sunnudagur, 9. september 2012

Enn stendur september undir súper nafngiftinni og eiginlega enn meira en ella fyrir það sem gerðist á föstudaginn. Alla vikuna hafði ég siglt í gegnum þetta alltsaman; vakna klukkan fimm, út að hlaupa og hafði gaman af því, salat og ávextir og hafði bara gaman af, súkkulaði fjarri huganum, ég var farin að halda að ég væri læknuð. Eina umkvörtunarefnið var kannski að dagana sem ég hljóp ekki fór ég í vinnnuna fyrr og kom heim seint og gaf mér ekki tíma í neina þverþjálfun. En það lagast vonandi þegar ég er komin með fæturnar betur undir skrifborðið mitt í bankanum. Hvað um það. Á föstudaginn fór ég snemma í vinnuna, hreyfði mig sem sagt ekki og bjóst því ekki við að verða neitt svöng. En um níuleytið var ég búin að borða morgunmatinn og morgunsnakkið mitt og maginn herptist samt saman af hungri. Þannig að ég neyddist til að borða hádegismatinn fyrir klukkan ellefu. Þegar ein af stelpunum í teyminu kom svo úr hádegismat með kassa af smákökum og ég enn að drepast úr hungri byrjuðu hjólin að snúast í hausnum. "Ég er svöng og þegar maður er svangur þá á maður að fá sér að borða." "Það er ekki eins og ein smákaka komi að sök." "Þú ert búin að vera svo dugleg, þú átt skilið að fá eina." Og ég fékk mér eina. Og þá byrjaði stríðið fyrir alvöru. Mig langaði svoooooo í fleiri. "Ég ræð ekki við þetta, ég bara ræð ekki við mig, ég hef enga stjórn á mér" sönglaði í hausnum á mér. Ég sat við skrifborðið að reyna að skilja samning sem fól í sér að ég myndi samþykkja að afskrifa rúmar 120 milljón krónur og það eina sem ég gat hugsað um var hvernig ég gæti réttlætt að borða aðra smáköku. Ég reifst við sjálfa mig en að lokum sigraði smákrakkinn. Ég stappaði niður fótum og grenjaði inni í mér þangað til ég fór og náði í aðra köku. Ég reiknaði út hitaeiningarnar og hugsaði með mér að ég væri enn seif og ætti helst að fá mér aðra. Og greip eina með mér á leiðinni út. Rölti með fram síkinu í Chester og maulaði á kökunni. Sá í hendi mér að best væri að fara í Marks og ná mér í avókadó svo ég gæti búið til súkkulaðimús til að stjórna sætindalönguninni. En auðvitað er Marks sneisafull af gúmmelaði og um leið og ég kom þar inn "ákvað" ég að ég væri stjórnlaus og ætti bara að njóta þess. Og svo snérist ég hring eftir hring að reyna að finna nammið/snakkið/matinn/eitthvaðið sem myndi fylla mig. Tók hvað eftir annað úr hillu og setti í körfuna mína bara til að setja það aftur upp í hillu. Endaði svo á að taka með mér 7up dós, kringlu og hvítt súkkulaðistykki. Borgaði og hljóp í strætó. Og þar sem ég sat í strætó og borðaði súkkulaðið sljákkaði aðeins í mér. Ég fann að það eina sem var að gerast var að ég var með blússandi samviskubit. Hringdi í Ástu til að fá aðeins reality check og hún minnti mig á að ég hefði ekkert til að hafa áhyggjur af. Þessi dagur kemur alltaf öðruhvoru, það sem skiptir máli er hvernig ég díla við hann. Hvort ég segi takk og amen og haldi svo bara mínu striki eða hvort ég leyfi mér að halda áfram að taka þessar slæmu ákvarðanir.

Ég læri alltaf eitthvað nýtt. Þetta kast kom mér bara á óvart. Það var enginn aðdragandi. Vanalega er ég byrjuð að plana þetta með nokkra daga fyrirvara. Ég byrja að smá slaka á ákvarðanatökunni og byrja réttlætinguna með góðum fyrirvara. En í þetta sinnið var ég bara svöng. En ég var líka meðvituð allan tímann og ég gat fylgst með því sem var að gerast. Og ég gat stoppað mig af, þó það hafi verið dálítið seint. Og ég fattaði eitt alveg rosalegt þar sem ég snérist í hringi í Marks. Það er ekkert til matarkyns sem nokkurn tíman kemur til með að fylla mig. Ég get étið þar til ég í alvörunni spring í loft upp og holan verður þarna enn þá. Það verður eitthvað annað sem fyllir mig. Ég á alveg örugglega eftir að halda áfram að reyna öðruhvoru að éta mér til óbóta en ég held samt að það verði aðeins öðruvísi héðan í frá.


Ég kom heim eftir þetta alltsaman, fékk syndaaflausn hjá Dave og hélt svo bara áfram. Hljóp fjallahringinn á laugardaginn og svo kom að fyrsta 5 km hlaupinu mínu í langan tíma núna í morgun. Hljóp til Wrexham eins og vindurinn með sólina í augun og með eldmóð hins sanntrúaða. Ég er kannski óeðlilega stolt af þessu hlaupi mínu, það eru jú, bara nokkrir mánuðir síðan 5 kílómetra hlaup var það sem ég gerði fjórum sinnum í viku án þess að spá í því. En málið er að ég var hætt að hlaupa það langt og ég var búin að tapa niður þolinu. Og ég hefði getað gefist upp. Yppt öxlum og talað um liðna tíð þegar ég var nógu fitt til að hlaupa 5km daglega. En ég kaus frekar að leggja á mig vinnuna til að ná þessu aftur upp og ég ætla að fagna uppskerunni, Hell yeah! Og skrái kílóatap þessa vikuna. Ég held að ég sé sátt.

Ég held að súper september sé bara meira súper fyrir svona atvik eins og á föstudaginn.

Engin ummæli: