Mér datt í hug um miðjan daginn á fimmtudag, þar sem ég var að troða þriðja pain au chocolat stykkinu upp í mig að ég hefði átt að taka myndir af öllu sem ég borðaði þann daginn. Svona eins og ég tek myndir af haframúffum, grísku jógúrti og grænmetisréttum væri bara rétt og gott að mynda líka bestíuna. En ég fékk mig ekki til til þess. Meira að segja ég er ekki tilbúin til að sýna sannleikann svo hráan. Ekki heldur á föstudaginn þegar veislan hélt áfram.
Ég reyndi af fremsta megni að njóta. Ég reyndi að "eiga" ákvörðunina að borða svona. Í stað þess að gera díl við sjálfa mig (þú mátt borða svona núna af því að á mánudaginn færðu bara vatn) reyndi ég að segja við sjálfa mig: ef þú borðar svona þá veistu að þér á eftir að líða illa í maganum, fá verki í liði, þjást af samviskubiti og sjálfshatri og skemma alla vinnuna sem þú hefur lagt í ræktina með Paddy sem kostar 120 pund á mánuði en það er allt í lagi því þetta er þín ákvörðun, þú átt hana og þetta er greiðslan sem þú ert tilbúin að borga.
Málið er að ég er ekki tilbúin í gjaldið. Ég rorraði um í samviskubiti í gær. Mér leið hræðilega. Vaknaði snemma, fór í ræktina og reyndi að hugsa ekki um þetta. Það hefur ekkert upp á sig að analýsera þetta neitt frekar. Ég er rebel. Það er bara þannig. Ég var að garfa um síðustu helgi í tækni sem stoppar binge át. Og að sjálfsögðu hafði það í för með sér að ég binge-a. Ég var ein heima í tvo daga að vinna að sérstaklega stressandi verkefni. Auðvitað leggst ég í smjördeig. Ég er búin að setja mér óraunhæft kílóamarkmið fyrir 1. mars. Auðvitað geri ég uppreisn gegn því.
Þetta er djöfull pirrandi þetta að vera ekki í alvörunni fullorðin. Að ég skuli enn gera uppreisn gegn reglum sem voru settar á mat þegar ég var barn. Ég ræð núna. Ég er fullorðin. Ég á að vita það. En ræð ekki við neitt. Það er líka hrikalega pirrandi þetta sambandsleysi á milli heila og hjarta. Allt sem ég veit og skil í heilanum segir mér að það sé vont að borða þrjú pain au chocolat í einu. Að það sé vanvirðing við líkama minn. En hjartað mitt segir mér að ofát sé eina leiðin til að vera "góð" við sjálfa mig. Að einu verðlaunin fyrir stress, leiðindi, hamingju, reiði, allt sé að borða þar til ég verð veik.
Ég vældi aðeins í mér í gær um að þessi mánuður með Paddy væri í raun sóun, það væri engin tilgangur í að mæta í ræktina ef ég ætla svo bara að naga mig í gegnum nammirekkann á sama tíma. En um leið og ég hugsaði þetta kom upp í mér hugsunin að það væri í raun þveröfugt. Það hafi verið sérstaklega mikilvægt að mæta fjórum sinnum í ræktina á viku á þessum tíma. Því með því að gera það veit ég að þetta ofát er tímabundið. Ræktin og hreyfing hefur staðið sína pligt. Ég er ekki óalandi og óferjandi. þvert á móti, ég er enn íþróttamaður. Ég á einn daginn eftir að skilja hvað það er sem lætur mig haga mér svona, ég á meira segja kannski einn daginn eftir að ná tökum á þvi. Þangað til ætla ég bara að lyfta þungum lóðum og hafa gaman að því.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli