þriðjudagur, 28. febrúar 2012

Þær skeggræddu það fram og tilbaka frá því um hálftíu í morgun hvort þær ættu ekki bara að fá sér súkkulaðistykki samstarfskonur mínar. Voðalega sem þær langaði í, og að mestu leyti ætti þær það skilið, báðar  höfðu þær farið í ræktina í síðustu viku. En samt. Önnur þeirra á leið í sumarfrí, hefur bara átta vikur til að léttast um sjö kíló og hin nýbúin að eignast barn og þyrfti helst að ná af sér fæðingaskvapinu. En það eru nú alveg átta vikur fram að fríi og dagurinn leiðinlegur, súkkulaði myndi hjálpa.

Svona hringsnérust þær í kringum súkkulaðið þar til loksins að önnur þeirra stóð upp, fór í kaffiteríuna og kom tilbaka með kaffi og tvö Twirl.

Hvernig stendur á því að tvær fullorðnar konur þurfa að ganga í gegnum þessar hringborðsumræður áður en það er orðið réttlætanlegt fyrir þær að fá sér eitt súkkulaðistykki? Af hverju má fólk ekki bara fá sér smá nammi og njóta þess án þess að þurfa að skila inn í þríriti afsökunum og ástæðum? Mikið er þetta orðið erfitt allt saman. Og mikið eru þetta hræðileg örlög okkar allra að þurfa að lifa með þessu stanslausa samviskubiti.

Mér datt reyndar líka í hug að afsakanaflaumið væri að einhverju leyti beint til mín. Það er vitað mál að ég fæ mér ekki kex, kökur eða önnur sætindi þegar þau eru á boðstólum og flest hafa þau tekið eftir að ég hef hægt og bítandi verið að léttast. Og það er svo komið að þegar einhver fær sér nammi er mér tilkynnt að það sé út af hinu eða þessu. Og svo er mér sagt að ég sé spes og öðruvísi, ég hafi "willpower" og "motivation". "Oh," er svo andvarpað, "I wish I had your willpower."

Um leið og við tökum viljastyrk og hvatningu og setjum viljastyrk í krukku og hvatningu í dós og sjáum fyrir okkur sem hugtök sem standa fyrir utan okkur verður þetta að miklu máli. Eins og að við þyrftum að teygja okkur upp í efstu hillu til að ná í krukku af viljastyrk og dós af hvatningu. Og við færum ábyrgðina frá okkur sjálfum. Viljastyrkur og hvatning breytast í utanaðkomandi áhrifavalda sem við höfum enga stjórn á eða vald yfir. Og við stynjum upp yfir okkur að við höfum engan viljastyrk og fáum okkur annað snickers.

Um leið og við sjáum að viljastyrkur og hvatning eru ekki einingar sem standa út af fyrir sig og úr seilingu verður þetta allt miklu einfaldara og auðveldara. Ef við viljum gára vatnið verðum við að fleyta steininum.

Mér finnst þetta allt voðalega einfalt. Ef maður ætlar að fá sér súkkulaði þá gerir maður það bara. Það kemur mér ekki rassgat við. Það þarf enginn að afsaka sig fyrir mér. Og það síðasta sem ég hef áhuga á er að skemma súkkulaðið fyrir samstarfskonum mínum. Skárra væri það nú. Ég hef engan áhuga á að vera enn ein ástæðan fyrir samviskubiti.

Ég er nefnilega ekkert spes eða öðruvísi eða með eitthvert viljastyrksgen. Ég ber einfaldlega ábyrgð á sjálfri mér, samviskubitslaust.

Í öðrum fréttum þá er hér heldur betur farið að vora. Ég hélt ég myndi drepast úr hita við hlaupin í kvöld. Það er kominn tími til að pakka niður vetrarhlaupagallanum og ná í stuttbuxurnar. Djöö... kominn tími að raka á mér lappirnar!

sunnudagur, 26. febrúar 2012

Innihaldið
Það skal skýrt í upphafi tekið fram að síðustu vikurnar hafa bragðlaukarnir mínir breyst þannig að ég þarf ekki mikil sætindi til að finna mikið sætt bragð. Og svo er líka að í uppskriftinni eru fjögur egg. Ég hef ekkert á móti eggjum, þvert á móti, ég tel að það sé erfitt að finna heilsteyptari fæðu en egg. En sumir hafa áhyggjur af kólesteróli í þeim. Ég hef nú samt lesið rannsókn sem segir að það eru engin sönnuð tengsl á milli hjartasjúkdóma og eggjaneyslu. Kólesteról úr eggjarauðum berast víst seint og lítið inn í kransæðar. Þannig að það má alveg slaka á yfir eggjunum. Það verður bara hver og einn að ákveða það sjálfur.
1 dós af kókósmjólk (full fita) sem hefur verið geymd í ísskáp.
4 eggjarauður
4 eggjahvítur
1 væn matskeið rice syrup (frúktósalaust - en fullt af glúkósa þannig að ég er að svindla örlítið hérna.)
2 matskeiðar vanilludropar

Heslihnetuísinn
Aðskilja rauður og hvítur. Stífþeyta hvítur og þeyta rauður saman við sýróp (hér má nota hunang eða sweet freedom eða eitthvað þessháttar ef maður hress með frúktósann og auka alveg um eina eða tvær skeiðar ef maður er með þörf fyrir sætt bragð) þar til létt og ljóst. Taka kókósmjólkina úr ísskápnum, opna hana og skafa kókósrjómann sem hefur myndast upp úr dósinni þar til maður kemur að kókósvatni einu saman. Þetta er nánast öll dósin. Þetta eru eflaust bara tiktúrur í mér og það má alveg nota allt úr dósinni en ég er sannfærð um að með þessu móti fái ég meira rjómakennt efni.
Blanda svo öllu saman ásamt vanilludropunum og setja í litlar plastdósir. Svo tekur ímyndunaraflið við. Ég lét eina dósina vera hreina, í eina setti ég kókósflögur, í eina fóru ristaðar, muldar hesli- og pekanhnetur og þá síðustu fór teskeið af kasjúhnetusmjöri, cacao nibs og ristaðar möndluflögur. Svo frysti ég og hrærði til að mylja ískristalla á hálftímafresti.

Með fleiri hnetum og smá slettu af rjóma.
Bragðtilraunir gáfu skýrt til kynna að ísinn með hnetusmjörinu var geðveikislega góður. Ég á eftir að prófa kókósflögudósina. Sú hreina var góð, en sem grunnur. Þannig að þegar ég setti kúlu á nýbakaðar kókóshnetuhveitipönnukökur með sykurlausu súkkulaði var líf mitt fullkomnað. Eða svona því sem næst.
Kókósflögur

Hnetusmjör og cacaonibs. 

laugardagur, 25. febrúar 2012

Þar sem ég stóð við uppvaskið fékk ég uppljómun. Heilinn í mér var að hugsa um pizzu og súkkulaðiköku, svona hálfshugar, þegar vitund mín sagði heilanum að mig langar ekki í pizzu og súkkulaðiköku. Mig langar í hollt af því að mér líður svo vel af því og af því að það er svo gott á bragðið. Hugsunin var eitthvað á þá leið að mig langar til að fá pizzu í öll mál en svo mótmælti ég sjálfri mér vegna þess að mig langaði frekar í hafragraut í morgunmat. Og grænkálssalat í hádegismat. Og húmmús. Og nýja kókóshnetuísinn minn. (Uppskrift á leiðinni).

Mikið ósköp finnst mér gaman þegar heilinn í mér þarf smá tíma til að venjast svona nýjum hugsunargangi, ég er svo vön að hugsa feitt að ég fatta stundum ekki að það er mér í alvörunni orðið eðlisægra að hugsa mjótt.

Út frá þessu datt  mér líka í hug eitthvað sem ég hafði lesið hjá Ben Davis. Hann er búinn að léttast um milljón kíló og er hættur að vera þunglyndur. Hann var líka haldinn spilafíkn en hefur núna "stjórn" á henni. Hann skrifar í gær að hann hafi farið með vini sínum svona spontant til Vegas til að spila- "because we are having fun, not because we need to" skrifar hann. Og þetta sló mig dálítið. Er þetta blekking fíkilsins? Er hægt að lækna sig af fíkn þannig að maður getur gert smá? FAA (Food Addicts Anonymous) eru ekki sammála. Samkvæmt þeim þarf maður bara að sleppa algerlega því sem maður er sjúkur í.

Sjálfri finnst mér það ágætis kenning. Ég er núna búin að vera sykur-frúktósa og hvítt hveiti laus núna í fjórar vikur og ég er ekki frá því að ástæðan fyrir þessari skýru hugsun sem ég hafði þarna við uppvaskið hafi komið til vegna þess að ég er frjáls frá lönguninni.

Annað sem ég hef verið að gera tilraun með er að borða  þrjár stórar máltíðir á dag frekar en sex smærri. Ég borða þannig að ég er ekki svöng á milli mála, þetta er miklu auðveldara upp á vinnuna og það sem er allra best er að þetta skapar minni þráhyggju. Ég er ekki hugsandi um mat á eins til tveggja tíma fresti, bara fjögurra til fimm. Mér líður vel.

Vigtin hreyfist ekki akkúrat núna. En ég er líka eiginlega hætt að stíga á hana vegna þess að mér líður eins og ég sé þvengmjó núna. Ég sé og finn gífurlegan mun á mér. Og þegar ég sé að vigtin hefur ekki hreyfst þá byrja ég að efast um hversu mjó ég er og byrja að panikka og líða illa. Þannig að það er betra að halda sig frá vigtinni og líða vel. Mér finnst voðalega mikilvægt að líða vel.

fimmtudagur, 23. febrúar 2012

Ég sat í makindum aftast í strætó í gær á leið heim úr vinnu og kveikti á "podcast" sem ég hafði náð í frá BBC Radio 4 um daginn. The Food Program er skemmtilegur þáttur þar sem snert er á ýmsu því er kemur að mat. Þátturinn sem ég hlustaði á fjallaði um grunninn að þessu öllu; hitaeininguna. Og þar sem ég sat í strætó og hlustaði leið mér eins og ég ímynda mér að presti sem sat og hlustaði á Darwin tala um þróunarkenninguna hafi liðið. Allt sem ég hingað til hef trúað á og talið óhrekjandi sannindi eru þvættingur og tjara ein. Öll mín trúarbrögð voru tekin og tætt niður þar til ekkert stóð eftir.

Ég og milljónirnar sem telja hitaeiningar höfum alltaf vitað að í einu pundi af fitu eru 3500 hitaeiningar. Til að léttast um pund þurfum við að skapa 3500 kalóríu þurrð. Þetta er vísindaleg staðreynd sem enginn hefur talið nauðsynlegt að efast um. En næringarfræðingurinn sem talað var við lagðist í rannsóknir og komst að því að þetta er hæpið í besta falli, hreinn tilbúiningur í því versta.

Formúlan sem hér liggur að baki gerir ráð fyrir þremur þáttum. Sem svo þegar eru skoðaðir þá er bara einn af þessum þáttum staðreynd. Eitt pund er 453.5924 grömm. Það er staðreynd. Hinir þættirnir eru svo að í einu grammi af fitu eru 9 hitaeiningar og að eitt pund af mennsku fleski er 87% fita (lipide). En málið er að þessir tveir síðari þættir eru svo massíft breytanlegir að formúlan er gagnslaus.

Enda hef ég og eflaust líka hinar milljónirnar sem telja kalóríur staðið á vigtinni eftir nákvæmlega talda og vigtaða  viku þar sem 500 hitaeiningaþurrð var sköpuð í hverjum degi í þeirri fullvissu um að eitt pund af fitu ætti að leka af manni og séð vigtina fara upp um tvö pund. Eða niður um þrjú. Ég sver að ég sé helvítið stundum fara til hliðar. Hversvegna?? veinum við og skiljum ekkert í þessu. En ég gerði allt rétt! Ég taldi, ég vigtaði og allt fyrir ekki.

Þegar maður spáir í þessu þá passar þetta alls ekki. Hvað ef maður er 50 kíló? Og skapar 1000 hitaeiningaþurrð á hverjum degi í heilt ár? Endar maður sem - 2 kíló eftir árið? Þetta er greinilega vitleysa og virkar ekki.

Það virðist sem svo að þessi þrá okkar til að einfalda hlutina er að gefa okkur allt of einföld svör við gífurlega flóknu efni.

Ég er þess vegna búin að gefast upp á þessu öllu saman. Allt sem ég held að sé rétt og satt er rugl og vitleysa. Ég ætla héðan í frá að halda mig við það eina sem hefur reynst mér vel. Ég ætla að borða alvöru mat þegar ég er svöng, þangað til ég verð södd. Og trúa engu nema ég segi það sjálf.

sunnudagur, 19. febrúar 2012


Ég var búin að sjá þetta allt fyrir mér. Ég hafði hugsað mér að hlaupa innlegg númer tvö í 12 á 12 á laugardagsmorgun. Ekki nóg með að ég ætlaði að hlaupa það, skínandi hress af sykurleysi og hreinleika, heldur ætlaði ég að hlaupa það á persónulegu meti. Helst að ná 5km á undir 34 mínútum og enda síðasta kílómetrann á undir sex mínútum. Það hefði ég nú haldið. En málið er að ég er ekki búin að hlaupa í rúma viku núna. Ég er búin að vera veik alla vikuna, hef rétt lafað uppi í sófa og svo fór ég í vinnu og rétt lafði dagana þar áður en ég kom heim og fleygði mér aftur í rúmið. Það var útséð með persónuleg met. Ég myndi ekki setja það með þessum undirbúningi. 

Ég las það í tímariti um daginn að þróunarkenning Darwins hefur þróast enn frekar. Nútíminn sýnir að það eru ekki endilega þeir sterkustu og fljótustu sem lifa af, heldur þeir sem eru fljótastir að aðlaga sig að breyttum aðstæðum. Ég vissi að aðstæður höfðu breyst hjá mér. Ég var ekki í toppformi. Breyttar aðstæður hjá mér gáfu mér þá valmöguleika að leggja af stað í hlaup, illa undirbúin, með lungnasýkingu og ofvæntingar og nokkuð örugga útkomuna vonbrigði og „failure.“ Að mér hafi mistekist að setja persónulegt met. Eða ég gat valið að leggja af stað með það í huga að njóta þess að vera staðin upp úr veikindum. Að njóta þess að geta hlaupið í 40 mínútur. Að njóta þess að vorið er á næsta leyti og ég væri úti að njóta þess. Að njóta þess að geta tekið mér viku frí en vera samt fær um að hlaupa í 40 mínútur. Að njóta þess að vera til.


Og það var málið. Ég vaknaði í morgun og heimurinn minn var þakin léttum snjóhjúp. Ég klæddi mig aðeins betur, fór í nýju "compression" sokkana mína og ég hljóp, ég naut þess, ég er hraust. 

Ég hef hingað til alltaf sagt að það sé allt í lagi að mistakast. En það er líka óþarfi að setja sjálfan sig í aðstæður þar sem manni getur ekki annað en mistekist. Þá er sniðugra að aðlaga sig að breyttum aðstæðum.

Ásta benti mér á áhugarverða pælingu sem kemur frá Anthony Robbins um daginn :  
            
"Start realizing right now that there's no such thing as failure. There are only results. You always produce a result. If it's not the one you desire, you can just change your actions and you'll produce new results. Cross out the word "failure," circle the word "outcome" in this book, and commit yourself to learning from every experience." -- Unlimited Power, page 75


Og mér datt í hug að án þess kannski að hafa gert mér almennilega grein fyrir því þá er þetta í raun kjarninn á því sem ég hef verið að gera og það sem aðskilur þessa tilraun mína til heilsusamlegra lífs frá öðrum slíkum tilraunum. Hugarfar mitt er allt annað en það hefur verið áður. Ég gaf mér tíma, ég gaf mér leyfi til að gera tilraunir og ef eitthvað virkaði ekki gaf ég mér leyfi til að þakka fyrir mig og breyta svo um taktík. Og ég lærði smávegis af öllu sem ég gerði. Ef ég á að vera hreinskilin þá trúi ég því að það skipti í alvörunni engu máli hvort maður velur að telja kalóríur, hlaupa meira en maður étur, lyfta og hakka í sig prótein, banna kolvetni á kvöldin eða virkum dögum eða éta allt í hófi ef maður gefur sjálfum sér leyfi til að læra af öllu sem maður gerir og velja svo það sem best hentar hverjum aðstæðum þá ætti hvað aðferð sem er að virka. Svo lengi sem maður kýs að koma fram við sjálfan sig af alúð og virðingu og að sjá þetta alltaf fyrir sér sem "learning curve". 


 Er þetta bara ekki málið núna? Að hætta að sjá lífið fyrir sér í þessum hugtökum að annaðhvort takist manni eitthvað eða mistakist. Þetta er alltsaman tilraun hvort eð er og ef manni líkar ekki niðurstaðan breytir maður bara innlaginu. Simples. 

föstudagur, 17. febrúar 2012

Ýmsar (rang)hugmyndir sem ég er haldin eru núna svona smávegis að breytast. Ég hef t.d nú nýverið tekið upp á því að vera oft með hárið slegið. Ég hef ekki getað það hingað til vegna þess að mér finnst eins og þegar feitt fólk er með hárið lafandi yfir herðar hverfi hvaða litli háls sem það er með algerlega og efri hluti líkamans breytist bara í eitt flæmi, einn massa. Ég ætti kannski að taka fram að þessar hugmyndir mínar eru einungis byggðar á því sem mér finnst um sjálfa mig, ég man ekkert sérstaklega eftir að hafa hugsað svona um aðra. Á sama hátt get ég ekki verið með belti. Eða svona þangað til nýverið. Ég hef meira að segja tekið upp á því að vera með belti á kjól. Hingað til hefði ég sagt að það væri bara til að skera magann í tvennt. Núna allt í einu leggur það áherslu á mitti. Ég hef líka ekki verið hrifin af því að vera með kinnalit. Fannst óþarfi að leggja áherslu á bústnar, rjóðar kinnar. En núna, núna er ég með burstann á lofti allan daginn að bæta á roðann.

Þetta þýðir líka að ég er alveg týnd. Nú þegar reglurnar mínar um snyrtimennsku gilda í raun ekki lengur og mér standa opnar dyr hingað og þangað er ég stanslaust að gera mistök. Æpti upp yfir mig af hryllingi fyrir tveimur vikum síðan yfir sinnepsgulri skyrtu með myndum af fiðrildum. Stóð svo sjálfa mig að því að prófa hana í dag, eftir að hafa dottið í hug að hún væri helvíti smart við leðurbuxurnar. (Sem eru að sjálfsögðu kapítuli út af fyrir sig.) Þetta þýðir að ég er að kaupa hitt og þetta til að prófa og svo virkar fátt saman og ég er alveg eins og hálfviti til fara flesta daga. Mikið vona ég að ég finni minn stíl bráðlega. Nú þegar ég er alveg hætt að hafa áhyggjur af kameltá.

Í kápunni á menningarnótt fyrir ca 15 árum. 
Hitt er svo að allt snýst þetta í hringi og ýmislegt kemst aftur í tísku. Ég fattaði um daginn að í kringum árið 2000 var ég líka mjó. Ekki alveg jafn mjó og núna en ekki langt frá því. Ég hafði lifað á 1000 kalóríum á dag og synt og lyft eins og mófó í ár og var ægilega hamingjusöm (aðframkomin af hungri.) En ég átti þá kápu, eða svona "Mac" sem er búin að vera í tísku í vetur. Í réttum lit og allt. Ég mundi heldur ekki betur en að hún hafi verið í 16 sem ætti að vera fínasta mál núna. Leitaði að henni logandi ljósi um allt hús, þegar ég var minnt á að einhverju sinni þegar ég var á tímabili þar sem ég var ákveðin í að vera bara sátt við að vera feit og hætta að halda í gamla drauma tók ég öll svona föt og henti. Í ruslið.

Maður á aldrei að hætta að eltast við drauminn.

fimmtudagur, 16. febrúar 2012

Ég var heima í gær með hor í nös. Vanalega læt ég ekki þannig slíkt á mig fá, mæti galvösk í vinnu og tek bara lengri tíma í að jafna mig. Enda ekki fjárhagslega vænt að vera heima veikur; ég fæ ekki borgað fyrir veikindadaga. En í gær var ég með smá hita, enn með glýju í augum eftir Lundúnaferðina og bara hreinlega ekki stemmd til að berjast við hitann. Lá hérna uppi í sófa og horfði á sjónvarpið. Fékk mér hafragraut með ristuðum graskersfræjum og kanil og smá rjóma í morgunmat, flaxkorn og laukhrökkbrauð og harðfisk í hádeginu og chili með bláum maizflögum í kvöldmat. Uppgötvaði svo þegar ég var komin upp í að ég hafði látið fara framhjá mér dag sem ég hefði getað eytt í að smyrja á mér gúlann með crisco. Ég var veik, uppi í sófa, að vorkenna sjálfri mér smávegis, ein heima þannig að enginn hefði séð til mín. Ég hefði getað eytt deginum í að éta og ég fattaði það ekki einu sinni! Að hugsa með sér! Það er oft sem ég fatta svona lagað núna. Þar sem ég alveg óafvitandi eyði löngum tíma í að hugsa eins og mjó manneskja. Það finnst mér algert æði. Og hlakka til þegar ég fatta ekki einu sinni lengur að ég hafi hagað mér mjótt.

Bláu maisflögurnar keypti ég í London. Nú þarf ég að kanna hvort svona sé selt hérna í menningarleysinu, en verð að viðurkenna að ég er heldur vondauf með það. Þetta eru bara venjulegar tortilla flögur nema að innihaldið er bara blár mais og salt. Ekkert annað. (Skoðið til samanburðar innihaldslistann á Doritos poka.) Og ég fann rannsókn sem er heldur vísindaleg til aflestrar en rennir sem sagt stoðum undir að blár maís sé antioxidant (hvað svo sem það er á íslensku), er bólgueyðandi, myndar vörn gegn krabbameinsmyndandi frumum og berst gegn fitufrumum. Sjálfri finnst mér mest til um hvað hann er fallegur. Skær fjólubláar flögurnar á disknum mínum veita mér hamingju og lífsfyllingu. Ég verð bara að segja það. Svo mikið finnst mér um það þegar ég fæ að prófa eitthvað nýtt og skemmtilegt. Sykurleysið hefur eiginlega bara aukið á þennan áhuga minn á mat. Eða kannski endurvakið forvitni og tilraunagleði sem mér finnst ekkert nema skemmtilegt. Súkkúlaðimús úr avókadó? Það held ég að það verði prófað um helgina!

þriðjudagur, 14. febrúar 2012

Ókláruð hugmynd; það ætlar sér enginn að verða feitur, offita er óhjákvæmilegur fylgifiskur óhollra lifnaðarhátta. Á sama hátt ætti fókusinn á hollt líferni ekki að vera að létta sig heldur ætti það að vera það sem einfaldllega fylgir þar með. 
Það var nístingskuldi í London á föstudagskvöldið og ég var afskaplega fegin að eiga íslenskan búning. Mér fannst kaldara í London en í Wales, sem er skrýtið því ég er mun norðar og hátt upp á fjalli. En svona er þetta bara. Mér fannst ofboðslega gaman að rölta um Southbank og sjá þessi helstu kennileyti. Og ekki skemmdi fyrir að ég fékk að fara á Wagamama að fá edamame baunir! 

Við byrjuðum laugardaginn í Queen´s Park í Soca tíma hjá Cedric. Það var svo erfitt að ég hreinlega endaði tímann á því að grenja. Í alvörunni, ég grét. Af reiði við sjálfa mig að vera enn ekki í betra formi, af reiði við líkama minn að bregðast mér svona, smávegis af því að mér fannst að Cedric ætti að vorkenna (fyrrverandi) feitu stelpunni aðeins meira og láta mig í friði. En þegar yfir var staðið stóð það upp úr að ég ætla ekki að láta þetta vera neitt til að grenja yfir, ég ætla bara að ná aftur einbeitningu og fókus í æfingarnar mínar og vinna núna markvisst að því að bera eigin líkamsþyngd. Eins og maðurinn sagði; "ef þú berð ekki orðið sjálfa þig, þarftu að fara að skoða hvað þú setur ofan í þig." Sannleikurinn er stundum sár. En grenjið forðaði því nú samt ekki að við Ásta vorum eins og gullmolar að tíma loknum.

Við röltum svo um og tókum strætó að Regent´s Park þar sem við löbbuðum örlitið um. Þar við eru þessi fínu  líkamsræktartæki sem hver sem er getur notað. Mér fannst við hæfi að teygja aðeins á eftir átök morgunsins. Þó ég væri í stuttu pilsi og sýndi Lundúnarbúum næriíurnar mínar. Þarna er líka klifurveggur mikill og Ásta stakk upp á að þjálfunin í að bera líkamsþyngdina gæti endað í klifri á þeim vegg. Það fannst mér góð hugmynd. Og ég ætla að reyna að hafa það í huga núna. Ef ég get þjálfað mig til að hlaupa 10 kílómetra hlýt ég að geta þjálfað mig til að klífa vegg? Er þetta nokkuð tími til að vera með sjálfsefasemdir?

Við enduðum svo uppi á Primrose Hill þar sem maður hefur útsýni yfir alla borgina. 

Þaðan röltum við svo yfir í Camden Town þar sem allt skrýtna fólkið býr. Þar komst ég í Whole Foods og gat keypt ýmislegt til að aðstoða mig við sykurlausa lífið. Ég gæti eytt öllu mínu í að skoða og stússast í pælingum um þetta allt saman og mig langar svo að gera eitthvað meira úr öllu því sem ég veit nú þegar. Og mig langar svo til að læra svo miklu meira. Á auglýsingaspjaldi fyrir utan Whole Foods hangir auglýsing frá Ástu þar sem hún býður upp á námskeið. Er hún ekki fín? Ásta er ein af þessu fólki sem snertir líf þeirra sem hún hittir, og hún fær mig alltaf til að hugsa. Hugsa um samhengið á því sem ég segi og svo því sem ég geri. 

Í Camden er svo Inspiral kaffihúsið sem er að hluta til hráfæðiskaffihús. Nú hef ég svo sem engar sérstakar skoðanir á hráfæði eða þeirri fílósófíu sem því fylgir en ég hef bara svo gaman af því að prófa allskonar nýtt. Á þessum tímapunkti sleppti ég sykurleysinu svona nokkurn veginn, hafði fengið mér ítalskt heitt súkkkulaði kvöldið áður til að hlýja mér og á Inspiral fékk ég mér hnetusúkkulaðiköku. Sko vegna þess að þó að eitthvað sé hráfæði er ekki samasem merki þar á milli og sykurlaust, kalóríusnautt eða hollt. En kát var ég engu að síður. 

Á Camden Market er hægt að setjast út um allt á sætum búnum til úr gömlu vespum og fá mat frá öllum heimshornum. Stemningin alveg svakalega skemmtileg og gaman að prútta um verð á vörum sem eru til sölu. Ég keypti mér svakalega fína kopar eyrnalokka og svo eilífðartösku. Tösku úr alvöru leðri sem ég ætla núna bara að nota það sem eftir lifir. Var reyndar svo álveðin í að eignast hana að ég prúttaði bara smávegis og fékk bara 5 pund slegin af. 

Séð yfir Camden Market. 

Við fórum svo út að borða í Brixton á Eritresískum veitingastað. Alveg spes reynsla, maturinn var borinn fram á bakka og svo notaði maður bara pönnukökur til að skafa hann upp. Engin hnífapör. Bæði gott og skemmtilegt. 

Við enduðum á að panta "Kaffee Traditional". Fengum tvo litla kaffibolla og  kanilkryddað kaffi í karöflu borið fram með poppkorni! Já, þetta hvíta í skálinni er popp! Alveg frábært. Og reykurinn á myndinni kemur frá reykelsismola sem þjónninn bar fram á borðið með kaffinu. Ég spurði reyndar ekki um tilganginn, fannst þetta bara skemmtilegt. 

Eftir rölt á einn pöbb enduðum við svo á klúbbi þar sem dansað var fram eftir nóttu. Ég get reyndar sagt með hönd á hjarta að R ´n B tónlist er runnin beint undan rifjum djöfulsins og ég hef aldrei verið jafn föst á því að í mér slær rokkhjartað þungt og þétt. 

Á sunnudeginum fórum við á fleiri kaffihús, borðuðum makkarónu og möndlucroissant og ég sleppti alveg sykurleysinu. Við enduðum á rölti um miðborgina, röltum um Chinatown og skoðuðum túrista og fínar búðir. 

Það má náttúrulega ekki sleppa kvöldmat og tilboðið á ítölskum veitingastað sem lofaði tveimur pizzum á verði einnar var of gott til að láta vera. 

Í Covent Garden er ástin alls ráðandi og ég fékk  recovery sokka til  að gera hlaupin enn skemmtilegri.  Þeir eiga víst að halda að og auka blóðflæði og minnka höggið við hvert skref. Ég er að vona að þeir hjálpi þar með hnjám. 

Við enduðum svo kvöldið á Ska tónleikum á Ritzy sem er sögufrægt kaffihús í Brixton. Þar spilaði hljómsveitin Skamonics sem er fyndnasta band sem ég hef nokkurn tíman séð. Á trommur og bassa voru menn hátt á sjötugsaldri og lítu úr fyrir að vera bræður. Kona sem söng og spilaði á skemmtara var um fimmtugt og leit úr fyrir að vera eiginkona trúboða. Á saxófóna voru svo stelpa um tvítugt og ungur strákur sem var eins og klipptur út úr Nerds Weekly. Ekki það að ég hafi getað einbeitt mér að tónlistinni. Þegar þarna var komið var ég komin í geðveikina mína sem segir að ég þurfi að fá meiri sykur að borða. Ég er svo glöð að þetta hafi komið fyrir, ég er nefnilega núna algerlega sannfærð, ef ég hef ekki verið það fyrir, hversu mikilvægt það er fyrir mig að taka sykurinn út til að koma aftur jafnvægi á sál og líkama. Eftir tvær vikur sykrulaus þar sem ég var ekki stikandi um í leit að sætindum og sjá svo áhrifin á mig þegar ég fékk smá nammi var ótrúlegt. Ég tifaði um í angistarkasti eftir næsta munnbita. Ótrúlegt alveg hreint. 

Mér finnst London algjört æði. Þar er svo margt að sjá og svo margt að gera og allt sett upp á svo skemmtilegan hátt. Eins og þetta hérna kaffihús í Brixton Village þar sem ristavélin er á hverju borði og maður kaupir sér DIY (do it yourself) brauðkörfu. Ristar brauðið sjálfur og smyr með sultu og smjöri. En í stað þess að óska mér að búa á stað þar sem ég kemst í svona fínerí er ég að hugsa um að reyna frekar að skapa svona fínerí hér í kringum mig. Ég hef um svo mikið að hugsa núna um hvað ég vil út úr lífinu, hvað mér finnst mikilvægt og hvað ég ætla að gera til að verða hamingjusöm. Og svona hressandi ferð til London skerpir bara fyrirætlanir mínar um framtíðina. 

fimmtudagur, 9. febrúar 2012

Og þá eru augabrúnir litaðar og plokkaðar, brækur komnar í tösku og lestarmiðinn tilbúinn í veskinu; framundan er húsmæðraorlof í that London.

