föstudagur, 17. febrúar 2017

Úff

Það er alkunnugt meðal okkar heilsuáhugafólks að það að færa sig út fyrir þægindaramma (comfort zone) er lífsnauðsynlegt ef maður ætlar að gera lífstílsbreytingar af einhverri alvöru. Það er augljóst að ef maður ætlar að gera varanlegar breytingar til hins góða er varla hægt að halda áfram að hjakka í sama farinu.

Fyrir mér eru litlar, óvæntar breytingar í rútínu það sem ég á hvað erfiðast að díla við og það sem ég þarf einna helst að taka á. Það er voðalega lítið mál að skrá sig í eitt fallhlífarstökk, hoppa úr flugvél og segja svo frá því það sem eftir lifir. Jú, út úr bókstaflegum þægindaramma í þær mínútur sem hoppið varar en hvað með það? Í alvörunni? Ég er frekar að tala um þægindarammann sem t.d. fyrir mér gerir það nánast útilokað að mæta í ræktina eftir vinnu.

Ég hef reynt áður en á miðvikudaginn var svo komið að ég hafði bara ekkert val. Það var annaðhvort að mæta eftir vinnu eða sleppa æfingu í heila viku. Og það er bara of mikið. Ég mælti mér því mót við Paddy og krullaðist svo um í angist allan daginn í ofan á lag við stressið í vinnunni. Reyndi að senda honum skilaboð tvisvar eða þrisvar yfir daginn til að afboða komu mína en þröngvaði mér alltaf til að ýta ekki á send. Ég yrði bara að mæta.

Þetta var jafn hræðilegt, ef ekki hræðilegra en ég hafði ímyndað mér. Ég var þreytt og júskuð eftir daginn. Ræktin var algerlega stútfull af fólki og við þurftum að bíða eftir öllum lóðum og/eða breyta æfingum. Svitalyktin var svo megn að ég þurfti að anda í gegnum munninn sem er ekki gott lúkk fyrir mig. Ég var orkulaus og það leið næstum yfir mig í lok æfingar ásamt því að þurfa að gubba af áreynslu. Þetta var ömurlegt. Klukkan var svo orðin sjö þegar ég loks komst heim og þá átti ég eftir að gera mig tilbúna fyrir daginn eftir, elda kvöldmat, sturta mig og sinna léttum heimilstörfum. Ég var ekki kát. 

En, ég mætti, ég gerði æfingarnar mínar og er því enn í takt við prógrammið mitt. Ég drapst ekki, og ég náði að gera allt sem ég þurfti að gera þó ég hafi verið dálítið þreytt. Ég drapst ekki.

Spurning er hvort ég hafi lært það sem maður á að læra á að fara svona út fyrir þægindarammann sem er einmitt það að gera tekist á við svona misfellur í litla, daglega lífinu. Ég veit að ég á eftir að mikla það fyrir mér ef ég þarf einhvern tímann aftur að gera þetta. Ég get líka bent á að praktíkin að mæta klukkan 6 að morgni fremur en 6 að kveldi er miklu meiri, ef ekki nema bara fyrir það að það er meira pláss í ræktinni.  En ég veit núna að ég drepst ekki og að þetta er hægt. Það er náttúrulega alltaf sjéns á að ég þurfi að endurtaka þetta á einhverjum álagstímanum. Ég ætla bara að gera allt sem í mínu valdi stendur til að passa að svo verði ekki.

Engin ummæli: