miðvikudagur, 26. mars 2014

Við ætlum til Íslands í sumar. Alvöru ferð um íslenskt hásumar, í bústað yfir verslunarmannahelgi með góðum vinum, grilli, bjór og heitum potti. Skoðunarferðir og stutt vist í Reykjavík. Ekkert smáræðis mikið sem þetta verður skemmtilegt. Og eitt það fyrsta sem mér datt í hug síðast þegar ég planaði ferðina aðeins meira var að ég fengi engan lakkrís.

Enginn lakkrís handa mér. Aldrei framar. Og ég fylltist gífurlegri sorgartilfinningu. Byrjaði að reyna að berjast við tilfinninguna en svo datt mér í hug; hvað ef ég leyfi mér að fylgja þessari tilfinningu til enda? Verð ég geðveik? Byrja ég að grenja og henda húsgögnum út um gluggann? Sest ég í hnipri út í horn og stend aldrei upp aftur? Eða verð ég sorgmædd, leið og jafnvel smávegis reið og held svo bara áfram að lifa lífinu mínu? Hvað ætli að sé líklegasta svarið? Hvernig væri að leyfa að reyna á tilfinninguna án þess að fá mér að borða?

Mér þótti þetta merkileg pæling. Því satt best að segja þá er ólíklegt að ég endi í spennitreyju fyrir það eitt að fá aldrei framar lakkrís. En að fara í gegnum sorgarferli hinsvegar, er það eitthvað svo klikkað? Ég er jú að missa minn traustasta félaga. Gleði og sorg, stuð og leiðindi, alltaf hef ég haft sykurinn með mér. Og lífið án hans hlýtur að vera öðruvísi. Er nokkuð að því að syrgja hann? Taka ferlið bara í heild sinni og díla við afneitun, reiði, prútta og svo sátt og jöfnuðargeð.

Hvernig svo sem ég ákveð að díla við sykurleysið þá hlýtur svona smávegis þerapía að vera skárri en að gera það sem ég vanalega geri; fá mér snickers.

Og já, mér er alvara þegar ég segi að ég ætla aldrei framar að borða sykur. Aldrei framar. Að borða vel og hollt og stunda æfingar og fá sér nammi öðruhvoru er 100% rétta leiðin til að vera hraustur og heilbrigður. Allir ættu að lifa þannig. Það virkar bara ekki fyrir mig. Fyrir utan að sykur er ekki fæðutegund. 

2 ummæli:

Margrét sagði...

Þeir eru búnir að breyta uppskriftinni á Apollo lakkrísnum. Hann er orðinn bragðvondur og klessist í tönnunum á manni. Þú ert ekki að missa af miklu.

murta sagði...

Haha :) Þetta var gott að heyra Margrét.