Ýmsar (rang)hugmyndir sem ég er haldin eru núna svona smávegis að breytast. Ég hef t.d nú nýverið tekið upp á því að vera oft með hárið slegið. Ég hef ekki getað það hingað til vegna þess að mér finnst eins og þegar feitt fólk er með hárið lafandi yfir herðar hverfi hvaða litli háls sem það er með algerlega og efri hluti líkamans breytist bara í eitt flæmi, einn massa. Ég ætti kannski að taka fram að þessar hugmyndir mínar eru einungis byggðar á því sem mér finnst um sjálfa mig, ég man ekkert sérstaklega eftir að hafa hugsað svona um aðra. Á sama hátt get ég ekki verið með belti. Eða svona þangað til nýverið. Ég hef meira að segja tekið upp á því að vera með belti á kjól. Hingað til hefði ég sagt að það væri bara til að skera magann í tvennt. Núna allt í einu leggur það áherslu á mitti. Ég hef líka ekki verið hrifin af því að vera með kinnalit. Fannst óþarfi að leggja áherslu á bústnar, rjóðar kinnar. En núna, núna er ég með burstann á lofti allan daginn að bæta á roðann.
Þetta þýðir líka að ég er alveg týnd. Nú þegar reglurnar mínar um snyrtimennsku gilda í raun ekki lengur og mér standa opnar dyr hingað og þangað er ég stanslaust að gera mistök. Æpti upp yfir mig af hryllingi fyrir tveimur vikum síðan yfir sinnepsgulri skyrtu með myndum af fiðrildum. Stóð svo sjálfa mig að því að prófa hana í dag, eftir að hafa dottið í hug að hún væri helvíti smart við leðurbuxurnar. (Sem eru að sjálfsögðu kapítuli út af fyrir sig.) Þetta þýðir að ég er að kaupa hitt og þetta til að prófa og svo virkar fátt saman og ég er alveg eins og hálfviti til fara flesta daga. Mikið vona ég að ég finni minn stíl bráðlega. Nú þegar ég er alveg hætt að hafa áhyggjur af kameltá.
|
Í kápunni á menningarnótt fyrir ca 15 árum. |
Hitt er svo að allt snýst þetta í hringi og ýmislegt kemst aftur í tísku. Ég fattaði um daginn að í kringum árið 2000 var ég líka mjó. Ekki alveg jafn mjó og núna en ekki langt frá því. Ég hafði lifað á 1000 kalóríum á dag og synt og lyft eins og mófó í ár og var ægilega hamingjusöm (aðframkomin af hungri.) En ég átti þá kápu, eða svona "Mac" sem er búin að vera í tísku í vetur. Í réttum lit og allt. Ég mundi heldur ekki betur en að hún hafi verið í 16 sem ætti að vera fínasta mál núna. Leitaði að henni logandi ljósi um allt hús, þegar ég var minnt á að einhverju sinni þegar ég var á tímabili þar sem ég var ákveðin í að vera bara sátt við að vera feit og hætta að halda í gamla drauma tók ég öll svona föt og henti. Í ruslið.
Maður á aldrei að hætta að eltast við drauminn.
2 ummæli:
Ohhh hvað ég skil þig ramblandi um í rugli alla daga, kameltá eða ekki :-) Þú ert æði!
Maður heldur alltaf að maður sé öðruvísi en maður er :) Og þú ert æði right back at you! XX
Skrifa ummæli