föstudagur, 19. júní 2015

Af nýjum og gömlum vinum

Ég er búin að vera í allskonar stússi í vikunni. Eignaðist meira að segja nýja vinkonu. Og ég stússaðist í eldhúsinu, eitthvað sem ég hef ekki gert almennilega í þónokkurn tíma. Ég hafði spjallað heilmikið við stelpu sem ég hitti á einum hjólatúrnum með grúppunni minni fyrir nokkru síðan. Við skiptumst á tölvupósti og um daginn hafði hún svo samband, var að hugsa um að prófa nýjan hring sem var nálægt þar sem ég bý og hvort ég vildi ekki koma með. Mér finnst þetta bæði spennandi og ógnvænlegt. Gaman að hitta nýtt fólk og gera nýja hluti, ógnvænlegt að þurfa að spjalla við ókunnugan í langan tíma. Það reyndist svo ekkert mál, okkur kom mjög vel saman og höfðum um heilmikið að spjalla. Óhjákvæmilega kom upp að ég hefði svo sem ekkert á móti því að léttast aðeins við að hjóla. Og út frá því beindist talið að næringu. Hún var steinhissa þegar ég sagðist hafa verið í stanslausri megrun síðan ég var 11 ára. Og svo flissuðum við að því hversu vel greinilega það gangi hjá mér. Hún aftur á móti hefur aldrei farið í megrun. Og er tágrönn. Ég hef oft hugsað með mér að það sé eins gott að ég hafi verið í stanslausri megrun, ég væri 180 kíló annars. En ef ég segi satt frá þá hefur þessi hugsun breyst aðeins að undanförnu og þar sem við sátum úti í sólinni í Chirk datt mér hug hversu mjó ég væri eiginlega hefði ég aldrei farið í megrun?Alla leiðina tilbaka, í gegnum undurfagra náttúruna í Shropshire og Norður-Wales, yfir Fronctysyllte vatnabrúna og til Rhos var ég að hugsa um þetta. Ef ég hefði aldrei heftað sjálfa mig svona hefði ég bara lært náttúrulega hvað var gott fyrir líkama minn og hvenær ég átti að stoppa? Hefði ég fundið eðlilega hreyfingu og notið hennar án þess að hafa áhyggjur af hitaeiningum brennt? Og það sem er allra mikilvægast; get ég brotist undan áratuga oki megrunarkúra og hugsunarhættinum sem kemur með þeim og einhvern tíman náð að verða heilbrigð? 

Eitt er það sem stendur upp úr og eftir í öllu þessu stússi mínu og það er ekki það að verða grennri. Nei, það sem stendur upp úr og stendur eftir er það sem ég hef gífurlegan áhuga á og það er næringarefni, mataræði og heilbrigði. 

Það er búin  að vera voða gott veður í vikunni og mér fannst komin timi á að búa til létt sumarhitanasl, og hvað betra en ís?

Ég hafði fundið þessar litlu flöskur í Lakeland fyrir nokkru og hef verið að nota út á hafragrautinn eða út í haframúffur og á jógúrt. Datt svo í hug að ég gæti hrært upp kókósmjólk og kakó og notað bragðdropana til að bragðbæta aðeins. Út kom þessir líka ljómandi góði kókóshnetu ís, rétt um 200 hitaeiningar í hverjum skammti og fínn á kvöldin vegna lágmarkskolvetna. 
 Maður þeytir bara saman kókósmjólk (bara þykka hlutann), vanilludropa, smávegis hlynsýróp, salt og kakó ásamt bragðdropunum og frystir svo. Ég frysti í sílíkónmóti og stakk svo bara maisstönglagaffli í til að hafa "handfang" á ísnum. Voðalega gott og gaman að eyða tíma í að búa til eitthvað nýtt. Í annað skiptið sem ég gerði þetta svo bætti ég við macadamia hnetum til að hafa svona smá crunch með líka. 

Í stússinu í eldhúsinu var ég minnt á hvað mér þótti gaman að finna svona alternatives og hvað mér þykir varið í að hugsa vel um heilsuna með því að næra líkamann vel og vandlega. Ég man ekki betur en að ég hafi einu sinni sett fram fullt af uppskriftum hérna. Ég fékk líka oft tölvupósta og komment, frá fólki í svipaðri stöðu og ég fór að velta fyrir mér hvað hafi orðið um þetta fólk. Eruð þið öll grönn og fitt eða eruð þið enn að ströggla svona eins og ég? Mikið þætti mér gaman að heyra frá ykkur. 

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég fylgist alltaf með þér! Fyrir 5 árum var ég á fullu í hreyfingu og var 80 kg. Nú er ég 94 kg og í engri hreyfingu. Þannig ég fer upp og niður í þessu líka og er eins og þú í leit að svarinu.
Finnst oft eins og ég hafi skrifað það sem þú skrifar! Það er bara aðeins betra veður hjá þér ;)

murta sagði...

Gaman að heyra :) Ég er alltaf svo mikið að spá í hvort það sé í alvörunni ekki hægt að halda spikinu af sér. Takk fyrir að kvitta <3

Nafnlaus sagði...

Í sömu súpu, endalaust ströggl, hreyfi mig yfirleitt heilan helling (aðeins mismikið samt), tel mig borða að mestu hollt en sennilega bara heldur mikið ... og ekki kannski alveg eins hollt og ég vil trúa. Vigtin rokkar frá svona 80-90+ ... er í hámarki núna að leita að innblæstri til að tækla mataræðið og byrja að hreyfa mig meira (daglega, það er ekki nóg að fara bara í ræktina 3-4 sinnum í viku og keyra sig svo á skrifstofuna þess á milli).
Er búin að fylgjast með þér lengi og finnst alltaf skemmtilegt og áhugavert að lesa pistlana þína. Svo sammála um að heilsan skiptir öllu máli en mikið ferlega er nú samt leiðinlegt að sjá "slæmar" myndir af sér og hugsa "úps, er ég orðin svona feit?"
Málið er að maður nær ekki að halda fókus... mín reynsla er að til að ná árangri þarf 95% af virkri heilastarfsemi að snúast um það að staðaldri að einbeita sér að því að halda plani og maður verður bara að vippa sér inn á einhverfuróf í þessum málaflokki, og það er erfitt mánuðum og árum saman... Þú skrifaðir einu sinni frábæran pistil um "lygina" um "litlu" breytingarnar sem breyta öllu, þar fannst mér þú hitta nalgann svoleiðis þráðbeint á höfuðið. Lífsstílsbreyting... það er bara flóknara en maður gæti haldið!
Kveðja
Hrafnhildur

Nafnlaus sagði...

Búin að lesa þig frá 2009, hef tekið margar dýfur í heilsumálunum en er alltaf að leita eftir mínum sannleika í þessum málum eins og þú.
Mikið gott og gaman að lesa þínar pælingar.

Nafnlaus sagði...

Ég er bara í mjög svipaðri stöðu og þú... Hef lesið bloggið þitt í mörg ár og sveiflast eins og þú... Það sem mér finnst svo merkilegt við þetta er hugurinn... Þetta snýst eitthvern veginn allt um það að hugurinn sé með... Ég borðaði 1500 kkal á dag lengi lengi og fannst það ekkert mál, snerti ekki nammi og fannst það fínt... Nú er eins og það sé enginn morgundagur, slíkt er ofát mitt...