þriðjudagur, 29. júlí 2008

Það gat ekki verið að það stæði lengi; allt sem getur farið í rugl er komið í rugl; matur og svefntími. Nú er bara að sanna að ég geti komið þessu aftur á réttan kjöl áður en ég fer alveg yfir strikið. Núna þarf ég að hugsa eins og grönn manneskja.

laugardagur, 26. júlí 2008

Nú er mikið að gera, mamma og pabbi hjá mér í vist og Nanna með þeim. Sólin skín og allir í stuði. Ekki síst ég enda segir vigtin í Boots að ég hafi lést um 2 kíló þessa vikuna. Við tökum því enda hjúkkan í sumarfríi. Ég er mjög stolt af sjálfri mér fyrir þetta, vanalega nota ég afsökun eins og gesti til að naga mig í gegnum allskonar óþverrra en hefur sumsé tekist að láta það í friði núna. Go Svava Rán!

laugardagur, 19. júlí 2008

Ég þarf að fresta vigtun fram á þriðjudag. Ég þarf að fara til Rhyl á mánudaginn að kenna starfsfólkinu þar á nýja SAP tölvukerfið. Í staðinn fæ ég frí á þriðjudaginn sem hentar mjög vel því þá get ég verið með mömmu og pabba fyrsta daginn þeirra hérna. Ég fæ þessvegna að fara til hjúkku á þriðjudaginn.

föstudagur, 18. júlí 2008

Mér finnst endilega eins og að ég eigi að vera að léttast meira og hraðar. Ég er alveg búin að taka út allan óþarfa; nammi, kex, fitu, sykur, hveiti og þessháttar og er á fullu í pilates. Vakna klukkan hálfsjö á morgnana og tek sessjón. Mér líður mjög vel ákkúrat núna, en vildi sjá meiri árangur á vigtinni. Reyndar á ég pantaðan tíma hjá hjúkku á mánudaginn í vigtun en mig grunar að ég nái ekki mini-takmarkinu 115 kg fyrir þann tíma.

Ég er þessvegna búin að vera að velta fyrir mér hvað ég sé að gera vitlaust og það eina sem ég gat komið upp með var skammtastærð. Það er víst hægt að borða of mkið af hollum mat líka. Ég náði því í eldhúsvogina og skellti á matarborðið í gærkveldi og vigtaði 180 grömm (2 kjötskammtar) á diskana af chili-inu sem ég hafði eldað. Og svo störðum við í forundran á diskana okkar. Slumman af kjöti var u.þ.b. fjórðungur af því sem við venjulega myndum setja á disk. Með tárin í augunum (gvuð minn góur við lifum þessa hungursneyð ekki af!) mauluðum við okkur í gegnum máltíðina. En viti menn, þetta var nóg. Við vorum bæði södd og það allt kvöldið. Ég vissi svo sem að það væri einföld ástæða fyrir spikinu, ég bara vildi ekki trúa því. Þannig að héðan í frá er ég með allar upplýsingar á hreinu um skammtastærð og eldhúsvogin er núna á matarborðinu. Að hugsa með sér, ég sem er búin að fnæsa í gegnum nefið að öllu þessu feita fólki sem segjist ekkert skilja í því afhverju það er of feitt. Það liggur í augum úti að ef þú borðar of mikið þá fitnarðu. En ég bara vildi ekki setja mig í flokk með þeim feitu og vitlausu. En þar hafið þið það, ég er feit og vitlaus!

Ég er svo reyndar að vona að ég sé að byggja upp vöðvamassa ægilegan. Eins og alþjóð veit þá eru vöðvar þyngri en fita. Vöðvar brenna líka meiri karólinum þannig að eg ætti vera að brenna um leið og ég styrkist og grennist. En að gefast upp. Nei, það er ekki í myndinni.

fimmtudagur, 17. júlí 2008

Nú fer að styttast í að Mamma og Pabbi og Nanna komi í heimsókn. Ooohhh hvað ég hlakka til, kannski að ég fái að hætta að vera fullorðin í nokkra daga. Má það?

miðvikudagur, 16. júlí 2008

Ekkert að mér já! Djöfuls kjaftæði. Ég er alveg brjáluð núna. Ég get ekki séð að ég geti haldið mér undir 1600 karólínum á dag, mér finnst eins og ég þurfi að æfa meira, ég er svo flink að svindla að ég gert meira að segja platað sjálfa mig og þetta á aldrei eftir að ganga upp. Það væri svo miklu einfaldara að gefast bara upp. Ég hef alltaf verið feit, ég skil ekki afhverju ég er að stressa mig á að reyna eitthvað annað. Best að vera bara feit áfram. Bara ein kökusneið kannski, eða smá ís eða kannski bara ís ofan á kökusneið...

Eða þá að ég skoði núna aðeins nýtt prógramm. Mig langar til að prófa eitthvað meira structured. Það er of auðvelt að svindla á einfaldri talningu. Hefur einhver prófað þennan? Ég hef eðlislæga vantrú á megrunarkúrum en finnst eins og ég gæti þurft á því að halda að koma mér í svíng með svona alvöru prógrammi.

þriðjudagur, 15. júlí 2008

Það er því miður bara ekkert að mér. Ég er búin að rembast og reyna eins og ég mögulegast get að fá greiningu sem átröskunarsjúklingur en ég bara passa ekki inn í neinn hóp. Ég er ekki "binge-eater", ég borða of mikið, en ég fer ekki á svona binges. Ég varð ekki fyrir neinu áfalli í bernsku sem getur skýrt óeðlilegt samband mitt við mat. Ég er ekki með skjaldkirtilsvandamál eða genatíska tengingu við ofát. Ég er sjálfsagt með brenglaða hugmyndir um hvað er rétt skammtastærð en það er eðlileg brenglun í nútíma þjóðfélagi. Ég er líka með allt of háar hugmyndir um sjálfa mig. Kannski ef ég væri með lágt sjálfsmat eða hefði verið lögð í einelti eða ef fólk hefði gert grín að mér fyrir að vera feit þegar ég var barn og táningur þá hefði ég getað forðast að enda í 120 kílóum. En nei, mér finnst ég vera sæt og fín og þegar ég lít í spegil sé ég frekar lögulega manneskju og hef alltaf gert. (Er öfugsnúin anorexía geðsjúkdómur?) Ég var að vona að ef ég gæti skilgreint mig á einhvern hátt þá myndi ég eiga auðveldara með að ráða við mataræðið, en ég verð bara að sætta mig við að ég einfaldlega borða of mikið af kaloríuríkum mat. Djöfullinn sjálfur.

mánudagur, 14. júlí 2008

Mér gekk hrikalega illa í prófinu á laugardaginn og verra eftir því sem ég hugsa meira um það. Þeir komu bara alveg aftan að mér með eina spurninguna. Öllum hinum gekk reyndar illa líka þannig að það var a.m.k. ekki bara ég. Ég verð sjálfsagt að sitja þetta aftur, fæ ekki að vita einkunn fyrr en í október! Ég náði þrátt fyrir að vera lágtstemmd að verjast þungum árásum frá hinum ýmsustu snickersum hér og þar, alveg fram á sunnudag. Við vorum búin að plana indverskan í tilefni af brúðkaupsafmælinu og þar innifalið átti að vera eftirréttur. Ég vaknaði á sunnudaginn búin að plana átið út í ystu æsar og fór algerlega yfir strikið. Karamellur í hádegismat, poppadums, korma og naan og svo heill poki af revels á eftir. Það eina sem ég hafði áhyggjur af var að ég myndi ekki ná að borða allt sem var planað. En jú, ég er svo dugleg, með verk undir bringspölum graðgaði ég síðasta molann upp í mig og lá svo afvelta það sem eftir var kvöldsins. Og svo martaðir alla nóttina. Ég hélt svo að dagurinn í dag myndi vera erfiður, það er alltaf erfitt að "lenda" eftir svona sykur-high, en allar góðar vætti voru með mér í dag, ég er undir 1500 kal., búin að labba í 40 mínútur, taka eina Pilates sessjón, þrífa húsið þannig að svitnaði vel og baka heilsubollur og muffins tilbúin í nesti. Og er bara í stuði. Lukkan yfir mér alltaf hreint. Kannski að mér sé að takast að breyta hegðunarmynstri.

Nú eru tvö verkefni í gangi. Ég þarf að borða grænmeti sem snakk (frekar en ávexti) og reyna að sleppa plönuðum nammidag. Ég er ekki að segja að hafa ekki nammidag, ég þarf frekar að reyna að vera ekki búin að plana hann of vel þannig að ég fari ekki svona gjörsamlega yfir strikið.

fimmtudagur, 10. júlí 2008

Ég er eiginlega alveg tilbúin í próf, ekki alveg, eiginlega alveg.
.

miðvikudagur, 9. júlí 2008

Við Dave eigum 3ja ára brúðkaupsafmæli í dag. Ég fagnaði áfanganum með grísku salati og góðri pilates sessjón í bland við pælingar um corporate social responsibility, brand positioning og ratio analysis. Ég er orðin smá rugluð í ríminu og létt nojuð en engu að síður ástfangin og í stuði.

þriðjudagur, 8. júlí 2008

Þar sem að mér er fúlasta alvara með þessu fittness dóti þá fjárfesti ég í jóga-mottu og pilates dvd. Þetta eru bara 25 mínútur af magaæfingum en ég kófsvitna og fíla í botn. Verst að maginn og brjóstin eru alltaf fyrir mér, ég get ekki beygt mig eins og ég vil. Ekki það að ég sé ekki nógu liðug, það er ekkert mál, það er bara ekki pláss! Mikið verður gaman þegar ég get haldið mér svona í "the teaser" eins og Ana.

sunnudagur, 6. júlí 2008

Ég heyri í þeim feðgum uppi í svefnherbergi, Dave er að reyna að svæfa Láka. Hann er búinn að lesa bæði Gruffalo og Gruffalo´s child og Láki er búinn að fá að fara eina ferð á klóið og drekka eitt mjólkurglas. Hann er núna að reyna að spjalla en Dave svarar alltaf með ákveðnum tón "Good night Lúkas." Það er svo mikilvægt fyrir okkur að koma honum í svefn á skikkanlegum tíma því annars fáum við engan tíma fyrir okkur.

Sjálf er ég að lesa fyrir próf og plotta æfingarskjedjúl. Prófið er reyndar mikilvægast þessa vikuna, ég ætla ekki að hafa áhyggjur af neinu öðru þessa vikuna. Það gildi aðallega um hversu erfið síðasta vika var. Ég var á fullu að ganga og er byrjuð á pilates hérna heima en maturinn var að vefjast fyrir mér. Ég er búin að vera þunglynd og leið alla vikuna og ég finn það að það er einhverskonar sykurfráhvarf. En á sama hátt og ég er ekki þræll nikótínsins lengur þá ætla ég að vera frjáls frá sykri. Ég mun sigra!

laugardagur, 5. júlí 2008

Ég fór í ægilega fínan göngutúr í morgun. Vaknaði klukkan sex og skellti mér í joggarann (já, að hugsa með sér, ég Á joggara!) og út áður en ég fór í vinnu. Mikið gott og gaman, bara ég og fuglar, nokkur hundruð sauðfé og tveir íkornar. Sólin skein í heiði og ég var í hálfgerðri vímu yfir því hversu dugleg ég var. Ég fór að velta fyrir mér hvort ég myndi finna hvatningu til að gera þetta það sem eftir er. Og ég er að spá í að líta ekki á hreyfingu sem eitthvað sem ég þarf að finna einhverja "æðri" hvatningu. Hreyfing er bara eins og að vaska upp eða búa um. Ég hef ekkert val. Ef ég ætla að eiga hreint eldhús þá verð ég að vaska upp reglulega. Ég hef enga hvatingu til að gera það, ég einfaldlega vaska upp eftir matinn. Simple as. Sama með hreyfingu, ég hef ekkert val. Og ég er þegar ég er búin að vaska upp þá fyllist ég alltaf vellíðan. Það er það sama með líkamsræktina. UUUmmmmm. Ég elska endorfín.

fimmtudagur, 3. júlí 2008

Dave fékk símhringingu frá gömlum vini sínum úr háskóla svona óvænt í kvöld. Kevin hafði haft upp á honum eftir krókaleiðum og þeir spjölluðu heillengi saman um hvað hefði gengið á síðustu tíu árin. Af einhverjum ástæðum kom það upp að Dave hafi bætt heilmikið á sig og þótti Kev það skrýtið því hann hefur bara þekkt "mjóa Dave". Dave var feitur sem barn og unglingur en grenntist áður en hann fór í háskóla og fitnaði svo ekki aftur fyrr en hann giftist mér (Sorry ástin mín!). Mér datt þá í hug að það þekkir enginn "mjóu Svövu". Hún er kannski bara ekki til. Ég hef fengið nasasjónir af henni svona af og til en hún er aldrei kjurr lengi. Mér leikur mikil forvitni á að vita hvort hún sé öðruvísi en "feita Svava". Ég er ekki haldin neinum ranghugmyndum lengur um að vera mjór þýði að maður sé átómatískt hamingjusamur. Eða að maður þurfi ekki raka á sér fótleggina. Eða að maður hætti að sulla niður á sig tómatsósu og fötin manns hætti að krumpast eða maður hætti að prumpa. Ég geri mér grein fyrir að ég verð sjálfsagt alltaf með sósublett einhverstaðar. En ég er að vona að mjóa Svava geti hlaupið á eftir strætó án þess að vera heitt og skítug það sem eftir lifir dags. Og að hún geti beygt sig niður eftir hlutum án þess að hafa áhyggjur af því að geta ekki staðið upp aftur. Að hún hafi ekki áhyggjur af því að geta sest í klappstól án þess að brjóta hann. Að hún geti hlaupið með Lúkasi án þess að gefast upp eftir tvær mínútur. Verður hún öðruvísi manneskja bara út af því að hún getur gert þessa hluti? Mig allavega langar til að gefa henni tækifæri til að viðra sig. Hún er þarna inni í mér einhverstaðar, ég borðaði hana óvart einn daginn með einu eða tveim snickers og skolaði niður með fanta.

þriðjudagur, 1. júlí 2008

Númer eitt, tvö og þrjú er að viðhalda skipulagi og aga ef maður ætlar að stunda heilbrigðan lífstíl. Plan og skipulagning er lífsnauðsynleg því annars dettur maður bara í ruglið. Ég er vanalega skipulögð og á auðvelt með að plana fram í tímann, ég til dæmis er alltaf með tveggja vikna matseðil tilbúinn. Það auðveldar innkaup og þýðir að ég veit alltaf ef ég þarf að taka eitthvað úr frysti á morgnana og ég þarf ekki að eyða tíma í að velta fyrir mér hvað á að elda í kvöld. Og ég get skipulagt matinn þannig að ég deili kolvetnum og prótín réttlátlega niður á máltíðir dagsins. Ég skipulegg reyndar fleira en matinn, ég skipulegg líka daglegar athafnir og það er bara til að mér líði betur, ég þarf að hafa plan, bæði fyrir lífið og hvern einn dag. Það er svo alveg ferlegt þegar óvæntir atburðir breyta planinu. Ég gleymdi að ég var að vinna frameftir í kvöld og var ekki komin heim fyrr en átta. Dave var þá búinn að gefa Láka að borða, baða hann og var að koma í háttinn. Ég var úrvinda úr hungri enda ekkert búin að borða nema tvær hrökkbrauðsneiðar síðan í hádeginu. Ég missti af strætó og þurfti að labba upp Gutter Hill (gott cardio en einum of með ekkert í maganum!) og það eina sem ég gat hugsað um var matur. Láki vildi svo endilega að ég læsi "Monkey Puzzle". Dave því miður kann bara að elda egg þannig að þegar Láki var loksins sofnaður og ég búin að elda var klukkan orðin níu. Aðframkomin úr hungri og ég borðaði allt of mikið. Og það er það sem gerist þegar planið fer úr skorðum.