sunnudagur, 21. maí 2017

Af pasta

Það verður að segjast að ég var hálffegin þegar dagur 30 var liðin. Sumar spurningarnar voru erfiðar og vöktu upp allskonar hugsanir sem ég bara hreinlega nenni ekki að díla við eða pæla of mikið í. Núna samt þegar nokkrir dagar eru liðnir og ég búin að hafa tíma til að melta hugsanir held ég að það sem upp úr standi sé þessi hugmynd að ég sé ekki nógu þakklát. Og ég á ekki við að ég sé ókurteis og segi ekki takk (þó það sé reyndar rétt líka) heldur að ég stoppa ekki við og nýt þess sem ég hef í mómentinu. Þetta er dálítið ný uppgötvun og ég þarf að hugsa þetta út og spökulera meira í því hvað þetta þýðir og sérstaklega hvað þetta þetta þýðir í samhengi við spikið. Þetta er þessi hugmynd að njóta þess sem er hér núna, frekar en að gera eins og ég á mikið til, að rjúka út í næsta og næsta og næsta, alltaf að leita að einhverju meira og betra.

Þetta kom til mín sem hugmynd í gær þegar ég var sveitt í eldhúsinu að hnoða pastadeig. Ég finn hvergi betur fyrir hvað það er gott að vera í mómentinu eins og þegar ég vinn að verkefni í eldhúsinu. Það nýjasta er pastavélin mín. Mig er búið að langa í svoleiðis í tvö eða þrjú ár núna. Sá svo á tilboði um daginn og lét slag standa. Er að fikra mig áfram með deig og aðferð en ég verð að segja að það er fátt sem færir mér heim þessa tilfinningu um að í fyrsta lagi að vinna fyrir matnum sem ég borða og svo það hvað það er mikilvægt að finna fyrir andartakinu, og það að búa til pasta.

Deigið er hart og óþjált og það tekur heilmikla vöðvavinnu að klambra því saman í höndunum. En þegar það er svo loksins orðið að mjúkum, gulum bolta gleymist harðræðið. Svo er svo ofboðslega gaman að renna því í gegnum vélina og búa til mismunandi form. Ég er búin að prófa ravíólí og svo það sem ég gerði í gær og fékk mig til að hugsa um þakklætið í andartakinu; lasagna.

Skal ég segja að þetta var besta lasagna sem ég hefi nokkurri sinni borðað? Já ég ætla að halda því fram. Takk fyrir mig.






miðvikudagur, 17. maí 2017

Dagbók í 30 daga -30

Mér tókst það! Hugleiðing daglega í mánuð. Ég þarf eiginlega að lesa yfir heila klabbið í góðu tómi og athuga hvort ég geti komist að niðurstöðu. Aðallega hefur þetta gert mig káta og jákvæða um framtíðina. Hvað geri ég næst!? 

þriðjudagur, 16. maí 2017

Dagbók í 30 daga - 29

29 dagar. Ég er næstum búin með áskorunina, ég er búin að standa við loforð. Ég ákvað að gera þetta og það hefur staðist. Það er eiginlega bara heilmikið afrek akkúrat núna og ég hef í hyggju að halda uppi. Ekki að skrifa á hverjum degi en ég er algerlega aftur komin inn á það að skrifin hjálpa mér. Heilmikið.

Allavega. Í dag er ég spurð að því hvað ég myndi vilja heyra frá öðrum. Hvaða orð þætti mér best að heyra.

Kannski væri gott að heyra einhvern segja að "It's not over until the end. So if this isn't the end it's not over." Kannski væri næs ef einhver myndi segja mér að það sé bara allt í lagi með mig. Engin skilyrði, ekkert af né á, bara að ég sé fín eins og ég er. Kannski væri gott ef það gæfi mér einhver góð ráð, ráð sem ég gæti tekið heilshugar og fylgt eftir. Svo væri gott að heyra: komdu út að leika!

Svo væri líka voða gott að heyra: hér eru milljón pund handa þér.

mánudagur, 15. maí 2017

Dagbók í 30 daga - 28

Hvað hefur farið vel?

Já, það hefur einmitt heilmikið farið vel. Ég er hér enn, ekki aftur orðin 140 kíló, hreyfi mig heilmikið (og mikið meira en ég gerði áður), spái enn og spökulera og er enn viss um að einn daginn fatti ég þetta og geti deilt svarinu með öllum hinum sem eru að spyrja þessara sömu spurninga. Hugsa með sér hvað það verður skemmtilegt!

En aðallega finnst mér velgengni hafa falist í að ég er hér enn.

sunnudagur, 14. maí 2017

Dagbók í 30 daga - 27

Hvað vildirðu hafa gert öðruvísi og hverju hefði það breytt?

Mér finnst þetta bæði hræðileg og óréttlát spurning. Hún vekur upp það eina sem ég hef reynt að bæla niður með valdi og offorsa núna í nokkur ár. Þegar ég leyfi mér að hugsa til þess að ég hef leyft sjálfri mér að fitna aftur verð ég nefnilega máttlaus af reiði og sorg. Ég leyfi mér þessvegna mjög sjaldan að velta mér upp úr þvi. Einstaka sinnum sem ég dreg upp myndir frá 2012 þegar ég var tæp 90 kíló og geðveikislega fitt, og rosalega hamingjsöm. Og þegar ég leyfi sjálfri mér að fara þangað lyppast ég niður af reiði út í sjálfa mig fyrir að hafa leyft spikinu að laumast aftur að mér. Og ég spyr sjálfa mig hvað hefði ég getað gert öðruvísi, hvað gerði ég ekki nógu vel til að koma heilsusamlega lífstílnum það vel í rútínu að ég gæti bara haldið vigtinn við? Hvað meinsemd inni í mér lagaði ég ekki nógu vel til að geta hætt að misnota súkkulaði?

Og ég verð bara reið og pirruð og fæ engin svör. Ef ég fokkings vissi hvað ég myndi gera öðruvísi væri ég ekki feit núna andskotakornið! Það er ekki eins og ég hafi ekki gert þetta áður. 

Ég veit það ekki. Ég veit ekki hvað ég hefði gert öðruvisi.

laugardagur, 13. maí 2017

Dagbók í 30 daga - 26

Hvaða þrjá hluti er ég þakklátust fyrir? 

Auðvelt. Bjartsýnina. Ekkert hefur gert mér betra en þessi ódrepandi bjartsýni mín. Það er eiginlega alveg sama á hverju gengur ég get alltaf leitað inn í mig, fundið ylinn frá bjartsýnisröndinni minni, og strunsað svo áfram hress og kát. 

Fjölskylduna. Mamma mín og pabbi eru engum lík og ég verð klökk þegar ég hugsa um allt það sem ég hef lært af þeim, um hvað það er að vera góð manneskja. Og í stuði. Þau komu líka af einstöku fólki sjálf og ég var nógu lukkuleg að fá að alast upp með allar ömmur og afa í kringum mig til fullorðinsaldurs. 

Hreystina. Ég er hrikalega feit akkúrat núna. En ég fer samt með nýju vinunum mínum í vinnunni í 50 km hjólatúr eins og ekkert sé. Ég er aldrei veik og þrátt fyrir hné og bak er ég hraust og vel byggð. Gæti ekki beðið um meira. 

föstudagur, 12. maí 2017

Dagbók í 30 daga - 25

Á degi 25 get ég litið tilbaka og séð mynstrið í því hvernig ég misnota mat.

Eða get ég það? Ég er alls ekki viss um, hversu rólegri ég verð við að skrifa niður hvernig mér líður, að ég skilji betur hverevegna ég geri það sem ég geri. 

Ég veit fyrir 100% víst að ég borða til að dreifa huganum og að ég þarf að finna mér allskonar áhugaverð verkefni til að fylla gleði í sálina. Áhugamál sem ég svo má fá leið á og gefa upp á bátinn án þess að fá samviskubit. Ég þarf líka að læra aðeins betur að díla við stress. 

Ég nota spikið líka mjög mikið sem hentuga afsökun fyrir að þurfa ekki að gera mitt besta. Til að gefast upp. 

Skrifin veita mér jafnvægi og þau hjálpa til að greina á milli þess sem er mikilvægt og þess sem litlu máli skiptir. Ég fatta líka oft upp á hinu og þessu í gegnum skriftin sem veitir mér ofboðslega gleði. 

Mikilvægasta lexían er að nýr dagur er nýr dagur og að hver nýr dagur þarf ekki að vera merktur af mistökum gærdagsins. 

fimmtudagur, 11. maí 2017

Dagbók í 30 daga - 24

Hvað þýðir það að vera "nógu góð"?

Ég er rosalega hissa á hversu mikið það hefur gert fyrir mig að taka þátt í þessari áskorun, að skrifa smávegis á hverjum degi. Ég fattaði á degi tuttugu að ég hafði náð tuttugu dögum þrátt fyrir að kvarta og kveina yfir því og það var svona smávegis vendipunktur fyrir mig.  Ef ég man rétt þá tekur það tuttuguogeinn daga að koma nýjum sið á fót. Og þegar ég var komin upp í tuttugu er hugsunin orðin að maður getur nú allt eins klárað.

Suma dagana (í gær til dæmis) er rétt svo hægt að telja daginn sem gild skrif. Ein setning sem er styttri en titillinn er vart gild færsla.

Sem færir mig að spurningu dagsins, hvað þýðir að vera nógu góð. Suma daga er það að skrifa eina setningu, telja það að labba út á strætóstoppistöð sem hreyfingu dagsins, og að einfaldlega mæta í vinnuna. Suma daga er meira segja þetta meira en það sem maður hefur orku í að gera.

Suma daga er það að vera nógu góð að skrifa pistil sem hreyfir við sál og vitund lesanda, hlaupa 10 km og lyfta 100 kg í réttstöðu, elda vegan kjöthleif og fá stöðuhækkun fyrir einstaklega vel unnin störf.

Að vera nógu góð er ekki málamiðlun og það er ekki að láta af því að reyna að ná toppframmistöðu. Það er ekki að gefast upp og láta duga. Að vera nógu góð er að láta gossa allan sálfræðipakkann sem maður ber á bakinu og segja nei takk, veistu hvað ég er nógu góð. Það er að láta af öllum sögunum, reynslunum og upplifunum sem segja manni að maður sé ekki nógu góð. Og að taka hvern dag fersk og ný, tilbúin að skrifa nýja sögu.

miðvikudagur, 10. maí 2017

Dagbók í 30 daga - 23

Hvaða ráð myndi eldri ég gefa núna mér? 

Ekki hlusta á neitt sem þessi rugludallur segir! 

þriðjudagur, 9. maí 2017

Dagbók í 30 daga - 22

Hvaða ráð myndi ég gefa ungri sjálfri mér?

Sjitt. 

Vá, hvað þetta er erfitt. 

Ekki fara í megrun, hvað sem þú gerir alls ekki fara í megrun. 
Hreyfðu þig meira, af ánægju og af gleði. Hreyfðu þig meira. 

Og ekki nota lélega brjóstahaldara.

mánudagur, 8. maí 2017

Dagbók í 30 daga - 21

Ég finn fyrir frið og ró þegar...

Þessi setning fór eiginlega alveg með mig. Ég er búin að hugsa um þetta í allan dag og bara kemst alls ekki að niðurstöðu.

Ég verð rosalega oft eirðarlaus og ég á mjög erfitt með að festa hugann lengi við eitthvað eitt. Þessvegna á ég engin sérstök áhugamál. Ég hef aldrei nógu lengi áhuga á einhverju einu til að geta náð einhverju fram. Það er líka oft sem ég ströggla við að finna mér eitthvað til dundurs. Ég bara festi hugann ekki við neitt og dagurinn fer bara í að leiðast án þess í raun að eitthvað komi út úr því og ég ráfa bara um í leit að einhverju að gera. Á sama tíma er ég líka rosalega löt og nenni ekki að gera neitt. Þetta er ástand sem skapar hvorki frið né ró.

Þegar ég hugsa um þetta líður mér bara illa. Ég ætti auðvitað bara að vera að hreyfa mig, í hvert sinn sem mér dettur ekkert í hug að gera ætti ég bara að fara út að hjóla. Mig langar bara ekki alltaf að fara ein. Hjólreiðarnar veita því ekki frið og og ró.

Matur veitir mér bara samviskubit. Meira að segja eins og núna þegar allir skápar eru fullir af hollustu og ég er með vikumatseðilinn tilbúinn og allt er á fúllsvíng hvað hollustu varðar, þá er ég eins og tóm inni í mér. Ég hugsa og plana og er rosalega "góð" en það bara fullnægir mér ekki.

Ekki finn ég heldur fyrir friði og ró þegar ég er að borða eitthvað sem veitir meiri fyllingu, þá finn ég bara oftast fyrir samviskubiti, eða mig vantar meira.

Ég held að það sem mér detti helst í hug er mómentið sem ég sest niður á laugardagsmorgni, þegar ég er búin að þrífa húsið, og fæ mér kaffibolla og les fréttir. Það er svona móment þar sem allt er eins og það á að vera í heiminum.

Er það það sem er átt við? Er það lexían, að friður og ró er vandfundið? Eða á ég að reyna að setja frið og ró í fleiri stundir í deginum?

sunnudagur, 7. maí 2017

Dagbók í 30 daga - 20

Hripaðu niður allt sem veitir þér fölskvalausa gleði og hamingju.

Ég ætla að taka út það sem er gefið; sonur minn og allt sem honum tengist. Hann þarf ekkert að taka fram.

Allt annað sem veitir mér gleði er margvíslegt. Ég get talið up hluti. Allskonar hlutir veita mér gleði og hamingju, og ég verð bara að viðurkenna það. Sænski kertastjakinn minn, finnsku sápuflöskurnar, málverk, myndaramminn með myndunum af mér og Dave í Berlín, rauði anorakkurinn, fataskáparnir. Svo á ég sjóð af tilfinningum sem ég get seilst í og veita gleði. Gleði sem ég finn þegar ég horfi á stafla af fallegum handklæðum í nýskrúbbuðu baðherbergi. Gleðin sem ég finn þegar ég sest niður með kaffibolla á sólríkum sunnudagsmorgni og hlusta á gott podcast í ró og næði, gleðin þegar ég klára verkefni, þegar ég næ að spila lag á gítarinn, þegar ég hitti vini, þegar ég er í göngu með Dave. Allt þetta eru gleðistundir.

En ekkert er betra en að fatta eitthvað nýtt. Og ég fattaði nýtt í morgun, Og er yfir mig æst og glöð og kát og spennt núna. Ég þjáist orðið af einhverju sem sálfræðin kallar "learned helplessness".  Þetta er náttúrulega alþekkt fyrirbæri og eitthvað sem ég hefði alveg getað sagt mér sjálf. Learned helplessness er orð yfir það þegar maður gefst upp fyrir innri mónólógnum sem segir manni að allar fyrri tilraunir hafi mistekist og að það sé þýðingarlaust að halda áfram að reyna. Að maður eigi bara að reykja sígarettuna því maður fái hvort eð er krabbamein. Að maður eigi að borða sér til óbóta því maður verði hvort eð er alltaf feitur, að maður eigi ekkert að rembast við að læra stærðfræði því maður sé hvort eð er vitlaus. Og þegar maður rorrar svo um í spiki, með krabbamein og falleinkun í stærðfræði getur maður sagt; "Sko!, I told you so!"

Learned helplessness er hinsvegar engan vegin fatalísk örlög sem eru óumflúin. Ég er fullfær um að breyta söguþræðinum og ég er nógu vel tjúnuð núna til að geta stoppað þetta hugsanaflæði þegar það kemur. Það er ekki nokkur möguleiki á að bjartsýna ég leyfi þessu að ganga lengra. Fairy fluff þetta hefur farið i fokk hjá mér aftur og aftur en það er ekkert sem segir að það þurfi að gerast núna.

Hugsunarhátturinn. Það er það sem ég þarf að tækla. Ekki spikið.

laugardagur, 6. maí 2017

Dagbók í 30 daga - 19

Hvernig fyrirgef ég? 
Sjálfri mér? Fyrir að haga mér eins og hálfviti? Á ég fyrirgefninguna skilið? Hversu mörg tækifæri á ég að gefa sjálfri mér? 
Spurning dagsins vekur bara upp fleiri spurningar.

föstudagur, 5. maí 2017

Dagbók í 30 daga - 18

Hvað gerir mig stressaða, reiða eða fyllir mig samviskubiti, og hvað geri ég við því? Og hvað fyllir mig hamingju? 

Sem stendur kemur allt mitt stress frá vinnunni. Samviskubitið er svo allt hitt. Hreyfingarleysið, ofátið, drullan og draslið heima hjá mér, hversu lélegt foreldri ég er og enn verri vinur. Stressið og tímaleysið lætur mig svo éta meira til að róa mig niður, ég hef minni tíma til að sinna barni, heimili, hreyfingu og vinum. Og ég verð leið yfir því, borða meira til að róa mig niður og så videre ad nauseum. 

Hamingja felst í vel unnu verkefni, í fallegum mat sem ég hef nostrað við, í tíma eytt í spil og spjall, í hreyfingu og gítarglamri. 

Ég þarf að finna leiðina til að gera það sem skiptir máli og gefa ekki orku í það sem skiptir engu máli.

fimmtudagur, 4. maí 2017

Dagbók í 30 daga - 17

Litið yfir síðustu tvær vikur; hvaða lærdóm get ég dregið af skrifunum.

Ég fyllist aftur bara leiðindum þegar ég les yfir. Þetta er ekkert nýtt. Djöfull sem ég er leiðinleg.

miðvikudagur, 3. maí 2017

Dagbók í 30 daga - 16

Hvað lærði ég um mat og líkama frá móður minni?

Aftur áhugaverð spurning, og enn gef ég mér ekki í alvörunni tíma til að grannskoða svo eitthvað gagn hafist af. Stuttlega samt þá er áhugavert að það sé spurning um mömmu. Eins og það sé gert ráð fyrir því að hegðan hvað mat og líkama varðar lærist frá móður. Og smávegis eins og það sé gert ráð fyrir að maður hafi lært einhverja ósiði frá móður. 

Mamma sjálf segist hafa verið í megrun frá 1968, þá heyrði hún fyrst orðið kaloría. Ég skoða myndir af henni og sé ekki betur en að hún hafi alltaf verið alger bomba. Þvengmjó með risastór brjóst. Svona dálítið kannski eins og ég hefði átt að vera, hefði ég verið mjó. 

Þó svo að ég muni ekki eftir að hafa heyrt hana banna mér eitthvað, eða segja mér að ég hafi núna borðað nóg þá hlýtur hún að hafa gert það. Og ég hlýt að hafa lært um hitaeiningar frá henni. Og það að hún hafi haft áhyggjur af línunum þó hún væri grönn og hraust hlýtur að hafa haft áhrif á mig. Ég fór jú, með henni í vikulegar mælingar í Línunni nokkuð áður en ég náði táningsaldri. 

Auðvitað hlýtur það að hafa haft áhrif á mig. En hvort hún hefði getað gert eitthvað öðruvísi þannig að ég væri núna öðruvísi finnst mér ólíklegt. 

þriðjudagur, 2. maí 2017

Dagbók í 30 dag -15

Ef ekki væri fyrir klandrið með mat, hver væri ég þá? 

Mér finnst einhvern vegin eins og spurningin sé næstum óréttlát. Auðvitað hefur spikið mótað mig, hvernig ég upplifi heiminn og hvernig heimurinn upplifir mig. Allt hefur litast af þessari baráttu. Ég skilgreini mig sem feita og hvernig svo sem það er túlkað þá hefur það merkingu. En að aðskilja og reyna að ímynda mér lífið spiklaust er útilokað. Ég vil nefnilega alls ekki bara segja að ef ég hefði alltaf verið mjó þá hefði allt verið rósrautt ský og ekkert vandamál. Ég hefði sjálfsagt fundið upp á einhverju til að angra mig, loðnar tær eða eitthvað. Fyrir utan að ég neita að trúa því að eitthvað hefði verið betra, það er bara of depressing. Það er, og hefur alltaf verið, allt í lagi með mig. 

mánudagur, 1. maí 2017

Dagbók í 30 daga -14

Hver er mín stærsta daglega hindrun/áskorun hvað mat varðar?

Ég fæ aldrei nóg. 

Ekkert fyllir upp í holuna.