sunnudagur, 6. febrúar 2022

 Árum saman skrifaði ég blogg. Mér hefur alltaf þótt gaman að skrifa og eftir að ég flutti til Bretlands 2003 varð það smá líflína til Íslands.  Þegar „lífstílsbreytingin“ tók svo yfir allt varð ég svo nokkuð öflugur bloggari og fékk oft að heyra að hugleiðingar mínar um spik væru hjálplegar öðrum feitum.

Ég hef ekki fundið þörf til að skrifa síðan 2017. Sem update þá er ég búin að þyngjast um 30 kíló, léttast um 35 kíló og þyngjast um 20 á þessum árum, en hver er svo sem að telja?

Það hefur tvisvar sinnum komið fyrir á þessum árum síðan ég hætti að skrifa að ég neyddist engu að síður til að setja niður hugsanir á blað og ég endaði á setja bara á Facebook. Ég er, jú, svo vön að deila mínum hugsunum með lesendum að það var náttúrlegt og eðlilegt að gera það. Svo fann ég í gær að meira lá á hjartanu og ég kíkti inn á bloggið mitt til að athuga hvort ég gæti ekki bara komið þessu frá mér þar.

Og ég hreinlega veit ekki hvort það sé góð hugmynd. Í ofanlálag við tugi kílóa í + og – á þessum árum síðan ég hætti að skrifa hefur mér nefnilega líka snúist hugur um hvað er rétt og gott þegar það kemur að því að tala um líkama minn, og líkama feitra.

Á blogginu blasir sagan við, röð af myndum af sjálfri mér með 10 kílóa millibili þar til við komum að myndinni sem heitir „hamingjusöm kíló“. Ég get ekki lýst því hversu óþægilegt mér finnst þetta núna.

Hugmyndin að ég sé ekki ég sjálf, að ég sé verri útgáfa af sjálfri mér þegar ég er í feitari líkama er núna það sem ég ströggla við hvað mest. Að ég eigi ekki skilið að vera hamingjusöm þegar ég er í feitari líkama. Að ég sjálf sé sek um fitufordómana sem ég er að grátbiðja aðra um að láta af, og það gagnvart sjálfri mér.

Ég verð að afsaka sjálfa mig með því að þessi hugmyndafræði kemur ekki frá mér. Ég að sjálfsögðu eins og aðrir lýt í lægra haldi fyrir stanslausum áróðri allt í kringum mig um hversu óæskilegt það er að vera feitur. Að bara ef ég verði mjó verði ég elskuð, að bara ef ég verði mjó fái ég betri vinnu, að bara ef ég er mjó verði ég meira ég sjálf. Hamingjusamari. En það hlýtur þá að sama skapi að þýða að feita ég sé ekki þessi virði að vera elskuð, fá vel útborgað, vera hún sjálf eða vera hamingjusöm. Það er eitthvað sem bara grannir fá að njóta. Og á sama tíma legg ég allt mitt, alla mína vinnu og hugsun í að grennast en tekst það ekki. Og þegar skilaboðin frá samfélaginu í ofan á lag eru að það sé svo einfalt mál að grennast, að ég þurfi bara að borða minna og hreyfa mig meira, en mér mistekst það samt, hlýt ég að vera enn verri manneskja en ég lagði upp með!  Það hlýtur hver sem er að sjá hvað  þetta er mannskemmandi. Ég er ekki bara feit og ljót, og verri manneskja en aðrir, ég líka vitlaus og failure af því ég get ekki eitthvað svona einfalt eins og að verða grennast!

Þetta er bara ekki eitthvað sem ég get gúdderað lengur. Ég get ekki tekið þátt í því að minni útgáfan af sjálfri mér sé betri útgáfan. Að þetta séu mismunandi útgáfur yfir höfuð. En það er samt það sem ég fæ að heyra. Að útgáfan sem er svöng, stressuð, í nánast geðrofi af áhyggjum af því að borða vitlaust, sé betri útgáfa af mér.

Í þessi ár sem ég var að skrifa fór ég í milljón hringi, fann endalausar lausnir, skipti um skoðun og dreifði því sem ég taldi gospel í hvað og það sinnið. Allt var þetta minn sannleikur það skiptið. En núna get ég ekki annað en viðurkennt að ég er búin að fá nóg. Ég einfaldlega veit að þetta er sjálfsagt líkaminn sem ég kem til með að búa í, alveg sama hversu mikla vinnu ég legg í að kvelja sjálfa mig með föstum og skorti og hreyfingu sem ég nýt ekki. Ég verð alltaf feit.

Það sem ég þarf að fá að gefa upp á bátinn er hugmyndin að ég hafi brugðist, sjálfri mér og samfélaginu. Að ég sé verri útgáfa af manneskju en aðrir. Að ég sé byrði á heilbrigðiskerfinu. Að ég sé skrímsli sem særir fegurðarkennd annarra.

Ég minntist á þetta við mömmu í spjalli. Að það væri svo erfitt að gefa þessa von upp á bátinn, vonina um að einn daginn fái ég að prófa að vera mjó. Mig langar svo að hafa verið ung og mjó sagði ég við hana. „En þú varst það“ minnti hún mig á. Bæði í 9.bekk og svo seinna árið í lögfræðinni. Það voru tvö ár með nokkru millibili sem ég tók í undir 1000 hitaeiningar á dag og nokkuð stífa líkamsrækt og ég varð mjó. Málið er að ég man það ekki. Ég tók ekki eftir því sjálf að ég væri orðin grönn. Öll þessi vinna að þessu skýra markmiði og ég tók ekki eftir því sjálf. Sjálfri fannst mér ég hafa verið feit. Aðeins minna feit kannski en samt feit.

Ég er enn að melta þetta. Mér tókst semsagt ætlunarverkið, alla vega tvisvar sinnum, og ég tók ekki einu sinni eftir því. Greinilegt að það að vera mjó uppfyllti alla mína drauma?

 

 

laugardagur, 16. september 2017

Af varnarleik

Ágúst virðist vera trend mánuðurinn minn þar sem skrif fara alveg aftast í röðina og ég dingla mér bara um án nokkurrar hugsunar. Í ár missti ég tengdaföður minn eftir löng veikindi sem setti líka nokkuð strik í lífið. Stuttu síðar eyddi ég svo sumarfríinu á Íslandi og það er rétt svona núna sem lífið ætti að vera að skreiðast í eðlilegan farveg. 

Sem ætlar svo reyndar eitthvað að láta á sér standa. Ég kemst bara ekki inn í góða rútínu. Allt er smáveigis vitlaust. Ég hjóla og fer í jóga en kemst ekki alveg inn í taktinn. Við förum í langar göngur en mig vantar að þær séu en lengri. Ég borða fallega annanhvern dag, hinnhvern eins og hálfviti. Fastan bjargar smávegis, ég borða alla vega ekki á kvöldin en mig vantar alla gleði. 

Það sauð svo upp úr hjá mér í dag. Allskonar sorg og leiðindi og erfiðleikar og ég gerði það eina sem ég kann til að laga hlutina; fór og náði í lyfin mín.



Morfín, dópamín, deyfandi, örvandi. Allt sem gerir mig glaða og lætur mér líða vel. Ég raðaði góssinu á borðið til að setja upp fyrir mig röð og aðferð. Það er jú mjög mikilvægt að fullnægja hverri áferð og bragði á réttan hátt. Kryddað og stökkt fyrst, hart og mjúkt næst, kremað og þykkt að lokum.

En á þessum þremur sekúndum sem það tók að taka myndina náði heilinn aftur stjórn á hvatvísinni og ég náði að stoppa mig af. Mér finnst alltaf frábært þegar það gerist og ég get skoðað sjálfa mig og hegðun mína svona utanfrá. Þegar ég get skilgreint geðveikina, skoðað hana án þess að dæma sjálfa mig og haldið svo mína leið.

Ég lýg þvi ekki að ég hafi sleppt að borða neitt af þessu, ég fékk mér eitt pain au chocolat í hádegismat og svo eitt ripple súkkulaði eftir kvöldmat en ég borðaði þetta líka án samviskubits og naut bara. 

