miðvikudagur, 23. apríl 2008

Þvílík dýrð og himnasæla, tveir frábærir sólardagar í röð. Sumir alveg með á nótunum; sá stelpu í dag í gegnsæjum hvítum bómullar(bol)kjól, meðan að við sem lögðum af stað í vinnuna áður en þoku létti í morgun vorum íklædd ullarkápum og kjánasvip á sveittu andlitinu. Mikið er gaman þegar sólin skín, ég planaði samstundis kaup á gasgrilli sem ég ætla svo að láta pabba handera í júlí. Komin fram úr sjálfri mér að sjálfsögðu en get ekki að því gert en að hlakka til sumarsins. Er líka að spá í að fjárfesta í trampólin í garðinn. Held að ég viti um lítinn mann sem myndi glaður hoppa burt sumarið. Svona í nánari framtíð er ég bara rétt að vona að þetta forskot á sumarið haldi yfir helgi, það væri svo gaman að geta boðið ömmu og afa og frænku upp á svona yndislegheit.

mánudagur, 21. apríl 2008Við fengum Hörpu í heimsókn hingað til Wrexham um síðustu helgi og fórum svo til Milton Keynes til að hitta hana og hennar slekti núna um helgina. Tilefnið að Ásta var í stuttu stoppi á Bretlandseyju og tilvalið að reyna að hittast.
Lúkas var ánægður að hitta frænku sína og gat sýnt henni allskonar ósiði, hopp og læti. Það var æðislegt að hitta Ástu og ég vona að það verði reglulegur atburður að hittast svona. Það var líka gott að sjá að það er ekki jafn langt til MK og ég hélt, vonandi að við gerum meira af heimsóknum héðan frá enda Arnar góður kokkur og þess virði að keyra í 3 tíma fyrir fylltu sveppina hans.

Við bíðum svo núna spennt eftir næstu helgi. Það berast nefnilega mikil tíðindi úr norðri. Nú hyggja amma og afi í víking og munu gera hér strandhögg með frænku að fararstjóra. Ég er með ægileg plön um skoðunarferðir hingað og þangað, en skemmtilegast verður að sýna afa og ömmu húsið mitt og Rhos þannig að þau viti loksins hvernig mitt nánasta umhverfi er.


Að lokum er hér mynd handa pabba, Lúkas sýnir vöðvana og segjist vera eins sterkur og afi. Þið afsakið hvað þetta er illa uppsett hjá mér, ég er eitthvað að eiga í vandræðum með innsetningar á myndum, finn út úr því næst þegar ég er í tövlustuði. Ég er svo svekkt yfir að vera orðin óskrifandi og hálfótalandi á íslensku að ég veit ekki hvort ég nenni að blogga mikið meira. Mér finnst eins og að ég sé að tapa hluta af sjálfri mér með þessu stami mínu.

fimmtudagur, 10. apríl 2008Píparinn búinn og farinn og hér sést lokaafurðin. Sturtan er svo beint á móti vaskinum, undurfalleg og silfurlituð. Verst hvað ég er lélegur ljósmyndari.
Ég á reyndar eftir að hengja upp spegilinn, hann á að vera fyrir ofan kranana sem er svo smekklega settir á vegginn. Þeir eru svo í stíl við sturtuna. Litaþemað er fengið frá lifanid orkideu sem er í glugganum, hvítt, plómulitað og brúngrátt.

Ég setti "fyrir" myndirnar á disk og nenni ekki að ná í þær en treystið mér þetta er ótrúlegur munur. Allt skínandi hreint og fallegt og mín hönnun. Já, þessi dagur verður bara vart betri, nema að ég var að vigta mig og er búin að léttast um 4 kíló síðan á mánudaginn. Er ég lukkuleg eða hvað?

mánudagur, 7. apríl 2008

Píparinn er á fullu inni á baði, mér sýnist hann vera búinn að rífa allt gólf-og veggefni af og er að rífa upp baðið. Gviiiiðð hvað þetta er spennandi!

Í öðrum fréttum þá er ég í meira stuði núna, er búin að finna leið til að gera vel við mataræðið án þess að bæta á mig of mörgum hitaeiningum og án þess að þurfa að hætta að elda. Já, ég ætla að stússast í að læra að nota heilsufæði. Spelti, kókosfeiti og ávaxtasykur. Jafn spennandi og nýtt baðherbergi ef ekki meira!

föstudagur, 4. apríl 2008

Það eru upp-og niðursveiflur í gangi hérna megin. Ég er ekki búin að koma mér aftur inn í svíng með breyttan lífstíl síðan um jól en ákvað að nú væri gott komið og byrjaði upp á nýtt á mánudaginn. Ákvað að vigta mig til að hafa aftur byrjunarreit og kemur þá ekki í ljós að ég er ekki bara búin að éta á mig aftur kílóin 15 sem ég hafði barist við að missa, heldur er búin að bæta 3 til viðbótar. Ótrúlegt hvað þetta er erfitt. Allavega, eftir smá taugaáfall ákvað ég að ég yrði bara að sætta mig við að vera neydd til að fara í svona magaaðgerð. Rannsakaði það ferli og ákvað að það væri ekki valmöguleiki. Sem þýðir að þetta er síðasti séns. Ef mér tekst þetta ekki núna þá drepst ég. Og ég er ekkert sérstaklega spennt fyrir því heldur. Þetta er bara svo flókið. Á sama tíma og ég get ekki hugsað um neitt annað en mat og skoða í sífellu hitaeiningasnauðar uppskriftir og "alternatives", er ég svo leið á þessu öllu og langar bara í sígarettu. Á ég kannski bara að byrja að reykja aftur? Afhverju þarf þetta að taka svona yfir allt saman. Mig langar að komast í gegnum klukkutíma án þess að vera í taugastrekki yfir því hvenær ég fæ næst að borða og hvað það þá er. Panikk yfir hvað ég á að maula á eftir mat, mér finnst svo gott að fá eitthvað sætt eftir mat, get ekki borðað sætt núna, hvað þá, hvað þá, hvað þá!!!!!! Á ég kannski bara að gefast upp? Ef ég er óhamingjusöm þegar ég borða og ég er óhamingjusöm þegar ég borða ekki skiptir þetta allt saman nokkru máli? Eða er kannski betra að vera óhamingusöm og grönn en óhamingjusöm og feit. Djísús kræst.