fimmtudagur, 23. febrúar 2017

Áróður


Lúkas er í vetrarfríi og við mæðginin ákváðum að nota tækifærið og smella okkur í nokkra daga til London til að skoða svona helstu mann-og menningarvirki. Lúkas er mikill söguáhugamaður og þá sér í lagi um styrjaldirnar fyrri og síðari. Hann var því einna kátastur í Imperial War Museum þar sem hann drakk í sig upplýsingar um hrylling stríðsreksturs. Að sjálfsögðu fann ég þar í minjagripaversluninni þessa eftirprentun af áróðursplakati sem talaði til mín. Skilaboðin skýr þó nánast aldargömul og eiga vel við þó af öðrum ástæðum en þá.

Hugsunarleysi er sjálfsagt eitt af mínum stærstu vandamálum hvað mat varðar. Ég er búin að missa tökin á því sem ég var orðin svo flink við; að eyða einum degi vikunnar í að skipuleggja matinn fyrir komandi viku, elda og plana. Núna fer ég í búðina á leið heim úr vinnu, gríp eitthvað rugl með mér og er svo ekki með neitt skothelt í nesti daginn eftir. Ég er líka hætt að gefa mér tíma í að stússast í eldhúsinu og sakna þess.

Ég ætla þessvegna að leggja áherslu á þetta núna næstu vikurnar. Koma mér aftur inn í skipulagið þar sem ég setti up vikumatseðil, fékk allt í hann sent heim vikulega og eyddi svo tíma í að undirbúa eldamennskuna svo það var ekkert mál að koma heim á kvöldin og elda góðan og hollan mat. Hitt er svo að það að minnka kjöt og hveiti og nýta afganga kemur svona ósjálfrátt þegar maður skipuleggur sig vel.

Það er með þetta eins og allt annað í lífstílnum; bara það að taka ákvörðunina að gera eitthvað lætur mér líða betur. Þetta snýst jú, allt um að taka ákvörðun og standa við hana, einn dag í einu.

Engin ummæli: