fimmtudagur, 22. október 2009

þriðjudagur, 20. október 2009"Hvaða dónaskapur er þetta!" hrópaði eiginmaður minn upp yfir sig þegar hann sá mig munda myndavélina í morgun. "Hvað áttu eiginlega við?" spurði ég sakleysislega, "ég er bara að taka mynd fyrir græna ævintýrið mitt." Grænt, meira svona ljósblátt í dag vildi hann meina, en ég veit ekkert um hvað hann er að tala því ég hugsa ekki svona dónalega. Hvað um það, nú er haust hér í Bretlandi og því árstíðin fyrir butternut squash. Aðeins ævintýralegra í dag hjá mér, ég hef aldrei prófað þetta áður. Ég man eftir þessu í Bandaríkjunum en finnst endilega að ég hafi aldrei smakkað. Ég afhýddi og kubbaði niður, og steikti svo á pönnu með lauk, hvítlauk, indverskum kryddjurtum og skellti svo tómatdós, kókósmjólk, kjúklingabaunum og spínati út í pönnuna og lét malla. Uppskriftina fann ég á netinu en þurfti að breyta til að aðlaga því sem ég átti í mínum skápum. Ég er svo búin að skammta þessu niður í nokkra tilbúna skammta og fer með í vinnuna í hádegismat og kvöldmat. Ætla að grípa með gróft pítubrauð svona til að skafa upp úr disknum. Kryddað og hressandi, og aðeins meira framandi en rauðbeður og kál.

mánudagur, 19. október 2009Ævintýri í grænu halda áfram þessa vikuna og eru nú hvorki græn né ævintýraleg. Eða svona þannig. Fyrir mér eru rauðbeður nefnilega ansi ævintýralegt matarval. Hingað til aðeins þekktar sem aðaluppistaðan í því sem ég og bróðir minn nefndum "bleika ógeðið" og því svona frekar ólíklegt að ég fari eitthvað að taka það svona upp hjá sjálfri mér að kaupa og borða þær. Engu að síður þá sá ég þessar fersklegu beður í Co-opinu í gær og hugsaði með mér að það væri nú ansi ævintýralegt ef ég prófaði að setja eins og eina slíka í salatið mitt. Þannig að ég keypti eitt búnt og skar svo niður í salatið sem ég ætla að borða í hádegismat. Mér fannst afskaplega góð lykt af þeim og svo kom svo ofboðslega skemmtileg litasamsetning í salatið mitt. Ég prófaði einn bita og get núna varla beðið eftir að borða salatið. Mikið sem rauðbeður eru góðar! Ég bara hafði ekki hugmynd! Svona er gaman að eldast og þroskast, og ævintýri í grænu eru að reynast vera svona líka frábær hugmynd. Og sannast að það eru svo aldeilis ævintýri í hversdagslegu hlutunum.

sunnudagur, 18. október 2009


Mikið er skrýtið hverning börn vaxa í svona kipp. Allt í einu á Lúkas ekki einar buxur sem passa á hann og ekki get ég komið með barnið til Íslands í stuttbuxum. Við fórum því í bæinn í gær og gölluðum hann upp. Hann þurfti líka í klippingu og sjálfri vantaði mér belti. Jebb, ég eignaðist mitt fyrsta belti í gær sem hefur engan fagurfræðilegan tilgang, heldur er einungis notað til að halda buxum betur á sínum stað. Ég skemmti mér enn konunglega yfir þessum litlu atburðum í nýja lífinu mínu. Við skelltum okkur svo á bíó, sáum Up, sem var alveg hreint ljómandi skemmtun. Þær eru svo fallega gerðar þessar teikni-eða tölvumyndir núna. Eftir myndina fórum við svo á Frankie og Benny´s. Það er enn smá mál fyrir mig að fara út að borða, ég hef alveg stjórn á mér og því sem ég panta, en það er erfitt að reikna út kalóríur á mat sem maður hefur ekki útbúið sjálfur. Og mér finnst enn erfitt að vera með sérþarfir, eins og til dæmis að biðja um skammt af gufusoðnu grænmeti í stað kartöflu og biðja þjóninn um að koma ekki með brauðkörfu. Mér finnst að þegar ég er með sérþarfir eða þegar ég afþakka nammi, kex og kökur þá horfi fólk á mig og hugsi hvað ég haldi eiginlega að ég sé, ég hafi augljóslega ekki afþakkað nammið hingað til. Enn ein fitubollan sem þykist ekki borða mat. Ég veit að þetta er algjört rugl, eina manneskjan sem hugsar svona er ég. En ég bara get ekki af því gert, ég er ægilega meðvituð um þetta. Mér finnst erfitt að borða opinberlega og ég fylgist grannt (no pun intended) með hvað aðrir borða. Og mér finnst hræðilegt að horfa á feitt fólk borða. Vonandi að ég geti lagað þetta til í heilanum á mér, það er ekki fallegt að hugsa svona um samfitubollur mínar.

föstudagur, 16. október 2009

Svona hálf aumingjaleg hundrað grömm farin í morgun sem ég tel nú bara ekki með af því að ég er degi of sein. Smá fúl, er búin að vinna hörðum höndum þessa vikuna, en svona er þetta bara.

Ég á erfitt með að skrifa akkúrat núna, ég hristist öll og skelf eftir átökin í æfingunum núna áðan. Ég kláraði "30 day challenge" í fyrradag og er núna að setja saman mitt eigið prógramm. Og ákvað að taka harkalega á því þessa síðustu viku áður en ég kem heim. Setti í gang Marathon Circuit í morgun. 55 mínútur af hlaupi, lyftingum og hoppum og 463 kalóríum brennt. Ég er svo ánægð með sjálfa mig, það er nefnilega meira en að segja það að gera þetta svona allt sjálfur. Það væri svo auðvelt að svindla, hver sér það svo sem? Enginn, nema ég. Og það er komið nóg af því að ég svindli sjálfa mig út úr öllu því sem maður fær þegar maður er fitt og ánægður. Og koma svo!

fimmtudagur, 15. október 2009Hér hófst dagurinn mjög snemma í morgun; ég þurfti að vera mætt á fund klukkan níu í morgun og Lúkas átti að vera í skólanum klukkan níu tilbúinn í lokaæfingu fyrir "Harvest festival" eða uppskeruhátíð sem fór svo fram seinna um daginn. Týpískt, ákkúrat þann morgun sem ég er í vinnunni. Og vegna þessa flýtings í morgun gleymdi ég að vigta mig. Ég fór út af rútínunni og bara allt í klessu. Og nú þegar ég er komin heim úr vinnunni klukkan hálf ellefu er bara of seint að vigta sig. Ég verð bara að sjá hvað setur á morgun. Þetta var langur dagur sem sé. 13 tímar í vinnunni. Ég hef upplifað skemmtilegri daga svo sem. Og missti af syni mínum fara með setninguna "E is for the earth, providing all our food, with sun and rain to make things grow and give us all that´s good." Og við búin að æfa setninguna alla vikuna. Heather fór fyrir okkur og tók myndir, en af öllum hinum börnunum. Bara þessa einu af Láka. Sjálf hef ég alls engan áhuga á annarra manna börnum þannig að ég skildi þetta ekki alveg en allavega ég á þessa einu af honum. Ég er eiginlega of þreytt til að skrifa núna. Reynum aftur á morgun.

sunnudagur, 11. október 2009


Það virðist sem svo að hægt og sígandi sé ég að breytast aðeins í Breta. Nú er nefnilega komið þannig að ég er búin að finna "pickle" sem ég er hrifin af. Bretar eru afskaplega hrifnir af öllu sem er lagt í edik lög og borða mikið af þessháttar meðlæti. Hér eru tildæmis upp í skáp krukkur fullar af pickluðum eggjum og grænmeti. Og svo allar sósurnar sem eru gerðar með edik sem aðalefni. Svo má að sjálfsögðu minnast á að hér þykir sjálfsagt að hella edik yfir franskar kartöflur. Ég held nú að ég gangi seint svo langt, reyndar ólíklegt að ég fari mikið að borða franskar eitraðar eins og þær eru nú. Ég var komin á tíma með að hrista aðeins til í uppskriftunum mínum um daginn, það er nefnilega svo auðvelt að koma sér í einhverja rútínu og svo fara skammtastærðar að stækka af því að maður þekkir matinn svo vel að maður nennir ekki að vigta lengur og líkaminn fer að þekkja kaloríu fjöldann og vinna nákvæmlega úr honum og maður hættir að léttast. Þannig að öðruhvoru þarf að hrista til í eldhúsinu. Nýja markmiðið mitt sem ég hef nefnt "ævintýri í grænu" er sem sé að ég þarf að prófa nýtt grænmeti eða ávöxt alla vega þrisvar í mánuði. Í síðustu viku prófaði ég kale. Sem er eiginlega svona sambland af brokkólí og káli. Gufusauð það og sauð linsubaunir, kryddaði til og blandaði svo við lauk sem ég hafði hægsteikt á pönnu í 40 mínútur þangað til hann hafði "náttúrusykurbrúnast". Og þetta var alveg svakalega gott og það var allt lauknum að þakka. (Kale er bara kál, ekkert spennó, ætla að grípa eitthvað meira framandi næst) Þannig að eiginmaðurinn elskulegi hélt því fram að ef mér þætti þetta gott ætti ég að prófa að kaupa "caramelized onion" sósu í krukku. Edik, laukur og smá sykur. Sem ég og gerði. Og mamma mía, ég er farin að smyrja þessu á allt, kjúklingavefjur, á ostbita, á salat, allt bara. Detti mér allar dauðar en þessu átti ég ekki von á. God save the queen og lahdidah!

fimmtudagur, 8. október 2009


Ég keypti mér svakalega sætan svartan kjól til að nota í vinnuna og ákvað að skella mér í hann í dag. Ég var svo geggjað sæt, fór í há svört stígvél, smellti á mig eyeliner og sveiflaðist svo um gangana í vinnunni. Þurfti bara öðruhvoru að smeygja mér inn á klósett til að dást að sjálfri mér í speglinum. Alveg þangað til að ég mætti Julie Jackson á rölti um skrifstofuna. Julie er einum 30 árum eldri en ég. Hún er líka stærð 4. Og Julie var í kjólnum mínum, í svörtum háum stígvélum með slettu af eyeliner. Djöfullinn sjálfur! How to go from fab to flab in one easy lesson!
Sérstök verðlaun í dag fyrir að halda mig við það sem ég veit að er rétt og gott fyrir mig eru 1.1 kíló farin að eilífu. Ég held að þetta sé besta mínus kíló frá upphafi vegna þess hversu erfitt mánudagskvöldið var. Síðan þá er þetta aftur ekki búið að vera neitt mál og ég er svo ánægð með að hafa sigrast á sjálfri mér. Ég er núna aftur farin að eygja míní takmarkið mitt. Sjáum hvað setur.

mánudagur, 5. október 2009

Ég er búin að lesa síðu eftir síðu af góðum ráðum um hvernig á að viðhalda lífstílnum. Ég er búin að setja feitu myndina af mér sem screensaver og eitt afrit á ísskápinn. Ég er farin að vitna í Winston Churchill. Ég er með skinny jeans í fanginu til að minna mig á hvað ég hef áorkað hingað til. Ég er búin að biðja Dave um að horfa á mig með vonbrigðasvip ef ég fer inn í eldhús. Ég er búin að drekka 4 lítra af vatni og 2 lítra af kaffi. Ég er búin að segja "fokk it, eitt súkkulaði skiptir ekki máli." Ég er búin að naga hnúana. Ég er semsé "having a bad day." Og já ég veit að eitt súkkulaði skiptir ekki máli, ég varð ekki tæp 130 kíló af einu súkkulaði. En ég get ekki látið undan þessu núna vegna þess að það er ekki á planinu að fá nammi í dag og ef ég fer út af plani þá bara veit ég að það verður auðveldara og auðveldara að fara út af plani. Mér finnst eins og ég sé í hættu á að verða fórnarlamb velgengni minnar. "Þú ert bara fín núna, kommon fáð´ér eitt snikkers." Ég bara vil það ekki. Ef ég fæ mér snikkers núna þá er ég búin að tapa. Hana nú. Þannig að ég skrifa og mér líður betur. Þetta er að líða hjá núna.

Þrátt fyrir að hafa verið viss um að ég hafi aldrei borðað til að deyfa/stjórna tilfinningum þá grunar mig að ég sé svona í kvöld vegna stress yfir að fara með Láka í aðgerðina. Þetta var ekkert mál en ég var samt smá nojuð. Mér finnst þetta allavega vera dálítið mikil tilviljun. En Láki er núna skögultannlaus og tilbúinn í að leyfa fullorðinstönnum að dafna og þroskast og ég er búin að sanna fyrir sjálfri mér að ég hef verkfærin til taks sem ég þarf til að berjast við djöflana mína og sigra.

sunnudagur, 4. október 2009


Hér bankaði upp á maður í morgun og spurði hvort mér þætti ekki tími til kominn að fara að þvo hjá mér gluggana. Og í stað þess að verða móðgun yfir aðdróttunum um léleg verkbrögð mín, varð ég bara að vera sammála manninum. Hann bauðst svo til að gera þetta fyrir mig. Í skiptum fyrir 6 pund á mánuði ætlar hann að koma og sjæna hjá mér alla glugga. Í þágu þess að halda hjólum atvinnulífsins í gangi sættist ég á þetta og er núna semsé með gluggaþvottamann í vinnu hjá mér. Ég nenni ekki einu sinni að afsaka mig með að gera þetta ekki sjálf með því að segjast vera í fullri vinnu, fullu námi og með fullan lífstíl í gangi. Ég nenni ekkert að vera að vesenast með stiga og svoleiðis þegar maður vill gera það fyrir mig. Sem minnir mig á að ég verð líka að taka fram að það er fullt af húsverkum sem mér finnast skemmtileg. Elda auðvitað og stússast í eldhúsinu. Mér finnst gaman að þrífa, þurrka af og ryksuga og skúra. Og mér finnst gaman að vaska upp. Ótrúlegt alveg hreint en ég nota uppvaskið til íhugunar og ráðagerða.
Við erum svo að fara með Láka í smá aðgerð á morgun. Honum vex skringileg skögultönn sem þarf að fjarlægja. Hún er farin að stöðva eðlilegan framgang fullorðinstanna. Tannsérfræðingurinn var að vona að hann gæti gert þetta með staðdeyfingu en vissi það ekki alveg og bað okkur um að búa okkur undir að það þyrfti kannski að svæfa barnið. Sem mér finnst voðalega ónotaleg tilhugsun. En það verður að gera þetta þannig að við verðum bara að bíta í það súra og vona það besta.

fimmtudagur, 1. október 2009

Allt er með kyrrum kjörum á vesturvígstöðvum þessa vikuna. Ég er ánægð, ég er búin að vera að léttast síðustu vikurnar þannig að það var komið að smá pásu hjá mér. Það er að sjálfsögðu smá pirrandi að léttast ekki þegar maður er búinn að telja og vigta og æfa og segja nei takk, en svona er þetta bara. Ég er búin að læra hvernig líkami minn bregst við og ég bjóst ekki við neinu öðru en þessu. Það er skemmtilegra að segja frá því að ég hafði komist úr "morbidly obese" og niður í "obese class 2" og meira að segja er alveg á mörkunum að vera "obese class 1" samkvæmt BMI stuðlum. Og það án þess að taka eftir því. Það eru margir sem eru ekki hrifnir af BMI, segja að hann taki ekki tillit til vöðvamassa og annarra þessháttar þátta. Ég er ekki sammála því, BMI virkar sem skilgreining á líkamsmassa á vel flestu fólki. Maður þarf að vera eins og Arnold Schwarzenegger eða Kobe Bryant til að vöðvamassinn fari að rugla formúluna. Nú kann ég ekki að segja hvað þessar skilgreiningar eru á íslensku en hér í Bretlandi er mikið talað um BMI og þessar skilgreiningar á super morbidly obese, morbidly obese, obese og overweight. Bretar eru nefnilega önnur feitasta þjóð í heimi og sú sem fitnar hraðast. Hér er talað um "obesity epidemic" eða offitu farald. Um 20% kvenna kaupa föt í stærð 18 og hærra en fyrir 10 árum síðan var þessi tala undir 6%. How scary is that? Ég tek eftir þessu meira og meira núna. Sýn mín er alltaf að breytast. Fólk sem ég hefði sagt fyrir 6 mánuðum síðan að væri bara fínt er núna að mínu mati offitusjúklingar. Ég er enn með brenglaða sýn á sjálfa mig en augu mín hafa svo sannarlega opnast fyrir því að fólk er alveg svakalega feitt. Og það er nánast ómögulegt að sleppa við þetta helvíti. Það er matur út um allt, svo ódýr og auðvelt að nálgast hann og því auðveldari og ódýrari sem hann er í meðförum því óhollari en hann fyrir þig. Þrátt fyrir alla okkar menntun og að upplýsingarnar eru fyrir framan nefið á manni ef maður leitar þá veit fólk veit ekkert um næringu og við látum blekkjast aftur og aftur af auglýsingum sem segja LOW FAT! eða SUGAR FREE ! eða ONLY 99 CALORIES!! Mín skoðun er sú að ef þetta er á pakkningunni þá áttu að setja það aftur upp í hillu og labba (eða hlaupa) í burtu eins hratt og þú getur. Allar kaloríur eiga að koma frá alvöru mat og svo á maður að vinna fyrir þeim með hreyfingu. End of. Jámm, slakaðu núna aðeins á gamla mín. Hvað um það það er núna orðið tæpt að ég nái mini takmarkinu fyrir 1. Nóv. Ég ætla nú ekki alveg að gefast upp á því strax en ég ætla líka bara að láta þetta allt ganga sinn gang.