Undantekning frá reglunni; romm. Ég þarf ekkert að útskýra eða afsaka það.

Vá, hvað ég hlakka til!

þriðjudagur, 7. febrúar 2012

(Eftirfarandi færsla inniheldur það sem heitir á Engilsaxnesku TMI. Viðkvæmir vinsamlegast lítið undan núna)

Ég er niðurbrotin manneskja. Sjáiði til, ég hélt að ekki nóg með að ég væri að ná tökum á fíkninni, verða óvart í leiðinni þvengmjó og súpersnögg að hlaupa, þá væri ég líka búin að ráða niðurlögum á mínu stærsta vandamáli. Vandræðalega vandamálinu sem ég hef ekki minnst einu orði á hér eða annarstaðar. Ég hef borið þennan harm minn í hljóði (silent but deadly) þó stundum hafi hann líka brotist út með óhljóðum miklum og skruðningum. Eiginmaður minn og sonur hafa þurft að lifa við þetta lævi blandna andrúmsloft núna síðan ég hóf að feta mig á heilsubrautinni. Þannig að það voru mikið kátir menn sem horfðu á mig stoltir á fimmtudagskvöld og tilkynntu mér að ég hafði ekki prumpað síðan á sunnudag. Við hoppuðum um í kátínu og gleði litla fjölskyldan, loksins, loksins gátum við öll dregið andann léttar. Það virtist sem svo að ávextir gerjist hreinlega í görninni á mér og með þeim afleiðingum að ég syng stanslausan aftansöng innan helgi heimilsins. En án ávaxtanna er ég eins heilög og María Guðsmóðir sem lét örugglega aldrei vind um kinnar þjóta.

En það virðist sem svo að ég verði að láta í minni pokann fyrir íslenskri kjötsúpu. Rófur og hvítkál eru greinilega ekkert gamanmál.

Og ég hef endurheimt nafngiftina "mummy fartypants".

We are not amused.

sunnudagur, 5. febrúar 2012

Lúkas og kókóshnetan.
Hún er búin að vera áhugaverð þessi fyrsta tilraunavika án sykurs. Líkamlega líður mér orðið alveg ágætlega eftir að hafa losnað við hausverkinn, ógleðina og munnþurrkinn. Mig grunar að ef ég hefði reynt þetta fyrir þremur árum síðan hefði þetta verið miklu erfiðara og flóknara, ég er jú að miklu leyti búin að taka út hvítan sykur og hvítt hveiti hvort eð er. Þetta er bara svona lokahnykkurinn þetta að taka út frúktósann.

Andlega líður mér eins og milljón dollurum. Ég er yfirfull af krafti og nánast trúarofsa af sannfæringu um að loksins, loksins hafi ég fundið það sem er rétt og gott fyrir mig. Síðan að ég byrjaði að léttast fyrir þremur árum síðan hef ég prófað ýmislegt. Það eina sem ég hafði alltaf að leiðarljósi var að mér varð að líða vel. Og geta svarað spurningunni "Geturðu gert þetta að eilífu?" játandi. Og það er það sem ég hef gert og mér hefur liðið vel og ég hef lést um trukkfylli af spiki og er heilsuhraustari og hressari en nokkru sinni. En allan þennan tíma hef ég líka tekið rassíur þar sem ég treð andlitið fullt af sætindum og það kemur mér alltaf jafn mikið á óvart að á meðan á ofátinu stendur haga ég mér nákvæmlega eins og ekkert hafi breyst. Ég geng í gegnum nákvæmlega sama taugastríðið og þegar ég var feit og hafði stanslausar áhyggjur af því að fá ekki nóg. Allt sem ég vil er frelsi og jafnvægi. Ég vil ekki vera háð efni og ég vil ekki að hegðun mín breytist vegna efnis.

Ég hef talið hitaeiningar, ég hef verið meðvituð um hvaða næringaefni eru í hitaeiningunum mínum, ég hef minnkað kolvetnið og aukið próteinið, ég hef borðað eins og vaxtarræktarrotta, ég hef reynt að borða af innsæi. Og allt þetta virkar og gerði mig ánægða. Að meðaltali léttist ég um 2-300 grömm á viku. Í þessari viku hef ég lést um 1 kiló. Og það er þó ég sé búin að troða mig út af smjöri og fitu og hnetum. Ég er semsagt búin að taka alla unna vöru út. Þar á ég við allt sem eitthvað er búið að fitla við. Þannig nota ég orðið hreint smjör og mjólk með fullri fitu.  Ég fékk þannig hreinan latte í gær, ekki neinn helvítis skinny neitt. Og af því að ég fékk alvöru kaffi langaði mig ekkert í sykurhlaðna muffinsbolluna sem ég fæ mér vanalega með skinny latte. (Sjáiði vitleysuna sem ég hef verið gera hingað til?)

Kókóshnetur eru að rokka minni tilveru akkúrat núna. Ég nota kókósmjólk í quinoa grautinn minn, set kókósflögur út á jógúrt, nota olíuna til að búa til hnetukúlur, kókósrjóma til að búa til ís og hef líka tekið upp á að nota olíuna sem andlitskrem. Ég hugsa að ég þurfi að flytja til Indónesiu til að eignast bara mitt eigið kókóstré.

Vísisindin sem ég hef lesið mér til um þetta hafa sannfært mig um að sykur sé eitur og þar með talið frúktósi. Ég er ekki að halda því fram að ávextir séu hættulegir heilsunni, en ég er að segja að þeir geta verið það í því magni sem ég var að borða þá.

Hér er ég búin að berja flikkið í sundur. 
Ég hef enn ekki fundið fyrir neinum löngunum. (Mér finnst cravings vera betra orð, en er að rembast við að sletta ekki of mikið.) Ég er enn í ástarbríma fyrstu daga nýs plans þar sem helgislepjan og stálviljinn lekur hreinlega af mér og ekki sjéns að fá mig til að bregða út af plani. Ég geri mér fulla grein fyrir því að þetta á ekki eftir að duga lengi, geri ráð fyrir að depurðin taki við eftir eina eða tvær vikur. En ég ætla að geyma þessa tilfinningu sem ég finn núna og reyna að grafa hana upp þegar sverfir að.

föstudagur, 3. febrúar 2012

Í skemmtilegu samhengi við sykurlausu tilraunina mína hef ég tekið eftir umræðu um hollustu sykurs og agave síróps. Og ég verð að viðurkenna að það kemur mér stanslaust á óvart að það þurfi að ræða þetta yfir höfuð. Hvorugt er hollara en hitt, sykur eða agave, bæði er þetta eitur fyrir líkamann og rökin sem segja að agave hafi ekki áhrif á insúlínið og valdi þar með ekki sama sykur "spike" og hvítur sykur er í raun og veru ekki jákvæð rök því insúlín er eitt af hormónunum sem stjórna matarlyst.

Þegar við borðum fitu eða prótein eða flókin kolvetni þá bera ákveðin hormón í líkamanum skilaboð til heilans sem segja honum að við séum að fá næringu og svo að við séum orðin södd. Þetta gerist ekki þegar við fáum frúktósa. Agave er upp undir 90% frúktósi, borðsykur er 50% frúktósi og 50% glúkósi. Frúktósi fer í gegnum líkamann án þess að vekja nein skilaboð um að við séum orðin södd eða búin að fá nóg og þessvegna verðum við aldrei mett af frúktósa, ein leitum bara upp meira og meira. Samhengi á milli þess að vera háður sykri hefur ekki verið rannsakaður nóg, en sem stendur eru vísbendingar til þess að sykurfíkn sé raunveruleg líkamleg fíkn.

Þegar við sleppum að borða frúktósa kemst líkaminn í jafnvægi. Öll fíkn hverfur að lokum og við þurfum ekki að berjast við þessar stanlausu sveiflur. Við mettum líkamann, brennum hitaeiningum og borðum þegar við erum svöng. Þegar allt er í jafnvægi þá ættum við ekki að fitna þegar við borðum fitu, prótein og flókin kolvetni; líkaminn segir okkur þegar við erum búin að fá nóg og þegar okkur vantar meira.

Frúktósi hinsvegar fer óáreittur beint í lifur þar sem lifrin tekur til við að breyta honum í hreina líkamsfitu, líkt og hún gerir við alkóhól. (Þetta gerist ekki með glúkósa, sem líkaminn getur brotið niður.)

Frúktósi er náttúrlegt efni og aðalsuppistaðan í ávöxtum og auðvitað er ekkert að því að borða ávexti. En það má líka hafa í huga að flest vítamín,snefil-og næringarefni ásamt trefjum sem við þurfum úr ávöxtum er hægt að fá úr grænmeti. Og þannig má minnka neyslu á frúktósa. Við erum gerð til að þola mjög lítið af honum.

Allt þetta ætti að nægja til að sannfæra fólk um að agave er ekki hollara en sykur. Ég hef sagt það áður að sykur er sykur og það skiptir ekki máli í hvaða formi hann kemur.

Ástæðan fyrir því að ég er svona svakalega pirruð á þessu agave kjaftæði er að það og aðrir slíkir heilsukostir valda svo gríðarlegum misskilningi hjá fólki. Það grípur þetta á lofti að slíkt sé hollara en eitthvað annað, raðar því svo í sig með engri hugsun um að allt inniheldur þetta kalóríur og að lokaniðurstaðan er alltaf sú hin sama; ofát og offita.

Svo lengi sem fólk getur stjórnað meðalhófinu þá skiptir litlu máli hvaða eitur það kýs, hvítan sykur eða tískuheilsuvöruna sem er í gangi í það og það skiptið.

Ef fólk er hins vegar eins og ég og getur ekki stjórnað meðalhófinu og rorrar um í fíkn og óstjórnlegu áti þegar frúktósi er kynntur til sögunnar er best að reyna að sleppa þessu bara öllu. Tilgangurinn hjá mér er ekki einu sinni að reyna að létta mig, mig langar einfaldlega til að koma jafnvægi á líkamann, til að geta komist á þetta stig þar sem ég er frjáls undan fíkninni, þar sem líkaminn segir mér þegar ég er svöng og þegar ég er södd.