Kannski ekki alveg eitt-núll fyrir mér en ég náði að verja sjálfsmark.

sunnudagur, 23. júlí 2017

Af föstu

Nú eru liðnar tvær vikur síðan ég byrjaði að prófa mig áfram með 16/8 föstu. Þetta er búið að vera ósköp einfalt og þægilegt og ef ég væri ekki svona sjóuð/útjsöskuð myndi ég vera prédikandi frá húsþökum af trúarofsa um ágæti þess að fasta. 

Ég er búin að léttsat um þrjú kíló á tveimur vikum. Ekkert rosalegt en betra en að þyngjast um þrjú kiló á tveimur vikum sem undanfarna mánuði hefur sannarlega verið málið. Jebb, ég var orðin 111 kíló. Það eru 15 kíló í plús á tæpu ári. Rosalega dugleg!

Á þessum tveimur vikum hef ég hripað hjá mér nokkrar hugleiðingar:

1.Þegar maður gúgglar Intermittent fasting kemur í ljós að fólk sem stundar þetta er næstum jafn "evangelical" og fólk sem aðhyllist svona kennisetningar. Eins og paleo og LCHF og þar fram eftir götunum. Fólk er sanntrúað. Mér finnst það alltaf merkilegt og ég verð smávegis öfundjúk af því að ég er alveg sannfærð um að af því meiri trúarofsa og sannfæringarkrafti maður getur gert eitthvað getur maður gert það betur. Þannig td þarf maður ekkert að skilja vísindin að baki einhvers af því að maður hefur blinda trú. 

2. Ég fíla það í botn þennan klukkutíma eða svo á milli 10 og 11 þegar ég verð í alvörunni svöng. Ég nýt þess að finna loksins alvöru hungur. Og að finna að líkaminn er ekki svona endalaust mettaður af mat. 

3. Ég hef ægilegar áhyggjur af því hversu lengi þessi tilfinning að líða vel með hungur eigi eftir að endast. Í stað þess að njóta bara núna er ég komin fram úr sjálfri mér og strax með áhyggjur af þvi hvað gerist þegar ég klúðra þessu. Það þarf að laga strax.

4. Ég er geðsjúklega hress. Hef fullt af orku og er í stuði allan morguninn. Búin að prófa að fara í langa hjólatúra og góða göngu fastandi og það var bara gott. 

5. Ég sef eins og rotuð í átta tíma. Kannski vegna þess að eftir að eiga sömu dýnuna í 20 ár fékk ég mér loksins nýja dýnu. Það er annað hvort nýja dýnan eða það að ég fer að sofa án þess að vera stútfull af mat. 

6. Húðin í andlitinu er rosa fín núna. Kannski út af sólinni. Kannski út af aukinni vatnsdrykkju.

7. Ég hélt að ég myndi ekki geta hugsað um neitt nema mat ef ég sleppti honum í 16 tíma. En það hefur komið í ljós að ég er ekkert meira heltekin af hugsunum um mat en alla aðra tíma. Ég er alltaf að hugsa um mat. Það skiptir engu máli hvort ég er í megrun eða ekki, hvort ég á fullan skáp af nammi eða ekki, ég er alltaf heltekin. Þannig að það skiptir litlu máli. 

8. Ég ströggla samt aðeins að stýra magninu. Ég sleppi morgunmat og fyrstu vikuna borðaði ég það sem ég hefði borðað í morgunmat og hádegismat þegar ég byrjaði að borða. Svo náði ég að minnka það niður og borða núna bara hádegismat. Svo byrjaði ég líka að sleppa klukkan þrjú snarlinu. Núna borða ég hádegismat og kvöldmat. En umþb 900 hitaeiningar í hvora máltíð. 1800 hitaeiningar eru viðhalds hitaeiningar fyrir mig. Ástæðan fyrir því að ég léttist er að ég var komin í 3-4000 yfir daginn. Nú sleppi ég líka öllu gúmmeliði á kvöldin, eða vinn það inn í kvöldmatinn. Ég hugsa því að það líði ekki á löngu áður en ég hætti að léttast og þurfi þá líka að pæla aðeins meira í þvi sem ég er að borða. Sem stendur er það hvað sem er, svo lengi sem það er milli 12 og 8 fæ ég hvað sem mig langar í. 

9. Mér er drullukalt á morgnana. 

Þetta er svona fyrstu hugrenningar, ég á eftir að spökulera mun meira í þessu eftir því sem tíminn líður og ég fæ meiri reynsu. En sem stendur er ég kampakát.


laugardagur, 15. júlí 2017

Á réttri leið

Ég lét mig svo bara gossa. Það var nefnilega eins og mig grunaði, ég bý á miðri leið upp fjall sem þýðir að ég hef tvo valkosti: Fara niður og svo aftur upp, eða klifra hærra og fara svo aftur niður. Og það var þannig sem ég fann loksins hringleiðina frá Rhos til Bersham í gegnum Minera og svo aftur til Rhos. Ég þurfti bara að fara upp og svo niður og svo aftur upp.

Plas Power Woods
Þetta er svo mikil klisja til að taka sem myndlíkingu fyrir þetta spikferðalag mitt að mig hryllir aðeins við en get ekki staðist mátið. Svona er þetta nefnilega. Maður fer upp og niður og stundum stendur maður á öndinni,stundum þarf maður bara að treysta að maður finni lokum réttu leiðina, stundum þarf maður að fara til baka án þess að finna lausn og stundum kemst maður allan hringinn og getur gólað í gleðilátum efst á fjallinu, I am the king of the world!

Sem var algerlega það sem ég gerði í morgun.
Ég held að það sé erfitt að skilja erfiðleikana sem maður býr sér til í huganum þegar maður er náttúrulega áttavilltur eins og ég. (Náttúrulega áttavilltur hljómar reyndar mjög jákvætt, svona eins og náttúrulegt tóneyra). En það gerir sigurinn bara enn sætari þegar maður getur villst í gegnum kort og samt fundið hringleiðina. Þetta hugrekki að láta reyna á kemur líka til af tilrauninni sem ég er búin að gera í þessari viku.

Eftir gönguna um síðustu helgi ákváðum við Dave sem sagt að finna okkur aðferð til að fylgja í þrjá mánuði. Það er allt og sumt. Þrír mánuðir og sjá svo hvað við gerum næst. Ég valdi að prófa eitthvað sem hefur alltaf vakið áhuga minn, intermittent fasting.

Ef satt skal segja nenni ég alls ekki að tala um vísindin hér að baki, ég er nett nojuð yfir rannsóknum á hvers kyns matar-og hreyfingarstíl hvað fitutap varðar. Skrif sem virka fín og hafa peer reviews og tilvísanir eru oft fölsuð og maður situr eftir með eitthvað pseudo science til að verja og ég bara nenni því ekki. Áhugasamir geta gúgglað sig bláa í framan til að lesa um áhrif föstu á hormón og insulín og þar fram eftir götunum. Sjálf hafði ég mestan áhuga á föstu sem tæki til að ná aftur sambandi við líkamann og sálina nánast. Svona semi ramadan hugmynd eiginlega. Ég var vön að taka 24 stunda föstu þegar ég fyrst byrjaði í lífstílnum 2009. Á mánudögum drakk ég bara vatn, kaffi og stundum prótein sjeik ef ég var svöng. Og mér þótti þetta alltaf gott, svona endurstillti núllpunkt eftir helgina.

Ég ákvað reyndar að núna ætla ég að taka frekar það sem kallast 16/8. Ég fasta í 16 tíma og borða í 8. Það þýðir ekki hlaðborð í átta tíma reyndar, frekar bara að ég sleppi einni máltíð. Ég borða fyrstu máltíð klukkan 12, og svo smá snarl um 3leytið og svo kvöldmat fyrir klukkan 8. Svo ekkert fyrr en á hádegi næsta dag. Svona er ég búin að gera i viku, léttast um 2 kíló og mér líður rosalega vel.

Ég fæ mér það sem mig langar í , ekkert er "bannað" en ég reyni samt að viðhalda nokkri skynsemi. Ég finn það líka að eftir 16 tíma föstu þá biður líkaminn um alvöru næringu, vill fá prótein og fitu en ekkert pain au chocolat. Ég held því að maður beinist náttúruleg að réttri ákvörðun.

Svona eins og ég valdi réttu leiðina í dag.

þriðjudagur, 11. júlí 2017

Af ákvörðun

Við hjónakornin fögnuðum 12 ára hjónabandi núna á sunnudaginn með góðum göngutúr um Idwal vatn í Snowdonia þjóðgarðinum. Við höfum nokkrar síðustu vikur unnið markvisst að því að ganga úti í náttúrunni og bætum við í vegalengd og/eða klifur við hverja göngu. Við skemmtum okkur konunglega við þetta og í hvert sinn sem við förum út bætum við í drauminn um nokkurra daga langa göngu.

Mitt eina vandamál er hversu þung ég er núna. Hnén eru bara ekki að höndla þetta alveg. Og ég verð að gera eitthvað í því ef ég ætla að halda áfram að njóta útivistarinnar og bæta í vegalengdir.

Og á sama tíma þarf ég að sætta innri orðræðuna sem svona hálf bannar allar hugsanir um "átök". Ég þarf svona hálfvegis að réttlæta fyrir sjálfri mér að það sé í lagi að taka á mataræðinu og á sama tíma halda áfram að elska mig einsog ég er. Að þetta tvennt sé ekki mutually exclusive. Að það að hugsa betur um mataræðið sé einmitt sjálfsást. Að það þýði ekki að ég sé að segja sjálfri mér að ég sé ljót, löt og leiðinleg manneskja.

Málið er að það fer bara eiginlega alltaf út í vitleysu hjá mér, endar í einhverskonar keppni við sjálfa mig um að sýna mér og umheiminum að ég sé ekki viljastyrkslaus aumingi, að ég sé einhvers virði, að ég sé jafn góð og dugleg og allt mjóa fólkið.  Og áður en ég veit af er ég komin út í höft og boð og bönn sem síðan bresta og ég enda útmökuð í súkkulaði sem gerir sjálfshatrið ekkert sætara. 

Ég held að það sé rétt hjá einkaþjálfaranum sem lenti upp á kant við líkamsvirðingarfrömuðinn um daginn; allt feitt fólk vill vera mjótt. Ekki eitt einasta okkar myndi segja nei takk ef í boði væri að vakna mjór á morgun. Sum okkar myndu meira segja skipta alheimsfriði út fyrir það ef enginn kæmist að því. Þar sem einkaþjálfarinn hinsvegar hefur rangt fyrir sér er þegar hann vill meina að við hlussurnar bara vinnum ekki nógu hörðum höndum að markmiðinu. Við gefumst allt of auðveldlega upp. Við höfum engan viljastyrk. Og í hljóði segir hann að við séum aumingjar. 

Þar tapar hann rökstuðningnum. Ég hef unnið staðfastlega að þessu núna í 33 ár, og af einstökum einsettum einbeittum vilja í  átta ár. Og ég hef enn ekki komist nálægt neinu markmiði. Ég hef ekki eytt jafnmiklum tíma, orku, peningum, sál, blóði og tárum í nokkurn skapaðan hlut og ég hef lagt í að verða mjó. Og ég er ennþá feit. 

Og þetta er það sem einkaþjálfarinn skilur ekki; fyrir þau okkar sem höfum lagt allt okkar í verkefnið en erum enn feit er svo komið að það er betra að hætta að eyða frekari tíma í draum sem rætist ekki, hversu mikla vinnu við leggjum í hann, og reyna frekar að eyða orkunni í annað. Og það er síðan hitt sem einkaþjálfarinn skilur ekki og það er að þegar við segjumst ætla að "gefast upp" þýðir það ekki að við ætlum héðan í frá að liggja í kleinuhringjabaði. Það þýðir að við ætlum að einbeita okkur að því að ná öðrum markmiðum en tilviljunarkenndri tölu á vigtinni. 

Auðvitað er til feitt fólk sem grennist og heldur spikinu af sér, auðvitað er þetta hægt. En staðreyndin er sú að um 97% þeirra sem reyna mistekst. Af einhverjum ástæðum gengur það svo illa hjá þetta mörgum að einkaþjálfarinn og milljón manns sem vinna í heilsubransanum hefur lifibrauð sitt af því að selja drauminn um að hamingja fylgi því að vera mjór til milljónanna sem eru feitir aumingjar. 

Ég verð pirruð yfir hringsólinu sko. Málið er að við eigum öll að hafa rétt til að vera og gera eins og okkur sjálfum sýnist. Ég verð trítilóð þegar drengstauli sem veit ekkert nema að það er gott að vera tanaður í drasl og músklaður og að það er vont að vera feitur og var ekki einu sinni glampi í augunum á pabba sínum þegar ég var sett í mínu fyrstu megrun, segir mér að ég sé ekki að vinna nógu hörðum höndum. En á sama tíma veit ég að mér líður ekki vel í líkamanum núna. Hnén þola ekki gönguna. 

Það er á þessum forsendum sem ég er núna að vinna að betri hnjám. Ekki til að verða mjó, ekki til að byrja aftur að hatast við hlussuna í mér, ekki til að þóknast samfélagi (og einkaþjálfurum) sem segja að feitir séu annars flokks þjóðfélagsþegnar. Heldur vegna þess að við höfum öll rétt til að gera það sem lætur okkur líða sem best. 

Á göngunni á sunnudaginn ákváðum við hjónin því að leggja smá meiri vinnu í að laga á mér hnén, úthaldið hjá honu og verða betri göngugarpar en við erum núna. Næstu mánuðina ætla ég því að skrásetja hérna það sem við stússumst og hvernig gengur.

laugardagur, 1. júlí 2017

Af bleyðu

Það er eitthvað sérlega fullnægjandi að fara í hring. Það skilar meiru í sálina að fara hringinn frekar en að fara fram og tilbaka. Það er bara þannig. Þetta að finna hringleiðir situr orðið algerlega í sálinni minni, og þá sérílagi vegna þess að ég bara get ekki fundið hring. Allar hringleiðir sem ég hef farið hef ég fylgt öðrum. Þegar ég er ein út að hjóla enda ég alltaf á að verða hrædd og þræða sömu leið tilbaka.

Ég er núna búin að leggja í hann í nokkra laugardagsmorgna í röð, harðákveðin í að finna hringleið frá Rhosllannerchrugog að Minera og aftur til Rhos í hring. Ég veit að þetta er hægt, ég hef séð og skoðað hundrað kort á MapMyRide og Strava, gúgglað þetta til helvítis sjálf, og dánlódað og skrifað hjá mér leiðina.

Það var ekkert öðruvísi í morgun. Hér er búið að vera rok og rigning í rúma viku en virkaði aðeins hægar um sig í morgun. Fullkomið hjólaveður.  Ég skoðaði kortið enn einu sinni og lagði svo í hann. Málið er að ef ég fer upp Rhos fjall og beygi svo til hægri á ég lógískt að enda í Minera hvaðan ég svo beygi aftur til hægri og enda þá aftur í Rhos. Þetta er augljós mál. Færi ég til vinstri enda ég í Pen Y Cae. Ég veit það, hef prófað það. Og það er reyndar hringleið en of stutt.

Uppleiðin er erfið, en ekki of erfið. Maður stendur á öndinni þegar á toppinn er komið en bara þannig að það er gefandi. Nett high five handa manni sjálfum og svo heldur maður áfram. Ég tuðaði í sjálfri mér að þetta væri einfalt, ef ég héldi alltaf í það sem væri lógísk leið hlyti ég að lokum komast á réttan stað. Vandamálið er að ég er svo áttavillt að það er ekkert lógískt við áttir að mínu mati. Ég heyrði einhvern tíman á einhverju vísinda podcasti sem ég hlusta á að rannsóknir hafa sýnt að fólk er fætt með mismunandi hæfileika til að finna áttir, þetta er genatískt. Og sömu rannsóknir sýndu að fólk af norrænum uppruna er með mælanlegri betri hæfileika til að átta sig á áttum en aðrir þjóðflokkar. Víkingar eru semsé náttúrulegir navigators. Þetta að vera áttavillt er þessvegna eins og tvöfalt feil hjá mér.

Þegar ég var komin þangað sem ég hélt að væri toppur var um tvennt að velja, halda áfram upp slóða eða fylgja veginum í smá sveigju til hægri. Ég var einhvernvegin sannfærð um að slóðinn upp væri sá rétti. Hélt því áfram alla leið, upp og upp og upp. Það endaði svo í að vegur breyttist í slóða, svo stíg og að lokum var ekkert eftir nema kindaslóði þakinn kindaskít. Ég snéri því við. Var samt nokkuð ánægð, þetta var jú hreyfing. Valdi að fara til hægri og fannst eins og hér væri eitthvað að gerast. Hjólaði heillengi þarna uppi á fjallinu, sá fugla og íkorna og kindur. Endalausar kindur. Eftir þónokkuð var ég farin að efast um allt í lífinu. Eins gaman og það var að hjóla þarna um í náttúrunni var ég bara ekki viss um hvert ég væri að fara. Þegar ég svo sá að það var ekkert nema svakaleg brekka niður á við sem ég sá ekki hvar endaði stoppaði ég. Hugsaði mig um í smástund og vissi að ef ég færi niður myndi ég ekki komast aftur upp, hún var það brött. Kannski væri hringurinn sem ég leita svo stíft að við brekkurætur en ég þorði ekki. Kannski ef ég væri ekki ein myndi ég vera hugrakkari að prófa, kannski er þetta myndlíking fyrir allt mitt líf. Ég stend á toppnum og þarf að treysta í blindni að það sé rétt að láta sig bara gossa en ég þori ekki að sleppa. Þori ekki láta af öllum gömlum vönum.

Ég snéri við. Ég var búin að hjóla í tæpa tvo tíma og upp á við mest megnis af þeim tíma þannig að hvað hreyfingu varðaði var ég búin að fá gott út úr túrnum. Ég var samt smávegis svekkt út í sjálfa mig fyrir að þora ekki. Ég afsakaði mig með að við þurfum að stússast í dag þannig að ég þurfti að komast heim. Kannski um næstu helgi að ég ákveði bara að taka daginn í að villast, vera hugrökk og sjá hvað gerist. Í alvörunni, það er ekki eins og ég endi í Skotlandi. Og það er ekki eins og það væri svo slæmt mál hvort eð er.


sunnudagur, 25. júní 2017

Af tungumáli

Ég hlustaði á mjög áhugavert podcast í morgun þar sem kona sem hafði fengið heilablóðfall sagði sögu sína. 27 ára gömul í miðju karókí hrynur hún bara niður með brostinn gúlp í heilanum. Þetta hafði þau áhrif að hún missti tungumálið. Eftir stóðu um það bil 40 orð sem tengdust ekki og hjálpuðu lítið. Ég hugsaði með mér þar sem hún er að lýsa þessu hversu hræðilegt þetta hlyti að hafa verið og hversu auðveldara allt hlyti að vera núna þegar hún hefur fengið tungumálið aftur. En þvert á móti sagði konan, við að missa tungumálið missti hún líka áráttuna að skilgreina og ræða allt til dauða. Atburðir og annað voru bara núna, án þess að hún finndi fyrir þörf til að skilgreina. Þessu fylgdi gífurleg frelsistilfinning sagði hún og er það sem hún mest saknar nú þegar hún hefur aftur fengið tungumálið.

Mér þótti þetta stórmerkilegt. Hvað ef ég er bara að pæla of mikið? Í stað þess að velta öllu fyrir mér ætti ég bara að taka hverjum degi sem nýju ævintýri og leyfa því sem gerist bara að gerast án þess að hugsa allt til helvítis.

Þetta er náttúrlega undirstaðan að "mindfulness", þetta að þegar hugsun ber að (td ég er svo ógeðslega feit, oj hvað ég er ógeðsleg) þá í stað þess að verða reið út í sjálfa sig fyrir að hugsa svona eða leyfa hugsuninni að taka bólfestu á maður að skoða hugsunina utan frá. Segja við sjálfa sig, nei en skrýtin hugsun. Hvaðan ætli hún komi? Ekki dæma sjálfa sig fyrir að hugsa svona bara taka eftir og halda svo áfram án þess að láta hafa áhrif á sig. Að gera það er að sjálfsögðu auðveldara ef maður hefur engin orð til að finna fyrir neinu af þessu.

Allavega, þetta, ásamt auknum hjólreiðum, er verkefni vikunnar. Að skoða hugsanir utan frá þegar þær koma og forðast að dæma sjálfa mig sem lúser.