þriðjudagur, 29. september 2009


Eins og áður hefur komið fram þá finnst mér alveg sérstaklega leiðinlegt að strauja. Aðalástæðan er sú að ég geri það svo illa. Ég kuðlast bara um með efnið, enda alltaf á að strauja krumpur fastar í bakið, hita járnið of mikið eða sprauta vatninu eitthvað vitlaust þannig að ég enda með bletti. Þannig að ef ég er að vera hreinskilin hérna þá verður núna að koma í ljós að ég hef svona mestmegnis bara sleppt öllu strauji. Dave sér um sínar vinnuskyrtur sjálfur og ég, ég fattaði upp á frábærri aðferð. Skyrturnar mínar eru svo þröngar að það bara svona teygðist úr flestum krumpum þegar ég var komin í þær og restin liðaðist úr þeim svona með líkamshita. Sem kemur okkur þá að vandamálinu. Skyrturnar mínar eru bara ekki nógu þröngar lengur. Það teygist ekki á neinu, nema svona rétt yfir brjóstin. Ég verð að viðurkenna að ég gerði ekki ráð fyrir því að það að grennast þýddi að ég þyrfti að fara að strauja. Og þar höfum við það, hið skítuga leyndarmál sem granna fólkið er búið að halda leyndu fyrir okkur fitubollunum; það er leiðinda vinna að vera fínn og sætur!

mánudagur, 28. september 2009


Þetta var mikil dásemdarhelgi. Eins mikið og ég elska son minn og nýt þess að eyða tíma með honum þá er líka alveg svakalega gaman þegar hann fer í "sleepover" með frændum sínum tveim. Við skiluðum honum af okkur um klukkan 10 á laugardagsmorgun og fórum svo og fengum okkur brunch í Wrexham. Veðrið var svo gott að við sátum á borði úti og horfðum á Wrexhambúa stússast við helgarinnkaupin. Svo fórum við heim og ég ákvað að taka til í fataskápnum. Og fann þar þónokkuð af buxum sem ég hélt að ég gæti notað í smástund lengur en svo kom á daginn að það væri ekki möguleiki lengur. Ég er búin að pakka þessu öllu niður í kassa sem er rembilega merktur Oxfam því ekki sé ég ástæðu til að halda í þær. Ekki ætla ég að nota þær aftur. Geymi einar svona fyrir comedy mynd þegar ég er komin í kjörþyngd. Mynd þar sem ég skælbrosandi toga í strenginn svo það sést að ég gæti komið tveimur af mér fyrir í buxunum. Mér fannst líka svaka gaman að komast að því að gallabuxur sem ég hélt að væru enn fínar á mér eru orðnar svo stórar að ég gat farið í þær tvær í einu utan yfir þær sem ég passa í. Hann er nú hálftómlegur skápurinn minn; þrennar buxur og fjórar peysur. Og einn killer kjóll. Ég ætla að láta þetta duga svona fram að jólum þegar kannski ef allt gengur að óskum get ég keypt allt nýtt. Í nýrri stærð. Fingers crossed. Mér finnst eins og það gangi allt svo vel núna að ég hreinlega held í mér andanum og bíð eftir að eitthvað hræðilegt gerist. Ég er alltaf að eiga svona móment þar sem ég finn svo vel fyrir breytingunni, sé hvað allt er betra núna, hvað mér líður betur, hvað allt er frábært. Ég trúi því bara ekki að þetta geti haldið svona áfram. Ég fékk svo indverskan í verðlaun. Hér er indverskur matur núna orðinn að þjóðarrétti Breta. Tikka Masala var valinn þjóðarréttur fram yfir "fish and chips". Að fá svo að sofa út á sunnudegi eru forréttindi sem maður tekur ekki létt og ég nýtti mér tækifærið til hins ýtrasta og svaf til hálf tíu! Yndislegt svona þegar maður er vanalega vakinn um 6 leytið. Svo bara gott kaffi, Ideal Home Magazine og slúbbertheit fram eftir degi. Er bara hægt að óska sér einhvers meira? Ég bara held ekki.

föstudagur, 25. september 2009

Mér hefur verið tíðrætt um áhuga Breta á kortum og hversu mér finnst skrýtin þessi árátta þeirra. Ég gef nefnilega ekki mikið fyrir kort sem eru gefin af hálfum hug, og það hefur verið svona það sem ég hef mest haft út á þetta að setja fyrir utan svo hversu ósmekkleg flest kortin eru. Eins og kortið sem Helga og Ólína djókuðu með að gefa mér til að þakka fyrir gistinguna. Bleikt, með loðinni kanínu og glimmer og nokkrum hjörtum. Gott ef það hafi ekki verið lítill íkorni með blöðru líka. Og ekki spyrja mig um Breta og jólakort! Þeir gefa jólakort hægri og vinstri til fólks sem þeir þekkja ekki, og senda bara með prentuðu kveðjunni, kvitta ekki einu sinni, og rífa svo kortið sem þeim er gefið upp fyrir framan þig og verða vandræðalegir þegar þeir lesa handskrifaða kveðju sem var skrifuð með alvöru hug að baki. En hvað um það. Í kvöld fékk ég nefnilega kort sem mér þótti afskaplega mikið til um. Við erum að breyta vinnuprósessnum í vinnunni og því fylgir að teymið mitt verður ekki teymið mitt lengur. Ég tek við alveg nýju fólki á mánudaginn. Og teymið mitt tók það upp hjá sér að kaupa handa mér blóm og sykurlaust tyggjó (þau vita að konfektkassi hefði ekki verið til neins gagns) og kvittuðu svo öll á kort þar sem þau þökkuðu fyrir samveruna. Ég var mjög snortin, enginn hinna stjóranna fékk svona frá sínu teymi. Og fyndast þótti mér að öll minntust þau á hversu gaman það hefði verið að fá að kynnast íslenskum stjórnunarstíl. Þannig að hér í Wales erum við Íslendingar sko alls ekki hryðjuverkamenn!

fimmtudagur, 24. september 2009


Í dag hef ég lést um akkúrat 40% af því sem ég vil léttast um. 800 grömmin sem yfirgáfu svæðið þessa vikuna ýttu mér að þessari fallegu mælistiku. Ég sit hérna og stari á excel spreadsheet-ið mitt sem ég fylli inn samviskusamlega í hverri viku (hvað heitir spreadsheet á íslensku?) og er svona nett að velta fyrir mér hvort ég sé farin að leggja of mikla áherslu á vigtina. Ef lykillinn að velgengninni er að breyta hugsun og hegðun fremur en að vera í megrun þá er það kannski ekki nógu sniðugt að vigta sig 5 sinnum á dag og skrásetja svona hvert gramm í hverri viku. Ég nebblega verð að viðurkenna að mig er búið að langa alveg svakalega í megrun núna. Bara svona í smástund áður en ég kem heim svo ég nái örugglega mini-takmarkinu sem ég er búin að setja mér fyrir heimkomuna. Bara svona smá megrun þar sem maður borðar bara 18 egg alla vikuna og léttist um 7 kíló á viku, bara svona smá, plís,plís leyfðu mér að fara í megrun! En nei segi ég við sjálfa mig softly, softly catches monkey, ef ég fer í einhverja öfga núna þá spring ég á limminu og 30 vikna vinna og 40% af takmarkinu verða til einskis af því að 18 egg og ekkert annað er ekki eitthvað sem hægt er að halda út til lengdar. Þannig að ég er búin að gera díl við sjálfa mig. Ég má halda áfram að vigta mig svona öfgakennt þangað til að ég hef náð takmarki mínu hvað vigt varðar. Það má vel vera að ég verði alltaf að vigta mig svona oft bara til að passa að ég haldi mig við lífstílinn. Ég má setja mér svona mini-takmark en ég má ekkert gera öfgakennt til að ná þeim og ef ég næ þeim ekki þá má ég ekki gefast upp. Ég verð líka að setja mér markmið sem hafa ekki neitt með vigtina að gera til að minna mig á að þetta snýst ekki um að vera 71 kíló heldur um að vera fitt og hraust. Í þessari viku er það að hlaupa í 5 mínútur stanslaust. Þetta kemur allt með kalda vatninu.

mánudagur, 21. september 2009

Ef ég gæti bara tekið þennan nýja lífstíl og útskýrt þannig að aðrir gætu notið góðs af, ef ég gæti útskýrt afhverju þetta er að virka fyrir mig núna, ef bara ég gæti gefið uppskriftina af þessu. Allt þetta fólk út um allan heim sem er að kaupa sér sjeik og pillur og líkamsræktarkort sem eru aldrei notuð, með samviskubit og er ekki að lifa lífinu til hins ýtrasta. Eyðir milljónum í drasl sem er einskis virði og að mestu líkindum skilur mann eftir feitari en þegar maður byrjaði. Líkindareikningur segir nefnilega að aðeins 5% þeirra sem fara í megrun tekst að komast niður í kjörþyngd og aðeins 3% ná að viðhalda þeirri þyngd í 10 ár eða lengur. Líkurnar eru semsé ekki mér í hag. Og þessvegna er ég, þrátt fyrir velgengnina, þrátt fyrir að líða í alvörunni eins og ég ráði núna loksins yfir sjálfri mér, í nánast stanslausu kvíðakasti. Ég bíð eftir að gera eitthvað sem skemmir allt. Bíð eftir deginum sem ég vakna og ákveð að ég sé ekki þess virði að berjast fyrir lengur. Eða það sem verra er deginum sem ég fer að taka slæmar ákvarðanir og fatta það ekki fyrr en ég er aftur orðin feit. Ég nefnilega innst inni trúi því ekki að þetta sé svona auðvelt. Ég er aldrei svöng, mig langar ekki óstjórnlega í nammi, ég er búin að ná tökum á frídeginum, ég geri æfingarnar mínar án þess að hugsa mikið um það. En kannski að ég sé bara búin að finna svarið og ég sé svo heppin að ég komist í þennan elítuhóp fimm prósentanna? Kvíðakast eða ekki, bjartsýnisröndin inn í mér sem er sterkari en efasemdarhlutinn vonar að svo sé.

sunnudagur, 20. september 2009


Við Lúkas skemmtum okkur konunglega í Chester í gær, skildum Dave eftir heima með kvef og kverkaskít og tókum lestina upp úr hádegi. Röltum í nokkrar búðir, skoðuðum í þaula hús sem var byggt 1508 og sátum svo eins og fínt fólk á Latino café og drukkum skinny latte og kók. Það er voða gaman að fara með Láka út að borða, hann situr alveg rólegur og spjallar bara. Svo fórum við í dótabúð og skoðuðum allt dótið og löbbuðum svo út ÁN þess að kaupa neitt og ÁN þess að einhver væri með væl. Sem var alveg æðislegt. Kannski að litla frekjumýslan mín sé að þroskast og læra að stundum fær maður ekki allt þó svo maður eigi mömmu sem er með stanslaust samviskubit og er alltof undanlátssöm. Við fórum líka inn í Boots þar sem ég fann stuðningsbindi fyrir hnéð. Svaka pakkning en gerir líkamsræktina óneitanlega auðveldari; heldur voða vel við hnéð þannig að ég er ekki stanslaust með óróa yfir því að hnéð smelli í sundur. Svo er ég búin að ákveða að panta tíma hjá sérfræðing. Það hlýtur að vera hægt að gera eitthvað.
Þessi sunnudagur er svo búinn að vera alveg svakalega góður svona fyrir mig. Sunnudagar eru vanalega frítt spil, ég bara borða það sem mig langar í. Til að byrja með raðaði ég í mig öllu því sem ég hafði "misst af" yfir vikuna. En fattaði svo að snickers verður alltaf til, það er svo sem engin ástæða til að panikka yfir því. Svo fór ég að vera aðeins meira vandlát og bjó til "worth it" listann minn; sætindi sem eru það góð að þau eru þess virði að eyða í þau kaloríum. Og hélt mig við hann. En svo núna síðustu tvo eða þrjá sunnudaga hef ég bara fengið mér hnetur og döðlur. Fór svo út í C0-Op núna áðan til að ná mér í "eitthvað gott" en bara langaði ekki í neitt. Hringsnérist um búðina og grandskoðaði hillu eftir hillu af jólasúkkuði (yes you heard me!) Ég minnti sjálfa mig á að það væri heil vika þangað til ég mætti næst borða nammi, en svaraði sjálfri mér til að þetta drasl yrði örugglega enn til eftir viku þannig að það væri nú allt í lagi, fyrir utan að ég borða "eitthvað gott" alla vikuna. Ég fæ grískt salat, og jógúrt með hnetum og þýsk brauð og kjúklingavefjur og eggjakökur og perur og og og ... allt alveg ógeðslega gott. Væri bara ekki alveg í lagi bara að sleppa sætindunum ef mig í alvörunni langaði ekki í? Ég greip reyndar lítið stykki af camembert sem ég ætla að borða með kexi og sultu á meðan ég horfi á rómantíska gamanmynd í kvöld en það er nú mikið í lagi. Það er nefnilega allt í lagi með mig. Ég er kannski ekki alveg laus við geðveikina en ég kalla þetta nú að hafa allgóða stjórn á henni.

fimmtudagur, 17. september 2009

Ég tók þessa viku og massaði hana. Massaði. Ég er köttuð og fitt og tónuð og tönuð með köggla. Og skóf af mér 1.7 kíló af hreinu smjöri. Jess!

Mér er alltaf illt í hnénu. Alveg síðan ég fyrst slasaði mig 1993 og þrátt fyrir 3 mismunandi skurðaðgerðir þá er mér bara alltaf illt. Það er skárra eftir því sem ég verð léttari en engu að síður öðruhvoru misstíg ég mig (eða dansa á háum hælum í 4 klukkutíma!) og hnéð fer í klessu og ég get lítið sem ekkert æft á meðan ég bíð eftir að bólgan hjaðni. Síðan ég byrjaði að gæla við hugmyndina að labba Laugaveginn og svo upp úr því hvað ég þrái að fara út að hlaupa hefur hnéð verið að angra mig meira og meira. Ég hleyp hér heima í tölvunni en það er ekki sama hreyfingin og ef maður hleypur úti. Og í þau tvö skipti sem ég hef reynt að fara út meiði ég mig alveg svakalega. Ég ákvað því að fara til læknis til að tékka á hvað er hægt að gera. Og fékk góðar fréttir og slæmar. Læknirinn minn vill setja veggspjöld með myndum af mér útum allt. Hann er svo ánægður með mig. Honum finnst reyndar betra að ég sé hætt að reykja en er líka svona massa ánægður með megrunina. Ef allir gerðu þetta þá myndum við spara heilbrigðiskerfinu milljarða. Þannig að ég var ánægð með það. En hann bað mig um að sleppa hlaupum. Hvort ég gæti ekki haldið mig við líkamsrækt sem væri með minna "impact". Hann sagði að ég þyrfti að fara til sérfræðings til að láta líta á hnéð almennilega en hann hélt að það væri ekki mikið hægt að gera. Það er bara ónýtt. Þannig að það eina sem hjálpar núna er bara að halda áfram að létta sig, halda mig við lyftingarnar og vona svo að fyrr en síðar fái ég að fara út að hlaupa. Af því að ég ætla ekki að gefast upp á þeim draumi.

mánudagur, 14. september 2009


Í marslok þegar ég lagði lokahönd á undirbúning fyrir nýja lífstílinn minn byrjaði ég að horfa á raunveruleikaþættina The Biggest Loser. Fyrsta serían sem ég horfði á var sú fyrsta sem var tekin upp í Ástralíu. Og ég fylgdist með af áfergju, enda ekkert sem hjálpar jafn mikið í stríðinu við offitu og að finna að það eru aðrir eins og þú þarna úti; að þú ert ekki einn í heiminum að kljást við þetta helvíti. Og eins mikið og ég er á móti hvernig er tekið á megruninni í þáttunum (það er önnur og lengri færsla) þá er ég alveg húkkt. Ég bar sjálfa mig saman við þáttakendurna og var sammála þeim að það væri fáranlegt að leyfa 102 kg konunni að fá að vera með; hún var bara skinny bitch í augum okkar alvöru fitubollanna! Ég horfði svo á eina seríu frá Ameríku, númer 4 held ég, og enn bar ég mig saman við stærstu konurnar. Ég byrjaði svo í fyrradag á 3 seríunni minni, þeirri annarri sem er tekin upp í Ástralíu. Og fattaði að ég er minni en minnsta konan. Ég væri skinny cow ef ég fengi að vera með í Biggest Loser! Eitt eða tvö kíló í viðbót og ég er ekki keppnishæf lengur. Og þar með enda allir draumar um að vinna 200.000 pund fyrir að fara í megrun. Ég verð víst bara að láta mín eigin verðlaun duga.

sunnudagur, 13. september 2009Þessi helgi var gjörólík hinni síðustu en mikið yndisleg líka. Í þetta sinnið var bacardi-ið alveg látið vera en áherlsan á fjölskylduna. Við stússuðumst aðeins í garðinum á laugardagsmorgun og svo kom Salisbury-fjölskyldan til okkar og við röltum öll saman í Ponciau Banks. Það er í raun og veru róluvöllurinn hans Lúkasar og stundum er þar svona fjölskylduhátíð. Við vorum svona heppin með veður um helgina, rúmlega 20 stiga hiti og glampandi sólskin. Krakkarnir voru í essinu sínu, hlupu á milli hoppukastala og trampólín og hringekju og skemmtu sér konunglega. Svo sté svið lókal hljómsveit og spilaði svona líka undurvel, minnti mig helst á Fleet Foxes. Og alltaf svo gaman að sitja úti í sól og hlusta á læf tónlist. Við röltum svo aftur hingað heim og fengum eitt hvítvínsglas úti í garði. Eftir eggaldin í kvöldmat tók við heilmikið sessjón í Wii þar sem við Dave stundum skylmingar, bogfimi og hjólreiðar. Alveg svaka stuð og betra en að sitja eins og klessur í sófanum.

Lúkasi var svo boðið í afmæli til Cade frænda síns í dag. Þannig að á meðan hann skemmti sér á Makka Djé með nuggets og svo á trampólín fengum við Dave að slaka á og lesa bók alveg í rólegheitum. Og það er fátt betra en svoleiðis frítt spil þegar sunnudagar fara vanalega í að byggja skýjaborgir úr Legó kubbum.

Ég fékk svo smá heimþrá. Fattaði að þetta tímabil er það lengsta sem ég hef verið frá Íslandi. Belgía náði 11 mánuðum og hingað til hef ég aldrei haft lengra en 10 mánuði á milli heimferða en núna verða rúmir 14 mánuðir á milli. Það er ósköp langur tími fyrir súper Íslendinginn mig. Og mega Þollara. Mjög langur tími. Mikið svakalega hlakka ég til að koma heim.

föstudagur, 11. september 2009


Ég byrja setningar alveg svakalega oft á "rannsóknir sýna að..." og það er vegna þess að ég hef komist að því að vísindin hafa verið mitt skæðasta vopn í baráttunni við bumbuna. Rannsóknir sýna núna að súpa er eitt það besta sem fólk sem vill léttast getur borðað. Ef maður fær sér kjúklingabita, kartöflu, gulrót og drekkur vatnsglas með þá verður maður svangur aftur mun fyrr en ef maður blandaði vatninu við máltíðina og borðaði í súpuformi. Vatn eitt og sér virðist nefnilega ekki stoppa við í maganum og er þessvegna ekki "fylling" eins og margir halda. En ef það er sett saman við matinn þá helst það lengur í maganum og efnið ghrelin sem líkaminn framleiðir þegar við erum svöng helst í skefjum. Ég er búin að vera að stússast núna í nokkra daga að prófa mig áfram með súpur, þó mér finnist þær góðar þá er ég nú lítið að elda þær. En nú þegar aðeins er farið að kólna úti er alveg tilvalið að fara að stússast í þessu. Ég er búin að vera að prófa mig áfram með kartöflusúpu sem sló svo í gegn á heimilinu að ég er búin að elda hana tvisvar og frysta í hentugum einingum. Það er náttúrulega alveg frábært að geta fryst, að hafa holla máltíð alltaf tilbúna er það alla mikilvægasta í þessu stússi öllu. Súpur eru ódýr og einföld lausn á máltíð þannig að meira að segja þó svo að maður sé ekki í megrun þá er alveg tilvalið að fara að skoða uppskriftir. Passa sig bara á brauðinu með.

fimmtudagur, 10. september 2009


Ég var að gæla við þá von að ég gæti tilkynnt hérna að Bacardi og Kók væri besta megrunarlyf í heimi og þó að það sé nokkuð gott, 200 grömm farin þessa vikuna, þá er það kannski ekki alveg það sem við erum að leita að. Ég er himinlifandi. Sambland af áti, drykkju og hnémeiðslum sem varna líkamsrækt og mér tekst samt að léttast aðeins.


Bretar eru svona að eðlislagi frekar innundir sig með ýmislegt. Þeim finnst til dæmis erfitt að hrósa og fá hrós. Allt er svona smá djók og eins mikið og þeir spjalla þá er oftast lítið spjallað um hluti sem skipta máli. Það hefur því komið mér á óvart að fólk er núna farið að stoppa mig í mismunandi hornum í vinnunni til þess að varlega impra á að ég hafi nú grennst aðeins. Svo undantekningarlaust gerist það sama. Fólk spyr hvað ég sé að gera og ég sé vonarneistann í augunum þegar vonin um að ég segi "ég er að taka inn þessa töfrapillu sem leyfir mér að lifa á kleinuhringjum, djúpsteiktum svínarifjum og snickers og samt grennast." Og svo vonbrigðin þegar ég segi að ég borði minna og hreyfi mig meira. Og þá kemur hin setningin; "ég vildi að ég hefði þennan viljastyrk." Og ég er búin að velta þessu fyrir mér fram og aftur. Ég man ekki eftir mér öðruvísi en feitri. Mismunandi feitri en alltaf feit. Og ég man ekki eftir neinu sem ég hef viljað meira en að vera mjó. Ég held að ég geti gengið svo langt að segja að ef eitthvert almættið hefði boðið mér að velja um að vera mjó og heimsfrið þá hefði ég þurft að hugsa mig um. Ég hef viljað að vera mjó meira en að vera klár, að ganga vel í skóla, að vera í góðri vinnu. Að vera mjó er það eina sem ég hef í alvörunni viljað. Þannig að ef að það er eitthvað í heiminum sem maður vill svona mikið og það eina sem þarf að gera er að borða minna og hreyfa sig meira af hverju er ég ekki mjó og hef verið síðan ég var 12 ára? Þannig að ég get lofað með hönd á hjarta að þetta hefur ekkert með viljastyrk að gera. Akkúrat ekki neitt. Þarf maður viljastyrk til að vaska upp? Eða til að strauja? Til að leika Legó í 4 klukkutíma? Til að skrifa ritgerð, hell til að vakna klukkan 7, smyrja nesti og mæta í vinnuna á réttum tíma allavega 5 daga vikunnnar? Ekki kannast ég við að fólk noti gífurlegan viljastyrk til þessara verkefna. Nei, maður einfaldlega gerir þetta vegna þess að maður verður að gera það. Og það er enginn munur hér á. Ég hata að þvo þvott. Ég hata að flokka, stinga í vél, hengja upp, brjóta saman. Mér finnst meira að segja leiðinlegt að setja hreint aftur inn í skáp. En ég geri þetta samt allt saman án þess að hugsa mikið um það og svo reyni ég að finna leiðir til að gera þvottinn ánægjulegra verkefni. Og svo eru dagar þar sem ég bara sleppi því að þvo. Ég tók ákvörðun um að gera það að ánægjulegu verkefni að borða minna og hreyfa mig meira. Og mér hefur tekist það. Simple as that. Og það er stóra leyndarmálið. Að vakna á morgnana og taka ákvörðun að dagurinn í dag verði góður dagur. Já, og svo að öðruhvoru bara að sleppa því að þvo.
PS. Að hætta að reykja. Það krafðist viljastyrks.

þriðjudagur, 8. september 2009

Mikið svakalega var gaman um helgina. Við verlsuðum og borðuðum og drukkum og dönsuðum og töluðum út í eitt þannig að ég er alveg dauðþreytt í dag, en það er góð þreyta. Og það besta er að af því að ég er að koma heim bráðum þá þarf ég ekkert að vera döpur. Það var að sjálfsögðu dálítið erfitt að viðhalda lífstílnum en þrátt fyrir að hafa kannski ekki alltaf valið hollasta matinn þá hafði ég bara nokkuð góða stjórn á magninu. Ég fylgdist að sjálfsögðu vel með hvað stelpurnar borðuðu og reyndi að gera eins og þær. Mestu kaloríurnar hafa verið í öllu áfenginu. En við dönsuðum líka stanslaust í rúma 4 tíma þannig að það kannski brenndi einhverju smá. Hvað um það, ef ég þyngist aðeins þessa vikuna þá er það þess virði.

Svona persónulega þá þótti mér merkilegast að ég keypti mér föt í 18. Og svo hversu brengluð sýn mín á föt er núna. Allt sem ég tók upp í þeirri stærð fannst mér vera pínulítið og stelpurnar þurftu að tala mig til í að prófa. Ég fór svo að gráta í búningsklefa í fyrstu búðinni. Ég hneppti venjulegum svörtum buxum í 18 og var bara fín. Og fór bara að gráta. Með ekkasogum. Ég veit ekki hvað gerist þegar ég kemst í 14, taugaáfall kannski. Ég varð aðeins hugrakkari við þetta og keypti tvennar buxur, gallabuxur og eitthvað smálegt fleira. En sá það síðan að ég þarf að mennta mig upp á nýtt í fatakaupum. Ég kann að klæða mig þegar ég er hundrað og tuttugu kíló en hef ekki hugmynd um hvað er fínt nú þegar ég er orðin minni. Ég reyni alltaf bara að vera eins snyrtileg og hægt er, allt til að draga úr hugmyndum um feita og subbuskap en sé það núna að ég hef kannski meiri möguleika á að fylgja tísku. En er svo úr tengslum við tísku að ég er bara í hættu á að vera halló. Hlutir sem þær voru að máta, skoða og kaupa hefði mér aldrei dottið í hug að væri fínt. En þær eru báðar svona ægilega smart. Þannig að nú er það verkefni sem bíður mín. Að fara að skoða föt með alveg nýju hugarfari.

Mér líður allavega alveg rosalega vel og er svakalega vel stemmd fyrir næsta "challenge" sem er að komast úr 3ja stafa tölu fyrir 1. nóv. Ég er með ýmislegt planað í sambandi við mataræði og hreyfingu sem ég fer að koma í gagnið núna. Og skrifa um hér. Sem minnir mig á að ég þarf að minnast á hvað mér þykir ofboðslega vænt um þegar ég fæ skilaboð frá fólki. Ég er sannfærð um að ástæðan fyrir hversu vel mér gengur núna er að ég hef gert sjálfa mig ábyrga ekki bara fyrir mér og vigtinni heldur öllum sem lesa og óska mér vel. Og að hafa stuðning er ómetanlegt. Ómetanlegt.

sunnudagur, 6. september 2009Og Kelly var fulltúi enskra fegurðardísa, vann titillinn miss Wales án nokkurrar samkeppni. Og alltaf bestnaði stuðið.

Wrexham hafði aldrei séð aðrar eins fegurðardísir og þessar hér, enda skildu þær eftir sig slóð af brostnum hjörtum hvert sem þær fóru. Og Wrexham hafði líka aldrei orðið vitni að öðru eins stuði og því sem þessi þokkafljóð voru í. Og mun sjálfsagt seint jafna sig á upplifuninni.

fimmtudagur, 3. september 2009
Og þar höfum við það. 20 kílóum síðar. Ekki það að ég sé ánægð. Núna finnst mér ég bara vera með agnarsmáan haus. Og svo tökumst við á næstu 10. Kannski að hausinn á mér stækki aftur við það.

þriðjudagur, 1. september 2009


Í endalausri leit minni að einhverju sem fullnægir þörf minni fyrir "eitthvað gott" og er á sama tíma hollt og gott rakst ég á "Larabar". Lara þessi er öll í hráfæðinu og notar þá hugmyndafræði til að búa til þetta nammi. Sneisafullt af trefjum, hollri fitu, 200 kaloríur, heldur manni söddum þegar eftirmiðdegissnarláráttan heltekur mann og er til í ómótstæðilegum bragðtegundum eins og "Coconut Cream Pie", "Peanutbutter Cookie" og "Cocoa Mole". Eina vandamálið er að Larabar er ekki selt í Bretlandi. Og ég get ekki að því gert en að hugsa með mér að ég sé kannski alveg jafn klikkuð í hausnum núna og ég var áður en ég hóf þetta heilsuvesen allt saman þegar ég geng svo langt að panta kassa frá Ammríku. Klikk? Sjálfsagt. En ég afsaka mig með því að svo lengi sem ég er upptekin við að panta heilsubita frá USA er ég ekki að troða í mig Snickers.