bæta macros við. Það er kominn tími á að ég verði enn meiri sérfræðingur. Ég er búin að hika við þetta því það er svo mikil undirbúningsvinna og skipulag sem fer í að vinna út frá macros, en ef ég segi satt frá þá veit ég um fáar manneskjur sem eru skipulagðari en ég þegar kemur að mataræði, þetta ætti að steinliggja fyrir mér. 
Um leið og ákvörðunin var tekin fylltist ég bjartsýni, áhuga og eldmóði. Allar þessar frábæru tilfinningar sem fleyta manni af stað til að byrja með. Ég veit að þetta er rétti farvegurinn fyrir mig. Ég er alltaf hamingjusömust í umhverfinu sem lyftingarfólk býr í og að vera meðvituð um macros er hluti af því. 
Ég er á leiðinni í stutta heimsókn til Íslands og þarf svo smástund til að læra meira og undirbúa mig. Ég geri því ráð fyrir að ég helli mér út í þetta af fullum kafti um miðjan júní. Mikið verður þetta næsta stig skemmtilegt.

laugardagur, 28. maí 2016

Af pjöllum

Ég held enn í mína fornnorrænu siði og strípast um í búningsklefanum í ræktinni. Ríf mig úr öllu og stika kviknakin í sturtu. Þurrka mér vandlega við skápinn minn og klæði mig svo. Þær hinar eiga enn erfitt með þetta, pukrast undir handklæði eða fara með nærfötin með sér í sturtuklefann og klæða sig í og úr þar. Sumar fara með allt klabbið inn á klósett og klæða sig þar. Mér finnst náttúrulega voðalega leiðinlegt ef ég særi blygðunarkennd þeirra, en mér finnst bara svo mikilvægt að allir líkamar fái sinn tilverurétt og að konur skilji að við erum allskonar og að það sé bara allt í lagi að vera ekki "fullkomin." Hvað sossum það nú þýðir. Í gær var ég búin að klæða mig í og var við spegilinn að mála mig þegar kona kemur inn og rífur sig úr öllu. Ég lenti í ægilegri klemmu við þetta. Ekki gat ég snúið mér við og hrópað glaðhlakkalega "mikið er gaman að sjá á þér pjölluna, ég sé aldrei orðið pjöllur hérna!" Ekki var skárra að glotta hálfvitalega í speglinum, reyna að ná augnsambandi og jafnvel blikka og gefa svona lítið thumbs up. Það var alveg sama upp á hverju ég reyndi að hugsa til að láta hana vita að ég væri hæstánægð með nekt, allt lét mig líta út eins og pervert. Nei, ég varð bara að þurrkuntulega klára að mála mig og þykjast ekki taka eftir henni. Svo mikið fyrir sampjöllusamstöðu. Kannski að eg prófa að segja eitthvað á sænsku næst þegar ég sé hana, bara svona til að tjékka.  

Ég hitti svo Matt, þjálfarann minn í morgun (fullklædd). Ég var búin að biðja hann um að taka mig í svona cross fit tíma, frekar en að lyfta bara. Ég lyfti fjórum sinnum í viku og þarf svo sem enga hjálp þar. Ég þarf hinsvegar að láta ýta mér út í æfingar sem ég myndi aldrei gera sjálf. Hann var hæat ánægður og lét mig púla þar til ég var algerlega búin á því. Ég varð að viðurkenna fyrir honum að ég varð brjáluð úr reiði á tímabili. Ég þoli ekki að vera í aðstöðu þar sem ég er " feita kellingin", þar sem ég er sveittari en aðrir, móðari eða greinilega í verri þjálfun. Og þó við værum bara tvö þá byrjaði ég að ímynda mér að hann bæri mig saman við aðra kúnna og ég kæmi illa út úr samanburðinum. Keppniskapið svo gífurlegt. Hann hló bara og sagði mér að nota reiðina til að þrusa út tveimur umgöngum í viðbót. Sem ég og gerði. Og eins erfitt og þetta var þá var þetta líka alveg hrikalega skemmtilegt og greinilega kominn tími fyrir mig að bæta við prógrammið. Ég nenni ekki að fokka þetta lengur í kringum 95 kíló. Er ekki tími komin á næsta stig?

mánudagur, 23. maí 2016

Af ábyrgð

Vinkona mín ein stakk upp á því um daginn að við ættum að taka myndir af öllu sem við borðuðum yfir daginn og deildum því svo með hvorri annarri til að vera aðeins ábyrgari í matvali. Ég verð að viðurkenna að mér leist ekkert á til að byrja með. Ég er búin að vera að ströggla aðeins með matinn síðustu tvær vikur eða svo og tilhugsunin um að sýna öðrum hvað ég borða skelfdi mig hreinlega. Bæði greip mig gamli óttinn um að það "komist upp um mig" og svo var ég líka skelfingu lostin við tilhugsunina um að þetta myndi þýða að ég þyrfti þá að hætta þessu væli og taka aftur aðeins á. Ég maldaði aðeins í móinn og sagði við sjálfa mig að þetta væri ekta svona þar sem ég byrja af krafti en svo linast það út í ekki neitt hjá mér, að það væri enginn tilgangur. En svo mundi ég að þannig fúnkera ég. Ég byrja af krafti og svo nenni ég ekki meir og fer bara að gera eitthvað annað, og að ég var líka búin að ákveða að það er bara allt í lagi. Svo lengi sem ég byrja af krafti og nýt á meðan stendur. 
Ég ákvað þessvegna að þvinga sjálfa mig til að mynda allt sem ég geri á sunnudegi. Í skapi eins og ég er búin að vera í geta frídagar orðið heldur svæsnir og ég hugsaði með mér að það væri gott á mig að þurfa að deila með öðrum hvað ég er í alvörunni hrikaleg þegar ég borða af staðfestu og ákveðni. Ég er algerlega sannfærð um að það að berskjalda sig og hætta algerlega að ljúga sé númer eitt, tvö og þrjú í að ná árangri og það að taka myndir af mér upp á mitt versta hlýtur að vera góð lexía fyrir mig.

Ég bakaði nokkur pan au chocolat í morgunmat og við Láki sátum saman og nutum að borða á meðan við spjölluðum og morgunsólin skein inn um gluggann. Eg borðaði tvö, 450 hitaeiningar í allt með svörtu kaffi. Ekki svo slæmt, hugsaði ég. En allur dagurinn eftir, ekki hreykja sér of fljótt. Ég skondraðist inn í eldhús um leið og matarsending vikunnar kom frá ASDA og ég fann að ég var í stuði til að skipuleggja aðeins. Bjó til baunasalat í hádegismat fyrir vikuna ásamt því að blanda í hafrablöndu og smella í eggjahvítuþynnur í nokkra morgunmata. Kannski að ég sé á batavegi? Ég fann hvernig spenningurinn jókst við tilhugsunina um að vera tilbúin í viku sem væri sneisafull af góðum næringarefnum sem gera mér kleift að lyfta þungt. Afgangurinn af deginum var svo bara ágætur. Ég er líka ekki frá því að tilhugsunin um að deila opinberlega hafi stoppað mig af í ruglinu og ef svo er þá er það hið besta mál. Prosciuttovafinn þorskur með hässelback kartöflum, kaffi, nokkrar döðlur, skyr með PB2 rjómaosti og súkkulaðidropum,píta með emmenthal og pólskri pulsu og skyr með rúsínum, pepitas og kanil og súkkulaðipopp og smá lakkrís. 1990 hitaeiningar allt í allt sem komu sér svo vel í morgun þegar ég lyfti þungum lóðum. Ég borðaði reyndar ekki köttinn en hún er svo sæt að mig langar til þess.



Í dag er ég svo búin að vera meðvituð um allt sem ég borða. Og er það vel, ekkert að því að taka nokkra daga í að vanda sig. Eggjahvítuþynna með pólskri pulsu og súkkulaðiPB2 yfirnáttúrulegir hafrar með hnetusmjörsrjómaosti (svo gott að ég hreinlega táraðist af hamingju meðan ég garfaði í mig.) Eplasneiðar með túnfisk-og trönuberjasalati, Grískt baunasalat og píta, hafrakex og lattebolli og graze snarl (rúsínur og möndlur), Soðinn fiskur og hamsatólg. Og svo kaffibolli með Game of Thrones í kvöld. Rétt tæpar 1700 sem er rétt magn af hitaeiningum fyrir mig til að léttast ef ég hreyfi mig. 
Ég nenni ekki að setja matinn inn á bloggið á hverjum degi, en ætla að deila með vinkonu minni og sjá hvort aukin ábyrgð sé hjálpleg. Ég er allavega hressari í dag en ég hef verið lengi og er það vel.

föstudagur, 20. maí 2016

Af fokki

Ég tapaði gleðinni minni um daginn. Er bara búin að lolla í gegnum dagana svona hálfviðstödd, hálf óskandi að ég væri annarstaðar. Og þá á ég ekki við sólarströnd heldur í öðru lífi, meða aðra vinnu, í öðrum líkama á öðrum stað. Það er alveg ómögulegt þegar svona gerist og ég er í óðagoti búin að reyna allt sem ég get til að finna mig aftur í mínu lífi. Ég sit og gúggla allskonar gúrúa og les greinar, pistla og blöð, allt í von um að finna eitthvað nýtt. Finna einhvern neista, eitthvað sem ég hef ekki séð áður, eitthvað sem ég hef ekki reynt, eitthvað frumlegt. Lausn.
En ég finn ekkert nýtt, ekkert sem fær mig til að stoppa við. Þetta er allt sama draslið í nýjum búningi. Og enginn kemur með lausnina. 
Ég hugsa og hugsa og skammast mín fyrir að geta ekki tengt punktana saman. Mér finnst eins og ég sé ekki að gera þetta rétt. Eins og ég eigi að geta tekið alla þessa vitneskju sem ég hef viðað að mér og látið virka fyrir mig. Ég veit hvað mér liður 100 sinnum betur þegar ég borða hollan mat í réttu magni. En ég veit líka að það að borða hollan mat í réttu magni fullnægir mér bara ekki. Það er alltaf hluti af mér sem sveltur. Og þegar ég læt undan og leyfi mér að fá kruðerí líður mér vel að hluta til en illa í líkamanum. Aðferðin sem segir 80/20 virkar vel vel en svo koma svo tímabil sem eru 50/50 og mér líður bara illa. Ég skil ekki afhverju mér tekst ekki að taka þetta síðasta skref sem leyfir mér að ná þessu 80/20 jafnvægi alltaf.
Ég fór að sofa í gærkvöldi með loforð á vörunum að ég myndi verða betri manneskja á morgun. Vaknaði og fór í ræktina eins og vanalega  en með það í hyggju að klára lakkrísinn sem ég fékk um daginn og þetta "bleh" virtist ætla að halda áfram.  Það var í miðri æfingu sem mér datt í hug að ég er að hafa áhyggjur af því að fylgja stöðlum sem aðrir hafa sett. Það má vel vera að aðrir geti fylgt paleo, eða uppveðrast af Tony Robbins, eða vera hreintrúaðir lyftingamelir en ég er bara ekki þannig. Ég fokka öllu upp, alltaf. En ég byrja líka bara alltaf aftur. Ég þarf ekkert að finna lausnina, ég þarf bara að halda áfram að vera forvitin.
Ég horfði lengi, lengi á sjálfa mig í speglinum í ræktinni og ákvað að þessi aðferð mín, að fokka alltaf öllu upp sé engu að síður að virka betur en nokkur önnur aðferð sem ég hef reynt áður. Ég er í ræktinni, nýbúin að dedda 80 kílóum. Það hlýtur að vera skárra en ekkert? Ég tók gleði mína aftur. Svona er þetta bara hjá mér. Smá upp, fullt niður, fullt upp, smá niður.
Og það er bara fínt.

 Koma svo! 


miðvikudagur, 11. maí 2016

Af því sem er ómögulegt

New York Times birti um daginn afskaplega áhugaverðar niðurstöður úr áralangri rannsókn á þáttakendum úr Biggest loser þáttaröðinni. Niðurstöðurnar eru, að mati vísindamannanna, sláandi. Það kom þeim ekki á óvart að brennslukerfi þeirra sem fara í megrun hægist niður, það er vitað mál. Það sem hinsvegar sló þá var staðreyndin að eftir því sem árin liðu og þáttakendur óhjákvæmilega bættu spikinu aftur á sig, þá lagfærist brennslukerfið ekki. Það heldur sér í svo lágri brennslu að meira að segja einn þáttakandinn getur núna borðað 800 hitaeiningum minna yfir daginn en aðrir menn af hans stærð og það bara til að viðhalda þyngd, ekki til að léttast! 
Sjálf er ég ekki hissa. Eftir rúm 30 ár í megrun geri ég mér fyllilega grein fyrir því að ég má borða mun minna en "venjulegt" fólk, og það bara til að viðhalda þyngd. Ekki einu sinni til að grennast, bara til að viðhalda. Það sem kom mér á óvart var hvernig greinin og niðurstöður rannsóknarinnar voru sett fram.  Hér er hrópað yfir húsþökum að við séum öll dæmd til að vera feit, að það sé tilgangslaust að reyna, að líkaminn sjálfur sé andsnúinn tilraunum til að léttast. Greinin vakti gífurlega athygli og var deilt mest af öllu greinum a vefnum á þriðjudag og flest kommentin, eitthvað um 3000, frá lesendum voru eitthvað á þá leið að "er núna hægt að hætta að "fat shame" okkur, þetta er ekki okkur að kenna." Og ég er auðvitað ekki hrifin af fat shaming en mér finnst fráleitt að taka þessu þannig að við séum bara dæmd í spikfangelsi.
Málið er nefnilega að ef maður les rannsóknirnar þá sýna þær hver á fætur annarri að ekkert af þessu skiptir máli. Fólk sem léttist mjög hratt fitnar ekki hraðar eða meira en þeir sem léttast hægt. Allir fitna að lokum aftur. Það skiptir líka litlu máli hvaða aðferð er notuð, engin kolvetni, fáar hitaeiningar, einn dagur af, einn á o.s.frv. Allir fitna að lokum aftur. Sama með hreyfingu, rannsóknir sýna að það skiptir litlu máli hvaða hreyfing er valin, lyftingar eða cardio, slow and steady eða hiit. Allir fitna að lokum aftur.
En það er ekki þar með sagt að við eigum bara að gefast upp. Það sem þarf að gerast er breyting á hugarfari gagnvart heilbrigðum lífstíl og tilgangnum með honum. Hvert lokamarkmiðið á að vera.
Kílóamissir er nefnilega minnsti þátturinn í heilbrigðu líferni. Og svo lengi sem við höldum áfram að einblína á vigtina sem eina stuðulinn í velgengni er rétt að maður getur bara gefist upp. En það er bara svo margt annað sem verður betra þegar smávegis hugsun er lögð í að hreyfa sig af einhverju marki og smávegis hugsun er lögð í að mennta sig um hvað er hollt og hvað er óhollt. Það skiptir afskaplega litlu máli hvort maður er fimm eða tíu kílóum of þungur ef maður getur synt, hjólað, labbað, hlaupið, leikið við börnin, gert húsverk og stundað kynlíf án þess að standa á öndinni (nema kannski þetta síðasta, þar má alveg missa andann). Lífsgæði eru ekki metin á vigtinni.
Annað er svo að það er líka full ástæða til að skoða hvað það er sem gerist við þyngdartap og ef ein afleiðingin er minnkuð brennsla þá hlýtur að vera full ástæða til að skoða hvort aðrar leiðir en megrun séu ekki réttari. Þarf ekki að skoða umhverfið, neysluna, efnin í því sem við köllum mat?
Þannig myndi ég líka byrja á næstu kynslóð. Besta leiðin til að léttast er að fitna ekki til að byrja með. Það er margsannað að það er mun erfiðara að létta sig því lengur sem maður er feitur. Ef það er of seint þá er afskaplega mikilvægt að fara ekki í megrun. Heldur líta í kringum sig og bæta svo frekar við en að taka út. Bæta við massa af grænmeti, fiski og flóknum kolvetnum. Sjá svo hvort óæskilega draslið detti ekki ósjálfrátt út. Bæta við hreyfingu. Sjá svo hvort óæskileg sófakartöfluhegðun hafi ekki minnkað ósjálfrátt. 
En aðal atriðið hlýtur bara að vera viðhorfið. Ef ég, sem er búin að berjast við þetta í rúm þrjátíu ár og er meðvituð um að baráttan er vonlaus, er samt sannfærð um að það sé betra að halda áfram en að gefst upp, þá hlýtur það að vera betri möguleikinn. Ég veit nefnilega að þegar ég borða fallegan mat, sem vekur áhuga minn og er hollur líður mér betur í bæði sál og líkama. Ekki vegna þess að ég er léttari heldur vegna þess að mér finnst ég vera léttari. Sama með hreyfingu. Þegar ég fer í ræktina vegna þess að ég er svo spennt að sjá hvort dagurinn í dag verður sá sem ég næ að dedda 100 kílóum, ekki til að léttast um einhver kíló, þá líður mér vel. Um leið og ég bæti við kröfunni um að verða 71 kíló hættir þetta að vera skemmtilegt.
Þetta snýst allt um viðhorf. Auðvitað er gaman að sjá kílóin hverfa. En það er ömurlegt þegar þau fara ekki og það verður bara að vera tilbúin með andlegt viðhorf til að tækla vonbrigðin þegar það óhjákvæmilega gerist.
Og það allra mikilvægasta er að láta sér líða vel, alltaf. Það má vera að ég sé lukkuleg að vera fædd með egó einu númeri of stórt. Þannig er ég td alveg sannfærð um að ef einhver stari á mig þá sé það vegna þess að ég er svo sæt. Mér skilst á öðru fólki að ef það stendur einhvern að því að stara þá sé gert ráð fyrir að það sé vegna þess að það sé eitthvað að. Skrýtið! En ég hef líka unnið í að láta mér líða vel. Ég hef reynt að finna fatastíl sem hentar og klæðir mig eins vel og hægt er alveg sama hvort ég sé feit eða mjó. Ég reyni að vera stanslaust forvitin og bæti þekkinguna hvað mat, uppskriftir og hreyfingu varðar. Ég tek tíma þar sem ég nýt þess að borða mat sem er ekki hollur. Ég tek tíma fyrir sjálfa mig og ég læt mér líða vel með að gera hluti eins og að lesa mér til um hitt og þetta eða hlusta á podcasts. Allt eitthvað sem gerir mig að betri manneskju. 
Ég hugsa stundum um tímann sem ég hef eytt í að reyna að verða mjó. Og ég get ekki sagt annað en að það hafi verið glataður tími, tími eytt í áhyggjur og frústrasjón og vonleysi. Og ég fæ hann aldrei til baka. En tíminn sem ég hef svo eytt í að betrumbæta heilsuna, verða hraustari, sterkari og meðvitaðri, það aftur á móti er tími sem er vel varið og ég hef fyllilega í hyggju að halda því áfram. Hvað svo sem rannsóknir sýna.
(Greinin sem greinir frá mismunandi rannsóknum um tilgangsleysi megrunarkúra er hér http://www.nytimes.com/2016/05/08/opinion/sunday/why-you-cant-lose-weight-on-a-diet.html )

mánudagur, 2. maí 2016

Af ástaraldinum

Mér þykir afskaðlega mikilvægt að gera vel við sig í mat og drykk, og mér þykir sérlega gaman þegar saman fer gott bragð og hollusta. Ég dúllaði við þessar míní ostakökur í gær. Þær voru aðeins hollari en venjulegar ostakökur en það kom kannski líka mikið til vegna þess að ég setti í sílíkónmúffin form þannig að þær voru bornar fram í einstaklingsmiðuðum skammti fremur en sem ein risastór kaka.

Ástarostakaka
5 nairns sykurlausar hafrakexkökur, muldar í frumeindir
40 - 50g kókosolía eða smjör, brætt
1 kúfuð matskeið sukrin gold púðursykur
Allt hrært saman í mjúka klessu og svo skipt í 4-5 múffinform, þjappað niður og stungið inn í ísskáp.
120g fitulaus mascarpone ostur 
60 ml þykkur rjómi ( ég nota þykkan single cream sem er bara 15%, veit ekki hvort sé til á Islandi)
2 mtsk sukrin flórsykur
Safi úr 3 ástaraldinum, geyma fræjin til að setja ofan á
Allt hrært saman og svo skipt ofan á hafrabotninn. Ástaraldinfræ sett ofan á og svo inn í ísskáp í tvo tíma til að jafnast. 
Ástaraldin voru á tilboði í Waitrose og mig hafði lengi langað til að reyna að búa til holla útgáfu af ástaraldinmúss sem við fengum einhverntiman á Tropeiro, Brasilískum veitingastað í Chester. Sykurinn sem ég notaði er ægilega sniðugur, nánast hitaeiningalaus og búin til úr erythritol. Protein úr ostinum og smá nautn og hamingja með rjómanum. Þetta gekk allt upp og ég hæstánægð með verklagið.

sunnudagur, 1. maí 2016

Af apríl

Það er viðtekin venja hjá mér að vigtin fari upp og niður viku eftir viku. Ég ákvað því að ég nennti ekkert að vera að hafa áhyggjur af því hvort ég þyngdist eða léttist viku frá viku, svo lengi sem mánuðurinn í heild sýndi árangur. Síðan í september er ég búin að léttast um tæp þrjú kíló á mánuði. Apríl hinsvegar ætlaði að reynast þyngri þraut. Ég fór til Brighton og London, Edinborgar og var í fríi. Ég gerði ýmislegt gott og rétt en ég gerði líka heldur margt vitlaust. Á laugardagsmorgun beið ég því aðeins frameftir, kreisti út eitt auka piss og vigtaði mig svo. 94.5 kg sem þýðir að apríl í heildina skilar 100 gramma þyngdartapi.

Ég var bara fegin. Ég get enn kallað apríl árangursmánuð, þó lítið sé. Ég var líka fegin því í ofanálag við ferðalög og frí þá tók ég líka einn dag í geðveikina mína eins og ég kalla það. Sem betur fer eru þessir dagar alltaf að verða sjaldgæfari og það var þessvegna nánast áhugavert að fylgjast með sjálfri mér. Ég vakna um morguninn og fæ mér góðan hafragraut, en öfugt við það sem gerist vanalega þá er ég ekki sátt eða södd. Ég byrja því að stika um. Fæ mér eitt ristað brauð. Enn ekki sátt. Reyni að hafa hemil á mér. Stika um aðeins meira. Fer í búðina til að kaupa grænmeti til að reyna að minnka ofsann í sálinni. Elda svo barra (sea bass) með miðjarðarhafsgrænmeti í hádegismat. Ber fram fallega og nýt að borða. Engin fróun í fisknum og á meðan ég er að ganga frá gleypi ég í mig marssúkkulaði sem var afgangur frá páskum. Helli upp á kaffi og meðan kaffið gerjast borða ég tvo flapjack sem ég hafði bakað. Ber kaffið inn í stofu og í tveimur bitum borða ég pan au chocolat sem Lúkas skildi eftir í morgunmat. Sest niður og borða einn Kindbar ("heilsu"súkkulaði-og hnetustykki) á meðan ég drekk kaffið. Þarf að gubba, hata sjálfa mig og skil hvorki upp né niður hvað gerðist. 1700 hitaeiningar á átta mínútum. Hver gerir svona lagað? 

Ég get því miður ekki svarað. Ég get reynt að skilja eins vel og ég get hvað það er sem gerist en sem komið er finnst mér að þetta sé nánast eins og einhverskonar masókismi. Að mér finnist gott að refsa sjálfri mér fyrir einhverja upphugsaða glæpi. Eins og að ég sé að refsa sjálfri mér fyrir að vera feit með því að borða svona hræðilega. Sanna fyrir sjálfri mér að ég sé hræðileg manneskja. Kannski ef ég finn svarið myndi ég hætta þessu.

Svo hristi ég þessa daga af mér og byrja bara aftur í rútínuninni minni. Þungar lyftingar fjórum sinnum í viku, hjólreiðar og fallegur matur í réttum skömmtum. Eins og ekkert hafi í skorist. Eða því sem næst, ég verð að viðurkenna að þessi dagur er búinn að sitja aðeins í mér því mig langar svo til að skilja hvað er að gerast í heilanum á mér.

Ég bætti nú svo reyndar heldur vel í rútínuna í gær. Fór og hitti Matt, sem er þjálfari í ræktinni minni. Hann ætla eg að hitta einu sinni í mánuði til að passa form og fylgjast með farmför. Hann breytti rútínuninni minni aðeins, bætti HIIT inn í og breytti nokkrum æfingum í súpersetts og dropsetts. Það var alveg hrikalega skemmtilegt og ég, eins og ég er, verð nátturulega að sýna mig. Lyfti þyngra, ræ hraðar, hoppa hærra. Hvað sem er lagt fyrir framan mig geri ég aðeins meira en ég get, þvílíkur er gorgeirinn. Þetta sýndi mér þó að ég er greinilega ekki að leggja nóg í þegar ég geri æfingarnar mínar sjálf, ég get greinilega meira. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir þessu og þarf að reyna að koma upp með aðferð sem lætur mig ímynda mér að það sé einhver að horfa á mig. 

Mér datt svo í hug að ég ætti kannski bara að safna 1200 pundum, og taka svo bara tvo mánuði í að borga þjálfara til að vera með mér þrisvar í viku, borða hreint og skvabba þessu bara af. Djöfull væri það gaman.  

Það er gaman akkúrat núna. Ég veit að ég gerði ýmislegt vitlaust í apríl en ég hef að minnska kosti fingurinn á því og ég veit að maí verður betri. Ekki það að apríl hafi verið algert rugl, þrátt fyrir lítinn árangur á vigtinni þá þurfti ég að pakka niður enn einum buxum því þær eru orðnar of stórar. Ég er greinilega vöðvastæltari og straumlínulagaðri en ég var fyrir mánuði síðan. Og mér líður vel. Það hlýtur að vera aðalmálið.