laugardagur, 31. janúar 2009


Þegar lesið er yfir þetta blogg má virðast sem svo að hér skrifi manneskja sem algerlega úr sambandi við raunveruleikann. Ég minnist ekkert á ástand mála í heiminum, eða neitt sem ekki tengist mér og mínum alveg beint. Þetta er af ásetningi gert í bland við geigvænlega sjálfhverfu. Ég get illa skrifað um Palestínu, Ísland, trúarbrögð, hunda, auðmenn, barnaníðinga, kryddpíur, siðleysi og seðlabankastjóra án þess að komast í svo mikið uppnám að ég hætti að vera skiljanleg. Ég tók því þá ákvörðun að skilja nánast allar samfélagslegar pælingar eftir við eldhúsborðið og skrifa einungis um það sem að mér snýst. Ég held að það sé fyrir bestu. Látum svo bara við það sitja.

þriðjudagur, 27. janúar 2009


Nú hef ég ákveðið, í ljósi efnahagsástandsins, að fara að rækta garðinn minn. Í eiginlegri merkingu og þeirri sem Voltaire vildi meina. Ég gældi í smástund við hænsabúskap en hætti við þegar ég mundi að mér finnast fuglar ógeðsleg kvikindi með starandi augu og beittar klær. Gogg, gogg ég vil ekki hafa svoleiðis í bakgarðinum. Allavega, ég á ágætis garðspildu og er núna á fullu að lesa mér til um hvernig maður ber sig við að rækta gulrætur, grænar baunir, spergilkál og myntu. Ég sé lífstílinn í hillingum, þarna sé ég loksins komin með áhugamál sem öll fjölskyldan hefur gott og gaman að og í ofanálag verði ég sjálfbær um allt mitt grænmeti. Og ég les og les og les, grein eftir grein eftir grein um hvernig sé best að bera sig að. En fer ég út í garð og byrja að pæla? Nei. Ég hef reynt tvisvar núna, en ég bara sé ekki hvar ég á að byrja. Ég get ekki séð að þetta sé svona fyrir óreynda. Og það sem átti að vera mér til ánægju og yndisauka hefur núna bæst á samviskuna og "to do" listann. For crying out loud!

mánudagur, 26. janúar 2009


Lúkas heyrir ekki muninn á gluggi og klukka. Þetta er búið spil. Ég er búin að tapa baráttunni við að kenna honum íslensku.


Uppáhalds þátturinn minn forever and ever and ever er loksins kominn aftur á skjáinn. Ég þyki lítt menningarleg á mínu heimili en sem betur fer er Lúkas núna kominn í lið með mér og á sunnudagskvöldum erum við mæðgin límd við skjáinn. Dancing on ice er sjálfsagt hallærislegasta hugmynd að sjónvarpsþætti sem um getur en af einhverjum ástæðum er ég húkkt á honum. Hálf frægt fólk, gamlir íþróttamenn og fyrrverandi sápustjörnur er úthlutað atvinnuskautara og sýnir svo listdans á skautum. Keppnin snýst svo um að fá atkvæði frá dómnefnd í sambland við atkvæði sem áhorfendur greiða í símaatkvæðagreiðslu. Eitt par dettur úr í hverri viku þangað til að eftir stendur sigurvegari. Vanalega endurglæðist starfsframi sigurvegarans og lund landsmanna er léttari á sunnudögum. Allir vinna. Keppendur eru í ótrúlegum búningum og sum þeirra eru ótrúlega flink, sum eru svo léleg að bretinn, sem finnst það ægilega fyndið, hringir inn til að passa að sá sem er á rassinum allann tíman er haldið inni í keppninni eins lengi og mögulegt er.

Í ár er ég í hálfgerðri krísu. Strákurinn sem ég get ekki annað gert en að halda með af því að það er æðislegt að horfa á hann skauta, er sá sem lenti í öðru sæti í x-factor fyrir tveimur árum síðan og ég alveg hataði hann þá. Ég horfi ekki einu sinni á x-factor en hann fór samt í taugarnar á mér. What to do, what to do?

laugardagur, 24. janúar 2009

Mikið vildi ég óska að ég væri vandvirkari. Ég er loksins búin að tussast til að kaupa rúm handa Lúkasi, hann er enn í smábarnarúmi sem er orðið of lítið fyrir hann. Ég fæ rúmið afhent næsta föstudag og ákvað því að nota þessa helgi til að taka almennilega til inni hjá honum, losa okkur við of lítil föt og smábarna dót sem hann er hættur að leika sér að. Sú athöfn gekk ágætlega, herbergið er agnarsmátt og ég þarf því að vera sniðug að nota öll horn og hirslur til að koma honum vel þarna fyrir. Ég þreif og byrjaði svo að mála. En þar hefjast vandamálið. Ég er alltaf að finna einhver horn sem ég sletti málningu bara svona einhvern vegin á af því að ég er svo óvandvirk. Og svo verð ég fyrir svo miklum vonbrigðum með brussuskapinn en hef ekki nennu eða getu til að gera þetta almennilega.

Það lítur því út fyrir það elsku mamma og pabbi að ég sé búin að ráðstafa páskahelginni fyrir ykkur. Mamma, þú ert svo vandvirk og gerir allt svo vel, þú verður að hjálpa mér að laga málninguna og pabbi, þú þarft að hjálpa mér að taka niður tvær hillur og byggja eina kommóðu. Olræt?

sunnudagur, 18. janúar 2009

Ég hef hriplekt minni og ætla alltaf að skrifa hjá mér þegar Láki segir einhvern gullmolann en því miður hef ég aldrei gert það og auðvitað man ég ekkert af öllu því skemmtilega og sniðuga sem hann segir. Það er kannski kjánalegt en mér finnst oft gaman af því að hlusta á hann tala bara af því að það er sniðugt að svona lítið barn tali bresku. Sem er auðvitað kjánalegt af minni hálfu, barnið er jú breskt. Engu að síður að heyra hann segja "oh, bother! og deary me" þegar eitthvað fer úrskeiðis er alltaf fyndið. Í dag fékk hann mig svo til að hlæja alveg svakalega. Hann kallaði "búinn!" og ég fór strax til að skeina. Að því loknu leit hann á mig, klappaði mér svo á bakið og sagði; "that was a really good wipe mummy." Það er gott að fá hrós þegar maður á það skilið og enn betra að vera vel skeindur.

laugardagur, 17. janúar 2009
Ég keypti mér í jólagjöf þennan dýrindis kertastjaka frá Stockholm Sno design en get núna ekki ákveðið hvar hann á að vera.Á borði sem centrepiece? Eða skraut á kamínunni?

föstudagur, 16. janúar 2009

Ég er búin að bóka mig í bílpróf næsta föstudag. Mér fannst á ökukennararum að þó ég væri útskrifuð frá henni þá ætti ég að æfa mig í nokkrar vikur áður en ég færi í prófið. Sjálf sé ég lítinn tilgang í því. Ég kemst illa í bílinn hans Dave vegna misræmis í vinnutíma og ég er nógu stressuð yfir þessu þó ekki bætist við bið í einhverjar vikur. Ég er líka við það að fara á hausinn við þetta; 16 ökutímar á £22 í hvert skipti, £30 fyrir skriflega prófið og £70 fyrir það verklega. Þetta samsvarar tæpum 90.000 íslenskum krónum á núverandi gengi. Ég bara hef margt annað að gera við peninginn minn. Þannig að ég vill ekki fá fleiri ökutíma. Fyrir utan hvað ég er orðin leið á þessu. Mér finnst alveg ógeðslega leiðinlegt í ökutímum og alveg viðbjóðslega leiðinlegt að keyra. Oj bara. En ég sé engu að síður hversu gott það væri að hafa próf. Fyrir utan að eiga sætan kellingabíl sem ég get farið í og úr vinnu eins og mig lystir, þá þýðir þetta auðvitað endalausar ferðir í IKEA og á aðra slíka staði. Himnaríki. Þannig að það er bara að hressa sig við og vera í stuði og drífa þetta af.

þriðjudagur, 13. janúar 2009

Mikið er ég dugleg. Dugleg að gera allt annað en það sem ég á að vera gera. Ég er búin að sortera draslaskúffuna, þurrka af og ryksuga, kreista nokkrar bólur, raða í þurrefnakörfunni, lesa mér til um leisermeðferð, og auðvitað vesenast aðeins á helvítis fésbókinni. En er ég búin að lesa kaflann í námsbókinni sem situr hér á borðinu og starir á mig? Nei. Best að fara að hringja í Hörpu. Setja smá spjall á listann líka.

laugardagur, 10. janúar 2009

Ég er farin að kaupa allt á netinu; föt, mat, leikföng, húsgögn, jú neim it. Ég er samt að fara að hugsa minn gang núna. Ég var rétt í þessu að senda eftir tveimur pennum og reglustiku. Ég hefði getað keypt þetta í draslarabúðinni hérna á móti mér. Kannski að ég fari að skoða málið aðeins.

mánudagur, 5. janúar 2009

Mér fannst þetta ár byrja hálfslapplega. Reyndar svo að ég hef enn ekki tekið eftir því að það hafi komið nýtt ár. Hér einhvernvegin tekst mér ekki að skapa þessi tilfinningaríku skil milli eins árs og þess næsta svona eins og ég geri á Íslandi. Ég er að vona að þessi endasleppta tilfinning verði ekki ríkjandi yfir árið þar eð ég hef stór plön í huga. Masterinn verður kláraður næsta desember, ég ætla mér stórt í vinnunni, ég er með viðbyggingu við húsið í maganum og að sjálfsögðu má ekki gleyma að ég er enn að takast á við fitupúkann. Öll þessi verkefni krefjast þess að ég sé með af fullum krafti og ekkert hálfkák.