sunnudagur, 19. febrúar 2012


Ég var búin að sjá þetta allt fyrir mér. Ég hafði hugsað mér að hlaupa innlegg númer tvö í 12 á 12 á laugardagsmorgun. Ekki nóg með að ég ætlaði að hlaupa það, skínandi hress af sykurleysi og hreinleika, heldur ætlaði ég að hlaupa það á persónulegu meti. Helst að ná 5km á undir 34 mínútum og enda síðasta kílómetrann á undir sex mínútum. Það hefði ég nú haldið. En málið er að ég er ekki búin að hlaupa í rúma viku núna. Ég er búin að vera veik alla vikuna, hef rétt lafað uppi í sófa og svo fór ég í vinnu og rétt lafði dagana þar áður en ég kom heim og fleygði mér aftur í rúmið. Það var útséð með persónuleg met. Ég myndi ekki setja það með þessum undirbúningi. 

Ég las það í tímariti um daginn að þróunarkenning Darwins hefur þróast enn frekar. Nútíminn sýnir að það eru ekki endilega þeir sterkustu og fljótustu sem lifa af, heldur þeir sem eru fljótastir að aðlaga sig að breyttum aðstæðum. Ég vissi að aðstæður höfðu breyst hjá mér. Ég var ekki í toppformi. Breyttar aðstæður hjá mér gáfu mér þá valmöguleika að leggja af stað í hlaup, illa undirbúin, með lungnasýkingu og ofvæntingar og nokkuð örugga útkomuna vonbrigði og „failure.“ Að mér hafi mistekist að setja persónulegt met. Eða ég gat valið að leggja af stað með það í huga að njóta þess að vera staðin upp úr veikindum. Að njóta þess að geta hlaupið í 40 mínútur. Að njóta þess að vorið er á næsta leyti og ég væri úti að njóta þess. Að njóta þess að geta tekið mér viku frí en vera samt fær um að hlaupa í 40 mínútur. Að njóta þess að vera til.


Og það var málið. Ég vaknaði í morgun og heimurinn minn var þakin léttum snjóhjúp. Ég klæddi mig aðeins betur, fór í nýju "compression" sokkana mína og ég hljóp, ég naut þess, ég er hraust. 

Ég hef hingað til alltaf sagt að það sé allt í lagi að mistakast. En það er líka óþarfi að setja sjálfan sig í aðstæður þar sem manni getur ekki annað en mistekist. Þá er sniðugra að aðlaga sig að breyttum aðstæðum.

Ásta benti mér á áhugarverða pælingu sem kemur frá Anthony Robbins um daginn :  
            
"Start realizing right now that there's no such thing as failure. There are only results. You always produce a result. If it's not the one you desire, you can just change your actions and you'll produce new results. Cross out the word "failure," circle the word "outcome" in this book, and commit yourself to learning from every experience." -- Unlimited Power, page 75


Og mér datt í hug að án þess kannski að hafa gert mér almennilega grein fyrir því þá er þetta í raun kjarninn á því sem ég hef verið að gera og það sem aðskilur þessa tilraun mína til heilsusamlegra lífs frá öðrum slíkum tilraunum. Hugarfar mitt er allt annað en það hefur verið áður. Ég gaf mér tíma, ég gaf mér leyfi til að gera tilraunir og ef eitthvað virkaði ekki gaf ég mér leyfi til að þakka fyrir mig og breyta svo um taktík. Og ég lærði smávegis af öllu sem ég gerði. Ef ég á að vera hreinskilin þá trúi ég því að það skipti í alvörunni engu máli hvort maður velur að telja kalóríur, hlaupa meira en maður étur, lyfta og hakka í sig prótein, banna kolvetni á kvöldin eða virkum dögum eða éta allt í hófi ef maður gefur sjálfum sér leyfi til að læra af öllu sem maður gerir og velja svo það sem best hentar hverjum aðstæðum þá ætti hvað aðferð sem er að virka. Svo lengi sem maður kýs að koma fram við sjálfan sig af alúð og virðingu og að sjá þetta alltaf fyrir sér sem "learning curve". 


 Er þetta bara ekki málið núna? Að hætta að sjá lífið fyrir sér í þessum hugtökum að annaðhvort takist manni eitthvað eða mistakist. Þetta er alltsaman tilraun hvort eð er og ef manni líkar ekki niðurstaðan breytir maður bara innlaginu. Simples. 

1 ummæli:

Inga Lilý sagði...

Oh hvað ég þurfti að lesa þetta. Maraþonið mitt er nefnilega næsta sunnudag og ég hef alltaf sagt opinberlega að eina markmið mitt sé að klára það. En svo blundar í mér að mig langar roooosalega að klára það á 4:30 og ég er svo hrædd um að ef það takist ekki að þá verði ég svo svekkt. Sem væri auðvitað heimskulegt þar sem ég hefði klárað heilt maraþon.

Þannig að ég ætla að halda mér við upphaflega markmiðið; klára þetta blessaða hlaup, að klára góðum tíma verður bara auka umbun! :)

Vona að hlaupið þitt hafi gengið vel