föstudagur, 20. maí 2016

Af fokki

Ég tapaði gleðinni minni um daginn. Er bara búin að lolla í gegnum dagana svona hálfviðstödd, hálf óskandi að ég væri annarstaðar. Og þá á ég ekki við sólarströnd heldur í öðru lífi, meða aðra vinnu, í öðrum líkama á öðrum stað. Það er alveg ómögulegt þegar svona gerist og ég er í óðagoti búin að reyna allt sem ég get til að finna mig aftur í mínu lífi. Ég sit og gúggla allskonar gúrúa og les greinar, pistla og blöð, allt í von um að finna eitthvað nýtt. Finna einhvern neista, eitthvað sem ég hef ekki séð áður, eitthvað sem ég hef ekki reynt, eitthvað frumlegt. Lausn.
En ég finn ekkert nýtt, ekkert sem fær mig til að stoppa við. Þetta er allt sama draslið í nýjum búningi. Og enginn kemur með lausnina. 
Ég hugsa og hugsa og skammast mín fyrir að geta ekki tengt punktana saman. Mér finnst eins og ég sé ekki að gera þetta rétt. Eins og ég eigi að geta tekið alla þessa vitneskju sem ég hef viðað að mér og látið virka fyrir mig. Ég veit hvað mér liður 100 sinnum betur þegar ég borða hollan mat í réttu magni. En ég veit líka að það að borða hollan mat í réttu magni fullnægir mér bara ekki. Það er alltaf hluti af mér sem sveltur. Og þegar ég læt undan og leyfi mér að fá kruðerí líður mér vel að hluta til en illa í líkamanum. Aðferðin sem segir 80/20 virkar vel vel en svo koma svo tímabil sem eru 50/50 og mér líður bara illa. Ég skil ekki afhverju mér tekst ekki að taka þetta síðasta skref sem leyfir mér að ná þessu 80/20 jafnvægi alltaf.
Ég fór að sofa í gærkvöldi með loforð á vörunum að ég myndi verða betri manneskja á morgun. Vaknaði og fór í ræktina eins og vanalega  en með það í hyggju að klára lakkrísinn sem ég fékk um daginn og þetta "bleh" virtist ætla að halda áfram.  Það var í miðri æfingu sem mér datt í hug að ég er að hafa áhyggjur af því að fylgja stöðlum sem aðrir hafa sett. Það má vel vera að aðrir geti fylgt paleo, eða uppveðrast af Tony Robbins, eða vera hreintrúaðir lyftingamelir en ég er bara ekki þannig. Ég fokka öllu upp, alltaf. En ég byrja líka bara alltaf aftur. Ég þarf ekkert að finna lausnina, ég þarf bara að halda áfram að vera forvitin.
Ég horfði lengi, lengi á sjálfa mig í speglinum í ræktinni og ákvað að þessi aðferð mín, að fokka alltaf öllu upp sé engu að síður að virka betur en nokkur önnur aðferð sem ég hef reynt áður. Ég er í ræktinni, nýbúin að dedda 80 kílóum. Það hlýtur að vera skárra en ekkert? Ég tók gleði mína aftur. Svona er þetta bara hjá mér. Smá upp, fullt niður, fullt upp, smá niður.
Og það er bara fínt.

 Koma svo! 


Engin ummæli: