miðvikudagur, 26. september 2012

Það er búið að rigna af ógurlegum krafti hérna síðustu dagana. Reyndar svo mikið að það eru hér flóð út um allt og allt í volli. Ég reyndar bý uppi á fjalli og þarf ekki að hafa miklar áhyggjur svona persónulega. Engu að síður þá er heit og góð súpa akkúrat það sem þarf í svona veðráttu. Ég gramsaði aðeins um í grænmetisdollunni minni og dró þar út eitt butternutsquash sem mátti alveg fara að nota. Til að gera súpuna áhugaverða ákvað ég að baka graskerið áður en það færi í súpuna.

Hita ofn í 190 gráður
Flysja og kjarnhreinsa og kubba niður grasker
skvetta smá olíu á það og baka í svona 40 mínutur þar til mjúkt og aðeins ristað

Á meðan það er að bakast sker maður niður einn lauk og maukar einn hvítlauksgeira.
Setja það í pott með olíu og mýkir.
Svo fer þar út í teskeið af za´atar kryddblöndu (Za´atar er sesamfræ, timjan, marjoram, oregano, sumac og salt. Nauðsynleg blanda fyrir miðausturlenska matargerð) og hita í olíunni þar til ilmurinn leggur af, svona þrjátíu sekúndur.
Svo hellir maður líter af vatni og tveim góðum grænmetiskubbum út í og lætur sjóða og malla. Og þykkti með kartöflumjöli.

Þegar graskerið er tilbúið hellist það út í lauksúpuna og svo maukar maður með töfrasprota. Ég reyndar veiddi nokkrar skeiðar af lauk upp úr fyrst og setti svo út í aftur þegar ég var búin að mauka af því að mér finnst gott að hafa smávegis af bitum. Svo saltaði ég aðeins og pipraði með nýmöluðum pipar.

Ég er ekki viss um hvort það var ristaða bragðið af graskerinu eða Za´atrið en súpan var svo góð að ég náði ekki einu sinni að taka mynd áður en hún kláraðist.
þriðjudagur, 25. september 2012

Batnandi konu er best að lifa og ég er viss um að hún mamma mín á eftir að taka hliðarstökk af hlessingi þegar hún sér hvað hér á eftir kemur. Ég er komin með æði fyrir rauðrófum. Já, það sem ég kallaði "bleika ógeðið" á jólum hefur heldur betur breyst og eftir að hafa að undanförnu raðað í mig rauðrófum eins og Bretar borða þær, þaes "pickled" þá lét ég loksins gossa í kvöld og eldaði ferskt búnt af þessum yndiskúlum. Fyrir utan að vera svo ofboðslega fallegar og gefa svona fallegan lit þá eru þær líka meinhollar. Þær andoxa fyrir allan peninginn og betaine efnið í þeim stuðlar að bættri hjartaheilsu og betra æðakerfi. Svo ekki sé minnst á að nýlegar rannsóknir bæði í mönnum og rottum hafa sýnt að þetta sama betaine vinnur gegn óeðlilegari fitumyndun í lifur sem gerist við ofneyslu alkóhóls eða með ofneyslu sykurs. Litarefnið í þeim er svo sterkt að það getur litað þvag og hægðir en það er ekkert til að hafa áhyggjur af.

Ég notaði að uppistöðu uppskrift frá honum Hugh F-W mínum en breytti eftir því sem til var hér og magni.

Ég skrúbbaði og kubbaði niður fjórar rauðrófur og lagði þær í eldfast mót með tveim óskrölluðum hvítlauksgeirum, saltaði og pipraði og glúggaði svo smá ólívuolíu yfir. Huldi með álpappír og hafði svo inni í ofni við 190 gráður í rúman klukkutíma. Tók svo út og lét kólna. Kramdi í skál hálfan hvítlauksgeira og lét þar út í vægt lófafylli af ristuðum og muldum hnetum. Þegar rófurnar voru orðnar nógu kaldar til að höndla þá renndi ég hýðinu af þeim og bútaði þær aðeins meira niður. Hellti svo olíu og safa úr mótinu yfir hnetu hvítlauksblönduna og hrærði vel saman. Svo hellti ég hnetublöndunni yfir rófurnar og muldi svo hreinan feta yfir. Þetta var algjört æði. Svo fullorðins. Ég notaði sem meðlæti með afgangum af lambinu síðan á sunnudaginn en ég ætla líka að borða þetta sem salat á morgun og bjóða upp á sem forrétt næst þegar ég elda. Það hefði ég nú haldið.

mánudagur, 24. september 2012

Það tók á öllum mínum sjálfstjórnarvöðvahnykli í sunnudagshádegismatnum að reyna að borða hægt. Ég þurfti stanslaust að hnippa í sjálfa mig, minna mig á að tyggja, að smakka almennilega á, að leggja frá mér hnífapörin, að kyngja áður en ég var búin að hlaða næsta gaffal. Það er ekki hlaupið að því að vera "mindful" yfir hverjum bita, sei sei nei. Ég gerði eins vel og ég gat og svo fann ég að ég var orðin södd. Ég skal alveg viðurkenna að ég borðaði nokkra bita umfram það. En ekki svo marga bita að ég þyrfti að sjá eftir neinu. Ég lagði frá mér hníf og gaffal og sagði við Dave að ég væri bara ekki viss um að þetta væri sniðugt. Vanalega þegar ég graðga í mig svo hratt að skyndilega fæ ég bara illt í magann og verð að stoppa. En þarna sat ég alveg viss um að hafa borðað jafn mikið en eini munurinn væri að í þetta sinnið væri ég ekki með magaverk og myndi örugglega bara fá mér meira að borða á eftir. Þetta væri eins og að pakka niður í ferðatösku. Ef maður hendir bara einhverju drasli í töskuna án þess að raða þá kemur maður ekki jafn miklu fyrir. En ef maður vandar sig, brýtur saman og treður í allar holur þá fer miklu meira í töskuna. Væri þetta bara ekki það sama? Vanalega hendi ég bara eins miklu og ég kem fyri í magann þangað til ég er að springa en núna hafði ég raðað skipulega og hafði þessvegna örugglega bara náð að borða meira en vanalega. En Dave var ekki sammála. Hann sagði að þegar maður hendir í tösku þá hanga druslurnar út fyrir, maður treður í hana umfram getu fyrir utan að setja niður bara eitthvað rugl. Drasl sem manni vantar ekkert með í ferðalagið. En vel skipulögð taska er ekki úttroðin, í henni er bara ákkúrat rétt magn af dóti og í henni finnur maður allt sem maður ætlar að nota. Ekkert mál. Og ég rannsakaði hversu mikið ég hafði í alvörunni borðað og það var bara rétt yfir eðlilegum skammti. Ekkert til að skammast mín fyrir.

Ég stakk samt upp í mig einum og einum bita á meðan að ég var að ganga frá. Og datt í hug að það væri næsta mál að tækla. Þessi vellíðan sem ég finn þegar ég fæ að borða í einrúmi er algerlega rótin að vandamálinu. Það er þar sem ég sleppi mér og smákrakkinn fær bara að ráða. Ég þarf að pæla miklu betur í þessu en ég veit það að þegar ég hugsa tilbaka þá er það algerlega feluleikurinn minn yfir því hvað ég í alvörunni er að borða, allar lygarnar og svindilbraskið sem ég hef stundað til að geta borðað í einrúmi.
Næsta mál á dagskrá. Hressandi sálarferðalag framundan.

sunnudagur, 23. september 2012

Súper september heldur ótrauður áfram og ég komin undir 90 kílójúle. Og undir 90 líður mér vel. Meira en vel, mér finnst ég vera súperskutla. Undir 90 er ég mjó að mínu mati og fyllist súper sjálfstrausti. Ég hlýt líka að geisla því út frá mér því ég fæ flaut og tjékk þegar ég er undir 90 þannig að það er ekki bara mér sem finnst ég vera sæt. Það er búið að taka mig heilt ár að komast hingað aftur. Og það er búið að taka mig heilt ár að sætta mig við hvernig þetta virkar hjá mér. 200 g að meðaltali niður á við yfir rúm þrjú ár eru ekki tölur sem enda sem forsíðusaga á Séð og Heyrt en ef ég á að vera hreinskilin þá tek ég frekar 200g að meðaltali niður á við yfir rúmt þriggja ára tímabil  en 50 kg frá á einu ári og svo 60 kg í plús á því næsta eins og þetta hefur verið hjá mér áður.

Ég tók líka nokkrar æfingar með Jillian Michaels í vikunni. Ef maður lætur Biggest Loser ekki fara í taugarnar á sér þá er Jillian ein vitrasta fittness fríkin sem ég veit um. Hún á td eina þá bestu ráðleggingu sem ég veit um í þessu brölti við að verða mjó (eða heilsuhraust eða jafnvel bæði); "Count your calories, work out when you can and try to be good to yourself. All the rest is bullshit."  (As quoted on http://www.perfectinourimperfections.com/) Í miðri æfingu í gær sagði hún svo dálítið annað sem sló mig. Hún sagði að "transformation is not a future event, transformation is what you are doing NOW." Þetta kom rosalega mikið við mig. Það er svo mikilvægt að vera viðstaddur í lífinu. Að taka þátt í hverju andartaki, ekki bara fylgjast með á meðan maður bíður eftir að eitthvað gerist, eitthvað breytist. Ég er nefnilega enn að ströggla aðeins með þessa hugsun sem segir að ég þurfi bara að komast í gegnum þetta tímabil núna, að lífið byrji þegar ég hef náð markmiðinu. Að þá gerist eitthvað.

Í haustsólinni í Wrexham, 

Nú er ég ekki að segja að ég sé hætt að vinna að markmiðinu, þvert á móti, ég held einmitt að þetta að gefa mig algerlega að augnablikinu sé lausnin til þess að komast að markmiðinu. Maður þarf bara stanslaust að minna sjálfa sig á að taka þátt í augnablikinu. Mín fyrsta æfing til að koma þessari hugsun að er að ég þarf að leggja hnífapörin frá mér á milli hvers bita. Hljómar einfalt en fyrir manneskju sem vanalega borðar eins og togarasjómaður borðar súpu í stórsjó er þetta heilmikið verkefni. Og skemmtilegt. Byrjum á velska sunnudagslambinu sem mallar núna við lágan hita inni í ofni....


laugardagur, 22. september 2012

Lúkas er í matarboði í hádeginu og ég og Dave aftur á leið á völlinn. Dave spyr mig hvort ég vilji ekki koma með honum og bætir svo við; "my treat". Já, hann kann svo sannarlega að "treat a lady!" Ég ákvað að prófa aðra einfalda Hugh F-W uppskrift, svona af því að það er laugardagur og við á leið á völlinn og ein heima. Mér fannst þurfa að setja smá kúltúr á borðið svona til að vega upp á móti skrílslátunum (í mér) á fótbolta vellinum.

Tagliatelle aglio e olio og smá salat.

Mér fannst eins og að ég þyrfti eitthvað meira en bara pastað, og bjó til salat úr afgöngum sem reyndist svo vera grískt salat þannig að ég borðaði það í forrétt. Ég var þessvegna orðin pakksödd þegar kom að pastanu og gat bara borðað smávegis af því. En maður lærir sína lexíu, næst man ég bara að hætta að vera svona gráðug.

Magn er gefið upp per manneskju

70-100 g pasta
1 hvítlauksgeiri
2 mtsk góð ólívuolía
salt og pipar

Sjóða pasta skv leiðbeiningum þar til al dente. Sneiða hvítlaukinn í þunnar sneiðar og ita olíuna við vægan hita. Setja hvítlaukinn út í olíuna og rétt gylla í 30 sekúndur eða svo. Renna vatninu af pastanu og setja svo hvítlauksolíuna út í pastað og blanda vel þannig að allt verði þakið í gullinni olíunni. Salta og pipra vel með nýmuldum svörtum pipar. Það má svo setja smávegis parmesan eða gruyer eða annan harðan ost út á og kannski smá ferska steinselju. Svarti piparinn er algjört möst og má ekki sleppa.


fimmtudagur, 20. september 2012

Ég eignaðist loksins í dag langþráða bók eftir uppáhalds kokkinn og lífskúnstnerinn minn; Hugh Fearnley-Whittingstall. Bókin heitir Three Good Things og er uppskriftabók sem byggir á þeirri hugmynd að góður matur sé einfaldur og að flestar bestu uppskriftirnar séu þrenn brögð. Salt, sætt, brakandi. Skarpt, þykkt, mulið. Bacon, lettuce and tomato. Súrt epli, crumbly haframjöl og rjómi. Ég er alltaf jafn hissa og kát þegar ég fæ einfaldan mat að borða. Ég á það til að hlaða allt of mörgum brögðum saman en man svo þegar ég bý til eitthvað einfalt að það er alltaf miklu betra. Ég held líka að með því að fylgja þessari heimspeki; nota gæðahráefni, leyfa innihaldinu að njóta sín og borða gott í réttu magni, þá geti maður ekki gert mikið vitlaust. Ég er mun hrifnari af þessu en allri hugmyndafræði sem bannar eitt næringarefni eða tímasetningu þegar maður á að borða eða prédikar öfgar á einn eða annan hátt. Hversu vel mér svo gengur að fylgja þessu er svo annað mál. Ég sá samt enga ástæðu til að bíða neitt og eldaði einfaldan kjúklingarétt í kvöld. Kjúklingaleggur, karamellaðir tómatar og tarragon. Ég er enn að smjatta.

