föstudagur, 27. apríl 2007

Ég er oftast síðhærð, enda líður mér best þannig, en stundum grípur mig eitthvert æði og ég verð að fara í klippingu og láta skera það af. Oftast til að reyna að likjast einhverri stjörnunni. Núna er það Viktoría "posh" Beckham, og hefði ég svosum getað sagt mér sjálf að ekki myndi þetta fara vel, vart má finna ólíkari stelpur tvær en mig og stærð tvöfalt núll Viktoríu. Líkt og Svavar Hávarðsson hvers hár vex upp á við, vex mitt útvegis, fremur en niður eins og hjá venjulegu fólki. Ég er því nú með stærsta hár "sideways" sem sést hefur norðan alpafjalla í langan tíma og ræð ekkert við. Síðast minnti ég á Eika Hauks, ekki leiðum að líkjast, en nú er það bara vont. Svo einn einu sinni bíðum við eftir að það síkki nóg til að setja upp í sitt vanalega hreiður og sver að þetta var síðasta skiptið. Aldrei aftur í klippingu.

sunnudagur, 22. apríl 2007

Það er allt að gertast núna, búin að skrá mig í námið og strax vesen. Hringt var frá Human Resources af því að þeim fannst ekki skýrt að með háskólagráðu í ensku fylgdi ósjálfrátt samræmt próf í stærðfræði. Það er sumsé eitt af inntökuskilyrðunum. Ég þarf því að biðja mömmu um að senda samræmdar einkunnir hingað. Enda með þessa líka fínu áttu í samræmdu stærðfræðiprófi...við minnumst ekkert á fína 1.5 á stúdentsprófi...

Ég er allavega orðin mjög spennt, og vonandi að allt gangi upp. Ég er ekkert hrædd við stærðfræðina lengur, mér gengur bara mjög vel. Ótrúlegt hvað færnin breytist þegar áhugi er einnig fyrir hendi, en það verður líka ekki tekið af honum Dave mínum ða hann er mjög góður kennari. Eiginlega synd að hann sé bara ekki að kenna í grunnskóla, ég er viss um að hann myndi hjálpa krökkum eins og mér sem hafa ekki rökhugsunina 100%. Erfiði hlutinn er að komast í gengum viðtalið þar sem þeir ákveða hvort þeri ætli að eyða tíma og peningum fyrirtækisins í mig. Og ég þarf að ljúga að þeim að ég hafi hugsað mér að vinna hjá þeim það sem eftir er. Ekkert minnst á heimför neitt.

En í dag er sunnudagur og við erum öll heima í dag. Lambalæri (velskt) í hádegismat og svo átti að fara í smá fjallgöngu, en auðvitað byrjar þá að rigna. Tvær vikur nánast af hita sem gerir það óþægilegt að vera í vinnunni en svo er frí og þá rignir. Sem minnir mig á það, stólarnir eru úti palli. Pullurnar eru gegnsósa. Best að reyna að bjarga þeim.

laugardagur, 14. apríl 2007

25 stiga hiti í dag, sólstólarnir komnir út á pall og bjórinn í kæli. Nú er bara að setjast út og sötra Shandy. Ást og friður.

föstudagur, 13. apríl 2007

Jæja, ma´r bara að spóka sig á stuttermabol núna. Það er nú aldeilis munur að búa bara í útlöndum ha, nikk nikk!?

Já, það er stundum merkilegt að búa í útlöndum, það er nú alveg satt. Ég hef nú stundum sagt sögur af vinnufélögum mínum og skrýtnum hlutum sem þær láta stundum útúr sér, sem persónulega mér finnst bera merki um almenna heimsku þeirra (samanber: hvernig afkvæmi eignast menn og hundar og að karlmenn eru þannig gerðir að þeir geti ekki haldið í sér, kúki bara hvar sem er) en í dag tók úr steininn, mér fannst þetta ekki fyndið lengur. Trudi segir að þeir séu búnir að handsama manninn sem fyrir nokkru nauðgaði 74 ára gamalli konu. Hún hallar sér svo fram og segir í stagewhisper."But I don´t know for certain that he was foreign, you know with all these Poles and that, isnt´it?"! Henni fannst ólíklegt að breskur kúkalabbi gæti framið svona verknað, þetta hlyti að hafa verið Pólverji eða "Paki" eða þá breti undir pólskum áhrifum! Ótrúlegt alveg hreint. Ég spurði hana hvort henni þætti líklegra að ég fremdi glæp en Sarah, en aftur fékk ég svörin, að "You´re different." Það má vera að það væri öðruvísi ef 15.000 Íslendingar væru í Wrexham frekar en 15.000 Pólverjar, en engu að síðru, mér fannst ég verða að taka upp hanskann fyrir "sam-útlendinga" mína. Ég er nokk viss um að þeir eru ekki frekar glæphneigðir en breska pakkið sem lifir á bótum og ég og Pólverjarnir höldum uppi með sköttunum mínum.

þriðjudagur, 10. apríl 2007Lukku-Láki með hlaupaegg og páskabólu. En kátur engu að síður.
Manchester og Liverpool voru við upphaf iðnbyltingar miklar vinaborgir enda tengdar viðskiptaböndum; Manchester framleiddi vörur úr baðmull sem Liverpool inn-og útflutti fyrir Manchester í gengum höfnina þar. 1873 var svo samdráttur í viðskiptum og Liverpool tók upp á því að hækka flutnings-og tollgjöld svo svakalega að Manchester var ófært að stunda sín baðmullarviðskipti. manchester buggði því skipaskurð mikinn sem gerði þeim fært að halda uppi baðmullarviðskiptum án hjálpar Liverpoolborgar. Skurður þessi er nothæfur þrátt fyrir að Manchester er um 40 mílur inn í landi. Skapaði þetta gífurlegt hatur milli borganna tveggja sem skilaði sér svo umm munar inn í hatur á milli Manchester United og Liverpool FC. Og þar vitiði það þið rauðu djöflar og púllarar. Það er út af þessu sem það er skip á barmmerki Manchester United sem að öðru leyti myndi ekki meika neitt sens. Þrátt fyrir allt þetta urðu báðar borgir fyrir miklu fjárhagslegu tjóni sem smám saman þróaðist út í útbreytt atvinnuleysi og almennan aumingjaskap á báðum stöðum. Sem útskýrir hversvegna Manchester United aðdáendur syngja; "Sign on, Sign on, with hope in your heart, you´ll never get a job" (Sungið við lagið walk on with hope in your heart) og Púllararar syngja "Shit on the cockneys, shit on the cockneys tonight" sem vísar til þess að flestir aðdáendur United sem hafa efni á að kaupa sig inn á leik eru ekki Mancunians lengur, heldur ríkir lundúnarbúar, asíubúar og Íslendingar! Sem útskýrir hversvegna United megin er oft lítið sungið.

Hvað um það, mér fannst ægilega merkilegt að það væri hægt að finna svon félagslegar ástæður fyrir hatri á milli fótboltafélaga. Veikleiki kenningarinnar er sá að það er ekki hefð fyrir hatri á milli Everton og Man. City sem eru minni liðin í borgunum tveimur og engin útskýring þar á.

mánudagur, 9. apríl 2007

Hér hafa páskarnir farið ósköp ljúflega fram þrátt fyrir hlaupabólu og annan ófögnuð tengdan henni. Þetta hefur allt haft það að verkum að allt það góða starf sem unnið hafði með matarvenjur pilts er núna algerlega aftur komið út í veður og vind og hann borðaði ekki einusinni páskaeggið sitt, lék sér bara með það. Það hittist allt þannig á að við Dave erum búin að vera í heillöngu fríi og höfum því getað sinnt barninu án þess að fá frí í vinnu nema einn dag. En að sama skapi höfum við ekki getað notið veðursins sem nú ríkir. Jah, ekki nema að ég er búin að þvo tvær vélar á dag núna í þrjá daga bara til að njóta þess að geta hengt út á snúru. Við hefðum vanalega farið með pikkninn í Ty Mawr í svona veðri en Lúkas er ekki nógu hress til að fara langt. Hann er svo hrár og skrapinn í klobbanum að hann á erfitt með gang, greyið litla. (En heimtar samt bleyju, þetta bara ætlar ekki að ganga!)

Já, hingað er sumarið svo sannarlega komið, fólk situr úti í "beergardens" og drekkur bjór meðan börnin leika sér allt í kring. Flestir rölta um á stuttermabolum og allur gróður er kominn á fullsvíng. Böskarar og götuprédikarar keppast um að ná athygli fólksins á götunni. Sama gildir um stjórnmálamennina enda eru hér kosningar í vor. Það er kosið til National Assembly of Wales en virðist ekki káfa mikið upp á lýðinnhér, allavega ekki á sama hátt og heima. Hér hefur enginn skoðanir á einu né neinu, eða allavega ekki þannig að það séu hér heitar umræður um hvern skuli kjósa. Mér finnst ég ekki hafa komist inn í stjórnmálaumræðuna hér út af þessu sinnisleysi vina minna hér, ég hef einhvernveginn ekki tök á því að mynda mér skoðanir ef öllum öðrum er sama. Skrýtið.

föstudagur, 6. apríl 2007

Ég finn svo til með litlu músinni minni. Hann er allur útsteyptur í bólum; í andliti og hársverði, á augnlokum og upp í munni, á vörum, hálsi , baki , maga, höndum, fótum og á typpi, pung og rassi. Hann er búinn að bera sig ágætlega þangað til núna í nótt. Ekkert okkar svaf og það er svo erfitt að geta ekkert fyrir hann gert. Hann getur ekki verið með bleyju þannig að í ofanálag þarf ég að ganga á eftir honum með koppinn og rýju til að þurrka upp. Hann ætlar bara ekki að fatta þetta koppabisness. Hann er allur afskræmdur útlits og ég má ekkert við hann koma. Mikið voðalega erfitt allt saman. Eina sem hægt er að gera er að hlusta á "More than a feeling", spila vel og vandlega á luftgítar og mæma með: "More than a feeling ....then I see Marianne walk away.." dúddúdúddúdduú...

miðvikudagur, 4. apríl 2007

Við Lúkas fórum í víking til Íslands og gerðum þar gott. Ég held að það hafi bara aldrei tekist jafn vel og í þetta sinnið. Lúkas þurfti engan aðlögunartíma, var bara strax í stuði (með guði), dansaði við kirkjuklukkur í messunni hans Kolbeins og dansaði við nikkutóna í veislunni hans Kolbeins. Hann fór í sund með afa og ömmu, út í Skötubót þar sem hann stríddi sjónum, hitti alla ættingjana og skemmti sér konunglega. Þessi ferð var sumsé helguð fjölskyldunni algerlega, næst þegar við komum, um áramótin, þá reynum við að gera meira í að hitta vini. Það er svona smá ljúfsárt reyndar, hann bað um skóna sína í gær því hann var að fara að hitta ömmu (afi is gone fishing segir hann ) og hann vildi ekki skilja að það væri bara ekki hægt að skreppa í heimsókn. Gott að vita að hann saknar þeirra en sárt að geta ekki bara farið í heimsókn.

Það er bara núna er heim er komið sem hörmungarnar dynja yfir: Lúkas er kominn með hlaupabólu. Og engin amma og afi til að passa svo ég komist í vinnu. Ég hefði átt að skilja hann eftir.