þriðjudagur, 11. september 2012

Gulrótarsúpa og súrdeigsbrauð. 
Eitthvað snúa pólarnir í mér öfugt við flesta sem ég þekki; því dimmara, kaldara og hráslagalegra sem það verður með hverju morgninum þykir mér auðveldara að vakna og rjúka út í hlaup. Já, mér finnst best að hlaupa í kolniðamyrkri helst með lemjandi rigningu í trýni. Kannski er ég smá skrýtin en mér hefur alltaf líkað best við veturinn. Það er engin krafa á manni að "gera eitthvað", maður má bara kúra sig niður með bók í friði. Ryk sést líka verr á veturna, það má draga niður ljós og kveikja kertum. Mér finnst sumartíska líka alveg ömurleg og get oftast ekki beðið eftir að komast aftur í prjónaflíkur. Svart og grátt og dökkblátt og brúnt. Það eru fallegir litir. Ég er byggð til að þola frosthörkur. Ég hafði á tilfinningunni að þetta myndi breytast með breyttum lífstíl en svo virðist ekki vera, dimmir morgnar henta mér enn best til athafna.

Hitt er svo líka að með lækkandi hitastigi má fara að elda súpur og kássur. Og svona drullukokkur eins og ég er náttúrulega í essinu mínu þegar kemur að "sletta af þessu" og "dass af hinu" og "handfylli af því sem þú átt til" eldamennsku. Og þannig eldar maður einmitt súpur og kássur. Í kvöld var ég með gulrótarsúpu eftir uppskrift frá 101 Cookbooks sem ég valdi af nokkrum ástæðum. Í fyrsta lagi þá átti ég ógrynni af gulrótum. Í öðru lagi langaði mig í eitthvað svakalega einfalt. Í þriðja lagi er súpan nánast  ókeypis bæði fjárhagslega og í hitaeiningum talið. En aðalmálið fyrir mig var að ég gat hér notað Fleur de Sel til hins ýtrasta. Til að ná fram fínasta gulrótarbragðinu á maður nefnilega að salta súpuna. Salta og smakka til.Mér leið eins og Michelin kokki þar sem ég sáldraði fleur de sel af miklum móð og smakkaði svo spekingslega á. Súpan var æðisleg og skvetta af sítrónusafa út í er punkturinn yfir i-ið. 


2 ummæli:

Hanna sagði...

Ég vona að allt sem ég les í þessum pistli verði eftir í Wales í lok september.
Því ég vil:
sól og hita
stuð til að "gera eitthvað"
mat til að bíta í
lítið kúr (en þó e-ð) með/án bókar

Hlaupagleðinni máttu gjarnan pakka niður í tösku og ég lofa að þú fáir að halda á saltstauknum :)

þetta nálgast ....

murta sagði...

Ahhh... haustsól í Köben, matur og vín, spjall fram á nótt og trylltur tætingur á dansskónum. Ekkert lagt í saltpækil nema slen og slor. Hlaupaskórnir verða með í för - það hebbði é nú haldið!