Það var þessvegna ekkert smá mál þegar ég ákvað að fara nýja leið heim úr vinnunni. Í fyrsta lagi þurfti ég að skoða kort og reyna að skilja hvert ég átti að fara. Ég vildi reyna að finna leið sem var eins hjólavæn og mögulegt var. Ég lá yfir google maps og var búin að mæla út leið sem ég taldi nokkuð skemmtilega þó hún væri nokkuð lengri en beina leiðin heim. Ég reyndi líka að skoða kortið með það í huga að ég myndi villast (það gerist alltaf) þannig að ég gæti líka kannast við kennimerki og komist aftur í allavega réttu áttina. Ég prófaði á mánudag og þriðjudag að fara aðeins út af leið, fór sem sagt helminginn af kunnuglegri leið og svo afganginn nýja leið, en í gær var svo komið að því að fara alla leið. Ég var búin snemma í vinnunni, sólin glampaði á himni og vindurinn var í lágmarki. Ég sagði við sjálfa mig að í hvert sinn sem ég hef gert eitthvað sem ég er hrædd við hef ég uppskorið mun meiri gleði en hræðslu. Allt sem ég hef verið að stússast í þessi undanfarin ár hefur verið til að hrista upp í áttavlltu mér og fá mig til að vaxa sem mannseskju. Það er alltaf þess virði. Ég lagði því í hann.
Það er fátt skemmtilegra en að hjóla á fallegum degi í gegnum uppsveitir Cheshire sýslu. Flest bóndabýlin eru byggð á tímum Tudoranna og hér hefur alltaf verið nóg af öllu þannig að öllum byggingum er vel viðhaldið. Svo búa nú mest í þeim núna forríkir fótboltakappar, frekar en bændur. Leið lá í gegnum Chester og Lache og svo út úr Cheshire og yfir í Flintshire. Mjúk fjöllin í Norður-Wales alltaf við sjóndeildarhringinn.
Hvert sem litið er sér maður svona fínerí, Tudor byggingar, verkamanna "cottage", kirkjur og óðalssetur. Og hvert sem litið er sér maður líka glitta í kastala, í mismunandi góðu ásigkomulagi. Ég hjólaði eftir því sem bretar kalla B roads, sem eru svona bakvegir og mun skemmtilegra fyrir hjólreiðafólk en að vera á A vegum þar sem er meiri og hraðari umferð. Ég fór í gegnum nokkur lítil þorp sem öll hefðu getað verið bakgrunnurinn fyrir Miss Marple sögur, morð í hverju húsi.
Ég var svo glöð. Ég var á réttri leið, allt var að ganga upp og ég hló aðeins með sjálfri mér að því hvað lífið er skrýtið. Hvað eru örlögin furðuleg skepna að haga því þannig að hér er ég, fertugur íslendingur að rúlla mér í gegnum sveitavegi í Cheshire á leið heim úr vinnu. Þegar hér var komið voru leiðbeiningarnar minar orðnar dálítið rykugar. Ég stoppaði og snéri við nokkrum sinnum til að kanna hvort ég væri á réttri leið og stoppaði við einn sveitabæjinn til að spyrjast leiðar. Ég var alltaf á réttri leið en var að hafa smá áhyggjur af því að sveitavegirnir voru að breytast meira í sveitaslóða og svo urðu þeir meira svona eins og traktorsför. Reyndar var svakalega skemmtilegt að hjóla þarna, náttúrufegurðin óumdeilanleg og alveg sérlega skemmtilegt að vera algerlega laus við umferð. Ég reyndi að bæla niður allar áhyggjur um að ég væri ekki á réttri leið, sagði við sjálfa mig að ég gæti ekki villst svo langt af leið. Ég hlyti alltaf að lokum að finna eitthvað sem vísaði allavega í átt að Wrexham. Ég hafði lagt af stað rétt fyrir hálffjögur. Þegar ég svo leit á klukkuna og sá að hún var orðin fimm varð ég smávegis skelkuð. Byrjaði að ímynda mér að krákurnar sem voru á sveimi yfir mér væri að plotta að kroppa úr mér augun og velti fyrir mér örsnöggt hvort líkið myndi nokkurntíman finnast. En hristi svo af mér dramatíkina. Google hafði sagt mér að ferðalagið allt ætti að taka klukkutíma og fjörtíuog fimm mínútur, og ég því langt á eftir áætlun. Ég íhugaði að fara alla leið til baka. En svo skyndilega kom ég af slóðanum og að Croeshowel og vissi að LLay væri rétt fyrir handan hæðina. Ég var semsagt komin til Wales og frá Llay er rétt um hálftíma ferðalag til Wrexham og allt á hjólabraut. Ég tók því gleði mína aftur og byrjaði að njóta ferðalagsins upp á nýtt. Frá Wrexham til Rhos ákvað ég svo að fara í gegnum Erddig til að halda áfram að njóta sveitaveganna. Og var svo komin heim rétt um klukkan sex eftir rúma tvo og hálfan tíma á hjólinu.
Ég skal viðurkenna að ég var þreytt í morgun. Rassinn aumur og lærin þreytt. Ferðalagið í vinnuna sem vanalega tekur mig um klukkutíma og tuttugu mínútur var nær klukkutíma og fjörtíu mínútum og ég hugsa að ég taki hreinlega pásu á morgun. Ég er jú, búin að hjóla 230 km á fjórum dögum. En mikið sem ég er glöð með mig. Áttavillta ég get tekið sveitaveginn frá Englandi til Wales. Það er ýmislegt gott sem kemur út úr því að þröngva sér út fyrir þægindahringinn.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli