fimmtudagur, 23. febrúar 2017

Áróður


Lúkas er í vetrarfríi og við mæðginin ákváðum að nota tækifærið og smella okkur í nokkra daga til London til að skoða svona helstu mann-og menningarvirki. Lúkas er mikill söguáhugamaður og þá sér í lagi um styrjaldirnar fyrri og síðari. Hann var því einna kátastur í Imperial War Museum þar sem hann drakk í sig upplýsingar um hrylling stríðsreksturs. Að sjálfsögðu fann ég þar í minjagripaversluninni þessa eftirprentun af áróðursplakati sem talaði til mín. Skilaboðin skýr þó nánast aldargömul og eiga vel við þó af öðrum ástæðum en þá.

Hugsunarleysi er sjálfsagt eitt af mínum stærstu vandamálum hvað mat varðar. Ég er búin að missa tökin á því sem ég var orðin svo flink við; að eyða einum degi vikunnar í að skipuleggja matinn fyrir komandi viku, elda og plana. Núna fer ég í búðina á leið heim úr vinnu, gríp eitthvað rugl með mér og er svo ekki með neitt skothelt í nesti daginn eftir. Ég er líka hætt að gefa mér tíma í að stússast í eldhúsinu og sakna þess.

Ég ætla þessvegna að leggja áherslu á þetta núna næstu vikurnar. Koma mér aftur inn í skipulagið þar sem ég setti up vikumatseðil, fékk allt í hann sent heim vikulega og eyddi svo tíma í að undirbúa eldamennskuna svo það var ekkert mál að koma heim á kvöldin og elda góðan og hollan mat. Hitt er svo að það að minnka kjöt og hveiti og nýta afganga kemur svona ósjálfrátt þegar maður skipuleggur sig vel.

Það er með þetta eins og allt annað í lífstílnum; bara það að taka ákvörðunina að gera eitthvað lætur mér líða betur. Þetta snýst jú, allt um að taka ákvörðun og standa við hana, einn dag í einu.

föstudagur, 17. febrúar 2017

Úff

Það er alkunnugt meðal okkar heilsuáhugafólks að það að færa sig út fyrir þægindaramma (comfort zone) er lífsnauðsynlegt ef maður ætlar að gera lífstílsbreytingar af einhverri alvöru. Það er augljóst að ef maður ætlar að gera varanlegar breytingar til hins góða er varla hægt að halda áfram að hjakka í sama farinu.

Fyrir mér eru litlar, óvæntar breytingar í rútínu það sem ég á hvað erfiðast að díla við og það sem ég þarf einna helst að taka á. Það er voðalega lítið mál að skrá sig í eitt fallhlífarstökk, hoppa úr flugvél og segja svo frá því það sem eftir lifir. Jú, út úr bókstaflegum þægindaramma í þær mínútur sem hoppið varar en hvað með það? Í alvörunni? Ég er frekar að tala um þægindarammann sem t.d. fyrir mér gerir það nánast útilokað að mæta í ræktina eftir vinnu.

Ég hef reynt áður en á miðvikudaginn var svo komið að ég hafði bara ekkert val. Það var annaðhvort að mæta eftir vinnu eða sleppa æfingu í heila viku. Og það er bara of mikið. Ég mælti mér því mót við Paddy og krullaðist svo um í angist allan daginn í ofan á lag við stressið í vinnunni. Reyndi að senda honum skilaboð tvisvar eða þrisvar yfir daginn til að afboða komu mína en þröngvaði mér alltaf til að ýta ekki á send. Ég yrði bara að mæta.

Þetta var jafn hræðilegt, ef ekki hræðilegra en ég hafði ímyndað mér. Ég var þreytt og júskuð eftir daginn. Ræktin var algerlega stútfull af fólki og við þurftum að bíða eftir öllum lóðum og/eða breyta æfingum. Svitalyktin var svo megn að ég þurfti að anda í gegnum munninn sem er ekki gott lúkk fyrir mig. Ég var orkulaus og það leið næstum yfir mig í lok æfingar ásamt því að þurfa að gubba af áreynslu. Þetta var ömurlegt. Klukkan var svo orðin sjö þegar ég loks komst heim og þá átti ég eftir að gera mig tilbúna fyrir daginn eftir, elda kvöldmat, sturta mig og sinna léttum heimilstörfum. Ég var ekki kát. 

En, ég mætti, ég gerði æfingarnar mínar og er því enn í takt við prógrammið mitt. Ég drapst ekki, og ég náði að gera allt sem ég þurfti að gera þó ég hafi verið dálítið þreytt. Ég drapst ekki.

Spurning er hvort ég hafi lært það sem maður á að læra á að fara svona út fyrir þægindarammann sem er einmitt það að gera tekist á við svona misfellur í litla, daglega lífinu. Ég veit að ég á eftir að mikla það fyrir mér ef ég þarf einhvern tímann aftur að gera þetta. Ég get líka bent á að praktíkin að mæta klukkan 6 að morgni fremur en 6 að kveldi er miklu meiri, ef ekki nema bara fyrir það að það er meira pláss í ræktinni.  En ég veit núna að ég drepst ekki og að þetta er hægt. Það er náttúrulega alltaf sjéns á að ég þurfi að endurtaka þetta á einhverjum álagstímanum. Ég ætla bara að gera allt sem í mínu valdi stendur til að passa að svo verði ekki.

sunnudagur, 5. febrúar 2017

Þetta verður allt í lagi. Allt.

Mér datt í hug um miðjan daginn á fimmtudag, þar sem ég var að troða þriðja pain au chocolat stykkinu upp í mig að ég hefði átt að taka myndir af öllu sem ég borðaði þann daginn. Svona eins og ég tek myndir af haframúffum, grísku jógúrti og grænmetisréttum væri bara rétt og gott að mynda líka bestíuna. En ég fékk mig ekki til til þess. Meira að segja ég er ekki tilbúin til að sýna sannleikann svo hráan. Ekki heldur á föstudaginn þegar veislan hélt áfram.

Ég reyndi af fremsta megni að njóta. Ég reyndi að "eiga" ákvörðunina að borða svona. Í stað þess að gera díl við sjálfa mig (þú mátt borða svona núna af því að á mánudaginn færðu bara vatn) reyndi ég að segja við sjálfa mig: ef þú borðar svona þá veistu að þér á eftir að líða illa í maganum, fá verki í liði, þjást af samviskubiti og sjálfshatri og skemma alla vinnuna sem þú hefur lagt í ræktina með Paddy sem kostar 120 pund á mánuði en það er allt í lagi því þetta er þín ákvörðun, þú átt hana og þetta er greiðslan sem þú ert tilbúin að borga.

Málið er að ég er ekki tilbúin í gjaldið. Ég rorraði um í samviskubiti í gær. Mér leið hræðilega. Vaknaði snemma, fór í ræktina og reyndi að hugsa ekki um þetta. Það hefur ekkert upp á sig að analýsera þetta neitt frekar. Ég er rebel. Það er bara þannig. Ég var að garfa um síðustu helgi í tækni sem stoppar binge át. Og að sjálfsögðu hafði það í för með sér að ég binge-a. Ég var ein heima í tvo daga að vinna að sérstaklega stressandi verkefni. Auðvitað leggst ég í smjördeig. Ég er búin að setja mér óraunhæft kílóamarkmið fyrir 1. mars. Auðvitað geri ég uppreisn gegn því.

Þetta er djöfull pirrandi þetta að vera ekki í alvörunni fullorðin. Að ég skuli enn gera uppreisn gegn reglum sem voru settar á mat þegar ég var barn. Ég ræð núna. Ég er fullorðin. Ég á að vita það. En ræð ekki við neitt. Það er líka hrikalega pirrandi þetta sambandsleysi á milli heila og hjarta. Allt sem ég veit og skil í heilanum segir mér að það sé vont að borða þrjú pain au chocolat í einu. Að það sé vanvirðing við líkama minn. En hjartað mitt segir mér að ofát sé eina leiðin til að vera "góð" við sjálfa mig. Að einu verðlaunin fyrir stress, leiðindi, hamingju, reiði, allt sé að borða þar til ég verð veik.

Ég vældi aðeins í mér í gær um að þessi mánuður með Paddy væri í raun sóun, það væri engin tilgangur í að mæta í ræktina ef ég ætla svo bara að naga mig í gegnum nammirekkann á sama tíma. En um leið og ég hugsaði þetta kom upp í mér hugsunin að það væri í raun þveröfugt. Það hafi verið sérstaklega mikilvægt að mæta fjórum sinnum í ræktina á viku á þessum tíma. Því með því að gera það veit ég að þetta ofát er tímabundið. Ræktin og hreyfing hefur staðið sína pligt. Ég er ekki óalandi og óferjandi. þvert á móti, ég er enn íþróttamaður. Ég á einn daginn eftir að skilja hvað það er sem lætur mig haga mér svona, ég á meira segja kannski einn daginn eftir að ná tökum á þvi. Þangað til ætla ég bara að lyfta þungum lóðum og hafa gaman að því.