mánudagur, 31. mars 2014

Að gærdeginum undanskildum hefur þessi fyrsta vika farið ljómandi vel fram. Ég er bara vandræðaleg yfir bestíugangnum í mér í gær. Svona eftir á að hyggja hefði ég átt að fatta hvað var í gangi og átti að biðja um rain check á Liverpool en fara þess í stað í fjallgöngu. Maður lifir og lærir.

Það sem upp úr stendur í vikunni er þessi hugmynd um að það sé ekki eftir neinu að bíða. Maður er sko alltaf að bíða eftir rétta andartakinu. Eftir stundinni sem að andinn færist yfir mann, eða þegar maður gerir stórkostlega uppgötvun. Þegar hugmynd lýstur niður í mann og allt verður nýtt á eftir. Svona eureka móment eða jafnvel þegar yfir mann kemur guðlegur andi.

Það er hægt að bíða eftir þessari stund alla ævina.

Eða maður getur bara tekið því að dagur er bara dagur, og móment er bara móment og maður ræður sjálfur hvernig maður hagar því.

Engar stórar uppgötvanir, engin endurfæðing. Bara góðar ákvarðanir, stund fyrir stund. Og þegar myrkir tímar færast yfir þá verður maður bara að lalla sér í gegnum þá líka.

sunnudagur, 30. mars 2014

Ekki treysta á viljastyrk - treystu á undirbúning. Þetta er búið að vera mantran mín alla vikuna. Reyndu að hugsa upp allar mögulegar aðstæður og hvernig best væri að takast á við þær án þess að fá mér nammi eða köku. Það sem ég hafði ekki gert ráð fyrir var að líða eins og mér líður í dag. Og ég er ekki viss um að ég hefði getað búið mig undir þetta. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því að ég er eiturlyfjasjúklingur og að í dag myndi fráhvarfseinkennin hefjast.

Sólin skín, ég er með strákunum mínum, það er mæðradagur og til stendur að fara með mig til Liverpool. Í léttan morgunverð á veitingastað sem mig dauðlangar til að prófa, smá verlsun og svo léttur hringur um World museum að skoða múmíur. Við förum með lest til Liverpool en svo þegar við komum svo á veitingastaðinn er allt fullt. Og ég fer í svona rosalega fýlu. Get engan vegin höndlað það. Við tvístígum um í vafa um hvort við eigum að bíða en ákveðum svo að fara eitthvað annað. Ég finn strax að ég er ekki eins og ég að mér að vera. Ekkert er "rétt" einhvernvegin. Við ráfum í reiðuleysi um borgina, finnum hvergi neinn stað til að setjast inn á, allstaðar er allt upppantað vegna mæðradagsins og eftir því sem líður verðum við öll þreyttari og pirraðri. Dave á erfitt með gang og er greinilega að berjast við sársauka og ég fyllist samviskubiti yfir að vera svona leiðinleg að verða svona sár yfir að komast ekki á veitingastað, bara af því að hann samræmist einhverjum hugmyndum sem ég hef um hvað er smart. Ég verð reiðari og reiðari, út í sjálfa mig, yfir því hvað þetta er fáranlegt að vera svona, allstaðar í heiminum er fólk að díla við alvöru vandamál og hér er ég að fá taugaáfall út af því að ég fæ ekki að borða á veitingstað sem er með töff ljósakrónur! Við reynum að fara á safnið en villumst og í stað þess að njóta bara að rölta um borgina eins og ég myndi vanalega gera er ég með enn meiri vanlíðan yfir því hvað ég er leiðinleg að draga strákana svona um.Við reynum að lokum að versla þar sem ég hafði haft hug á að kaupa diska í Keith Brymer Jones safnið mitt. Það eru að sjálfsögðu ekki til neinir diskar og við hrökklumst aftur út. Finnum loksins safnið en það er of seint. Dagurinn liðinn og við höfum rétt um hálftíma áður en lestin fer aftur heim. Frídagur, sólskin, yndisleg borg og allt ónýtt.

Ég get ekki hætt að gráta.

Og það eina sem ég get hugsað er að ég gæti lagað þetta allt með nammi. Ef ég bara fengi nammi þá gæti ég róað þessi vonbrigði með daginn. Ef ég bara fengi kökusneið þá gæti ég látið mér líða aftur vel. En ég hef ekkert, ekkert sem getur hjálpað mér með þessar tilfinningar. Ég þarf að upplifa þær allar án nokkurrar deyfingar. Vonbrigði með sjálfa mig, hvað ég er tilætlunarsöm og með allt of miklar væntingar til einhverrar "ideal" ímyndar.Hvað ég skammast mín fyrir að gráta út af svona smáatriðum þegar annað fólk á í alvörunni bágt. Reiðina yfir að hafa sóað svona frídeginum í fýlu. Reiðinni sem ég finn því mig grunar að ég sé á svona vondum stað vegna þess að ég vissi að ég myndi ekki fá mér nammi eða köku í dag. Að fráhvarfseinkennin hafi verið upprunalega orsökin fyrir því að ég tók svona illa á því þegar planið fór úrskeiðis. Að undir venjulegum aðstæðum hefði ég bara yppt öxlum og fundið annan veitingastað en af því að ég er að berjast við fráhvörfin gat ég bara ekki tekist á við þetta eins og venjuleg manneskja. Að ég sé í alvörunni svona svaðalegur fíkill.

Ef ég bara fengi að slaka á núna og fá mér eitthvað gott. Það myndi laga allt. Allt.

En ég veit líka að þá yrði ég enn sárari út í sjálfa mig á morgun. Ég hefði bæði sóað deginum og hrasað á fyrstu hindruninni. Það hjálpar ekki. Ég verð þess í stað að díla við að ég sé stundum leiðindapíka. Ég þarf að díla við að stundum samræmist lífið ekki mínum hugmyndum um það. Ég díla við það.

laugardagur, 29. mars 2014

Það er allt sem segja þarf.
Páskaliljurnar, vorið, hjólið og ég. Það er allt sem segja þarf. 

föstudagur, 28. mars 2014

Á föstudagskvöldi er viljastyrkurinn algerlega í lágmarki. Á ég ekki bara að panta kínverskann heim? spyr maður sjálfan sig. Væri ekki næs bara að að ná í poka af maltesers og flatmaga fyrir framan kassann og láta vinnuvikuna líða úr sér? En ég er viðbúin og undirbjó mig fyrir þessi kunnuglegu viðbrögð í gærkveldi. Á meðan að ég eldaði fimmtudagskvöldmatinn eldaði ég líka föstudagskvöldmatinn.

Ég eignaðist fyrir löngu síðan "slow cooker" tæki sem ég kannast ekki við að hafa heyrt um á Íslandi.

"Hæg eldunarpottur"
 Slow cooker er rafmagnspottur sem eins og nafnið gefur til kynna, eldar hægt. Maður smellir bara í hann öllu sem í réttinn á að fara, kveikir á og fer svo í vinnuna. Þegar heim er komið bíður manns svo dásemdar kássa. Gúllas er til dæmis alger snilld í svona tæki.

 Ég semsagt átti til góðan hlunk af svínakjöti. Kryddaði vel með sætri papriku, cumen, coriander, chili, salt og pipar og steikti svo á pönnu til að brúna allt um kring. Setti svo kjötið í pottinn og steikti svo stóran lauk og marinn hvítlauksgeira á pönnunni, hellti 400 ml af kjötkrafti og lét malla smávegis. Hellti svo yfir kjötið og lét eiga sig yfir nótt. Dave kveikti svo á pottinum þegar hann fór í vinnuna klukkan átta í morgun.
Komið upp úr pottinum.
 Þegar við komum svo heim rétt fyrir sjö slökkti ég á pottinum og veiddi hlunkinn upp úr, tók fituna af og tætti svo kjötið niður með gaffli.
Laukmauk.
 Svo síaði ég laukinn frá soðinu og lét svo kjötið og laukmaukið aftur út í pottinn. Hellti svo soðinu aftur út á kjötið í litlum skömmtum og hrærði þangað til að réttum blautleika var náð. Þetta tók um 5 mínútur.
"Rifið svín" eða Pulled pork
Svo fær maður sér bara stóra gommu af kjötinu með hrásalati og avokadó sneið, eða á samloku ef maður borðar svoleiðis. Það er líka geðveikislega gott að setja bbq sósu út á ef maður borðar sykur. Sjálf ætla ég að hanna svoleiðis nema bara sykurlausa.

Og þar höfum við það; viljastyrkurinn uppurinn? Engin afsökun ef maður notar viljastyrkinn frá í gær til að plana aðeins. Eitt núll fyrir Svövu Rán.

fimmtudagur, 27. mars 2014

Hluti af undirbúingsvikunni fyrir sykurdrápið er að upphugsa allar mögulegar aðstæður/ástæður/afsakanir sem ég gæti komið mér í/komið upp/upphugsað til að leyfa sjálfri mér að flaska á sykurleysinu og gefast upp. Eins og allir vita er undirbúiningur lykilþáttur og ef ég veit td að mig langar í nammi á laugardagskvöldum eða í köku með kaffinu á sunnudögum eða þegar ég verð stressuð í vinnunni þá þarf ég að vera viðbúin þessum tímum/tilfinningum.

Vani. Minn eini vandi er í raun vani. Ég er vön að fá mér nammi um helgar. Vön að baka eitthvað djúsi um helgar. Vön að losa um streitu með súkkulaði.

Ég vil ekki gera langtímaforvarnaáætlun, ég ætla að prófa mig áfram með þann þátt. Í þessari viku hef ég staðið upp frá tölvunni í vinnunni og labbað upp og niður stigann til að losa um stress. Ég hef líka einu sinni farið fram í kaffiteríu og tekið einn tetris í símanum. Um helgina er ég búin að plana að búa til sykurlausar kókoskúlur og á sunnudaginn ætlum við að fara í stúss til Liverpool, fara á safn og ég ætla að kaupa mér eitthvað lítið í Keith Brymer Jones safnið mitt.

Með allt á hreinu. Það held ég nú. 

miðvikudagur, 26. mars 2014

Við ætlum til Íslands í sumar. Alvöru ferð um íslenskt hásumar, í bústað yfir verslunarmannahelgi með góðum vinum, grilli, bjór og heitum potti. Skoðunarferðir og stutt vist í Reykjavík. Ekkert smáræðis mikið sem þetta verður skemmtilegt. Og eitt það fyrsta sem mér datt í hug síðast þegar ég planaði ferðina aðeins meira var að ég fengi engan lakkrís.

Enginn lakkrís handa mér. Aldrei framar. Og ég fylltist gífurlegri sorgartilfinningu. Byrjaði að reyna að berjast við tilfinninguna en svo datt mér í hug; hvað ef ég leyfi mér að fylgja þessari tilfinningu til enda? Verð ég geðveik? Byrja ég að grenja og henda húsgögnum út um gluggann? Sest ég í hnipri út í horn og stend aldrei upp aftur? Eða verð ég sorgmædd, leið og jafnvel smávegis reið og held svo bara áfram að lifa lífinu mínu? Hvað ætli að sé líklegasta svarið? Hvernig væri að leyfa að reyna á tilfinninguna án þess að fá mér að borða?

Mér þótti þetta merkileg pæling. Því satt best að segja þá er ólíklegt að ég endi í spennitreyju fyrir það eitt að fá aldrei framar lakkrís. En að fara í gegnum sorgarferli hinsvegar, er það eitthvað svo klikkað? Ég er jú að missa minn traustasta félaga. Gleði og sorg, stuð og leiðindi, alltaf hef ég haft sykurinn með mér. Og lífið án hans hlýtur að vera öðruvísi. Er nokkuð að því að syrgja hann? Taka ferlið bara í heild sinni og díla við afneitun, reiði, prútta og svo sátt og jöfnuðargeð.

Hvernig svo sem ég ákveð að díla við sykurleysið þá hlýtur svona smávegis þerapía að vera skárri en að gera það sem ég vanalega geri; fá mér snickers.

Og já, mér er alvara þegar ég segi að ég ætla aldrei framar að borða sykur. Aldrei framar. Að borða vel og hollt og stunda æfingar og fá sér nammi öðruhvoru er 100% rétta leiðin til að vera hraustur og heilbrigður. Allir ættu að lifa þannig. Það virkar bara ekki fyrir mig. Fyrir utan að sykur er ekki fæðutegund. 

þriðjudagur, 25. mars 2014

Þegar maður er svona rosalega hresst heilsufrík eins og ég þá er best að reyna að gera hlutina eins einfalda og mögulegt er. Í gær t.d kom ég heim úr vinnunni rétt eftir klukkan átta að kveldi til. Hafði farið að heiman rétt eftir sex þá um morguninn. Að vera að heiman í fjórtán klukkutíma býður upp á að maður þurfi að vera heldur betur skipulagður. Það þýðir líka að vegna þess að viljastyrkur er uppurinn á þessum tímapúnkti er enn mikilvægara en ella að vera með eitthvað auðvelt og einfalt á kantinum um leið og heim er komið.

Besta og einfaldasta uppskriftin sem ég veit um er nautasteik. Maður bara saltar og piprar eina sneið af nauti, smellir á pönnu í 3 mínútur eða svo á hvorri hlið. Tekur svo af pönnunni og lætur jafna sig í alveg 10 mínútur. Á meðan gufusýður maður grænmeti og setur smá vatn á pönnuna til að "de-glaze" og fá svona hálfgerða sósu úr öllu djúsinu sem steikin skildi eftir sig. Tilbúið. 10 mínútur max.

Ég er að reyna að borða "hreint" og taka út allan sykur. Ég er semsagt ekki að fara að smella í pulsur eða ömmubaksturspizzu. I takt við einfaldan og auðveldan kvöldmat er daglegi matseðillinn auðveldur og einfaldur:

Morgunmatur - eggjahvítuommiletta með grænmeti og þýsk brauðsneið. Tekur eina mínútu að sletta í þetta að kveldi til og mér finnst gott að borða kalda ommilettu.
Morgunsnarl - Gulrætur og húmmús. Get geymt þetta í ísskáp í vinnunni, handhægt og tilbúið.
Hádegismatur - salat með kjúlla, túnfiski eða eggjum. Bý til salat á meðan ég elda kvöldmat svo það er tilbúið fyrir næsta dag.
Millisnarl - Grísk jógúrt með handfylli að kókósristuðum pekanhnetum.
Kvöldmatur - Kjöt/fiskur og grænmeti. 

Þetta er seðillinn og ekkert mál að fylgja honum. Smávegis undirbúningur í byrjun viku, smávegis plan þegar verslað er inn, gróf hugmynd um hvað kvöldmatur verði. 

Matseðillinn er líka alveg sykurlaus. Og ég er pakksödd og sátt. Lovely þessir hveitibrauðsdaga.

mánudagur, 24. mars 2014

Og svo kom mánudagur. Enginn venjulegur mánudagur, heldur mánudagurinn sem ég tek ábyrgð á sjálfri mér og framtíð minni. Þetta hefst með að finna ástæður sem skipta máli. Hvers vegna vil ég ekki borða sykur eða ruslfæði? Hversvegna vil ég stunda hreyfingu?

Það er ekki nóg fyrir mig að vilja vera sæt eða geta keypt föt í hvaða verslun sem er. Það er ekki það sem ég kalla djúpa ástæðu. Það er heldur ekki nóg að setja markmið eins og að geta hlaupið maraþon eða verða 69 kíló. Þegar markmiðum er náð annaðhvort hættir maður eða verður að spyrja hvað næst? Ég er líka farin að halda að skilyrt markmið geti verið neikvæð. Þannig hlýt ég að vera að segja við sjálfa mig að ég sé ómöguleg nema að ég nái að verða x mörg kíló eða geti hlaupið et styk maraþon, að allur tíminn sem ég er ekki þessi x mörgu kíló eða nógu fitt til að geta skokkað um maraþonsvegalengd sé tími sem ég sé ekki nógu góð.

Nei, það hlýtur að vera betra að reyna að fylgja bara daglegu plani fyrir hvern dag. Plan sem miðar að því að gera það besta fyrir mann þann daginn. Fylgi maður því eftir og framkvæmi dag hvern nú þá hljóta maraþonin og x kílóin að koma sem óhjákvæmilegir fylgifiskar.

Djúpu ástæðurnar mínar eru orðnar heldur alvarlegar.

Ég get ekki lifað með þessum sársauka lengur. Hnén á mér eru hreinlega að gefast upp.
Ég vil ekki fá sykursýki.
Ég get ekki lifað með þessum vonbrigðum með sjálfa mig lengur.
Ég þoli ekki að líða eins og ég hafi ekki stjórn á sjálfri mér.
Ég get ekki vaknað enn einn morguninn enn hálf óglatt eftir ofát fyrra kvölds.
Ég vil vera frjáls.
Ég vil vera sterk.
Ég vil vera stolt.

Ég ætla að borða óunna matvöru, en ég ætla líka að taka aftur úr sykur. Ég bara veit það að ég get ekki lifað heilsusamlegu lífi ef ég viðheld sykuráti. Fyrir mig er ekkert "í hóflegu magni". Það er betra fyrir mig að sleppa þessu bara alveg.

Ég geri mér grein fyrir því sem ég er að segja. Ég er að segja að ég ætla aldrei að borða sykur framar. Engar kökur, ekkert nammi, enginn lakkrís. Ég veit að þetta er drastískt og ég veit ekkert hvort ég geti þetta.

En ég er líka kát og glöð og ég hlakka til. Ég er tilbúin.

sunnudagur, 23. mars 2014

Það er víst enginn að koma að bjarga mér. Það verður að vera útgangspúnkturinn hjá mér. Árum saman hef ég leitað að fullkominni lausn, einhverskonar samsetningu af næringarefnum, æfingum og hugarástandi sem veitir mér lausn frá því að vera fíkill. En það er ekki til. Það er engin kúr sem er frelsarinn, æfingakerfi sem er lausnarinn og hugarástand sem lagar allt. Það eina sem ég þarf að vita er að það að borða þangað til að mig verkjar í síðuna er ekki lausn heldur.

Ég verð áfram stressuð, mér getur enn leiðst, ég verið sorgmædd eða löt. Mér getur fundist ég vitlaus og leiðinleg. Og það er enginn fullkominn matarkúr sem læknar þetta.

Það er bara allt í lagi að vera stressuð, eða finnast ég vera ómöguleg öðruhvoru. Það sem er ekki í lagi er að smyrja tilfinningarnar með súkkulaði. Það er líka allt í lagi að langa svo mikið i nammi að mig langar til að gráta og fá mér samt ekki. Það gerir mig ekki að vondri manneskju.

Það er bara í fínu lagi að bjarga sjálfri sér.

laugardagur, 22. mars 2014

Ég efast ekki um að ég geti auðveldlega orðið 150 kiló, og það innan nokkurra mánaða. Það er bara alveg raunverulegur möguleiki. Ég hef sagt það áður að ég ætli ekki bara að gefast upp og leyfa því að gerast en ég get heldur ekki logið því að ég er ekkert sérstaklega mikið að einbeita mér að þessu sem verkefni. Ég leyfi vinnunni að komast upp á milli mín og manneskjunnar sem ég er í alvörunni. Ég er voðalega stressuð og nota það sem afsökun/tækifæri/hvaðsemer til að róa sálina og taugarnar. Og ég fitna og fitna og líður verr og verr í staðinn fyrir að gera það sem ég veit fyrir víst að róar sál og taugar og það er að borða vel og hreyfa mig meira.

Þetta kemur aftur að viljastyrk. Viljastyrkur er ónýtt afl til að reyna að nota til að komast yfir þessar stundir þegar geðveikin segir mér að það eina sem lagi það sem er að sé snickers. Maður notar nefnilega viljastyrkinn upp yfir daginn, til að vakna, til að fara í vinnu, til að taka ákvarðanir í vinnunni, til að standa við að hreyfa sig... og svo kemur þetta móment þar sem röddin í huganum segir að maður eigi það skilið að fá eitthvað gott... og viljastyrkurinn er uppurinn.

Ég veit að eitt það sem er betra en viljastyrkur er rútina. En fyrst þarf maður að koma þessari rútínu í gang. Ég þarf að leggja mig fram og ég þarf að nota tæki og tól frekar en viljastyrk.

Mitt allra, helsta sterkasta tæki eru skriftirnar. Skrifin og skriftin. Ég hef því tekið heilagt loforð af sjálfri mér að hripa eitthvað niður daglega, á hverjum degi þar til mér líður aðeins betur.



sunnudagur, 9. mars 2014

Ég er núna búin að stunda YAYOG æfingarnar samfleytt í sex vikur. Þessi tími hefur hreinlega flogið hjá. Ég er alltaf að fíla æfingarnar meira og meira. Prógrammið er að þyngjast smá saman en ég er líka aftur að verða manneskjan sem ég er í alvörunni. Þessi sem vaknar fyrir fimm til að stunda líkamsrækt. Hitt er svo að ég er líka búin að slaka aðeins á. Það skiptir ekki máli þó ég missi úr eina æfingu. Þetta snýst ekki um að vera fullkomin, þetta snýst um að sýna samkvæmni. Þetta er búið að vera erfitt, en ég er harðari af mér en svo. "It´s tough, but I´m tougher."

Maturinn verður líka stanslaust auðveldari. Það tók mig smástund en um leið og ég viðurkenndi fyrir sjálfri mér að ég er ekki ofurkjélling og að ég þarf stundum að brjóta odd af oflæti mínu og vega upp tíma versus heilsu versus tilbúnum mat. Frosið grænmeti, tilbúinn húmmus, grænmeti sem er búið að skera, foreldað kjöt, múslí í pakka. Það er kannski flottara að búa til sinn eiginn húmmús og heimatilbúið múslí er með minni sykri en ef ég hef ekki tíma þá er það skárri valkostur að fá húmmús úr dós og múslí úr pakka en að brenna út á tíma og enda uppgefin, fríka út og éta svo eigin líkamsþyngd af snickers.

Við fórum svo í morgun og keyptum nýtt hjól handa mér. Þeir ætla að setja það saman fyrir mig strákarnir í Halfords, setja á það allt aukadótið og svo get ég náð í það á miðvikudaginn. Hjólið er Carrera Crossfire, sem ég er kunnug og finnst gott. Ég keypti líka skotheldan lás á það og þeir kenndu mér trix sem læsir framdekkinu þannig að ef einhver sagar burtu lásinn og reynir að hjóla í burtu þá læsist dekkið og drulluháleisturinn myndi hreinlega fljúga fram yfir sig og vonandi brjóta á sér andlitið. Ég er kannski að bjóða heim vondu karma með að óska svona illu á drullusokkinn, en ég bara get ekki að því gert.

Fína, nýja hjólið mitt. 


laugardagur, 8. mars 2014

Nýja hjólinu mínu var stolið um daginn, að þessu sinni úr vinnunni. Skrifstofubyggingin mín er á stóru skrifstofusvæði, sem er lokað af og maður þarf að sýna passa til að komast inn. Hjólið var svo geymt í þartilgerðri hjólageymslu sem er hálflokuð, upplýst og með myndavélum beint að inngangnum. Og samt labbaði einhver drulluháleistur að hjólinu, tók og hjólaði út af svæðinu án þess að vera stöðvaður af öryggisvörðum. Vinnustaðurinn bætir það ekki, þar eru tilkynningar út um allt þess efnis að bílar og hjól eru þar á ábyrgð eiganda og tryggingarnar mínar ná ekki til hjóls sem er stolið utan heimilisins.

Ég þarf sem sagt aftur að fara og kaupa mér nýtt hjól. Það er mér alveg nauðsynlegt, sérstaklega til að komast í vinnuna en auðvitað líka til að fá örlitla hreyfingu. Ég verð bara algerlega vitlaus í skapinu við tilhugsunina um  að punga út öðrum 3-400 pundum fyrir nýju hjóli. Bara til að halda uppi heróínneyslu einhvers djöfulsins aumingja. Einvhers helvítis grjónapúngs sem getur ekki drullast til að fá sér vinnu. Það er liðin vika núna, vika þar sem ég þarf að hanga í strætó, mæta seint í vinnuna og finna hvernig lungun eru að missa þol. Og enn fæ ég mig ekki til að ná í nýtt hjól. Ég held að ekkert geri mig eins reiða og þetta að verða fyrir svona tjóni. Ég get ekki einu sinni lýst því hvað mig langar til að gera við tussusnúðana sem tóku hjólin mín. Ég er svo reið.

Ég er að reyna að vera jákvæð. Ég þéna nóg til að eiga fyrir nýju hjóli. Ég er nógu hraust til að vera manneskja sem reiðir sig á hjólreiðar til að komast til vinnu. Það er helgi og ég get stússast við að skoða nýtt hjól og kannski verður nýja hjólið enn betra en hin.

Samt.

Mannfýlur.

fimmtudagur, 6. mars 2014

Það þyrmdi aðeins yfir mig í gær. Það var hrikalega heitt á skrifstofunni og ég var bæði í skyrtu og jakka og um þrjúleytið var ég hálförend af hita og svita. Mér fannst ég vera svo skítug og feit og sveitt og hrikaleg. Þetta er tilfinning sem ég hef ekki fundið lengi. Og var reyndar eitthvað sem ég var að vona að ég myndi ekki finna aftur. Og þar sem ég sat við skrifborðið laust niður í mig hvað þetta er ómögulegt verkefni. Að hér sé ég, enn eina fokkings ferðina aftur, enn næstum 30 kílóum of feit.

Og mig langaði svo að fá mér að borða. Súkkulaðihúðað snakk helst. En í miðjum órunum um sykur og fitu datt mér í hug hvað þetta væru sérlega furðuleg viðbrögð við að líða illa yfir því að vera feit. Að vilja borða meira? Ég varð hreinlega að taka skref aftur á bak og analýsera þetta aðeins. Það eitt að skoða þessa skrýtnu löngun fékk mig til að doka við og halda lönguninni aftur.

Mér líður ennþá svona illa í líkamanum, en sálin er öllu borubrattari. Ég gat stoppað mig af þarna, og þó svo að ég verði að viðurkenna að ég er enn að mikla verkefnið fyrir mér þá ætla ég að reyna að standa þennan ágang af mér.

Og spila tetris á meðan að ég bíð.

sunnudagur, 2. mars 2014

Í tvo daga í röð núna er ég búin að fá gleðistraum við hreyfingu dagsins. Allt þar til í gær var þetta búið að vera svona smávegis slen og slor, smávegis erfitt að koma rassgatinu á mér af stað. En í gær gerðist eitthvað, það hríslaðist um mig gamalkunnur testesterón straumur við eina armbeygjuna og það small eitthvað saman í heilanum á mér. Ég finnst svo gaman að vera sterk. Mér finnst geðsjúklega töff að hnykla vöðva. Mér finnst ekkert meira kúl en að geta tekið þungt og lyft því hátt. Og ég er kúl og töff og hnykla vöðvana. Þeir eru þarna ennþá, ég þarf bara að lokka þá fram með smá hrellingum og skipulögðu mataræði. Ekki málið.

Hitt er svo "að grennast er mjög erfitt verkefni og það er enn erfiðara verkefni að viðhalda því þegar kjörþyngd er náð." Svona byrjar lærð grein eftir vísindamenn við Karolinska University Hospital í Svíþjóð. Ég hefði nú svo sem getað sagt þeim þetta án doktorsgráðunnar. Það sem mér fannst hinsvegar merkilegt við greinina er að vísindamennirnir hafa fundið það út að það virðist ekki skipta máli hvernig fólk léttist, það sem skiptir máli er hvernig hugmyndafræði er mynduð við að grenna sig. Þannig er ekki neitt sérstaklega líklegra að manneskja sem léttir sig hægt og rólega haldi spikinu af sér en manneskja sem grenntist á skömmum tíma með kannski drastískari aðferðum. Báðar þessar manneskjur eru jafn líklegar til að fitna aftur. Það er hinsvegar fólk sem er með óraunhæfar tilætlanir um kjörþyngd eða með draumkenndar áætlanir um lífið eftir spik sem er líklegra til að fitna aftur en þeir sem hafa raunhæfar áætlanir um markmiðin sem þeir vilja ná.

Það er skýrt tekið fram í greininni að það er sérstaklega mikilvægur þáttur að stunda þétta sjálfskoðun. Bæði með að vigta sig reglulega ásamt því að skrá niður mat og hreyfingu. Þetta gengur líka dálítið gegn ráðleggingum flestra fagmanna sem vilja að maður vigti sig ekki. Ég veit það bara sjálf að í hvert sinn sem ég hætti að vigta mig þyngist ég hratt og örugglega. Ég get vigtað mig án þess að fara í tilfinningaspaghettí, og ég skil að ég er þyngri að kveldi en að morgni og að ég er léttari þegar ég er búin að kúka og að ég er þyngri þegar ég er á túr. En ég skil líka að þegar ég er búin að þyngjast um fimm kíló á þremur vikum þá er ég í alvörunni búin að þyngjast um fimm kíló. Fyrir mig er þetta ekki vatn, eða tilviljun eða neitt til að hunsa. Þetta er ekki "random number." Ég er undantekningalaust búin að þyngjast um fimm kíló af því að ég borðaði dós af Ben & Jerry´s cookie dough rjómaís á hverju kvöldi þessar þrjár vikur. Þegar ég vigta mig ekki get ég blekkt sjálfa mig til að trúa um tíma að það sé allt í lagi að borða þannig. Þegar ég vigta mig get ég minnt sjálfa mig á að það er bara alls ekki í lagi.

Ég skil að kona sem er 169 cm á hæð og flöktir á milli 65 og 69 kílóa þarf sjálfsagt ekki að einblína svona á vigtina og að fyrir hana eru þetta afstæðar tölur sem ættu ekki að stjórna lífinu. Og ég skil að það er óþarfi að henda sér fyrir björg ef talan á vigtinni er ekki það sem maður var að vonast eftir. En fyrir fólk eins og mig sem í alvörunni fitna um 10 kíló af hreinu spiki á nokkrum vikum er bara lífsnauðsynlegt að standa skil við vigtina. Og að segja annað er að ljúga að fólki.

Ég hélt að ég gæti hætt að vigta mig en það gengur alls ekki upp fyrir mig. Og ekki ætla ég að rífast við lærða Svía, annað væri nú. Ég held bara mínu striki, stunda mína naflaskoðun og vigta lóna.