miðvikudagur, 19. september 2012

Rannsóknir (University of Mexico, 2005) hafa sýnt fram á orsakatengls á milli stresseinkenna og þyngdaraukningar. Þegar við erum stressuð eykst adrenalín framleiðsla líkamans. Þetta eru náttúruleg viðbrögð við áreiti, og hönnuð til að láta okkur annaðhvort hlaupa eða berjast. Glycogen er framleitt af miklum krafti í lifrinni til að gefa mikla aukalega orku. Sem er náttúrulega bráðsniðugt ef maður er hellisbúi  þarf að hlaupa undan rándýri til að bjarga lífi sínu eða berjast upp á lif eða dauða við óvini. En ef maður situr á rassagatinu á skrifstofustól og stressið kemur af fjárhagsáhyggjum, hjónabandserjum eða vinnuálagi þá gerist ekkert annað fyrir þessa aukaorku nema að hún breytist í fitu. Hormónið kortisól getur ráðist að vöðvamassa í þeim tilgangi að minnka hann einfaldlega vegna þess að vöðvar þurfa meiri orku til að viðhalda sér og líkaminn gerir ráð fyrir að þurfa að nota sem mesta orku til að berjast eða flýja þegar hann er beraður fyrir stressi. Að auki þá veldur of mikið kortisól því að fita safnast á kviðinn til að eiga sem orku næst þegar stresseinkenni eiga sér stað. En við hlaupum ekkert og berjumst ekki við neitt eða neinn og það eina sem gerist er að við fáum okkur súkkulaði til að slaka á og við fitnum enn meira.

Ég er búin að vera stressuð núna síðan í ársbyrjun 2011. Þá gerði ég mér grein fyrir því að ég myndi ekki finna alvöru vinnu bara svona einn tveir og þrír, fór að hafa gífurlegar áhyggjur af peningum og öllum viðgerðunum sem voru vomandi yfir húsinu. Þetta tímabil helst nokkuð smart í hendur við tímabil þar sem ég er búin að léttast um sömu átta kílóin aftur og aftur. Mér finnst þetta liggja í augum úti. Auðvitað. Ekki nema von að ég hef ekki lést neitt. En nú þegar ég er komin í almennilega vinnu, er búin að komast yfir byrjunarstressið þar og get farið að koma mér fyrir, fjárhagurinn er allur að braggast og húsið er komið í lag... er nokkuð annað en bara að slaka á og taka því rólega?

sunnudagur, 16. september 2012

Á"meðan"
Það er algerlega komið á hreint að "eftir" er þjóðsaga ein. Ég á enn eftir að finna þá manneskju sem hefur lést um merkjanlegt magn af spekki, haldið því af sér og er svo bara í stuði það sem eftir lifir. Samkvæmt mínum rannsóknum þá þyngist uþb 95% þessa fólks aftur, og hin 5% eyða því sem eftir er í að passa sig ásamt því það gersamlega breyta öllum sínum lífstíl. Ég á enn eftir að finna þá manneskju sem bara léttist og þarf svo ekki að pæla meira í þessu. Og því fyrr sem ég 100% geri mér grein fyrir þessu því betra. Ég er alltaf að bíða eftir að komast á nýtt stig. Ég er alltaf að halda í einhverja von um að einn daginn verði þetta allt sama svo eðlilegt að ég geti bara hætt að spá í þessu. Geti bara breytt blogginu í tölfræðilegar upplýsingar um fótbolta, eða salt eða jafnvel kaffi. En ég þarf að hætta að leita að þessari lækningu. Ég held að þó ég lifi heilsusamlegu lífi þangað til ég verð sjötug, sem myndi þýða að ég hefði verið hraust lengur en ég var fíkill þá eigi mér aldrei eftir að hætta að langa í hitt og þetta, snickers og franskbrauð.  Ég er alltaf að rembast við að þykjast að smávegis af "eðal" sé nóg þegar raunveruleikinnn er að mig langar í milljón af "lélegu".
Súper september heldur áfram
Þegar ég spái í hvernig ég sjálf virka þá er tilgangslaust fyrir mig að hugsa um þetta í hugtakinu "til lífstíðar"...það bara virkar ekki fyrir mig. Það fyllir mig bara skelfingu og ég fæ innilokunarkennd. En þó ég finni ekki eitthvað eitt sem virkar fyrir mig þá þýðir það ekki að ég sér að gefast upp eða fúl eða pirruð - þvert á móti - þessi skilningur hefur gert þetta auðveldara og skemmtilegra fyrir mig. Ég kem alltaf til með að vera með dagatal (hvernig það lítur svo sem út) og til þess að halda þessu lifandi og skemmtilegu þarf ég alltaf að vera með plan, og vera með einhverja áskorun í gangi.

