sunnudagur, 25. júní 2017

Af tungumáli

Ég hlustaði á mjög áhugavert podcast í morgun þar sem kona sem hafði fengið heilablóðfall sagði sögu sína. 27 ára gömul í miðju karókí hrynur hún bara niður með brostinn gúlp í heilanum. Þetta hafði þau áhrif að hún missti tungumálið. Eftir stóðu um það bil 40 orð sem tengdust ekki og hjálpuðu lítið. Ég hugsaði með mér þar sem hún er að lýsa þessu hversu hræðilegt þetta hlyti að hafa verið og hversu auðveldara allt hlyti að vera núna þegar hún hefur fengið tungumálið aftur. En þvert á móti sagði konan, við að missa tungumálið missti hún líka áráttuna að skilgreina og ræða allt til dauða. Atburðir og annað voru bara núna, án þess að hún finndi fyrir þörf til að skilgreina. Þessu fylgdi gífurleg frelsistilfinning sagði hún og er það sem hún mest saknar nú þegar hún hefur aftur fengið tungumálið.

Mér þótti þetta stórmerkilegt. Hvað ef ég er bara að pæla of mikið? Í stað þess að velta öllu fyrir mér ætti ég bara að taka hverjum degi sem nýju ævintýri og leyfa því sem gerist bara að gerast án þess að hugsa allt til helvítis.

Þetta er náttúrlega undirstaðan að "mindfulness", þetta að þegar hugsun ber að (td ég er svo ógeðslega feit, oj hvað ég er ógeðsleg) þá í stað þess að verða reið út í sjálfa sig fyrir að hugsa svona eða leyfa hugsuninni að taka bólfestu á maður að skoða hugsunina utan frá. Segja við sjálfa sig, nei en skrýtin hugsun. Hvaðan ætli hún komi? Ekki dæma sjálfa sig fyrir að hugsa svona bara taka eftir og halda svo áfram án þess að láta hafa áhrif á sig. Að gera það er að sjálfsögðu auðveldara ef maður hefur engin orð til að finna fyrir neinu af þessu.

Allavega, þetta, ásamt auknum hjólreiðum, er verkefni vikunnar. Að skoða hugsanir utan frá þegar þær koma og forðast að dæma sjálfa mig sem lúser.

Engin ummæli: