föstudagur, 19. júní 2015

Af nýjum og gömlum vinum

Ég er búin að vera í allskonar stússi í vikunni. Eignaðist meira að segja nýja vinkonu. Og ég stússaðist í eldhúsinu, eitthvað sem ég hef ekki gert almennilega í þónokkurn tíma. Ég hafði spjallað heilmikið við stelpu sem ég hitti á einum hjólatúrnum með grúppunni minni fyrir nokkru síðan. Við skiptumst á tölvupósti og um daginn hafði hún svo samband, var að hugsa um að prófa nýjan hring sem var nálægt þar sem ég bý og hvort ég vildi ekki koma með. Mér finnst þetta bæði spennandi og ógnvænlegt. Gaman að hitta nýtt fólk og gera nýja hluti, ógnvænlegt að þurfa að spjalla við ókunnugan í langan tíma. Það reyndist svo ekkert mál, okkur kom mjög vel saman og höfðum um heilmikið að spjalla. Óhjákvæmilega kom upp að ég hefði svo sem ekkert á móti því að léttast aðeins við að hjóla. Og út frá því beindist talið að næringu. Hún var steinhissa þegar ég sagðist hafa verið í stanslausri megrun síðan ég var 11 ára. Og svo flissuðum við að því hversu vel greinilega það gangi hjá mér. Hún aftur á móti hefur aldrei farið í megrun. Og er tágrönn. Ég hef oft hugsað með mér að það sé eins gott að ég hafi verið í stanslausri megrun, ég væri 180 kíló annars. En ef ég segi satt frá þá hefur þessi hugsun breyst aðeins að undanförnu og þar sem við sátum úti í sólinni í Chirk datt mér hug hversu mjó ég væri eiginlega hefði ég aldrei farið í megrun?Alla leiðina tilbaka, í gegnum undurfagra náttúruna í Shropshire og Norður-Wales, yfir Fronctysyllte vatnabrúna og til Rhos var ég að hugsa um þetta. Ef ég hefði aldrei heftað sjálfa mig svona hefði ég bara lært náttúrulega hvað var gott fyrir líkama minn og hvenær ég átti að stoppa? Hefði ég fundið eðlilega hreyfingu og notið hennar án þess að hafa áhyggjur af hitaeiningum brennt? Og það sem er allra mikilvægast; get ég brotist undan áratuga oki megrunarkúra og hugsunarhættinum sem kemur með þeim og einhvern tíman náð að verða heilbrigð? 

Eitt er það sem stendur upp úr og eftir í öllu þessu stússi mínu og það er ekki það að verða grennri. Nei, það sem stendur upp úr og stendur eftir er það sem ég hef gífurlegan áhuga á og það er næringarefni, mataræði og heilbrigði. 

Það er búin  að vera voða gott veður í vikunni og mér fannst komin timi á að búa til létt sumarhitanasl, og hvað betra en ís?

Ég hafði fundið þessar litlu flöskur í Lakeland fyrir nokkru og hef verið að nota út á hafragrautinn eða út í haframúffur og á jógúrt. Datt svo í hug að ég gæti hrært upp kókósmjólk og kakó og notað bragðdropana til að bragðbæta aðeins. Út kom þessir líka ljómandi góði kókóshnetu ís, rétt um 200 hitaeiningar í hverjum skammti og fínn á kvöldin vegna lágmarkskolvetna. 
 Maður þeytir bara saman kókósmjólk (bara þykka hlutann), vanilludropa, smávegis hlynsýróp, salt og kakó ásamt bragðdropunum og frystir svo. Ég frysti í sílíkónmóti og stakk svo bara maisstönglagaffli í til að hafa "handfang" á ísnum. Voðalega gott og gaman að eyða tíma í að búa til eitthvað nýtt. Í annað skiptið sem ég gerði þetta svo bætti ég við macadamia hnetum til að hafa svona smá crunch með líka. 

Í stússinu í eldhúsinu var ég minnt á hvað mér þótti gaman að finna svona alternatives og hvað mér þykir varið í að hugsa vel um heilsuna með því að næra líkamann vel og vandlega. Ég man ekki betur en að ég hafi einu sinni sett fram fullt af uppskriftum hérna. Ég fékk líka oft tölvupósta og komment, frá fólki í svipaðri stöðu og ég fór að velta fyrir mér hvað hafi orðið um þetta fólk. Eruð þið öll grönn og fitt eða eruð þið enn að ströggla svona eins og ég? Mikið þætti mér gaman að heyra frá ykkur. 

fimmtudagur, 11. júní 2015

Af ótroðnum slóðum

 Eins sjálfsörugg og hrokafull ég er þá er ég líka alveg ómöguleg í ókunnum aðstæðum. Mér finnst afskaplega erfitt að hitta nýtt fólk og ég vandræðast lengi með að ímynda mér aðstæður og reyni að semja góðar upphafssetningar. Mér finnst "small talk" alveg sérstaklega erfitt, ég spjalla ekki. Og af því að ég get ekki spjallað fleygi ég mér alltaf út í allt of mikla dýpt og er farin að segja ókunnugum frá mínum innstu leyndarmálum og virka örugglega bara dálítið skrýtin skrúfa. Ég er líka áttavilltasta manneskja sem ég þekki. Og manneskju sem finnst nýtt og óþekkt óþægilegt á sérlega erfitt með að vera áttavillt. Ég get illa lesið kort, skil aldrei hvar ég er í stóra samhenginu og hef ekkert sens á hvar ég er í samhengi við hvert ég vil fara. Eg á enn eftir að læra hvort er hægra og vinstra, notast aðallega við upp og niður í þvi samhengi. Að stoppa og spyrja leiðbeininga er því sérstaklega erfitt því ég get ekki fylgt eftir hægri/vinstri leiðbeiningum og svo er ég líka örugglega farin að röfla við manneskjuna um eitthvað sem skiptir engu máli. Svo sný ég líka alltaf í suður.
Það var þessvegna ekkert smá mál þegar ég ákvað að fara nýja leið heim úr vinnunni. Í fyrsta lagi þurfti ég að skoða kort og reyna að skilja hvert ég átti að fara. Ég vildi reyna að finna leið sem var eins hjólavæn og mögulegt var. Ég lá yfir google maps og var búin að mæla út leið sem ég taldi nokkuð skemmtilega þó hún væri nokkuð lengri en beina leiðin heim. Ég reyndi líka að skoða kortið með það í huga að ég myndi villast (það gerist alltaf) þannig að ég gæti líka kannast við kennimerki og komist aftur  í allavega réttu áttina. Ég prófaði á mánudag og þriðjudag að fara aðeins út af leið, fór sem sagt helminginn af kunnuglegri leið og svo afganginn nýja leið, en í gær var svo komið að því að fara alla leið. Ég var búin snemma í vinnunni, sólin glampaði á himni og vindurinn var í lágmarki. Ég sagði við sjálfa mig að í hvert sinn sem ég hef gert eitthvað sem ég er hrædd við hef ég uppskorið mun meiri gleði en hræðslu. Allt sem ég hef verið að stússast í þessi undanfarin ár hefur verið til að hrista upp í áttavlltu mér og fá mig til að vaxa sem mannseskju. Það er alltaf þess virði. Ég lagði því í hann.

Það er fátt skemmtilegra en að hjóla á fallegum degi í gegnum uppsveitir Cheshire sýslu. Flest bóndabýlin eru byggð á tímum Tudoranna og hér hefur alltaf verið nóg af öllu þannig að öllum byggingum er vel viðhaldið. Svo búa nú mest í þeim núna forríkir fótboltakappar, frekar en bændur. Leið lá í gegnum Chester og Lache og svo út úr Cheshire og yfir í Flintshire. Mjúk fjöllin í Norður-Wales alltaf við sjóndeildarhringinn. 
 Hvert sem litið er sér maður svona fínerí, Tudor byggingar, verkamanna "cottage", kirkjur og óðalssetur. Og hvert sem litið er sér maður líka glitta í kastala, í mismunandi góðu ásigkomulagi. Ég hjólaði eftir því sem bretar kalla B roads, sem eru svona bakvegir og mun skemmtilegra fyrir hjólreiðafólk en að vera á A vegum þar sem er meiri og hraðari umferð. Ég fór í gegnum nokkur lítil þorp sem öll hefðu getað verið bakgrunnurinn fyrir Miss Marple sögur, morð í hverju húsi. 
Ég var svo glöð. Ég var á réttri leið, allt var að ganga upp og ég hló aðeins með sjálfri mér að því hvað lífið er skrýtið. Hvað eru örlögin furðuleg skepna að haga því þannig að hér er ég, fertugur íslendingur að rúlla mér í gegnum sveitavegi í Cheshire á leið heim úr vinnu. Þegar hér var komið voru leiðbeiningarnar minar orðnar dálítið rykugar. Ég stoppaði og snéri við nokkrum sinnum til að kanna hvort ég væri á réttri leið og stoppaði við einn sveitabæjinn til að spyrjast leiðar. Ég var alltaf á réttri leið en var að hafa smá áhyggjur af því að sveitavegirnir voru að breytast meira í sveitaslóða og svo urðu þeir meira svona eins og traktorsför. Reyndar var svakalega skemmtilegt að hjóla þarna, náttúrufegurðin óumdeilanleg og alveg sérlega skemmtilegt að vera algerlega laus við umferð. Ég reyndi að bæla niður allar áhyggjur um að ég væri ekki á réttri leið, sagði við sjálfa mig að ég gæti ekki villst svo langt af leið. Ég hlyti alltaf að lokum að finna eitthvað sem vísaði allavega í átt að Wrexham. Ég hafði lagt af stað rétt fyrir hálffjögur. Þegar ég svo leit á klukkuna og sá að hún var orðin fimm varð ég smávegis skelkuð. Byrjaði að ímynda mér að krákurnar sem voru á sveimi yfir mér væri að plotta að kroppa úr mér augun og velti fyrir mér örsnöggt hvort líkið myndi nokkurntíman finnast. En hristi svo af mér dramatíkina.  Google hafði sagt mér að ferðalagið allt ætti að taka klukkutíma og fjörtíuog fimm mínútur, og ég því langt á eftir áætlun. Ég íhugaði að fara alla leið til baka.  En svo skyndilega kom ég af slóðanum og að Croeshowel og vissi að LLay væri rétt fyrir handan hæðina. Ég var semsagt komin til Wales og frá Llay er rétt um hálftíma ferðalag til Wrexham og allt á hjólabraut. Ég tók því gleði mína aftur og byrjaði að njóta ferðalagsins upp á nýtt. Frá Wrexham til Rhos ákvað ég svo að fara í gegnum Erddig til að halda áfram að njóta sveitaveganna. Og var svo komin heim rétt um klukkan sex eftir rúma tvo og hálfan tíma á hjólinu. 

Ég skal viðurkenna að ég var þreytt í morgun. Rassinn aumur og lærin þreytt. Ferðalagið í vinnuna sem vanalega tekur mig um klukkutíma og tuttugu mínútur var nær klukkutíma og fjörtíu mínútum og ég hugsa að ég taki hreinlega pásu á morgun. Ég er jú, búin að hjóla 230 km á fjórum dögum. En mikið sem ég er glöð með mig. Áttavillta ég get tekið sveitaveginn frá Englandi til Wales. Það er ýmislegt gott sem kemur út úr því að þröngva sér út fyrir þægindahringinn. 

fimmtudagur, 4. júní 2015

Af ýmiskonar katastrófum

Það er alveg sama hvað ég reyni ég bara get ekki komist undir 2300 hitaeiningar yfir daginn. Það er að segja ekki án sorgar, þunglyndis, angistar og kvala. Ekki að ég sé dramatísk eða neitt. 

Þetta á ekki að koma neitt sérlega á óvart. Ef ég skoða BMR (basal metabolic rate) töluna mína fáum við 1815 hitaeiningar yfir daginn. Þetta eru hitaeiningarnar sem ég brenni bara til að framkvæma lágmarks athafnir eins og að anda og láta hjarta dæla blóði. Þegar ég svo nota Harris Benedict regluna til að reikna út lágmarks hitaeiningafjöld sem ég þarf til að viðhalda þeirri þyngd sem ég er í núna fæ ég út 2493 hitaeiningar. Það er BMR x 1.375. Ég nota 1.375 vegna þess að ég er "lightly active". Vinn skrifstofuvinnu en hreyfi mig nokkrum sinnum í viku. Líkaminn er hannaður til að viðhalda þyngd. Líkaminn hefur engan áhuga á að léttast aftur ef fituforði er aukinn. Líkaminn gerir hvað sem er til að verjast öllum tilraunum til að minnka þennan fituforða. Þess vegna er það augljósasta leiðin til að vera grannur að fitna ekki til að byrja með! 

Nei, líkami minn hefur engan áhuga á að láta frá sér eitt gramm af þessari kósý fituklæðning sem hann hefur komið sér upp. Líkami minn veit hvað er fyrir bestu og það er að verjast öllum árásum á fituforðann, alveg sama hversu kænskulegan ég tel hernaðinn vera. 

Ég er semsagt að berjast, og já við skulum nota orðið berjast, gegn óskum eigin líkama. Mér finnst þetta sérlega áhugaverð pæling. Ef það er svona ofboðslega óhollt að vera feitur, hversvegna berst líkaminn svona einarðlega gegn því að léttast? Ég reyni oft að leggja kalt mat á þetta hjá mér. Hvað get ég sagt að sé likamlega að mér sem ég get beint tengt við offitu?

Ég er með ónýt hné. Og það er enginn vafi á að 50 aukakíló í langan tíma hjálpuðu ekki til. Og ég efast ekki um að það væri betra ef ég væri 20 kílóum léttari núna. En ég er líka viss um að þau verði aldrei góð. Þau myndi halda áfram að vera ónýt þó ég væri 60 kíló. 
Ég er kannski með aðeins of háan blóðþrýsting. Ég veit það ekki, ég hef aldrei mælt hann. Ég fæ hinsvegar nokkuð oft hausverk og verð ofurþreytt og af einhverjum ástæðum tengi ég það við blóðþrýsting. En að tengja það við spik? ´Eg er ekki viss, ég þekki bara grannt fólk sem er með of háan þrýsting. 
Ég svitna í sumarhitanum. Kannski meira en ef ég væri grönn. Ég veit það ekki. Ég er að hjóla hratt og ímynda mér að grannt fólk myndi líka hitna aðeins við átökin. 
Ég er í miklu betra formi en mjög margir sem eru mun grennri en ég. Miklu betra formi.
Mér finnst ljótt að vera feit. 
Þar kom það. 
Ég get bara ekki haldið því fram án þess að blikna að mér finnist ég jafn fín núna og ég var fyrir 20 kílóum síðan. Ég var miklu fínni þá. End of. 

Aðfinnslur mínar við spikið mitt eru sem sagt fagurfræðilegar. Og líkama mínum er drullu sama um hvað mér finnst gaman að geta keypt mér kjóla í Zara. Hann kærir sig ekkert um fagurfræði. 

Líkami minn gengur svo langt í baráttu sinni við að halda í spikið sitt að hann flæðir heilann með hórmónum sem láta manni líða vel þegar maður borðar hitaeiningamagnið sem hann telur rétt og pumpar út vanlíðunarhormónum þegar maður reynir að minnka við sig. Hann nýtir hverja hitaeiningu betur en líkamar grannrar manneskju nýtir sínar. 

En ef mér finnst betra að vera mjórri en ég er núna, og það veit gvuð að ég hef reynt að vera sátt og ánægð með að vera ánægð með mig eins og ég er núna, er það eina sem mér dettur í hug að reyna að halda áfram þessum skæruhernaði mínum. Í stað þess að reyna að skera út 500 hitaeiningar á dag er kannski hægt að minnka um 100. Það er örugglega eina leiðin til að plata líkamann til að ná grunnþyngdinni niður. Ég verð sem sagt ægilega grönn og fín um áttrætt. 

Ég gæti líka reynt að breyta fegurðarskyni mínu.

Eða beðið af öllu hjarta eftir katastrófunni sem kastar mannkyninu út í hungursneyð og örbirgð þar sem ég hef nægan fituforða og get hlegið hjartanlega að þvi hversu sniðugur líkami minn var að passa svona vel upp á mig á meðan allt granna fólkið hrynur niður í hrönnum allt í kringum mig.