Og sunnudagar eru bestu dagarnir til að setja margfalda krossa í dagatalið. Ég fór út í hlaup í morgun enda veðrið nún alveg fullkomið fyrir mig, smávegis kalt en stillt og bjart. Þegar ég kom heim fannst mér upplagt að taka bjöllurnar og nota hlaupin sem upphitun. Mikið sem mér finnst ég vera kúl þegar ég geri svona dobbel.
Það sem eftir lifir dags er svo bara Lancashire hotpot og afslöppun. Og kannski smá áætlunargerð fyrir næstu viku.

Hraust, en mætti alveg slétta magann aðeins. 

föstudagur, 14. september 2012

Það er ekki hægt að leggja nógu mikla áherslu á hversu mikilvægt það er að setja sér markmið. Markmiðalaus ráfar maður bara um í tilgangsleysi, hvorki að koma né fara og maður getur sveiað sér upp á að hvorki gengur né rekur. Það er líka algerlega tilgangslaust að setja sér markmið sem ekki er hægt að mæla eða orða. Þannig sé ég lítið gagn í að segja "einn daginn ætla ég að klífa Kilimanjaro". Svo vaknar maður bara dag eftir dag með enga áætlun um hvernig maður ætlar upp fjallið. Og mest lítið gerist. En ef maður gerir áætlun sem segir td að fjóra daga í viku geri maður æfingar sem þjálfa upp fjallgöngufitness, planar inn reglulegar fjallgöngur, prófar að fara upp brekku eina helgina og svo upp lítið fjall þá næstu og byggir upp úthald þá ætti að vera líklegra að lokum standi maður við fjallsrætur Kilimanjaro með súrefniskút á bakinu og fulla tösku af hrökkbrauði.


"Ég ætla að gera það sem ég þarf að gera til að geta gert það sem ég vil gera."

Þetta er það sem ég rígheld í akkúrat núna. Ég er með markmið, skýrt og skilmerkt og er að vinna að því föstum höndum. Ég er svakalega fín og sæt og hraust svona eins og ég er við 90 kíló. En það er bara ekki það sem ég vil vera, ég vil vera 70 kíló og ennþá fínni, sætari og hraustari en ég er núna. Ég ætla því að gera það sem ég þarf að gera til að geta gert það sem ég vil gera. Ég finn nefnilega hvernig  það slaknar aðeins á sjálfstjórnarvöðvanum nú þegar helgin hellist yfir okkur en það er ekki samkvæmt markmiði og ég ætla ekki að láta undan. Ég er með plan.


þriðjudagur, 11. september 2012

Gulrótarsúpa og súrdeigsbrauð. 
Eitthvað snúa pólarnir í mér öfugt við flesta sem ég þekki; því dimmara, kaldara og hráslagalegra sem það verður með hverju morgninum þykir mér auðveldara að vakna og rjúka út í hlaup. Já, mér finnst best að hlaupa í kolniðamyrkri helst með lemjandi rigningu í trýni. Kannski er ég smá skrýtin en mér hefur alltaf líkað best við veturinn. Það er engin krafa á manni að "gera eitthvað", maður má bara kúra sig niður með bók í friði. Ryk sést líka verr á veturna, það má draga niður ljós og kveikja kertum. Mér finnst sumartíska líka alveg ömurleg og get oftast ekki beðið eftir að komast aftur í prjónaflíkur. Svart og grátt og dökkblátt og brúnt. Það eru fallegir litir. Ég er byggð til að þola frosthörkur. Ég hafði á tilfinningunni að þetta myndi breytast með breyttum lífstíl en svo virðist ekki vera, dimmir morgnar henta mér enn best til athafna.

Hitt er svo líka að með lækkandi hitastigi má fara að elda súpur og kássur. Og svona drullukokkur eins og ég er náttúrulega í essinu mínu þegar kemur að "sletta af þessu" og "dass af hinu" og "handfylli af því sem þú átt til" eldamennsku. Og þannig eldar maður einmitt súpur og kássur. Í kvöld var ég með gulrótarsúpu eftir uppskrift frá 101 Cookbooks sem ég valdi af nokkrum ástæðum. Í fyrsta lagi þá átti ég ógrynni af gulrótum. Í öðru lagi langaði mig í eitthvað svakalega einfalt. Í þriðja lagi er súpan nánast  ókeypis bæði fjárhagslega og í hitaeiningum talið. En aðalmálið fyrir mig var að ég gat hér notað Fleur de Sel til hins ýtrasta. Til að ná fram fínasta gulrótarbragðinu á maður nefnilega að salta súpuna. Salta og smakka til.Mér leið eins og Michelin kokki þar sem ég sáldraði fleur de sel af miklum móð og smakkaði svo spekingslega á. Súpan var æðisleg og skvetta af sítrónusafa út í er punkturinn yfir i-ið. 


sunnudagur, 9. september 2012

Enn stendur september undir súper nafngiftinni og eiginlega enn meira en ella fyrir það sem gerðist á föstudaginn. Alla vikuna hafði ég siglt í gegnum þetta alltsaman; vakna klukkan fimm, út að hlaupa og hafði gaman af því, salat og ávextir og hafði bara gaman af, súkkulaði fjarri huganum, ég var farin að halda að ég væri læknuð. Eina umkvörtunarefnið var kannski að dagana sem ég hljóp ekki fór ég í vinnnuna fyrr og kom heim seint og gaf mér ekki tíma í neina þverþjálfun. En það lagast vonandi þegar ég er komin með fæturnar betur undir skrifborðið mitt í bankanum. Hvað um það. Á föstudaginn fór ég snemma í vinnuna, hreyfði mig sem sagt ekki og bjóst því ekki við að verða neitt svöng. En um níuleytið var ég búin að borða morgunmatinn og morgunsnakkið mitt og maginn herptist samt saman af hungri. Þannig að ég neyddist til að borða hádegismatinn fyrir klukkan ellefu. Þegar ein af stelpunum í teyminu kom svo úr hádegismat með kassa af smákökum og ég enn að drepast úr hungri byrjuðu hjólin að snúast í hausnum. "Ég er svöng og þegar maður er svangur þá á maður að fá sér að borða." "Það er ekki eins og ein smákaka komi að sök." "Þú ert búin að vera svo dugleg, þú átt skilið að fá eina." Og ég fékk mér eina. Og þá byrjaði stríðið fyrir alvöru. Mig langaði svoooooo í fleiri. "Ég ræð ekki við þetta, ég bara ræð ekki við mig, ég hef enga stjórn á mér" sönglaði í hausnum á mér. Ég sat við skrifborðið að reyna að skilja samning sem fól í sér að ég myndi samþykkja að afskrifa rúmar 120 milljón krónur og það eina sem ég gat hugsað um var hvernig ég gæti réttlætt að borða aðra smáköku. Ég reifst við sjálfa mig en að lokum sigraði smákrakkinn. Ég stappaði niður fótum og grenjaði inni í mér þangað til ég fór og náði í aðra köku. Ég reiknaði út hitaeiningarnar og hugsaði með mér að ég væri enn seif og ætti helst að fá mér aðra. Og greip eina með mér á leiðinni út. Rölti með fram síkinu í Chester og maulaði á kökunni. Sá í hendi mér að best væri að fara í Marks og ná mér í avókadó svo ég gæti búið til súkkulaðimús til að stjórna sætindalönguninni. En auðvitað er Marks sneisafull af gúmmelaði og um leið og ég kom þar inn "ákvað" ég að ég væri stjórnlaus og ætti bara að njóta þess. Og svo snérist ég hring eftir hring að reyna að finna nammið/snakkið/matinn/eitthvaðið sem myndi fylla mig. Tók hvað eftir annað úr hillu og setti í körfuna mína bara til að setja það aftur upp í hillu. Endaði svo á að taka með mér 7up dós, kringlu og hvítt súkkulaðistykki. Borgaði og hljóp í strætó. Og þar sem ég sat í strætó og borðaði súkkulaðið sljákkaði aðeins í mér. Ég fann að það eina sem var að gerast var að ég var með blússandi samviskubit. Hringdi í Ástu til að fá aðeins reality check og hún minnti mig á að ég hefði ekkert til að hafa áhyggjur af. Þessi dagur kemur alltaf öðruhvoru, það sem skiptir máli er hvernig ég díla við hann. Hvort ég segi takk og amen og haldi svo bara mínu striki eða hvort ég leyfi mér að halda áfram að taka þessar slæmu ákvarðanir.

Ég læri alltaf eitthvað nýtt. Þetta kast kom mér bara á óvart. Það var enginn aðdragandi. Vanalega er ég byrjuð að plana þetta með nokkra daga fyrirvara. Ég byrja að smá slaka á ákvarðanatökunni og byrja réttlætinguna með góðum fyrirvara. En í þetta sinnið var ég bara svöng. En ég var líka meðvituð allan tímann og ég gat fylgst með því sem var að gerast. Og ég gat stoppað mig af, þó það hafi verið dálítið seint. Og ég fattaði eitt alveg rosalegt þar sem ég snérist í hringi í Marks. Það er ekkert til matarkyns sem nokkurn tíman kemur til með að fylla mig. Ég get étið þar til ég í alvörunni spring í loft upp og holan verður þarna enn þá. Það verður eitthvað annað sem fyllir mig. Ég á alveg örugglega eftir að halda áfram að reyna öðruhvoru að éta mér til óbóta en ég held samt að það verði aðeins öðruvísi héðan í frá.


Ég kom heim eftir þetta alltsaman, fékk syndaaflausn hjá Dave og hélt svo bara áfram. Hljóp fjallahringinn á laugardaginn og svo kom að fyrsta 5 km hlaupinu mínu í langan tíma núna í morgun. Hljóp til Wrexham eins og vindurinn með sólina í augun og með eldmóð hins sanntrúaða. Ég er kannski óeðlilega stolt af þessu hlaupi mínu, það eru jú, bara nokkrir mánuðir síðan 5 kílómetra hlaup var það sem ég gerði fjórum sinnum í viku án þess að spá í því. En málið er að ég var hætt að hlaupa það langt og ég var búin að tapa niður þolinu. Og ég hefði getað gefist upp. Yppt öxlum og talað um liðna tíð þegar ég var nógu fitt til að hlaupa 5km daglega. En ég kaus frekar að leggja á mig vinnuna til að ná þessu aftur upp og ég ætla að fagna uppskerunni, Hell yeah! Og skrái kílóatap þessa vikuna. Ég held að ég sé sátt.

Ég held að súper september sé bara meira súper fyrir svona atvik eins og á föstudaginn.

miðvikudagur, 5. september 2012

Ég finn hvergi nokkurs staðar listann minn yfir 12 á 12. Síðasta skipulagða hlaupið var 17. júní í Race for Life og svo í júlí var 5 km hlaup með Wrexham park run hópnum sem þýðir sjö af tólf. Ég hafði í hyggju að telja Mablethorpe strandhlaup sem ágúst innleggið sem þýðir að ég er enn á réttu róli með átta af tólf en ég vildi óska að ég finndi skjalið því ég man allsekki hvað ég gerði í janúar og febrúar og mars. Ég þarf að fá stelpurnar til að taka með mér æfingahlaup í Köben í september og kalla það níu af tólf og svo er Winsford að sjálfsögðu númer tíu. Nóvember er óráðinn en svo tek ég aftur þátt í Helena Tipping 10K í desember. Og ætti að vera góð. En samt. Ég þarf að finna miðann með upphafinu.

Mikið væri nú gaman að standa við þessa áskorun.

mánudagur, 3. september 2012

Eitt af skemmtilegri trixunum mínum er að einbeita mér bara að einhverju öðru. Öðru en ruslfæði það er að segja. Þannig er ég mikil kaffiáhugamanneskja, er búin að stúdera náttúrleg og grísk jógúrt frá a til ö, hef rannsakað mismunandi hveititegundir til súrdeigsgerðar og hef núna snúið mér að salti. Já, ég ætla að verða áhugamanneskja um salt. Er ekki ljómandi sniðugt að vera saltconnoiseur?

 Þegar maður getur dúllað sér við að pæla í mismunandi salti og áhrifum sem það hefur á eldamennskuna þá hefur maður bara ekki tíma né nennu til að vera að spá í að maður hafi sleppt snickersinu í dag. Ég fór í leiðangur um daginn og skoðaði allt saltið sem er í boði núna. Það kemur í ljós að ég er ekki ein um að langa til að verða salt sérfræðingur; það eru milljón mismunandi fín sölt í boði. Ég ákvað að byrja á því allra frægasta (og dýrasta) og keypti mér krukku af Fleur de sel. Það er saltið sem er safnað saman með handafli einu af efsta laginu af salti þar sem það þornar. Fíngert og smávegis rakt, það bráðnar um leið og það kemur í snertingu við mat og gefur fínlegt bragð enda með flóknari samsetningu steinefna en venjulegt borðsalt.

Salt er eini steinninn sem við mannfólkið borðum. Það er nauðsynlegt steinefni og hjálpar til við ýmis störf í líkamanum. Það er líka nauðsynlegt til að upphefja mat. Það sem ég hafði ekki gert mér grein fyrir áður var hversu gott það er að setja smá salt út í sætan mat til að ýta fram enn meira sætu bragði. Þannig er ég búin að vera að leika mér að setja smá fleur de sel á avókadó búðinginn minn og það er ótrúlega gott. Næst ætla ég að kaupa svart salt. Og svo bleikt. Bara að gamni.

sunnudagur, 2. september 2012

Súper september heldur ótrauður áfram; mitt besta hlaup í langan tíma í morgun. Hlaup þar sem mér líður eins og ég sé við stjórnvölin, ég hafi yfirráðin yfir heilanum og leyfi líkamanum bara að gera og gera og gera án þess að smákrakkinn inni í mér sé grenjandi. Og ég því búin að krossa yfir tvær æfingar í september. Ég hef í hyggju að setja 14 svona krossa í viðbót í september og svo svipað í október og þá ætti ég að vera tilbúin í 10 km í Winsford.. Og inn á milli koma svo líka ketilbjöllur til að viðhalda styrk. Ég er í þvilíkri uppsveiflu.

Þetta er svarið við öllum spurningunum. Ég held að oftast vilji fólk fá að vita hvað það er sem heldur mér við efnið. Og ég er búin að rannsaka þetta fram og tilbaka. Ég er orðin nokkuð sannfærð um að ég sé búin "visualisation" tækni svona frá náttúrunnar hendi og það er eitthvað sem ég hef verið að nota og þróa í áratugi. Mér datt nefnilega í hug um daginn að bjartsýnisröndin mín er og hefur alltaf verið svoleiðis tæki. Ég get séð fyrir mér inni í mér logandi ljós bjartsýni og ég get hækkað ljósið og hitann sem frá henni stafar. Að undanförnu hef ég verið að leika mér að nota hitann frá bjartsýnisröndinni til að bræða spik. Og það virðist virka því ég hef lést um 2.4 kíló í þessari viku. Ég nota líka tækni sem jaðrar við að vera sjálfsdáleiðsla. Ég endurtek aftur og aftur setningar sem mér finnast hjálpa mér til að bæla niður sjálfseyðingarhvötin. Að auki er ég orðin helvíti lúnkin við að "finna tilfinninguna". Það er að segja ef ég er með heimþrá þá grenja ég bara og er með heimþrá. Ég veit nefnilega að ég drepst ekki úr heimþrá, sorgin líður hjá og það eina sem myndi gerast ef ég fengi mér nammi er að ég væri með heimþrá og samviskubit. Þetta er eitthvað sem er bæði erfitt og flókið og tekur áraraðir að geta gert og ég get þetta ekki alveg alltaf en oftar en ekki tekst mér þetta núna.
En ef ég á að svara spurningunni "hvernig heldurðu þér við efnið?" þá bendi ég á dagatalið hér að ofan. Skýrt og greinilegt markmið, markmið sem er mælanlegt og skipulagt, markmið sem ég get brotið niður í vikulegt plan, og get svo unnið markvisst að því. Þannig var ekki nóg fyrir mig að svona vagurt hugsa með mér að ég vildi "léttast meira." Það er bara ekki markmið sem segir mér nóg. Ég þurfti að setjast niður og mæla hvað ég hef í hyggju að grennast mikið meira og hvernig ég hef í hyggju að gera það. Svo þurfti ég að skrifa það niður viku fyrir viku með eins miklum smáatriðum og ég gat. Hluti af því var að komast aftur í 10km form. Eina leiðin að því var að setja sjálfri mér tímatakmark og svo sett prógram sem ég verð að fylgja eftir. Um leið og þetta er komið á blað þá fokkings fylgi ég planinu. Og það þýðir ekkert væl, maður bara gerir þetta. 

 Þess á milli skemmtir maður sér svo vel, fer í verslunarleiðangur til Liverpool og fær edamame og núðlur á Wagamama og fer svo til Chester daginn eftir og fær sér gommu af kjöti á brasilísku churrascaria. Lífið er bara gott.

laugardagur, 1. september 2012

September á eftir að vera súper mánuður. Ég sá það í hendi mér um leið og ég kom inn eftir hlaup í morgun. Sólin skein og ég mætti bara einum hundi, það veit alltaf á gott. Um leið og ég kom heim krossaði ég yfir viku 7, æfingu eitt og gerði mig svo til í smá útstáelsi til Liverpool. Já, ég finn það skýrt og greinilega að september verður alveg súper.