fimmtudagur, 22. júlí 2010

Við Láki sitjum hér með naríur til skiptanna og tannburstann í tóbaksklútum og bíðum bara eftir Airbus flugvél. Manchester - London - Keflavík - ÞORLÁKSHÖFN!! Láki er spenntur af því að hann á tíu pund og hann ætlar að kaupa sér múmíu mörgæs (don´t ask!), hann ætlar að knúsa ömmu og afa, hann ætlar í útilegu og hann ætlar að hitta Viktor. Ég get ekki beðið eftir að anda að mér íslensku lofti, eftir að knúsa mömmu og pabba, hitta fólkið mitt, fara í útilegu. Og svo auðvitað að fá mér bragðaref og lakkrís. Ég er búin að vera að æfa mig dálítið að undanförnu. Ég er búin að vega og meta valmöguleikana. Ég get farið í frí. Og étið mig í gegnum Suðurland. Og það væri örugglega bara fínt og ég efast ekki um að ég myndi byrja ótrauð aftur í lífstílnum þegar fríi lýkur. En ég er að undanförnu búin að vera gera æfingar sem lúta að því að ímynda sér útkomuna á ýmsum aðstæðum. Og með því að sjá fyrir sér útkomuna gerir maður sér frekar grein fyrir þeim hlutum sem maður hefur vald yfir sjálfur og hefur þar með sýn á að maður ræður sjálfur útkomunni. Það er til dæmis ekkert óhjákvæmilegt að fara til Ísland og þyngjast um fjögur kíló. Ég ræð sjálf hvort ég borða matinn sem þyngir mig um fjögur kíló eða hvort ég bara sleppi því. Ég ímynda mér því að ég fari til Íslands og ég fer í ræktina með Huldu, ég fer og syndi, ég fer í skokk með mömmu, ég fæ mér einn bragðaref og smá lakkrís, en hver gerir það svo sem ekki? Og ég fer aftur heim sátt við sjálfa mig. Og það kemur í ljós að ég verð algerlega við stjórnvölin, engar aðstæður sem eru úr mínu valdi. Þannig að ég held að það sé fríið sem ég ætla í. Frí þar sem ég held áfram að vera stolt af sjálfri mér fremur en að koma aftur heim umvafin haturs-sykurþokunni minni. Osló bíður í ofvæni. Eða Þolló.

sunnudagur, 18. júlí 2010

Við eigum hús sem er óskaplega gamalt og lúið. Við hefðum átt að hugsa okkur betur um áður en við keyptum það svona vitandi að gömul hús þarfnast mikils viðhalds og við erum bæði gersamlega ófær um allt dytt og aðhald, nei viðhald. En krúttlegt er það og þegar það dimmir aðeins og ég kveiki á kertum er það voðalega notalegt. Allt er fallegt við kertaljós. En erfitt er að þrífa það og á sumrin sýnir sólin alveg sérstaklega vel allan skít og drullu. Láki vakti mig á laugardagsmorgun rétt eftir sex og þar sem morgunsólin baðaði rykið allt var ekkert annað að gera en að drífa sig í smá skúr, skrúbb og bón. Og þegar þrifum er lokið er gott að setjast niður og dást að hvítþvegnum veggjum og glansandi gólfi. Í fimm mínútur. Og svo er komin sletta af mjólk og seríós gumsi niður eftir eldhúsborðlegg. Og brauðmylsna. Og puttafar á hurðarhún. Og skítugt handklæði á baðherbergisgólfið. Og hálftómur kaffibolli á stofuborð. Og sandur á gólfið. Og og og og og... og maður man að það er bara hægt að dást að handverkinu í smástund. Það má bara slaka á í eina mínútu áður en verkið byrjar upp á nýtt. Hann var líka ljúfur dagurinn í dag til að byrja með. Ég bakaði grófar sex korna bollur, straujaði tuttugogfjórar skyrtur og svo fórum við til Wrexham á rölt og með Láka að keyra smá í go-kart. Settumst svo inn á Starbucks og fengum gott kaffi. Og síðan að við komum heim er ég búin að borða stanslaust. Stanslaust. Grófar brauðbollur og brauð með sultu og brauð með osti og brauð með smjöri og brauð með tómatsósu og sausage og hálfan pakka af dark chocolate digestives og diet kók og nokkrar oreo kexkökur. Var ég svöng? Nei, ekki rassgat svöng. Ég hlakka til á morgun þegar ónotatilfinningin yfirgefur magann og það sem mikilvægara er þegar hún yfirgefur hugann. Og án þess að geta skilgreint hvað það er sem gerist á svona dögum, dögunum sem ég ruglast svona svakalega í ríminu þá er mikilvægast fyrir mig að muna að það er bara hægt að setjast niður og dást að sjálfum sér í fimm mínútur. Ef maður stoppar og slakar á þá safnast ekki bara fyrir brauðmylsna á eldhúsborðinu heldur líka á bringunni. Þetta er verkefnið endlausa og það þýðir bara ekki að slaka á. Ekki í eina mínútu.

miðvikudagur, 14. júlí 2010

Önnur löng vika rétt hálfnuð og ég alveg kúguppgefin. Blanda af yfirvinnu og svefnleysi er að gera mér dálítið erfitt fyrir. En það eru alltaf einhverjir bjartir punktar; Lúkas er "non-uniform" núna síðustu tvo dagana í skólanum fyrir sumarfrí þannig að ég þarf ekki að þvo og strauja skólabúning núna í einn og hálfan mánuð. Það er ekkert planað þessa helgi svo ég get vonandi náð að sofa smávegis. Ég er aðeins farin að leyfa mér að byrja að hlakka til að koma heim. Og akkúrat núna hlakka ég svakalega til að prófa morgunmatinn minn á morgun. Ég hef ekki tíma á morgnana til að elda hafragrautinn minn þar eð ég er rokin út rétt um 6 leytið. Og ég sakna hans alveg svakalega. Ég er meira að segja farin að hallast að því að pattstaða og skortur á hafragraut séu eitthvað samtvinnuð. Þannig að ég setti núna áðan í skál gróft haframjöl, möndlumjólk og rúsínur og setti svo inn í ísskáp. Þetta ætti svo að vera orðið að gómsætum graut í fyrramálið. Mmmm..hafragrautur að hætti hrámenna. Ég bara get ekki beðið.

sunnudagur, 11. júlí 2010

Ég verð stundum svo reið út í lífið að hafa gert mig eins og ég er. Mér finnst þetta svo óréttlátt. Að þurfa að vigta, telja, mæla. Að mega aldrei bara slaka á... En þegar ég byrja að hugsa þannig (og kreeiiiiisí hugsanir eins og að ég ætti bara að byrja að reykja aftur til að léttast) þá er tími til kominn að minna mig á af hverju ég er að þessu. Þá skoða ég myndir eins og þessa hér til hliðar og man að ég er laus úr fangelsi. Fanglelsi vegna þess að ég var ekki frjáls til að gera allskonar hluti, hreyfa mig, beygja mig og sveigja, ég var ekki frjáls til að líða vel. Þegar ég man eftir svita á milli fitulaga, að geta ekki beygt mig niður til að raka fótleggina, og svo sérstaklega þegar það er tilefni til að hafa sig til. Við fórum út að borða í gær í tilefni 5 ára brúðkaupsafmælisins og ég get varla líst tilfinningunni að smyrja mig alla með kremum án nokkurra vandkvæða, að smeygja mér í pínulítinn kjól og 10cm hæla og líta svo í spegil og segja við sjálfa mig að ég sé fín og flott og að Dave sé stoltur að hafa mig upp á arminn. Þetta er svo gott. Og þetta er allt þess virði. Og þegar ég lít í spegilinn og er svona stolt af sjálfri mér þá hugsa ég með mér að lífið sé bara alls ekki óréttlátt. Ég er nefnilega svo heppin að vera svo vel gerð að ég get talið, vigtað og mælt. Ég er nógu vel gefin til að skilja hvernig þetta virkar. Ég er nógu sterk til að gera það flesta daga.Hvað ég er þakklát fyrir að þurfa að vigta, telja, mæla því það hefur frelsað mig og það gerir mig að manneskju sem finnur tilfinningar sínar en borðar þær ekki. Þetta er allt annað líf. Bókstaflega.

miðvikudagur, 7. júlí 2010

Bankinn minn og ég vorum ekki alveg sammála um hvernig hlutirnir ættu að vera. Og eftir heillangt japl, jaml og fuður þá viðurkenndi bankinn minn að hann hefði rangt fyrir sér og að ég hefði rétt fyrir mér. Sem er náttúrulega voðalega skemmtilegt. Bankinn minn virðist hinsvegar ætla sér að eiga síðasta orðið því þegar ég kom heim úr vinnunni í kvöld beið mín hér sending. Afskaplega fallegur kassi, innpakkaður í skínandi rauðan pappír, bundinn með silkislaufu og risastórt kort sem á stóð "Sorry! For all the inconvenience caused." Í kassanum er að sjálfsögðu stærsta tegund af konfekti frá Thornton´s, dökkt-, mjólkur- og hvítt súkkulaði, allt búið til eftir ýmsum evrópskum desert uppskriftum. Eitthvað finnst mér eins og bankinn minn sé bara allsekkert sorrí. Nei, því ef þeir sæju mig núna, með geðveikisglampann í augunum, og hvítglóandi hnúana greipta um stofuborðið til að passa að ég fari ekki inn í eldhús og ryksugi kassann í mig þá væru feitir bankakarlarnir sko örugglega skellihlæjandi að aumingja mér. En ég læt ekki undan! Þeir ná mér sko ekki. Þeir mega taka af mér vexti og vaxtavexti og ávaxta þá síðan í ofanálag, en þeir troða ekki í mig súkkulaði!

sunnudagur, 4. júlí 2010

Ég var 94.5 kíló á laugardagsmorgun. Undir 95. Síðan í mars er ég búin að rokka upp og niður 97-95-97-95. Aftur og aftur og aftur. En mér líður eins og því tímabili sé að ljúka og þetta sé allt að koma núna aftur. Ég veit að þetta eru bara 500 grömm per se en akkúrat núna líður mér eins og að þessi 500 grömm hafi sömu merkingu og hin 30 kílóin sem ég er búin að léttast um. Það sem ég er ánægð með að ég hafi nennt að pusast þetta áfram án þess að sjá neinn árangur í allan þennan tíma. Það hlaut að koma að þessu fyrr eða síðar. Hugsa með sér ef ég hefði gefist upp og fitnað aftur! Það hríslast um mig svona viðbjóðshrollur við tilhugsunina. Ég var orðin vön því að vera feitust hvert sem ég fór. Allstaðar var ég stærst. Og það var bara hundleiðinlegt að vera alltaf feitust. En núna leik ég mér oft í leiknum "Hver er feitari en ég?" og það er bæði gaman og leiðinlegt að segja frá því að ég þarf ekki að leika lengi áður en ég finn feitu kellinguna. Gaman fyrir mig en leiðinlegt fyrir feitu kellinguna. Er ég rosalega vond?

Skólinn hans Lúkasar hélt skemmtun á föstudaginn. Um leið og ég kom heim úr vinnu röltum við okkur aftur upp í skóla til að vera með. Skólinn þarf að safna pening fyrir ýmsum hlutum sem bæjarfélagið borgar ekki og svona hátíðir eru ágætis fjáröflunarleið. Lúkas fór í hoppukastala og fékk ís og svo fengu allir grillmat. Það sem var merkilegt við þetta að það var boðið upp á bjór og vín. Foreldar voru þarna röltandi um skólalóðina með bjór. Ekki held ég að það myndi gerast á Íslandi. Og svo var líka svona líka fínt að leika leikinn minn þarna. Ég bara vann og vann og vann. Jíha!

föstudagur, 2. júlí 2010

Ég hef að undanförnu rekist á nokkrar greinar þar sem leiddar eru líkur að samhengi á milli liðaverkja (joint pain), bólgu í líkamanum og sykurneyslu. Ég hef reyndar ekki rannsakað nógu vel hversu vel þetta hefur verið kannað á vísindlalegan máta en engu að síður þá er þetta mjög áhugavert. Þegar ég borða hollan og góðan mat þá líður mér vel en ég hef hingað til sett það í samhengi við andlegt ástand mitt. Þegar ég sleppi sykri þá er ég að "standa mig vel" og get hrósað sjálfri mér og líkamleg vellíðanin kemur frá þeirri tilfinningu. Ég var búin að gera mér grein fyrir að vellíðanin sem ég finn fyrir eftir líkamsrækt er núna bæði andleg og líkamleg, ég hreinlega finn orðið fyrir endorfínum renna um æðarnar eftir góða sessjón í ræktinni ásamt vellíðaninni sem kemur með "mikið ertu dugleg" tilfinningunni. En núna þarf ég að fara í tilraunastarfsemi. Ég hef mikinn hug á að athuga hvort ég geti sett sykurneyslu í samhengi við verki í hné. Prófa eina viku án sykurs og eina viku með sykri, búa til sársaukaskala og reyna að merkja inn á hann hvar ég stend. Og ef það kemur í ljós að ég er betri í hnénu þegar sykur er skorinn við nögl þá hlýtur það að vera þess virði að sleppa honum. Aðrir fylgifiskar eins og fitutap væru nú bara smá bónus á miðað við að vera ekki illt. Alltaf dettur manni eitthvað nýtt í hug. Hippocrates var reyndar búinn að fatta þetta allt saman löngu á undan mér; "If we could give every individual the right amount of nourishment and exercise, not too little and not too much, we would have found the safest way to health."