Ég ákvað þessvegna að þvinga sjálfa mig til að mynda allt sem ég geri á sunnudegi. Í skapi eins og ég er búin að vera í geta frídagar orðið heldur svæsnir og ég hugsaði með mér að það væri gott á mig að þurfa að deila með öðrum hvað ég er í alvörunni hrikaleg þegar ég borða af staðfestu og ákveðni. Ég er algerlega sannfærð um að það að berskjalda sig og hætta algerlega að ljúga sé númer eitt, tvö og þrjú í að ná árangri og það að taka myndir af mér upp á mitt versta hlýtur að vera góð lexía fyrir mig.
Ég bakaði nokkur pan au chocolat í morgunmat og við Láki sátum saman og nutum að borða á meðan við spjölluðum og morgunsólin skein inn um gluggann. Eg borðaði tvö, 450 hitaeiningar í allt með svörtu kaffi. Ekki svo slæmt, hugsaði ég. En allur dagurinn eftir, ekki hreykja sér of fljótt. Ég skondraðist inn í eldhús um leið og matarsending vikunnar kom frá ASDA og ég fann að ég var í stuði til að skipuleggja aðeins. Bjó til baunasalat í hádegismat fyrir vikuna ásamt því að blanda í hafrablöndu og smella í eggjahvítuþynnur í nokkra morgunmata. Kannski að ég sé á batavegi? Ég fann hvernig spenningurinn jókst við tilhugsunina um að vera tilbúin í viku sem væri sneisafull af góðum næringarefnum sem gera mér kleift að lyfta þungt. Afgangurinn af deginum var svo bara ágætur. Ég er líka ekki frá því að tilhugsunin um að deila opinberlega hafi stoppað mig af í ruglinu og ef svo er þá er það hið besta mál. Prosciuttovafinn þorskur með hässelback kartöflum, kaffi, nokkrar döðlur, skyr með PB2 rjómaosti og súkkulaðidropum,píta með emmenthal og pólskri pulsu og skyr með rúsínum, pepitas og kanil og súkkulaðipopp og smá lakkrís. 1990 hitaeiningar allt í allt sem komu sér svo vel í morgun þegar ég lyfti þungum lóðum. Ég borðaði reyndar ekki köttinn en hún er svo sæt að mig langar til þess.
Í dag er ég svo búin að vera meðvituð um allt sem ég borða. Og er það vel, ekkert að því að taka nokkra daga í að vanda sig. Eggjahvítuþynna með pólskri pulsu og súkkulaðiPB2 yfirnáttúrulegir hafrar með hnetusmjörsrjómaosti (svo gott að ég hreinlega táraðist af hamingju meðan ég garfaði í mig.) Eplasneiðar með túnfisk-og trönuberjasalati, Grískt baunasalat og píta, hafrakex og lattebolli og graze snarl (rúsínur og möndlur), Soðinn fiskur og hamsatólg. Og svo kaffibolli með Game of Thrones í kvöld. Rétt tæpar 1700 sem er rétt magn af hitaeiningum fyrir mig til að léttast ef ég hreyfi mig.
Ég nenni ekki að setja matinn inn á bloggið á hverjum degi, en ætla að deila með vinkonu minni og sjá hvort aukin ábyrgð sé hjálpleg. Ég er allavega hressari í dag en ég hef verið lengi og er það vel.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli