sunnudagur, 31. janúar 2016

Af feitum konum


Ég hjó eftir um daginn að Ragga Nagli setti inn facebook status þar sem hún agnúast út í fyrirsögn á dönsku slúðurblaði. Fyrirsögin var eitthvað á þá leið að kona léttist um 92 kíló og varð sæt. Þetta fór fyrir brjóstið á Röggu og flestum lesenda hennar sem þótti þetta vera einelti í garð feitra og enn eitt dæmi um kynbundna árás á konur sem krefst þess að við séum grannar til að geta talist sætar. Að við séum öll falleg. Og vanalega er ég sammála Röggu, enda segir hún margt af skynsemi og prédikar sjálfsást sem ég er einmitt uppfull af. En í þetta skiptið gat ég ekki að gert en að finnast hún tala út um rassgatið á sér eins og við segjum hér í Bretlandi. Og það eru mýmargar ástæður fyrir því. 
Það er alþekkt fyrirbæri í sálfræðinni eitthvað sem heitir halo effect, eða geislabaugsáhrifin. Þetta er það sem gerir það að verkum að fallegt fólk er líklegar til að fá hærri laun, styttri fangelsisdóma, eignast fallegri maka og það sem er kannski órettlátast, lifa lengur. Þetta þýðir að burtséð frá einhverjum tískusveiflum þá er einfaldlega betra að flokkast í þann hóp fólks sem telst fallegt samkvæmt standard daglegum stöðlum. 
Það að léttast um 92 kíló hefur ótrúleg áhrif á sjálfið. Sjálfstraustið eykst sem þýðir að maður verður sætari. Maður sefur betur sem þýðir að maður er ferskur og rólegur og þar af leiðandi sætari. Maður getur keypt sér fallegri föt í mun meira úrvali sem þýðir að maður getur haft sig betur til og verið sætari. Maður getur æft af meiri ákafa sem gerir mann ánægðari svo það geislar af manni og verður sætari. Maður getur stundað kynlíf af miklu meiri krafti sem gerir mann sætari. Já, það eru mýmargar ástæður sem gera það að verkum að maður er sætari eftir að hafa lést um 92 kíló. Og ef satt er að segja þá finnst mér ekkert að því að segja það. Mér finnst ég vera rosalega sæt. En gvuð minn góður hvað ég var miklu, miklu, miklu sætari þegar ég var 84 kíló en þegar ég var 140. Það að banna það að leggja standard á fegurðarstuðul þegar maður er kominn upp í svona tölur er ekki bara barnalegt heldur heimskulegt líka.
Ég segi ekkert um að maður sé betri eða verðugri manneskja þegar maður léttist um 92 kíló. En að maður sé sætari? Já, ég ætla að halda því fram. Og mér finnst sigurinn sem finnst við að taka þetta verkefni svona vel nánast niðurlægður ef það má bara tala um að maður sé heilbrigðari eða hraustari, maður er sætari líka. 
Auðvitað er samfélagið klikk hvað útlit varðar, og það eru ótrúlegar kröfur á að konur líti út á einhvern vissan hátt. En ég tel að hér sé ekki um að ræða sama hlutinn þegar maður fordæmir tískuverslanir sem sýna bara gínur í mínusnúll stærð og þegar manneskja sem léttist um 92 kíló er talin sætari. 
Ef þú segir mér að þú sért feit kona vegna þess að það sé lífstíll sem þú velur þá er það fínt og þitt mál. En þegar sama manneskja segir líka að hún sé feit kona þrátt fyrir að borða hollan mat og hreyfa sig reglulega og ég eigi samt að meta líkama hennar sem fallegan renna á mig tvær grímur. Það er það sama og segja að einhver sé fallegur af því að hún sé hvít, eða ljóshærð.
Er semsagt alveg bannað að vera ljótur nú til dags? Og hversvegna þarf endilega að halda því fram að við séum öll falleg? Það hljómar eins og eitthvað sem ljótt fólk segir.

laugardagur, 30. janúar 2016

Af sokkaböndum

Þetta mjatlast.
Ég verð að viðurkenna að ég er nokkuð stolt af þessu kílói. Ég þurfti að ferðast fyrir vinnuna og var að heiman þriðjudag og miðvikudag sem hafði áhrif á allt. Á ferðir í ræktina, á matarplan og á valmöguleika. Ég planaði þessvegna eins mikið og ég gat og minnti svo sjálfa mig á að þegar ég hef ekki stjórn á umhverfinu mínu þá hef ég alltaf stjórn á hegðun minni innan þess umhverfis. Og ég hef greinilega gert eins vel og hægt var. 
Það var líka voðalega gaman að hitta vinnufélagana í Brighton. Ein þeirra hafði misst af mér siðast þegar ég kom og sá þessvegna heilmikinn mun á mér. Hún, eins og algengt er, vildi fá að vita "leyndarmálið". Mig langaði voðalega til að segja henni eitthvað hressandi og sexý en varð svo að viðurkenna að "leyndarmálið" er álíka sexý og sokkar í sandölum. Borða minna, hreyfa sig meira. Mér finnst voðalega leiðinlegt að þurfa að segja fólki frá þessu. Ætla þessvegna að fara að vinna í að pakka sannleikanum inn í sokkabönd og kloflaust nærhald og selja þannig. Kannski að þannig gæti ég hætt að vinna hjá Lloyds og unnið bara í að selja "leyndarmálið"? 

sunnudagur, 24. janúar 2016

Af heilindum

Ég fæ ennþá þónokkuð af tölvupósti frá fólk sem les bloggið mitt. Mér finnst það afskaplega gaman og reyni eftir bestu getu að svara spurningunum sem ég fæ. Ég held nú samt að mér hafi mistekist að svara aðal spurningunni; hvernig á ég að fara að því að ná tökum á spikinu? 
Ekki vegna þess að ég vilji ekki svara, eða að ég sé að halda "leyndarmálinu" fyrir sjálfa mig. Ekki vegna þess að svarið sé of langt eða flókið. Það er aðallega vegna þess að flestir vilja ekki heyra svarið og skilja ekki hvað ég reyni að segja. Ég hika líka við það af ótta við að hljóma hrokafull eða sjálfbirgingsleg. Ég ætla samt að láta á reyna hér og setja niður að hverju ég hef komist.

Það hefur tekið mig mörg ár að komast niður á að sannleikur er svarið. Andartakið þar sem maður hættir að ljúga og öðlast alvöru sjálfsmeðvitund er andartakið sem hægt er að byrja að vinna í breytingum af alvöru.

Ertu búin að "standa þig vel" alla vikuna? Ertu búin að vera "rosalega dugleg"? Ertu búin að afþakka köku í vinnunni? Ertu búin að fara í göngutúr? Og léttist samt ekki? Nú, þá ertu að ljúga. Aðallega að sjálfri þér, en lygi er það engu að síður. Þetta er mjög einfalt.

Ertu búin að skilgreina hvað það þýðir að standa sig vel? Er það huglægt, óskilgreint mat sem felur í sér að borða "hollt"  en gerir ekki neitt ráð fyrir að hollustan inniheldur hnetur og dökkt súkkulaði og kókósrjóma og döðlur og avókadó og allt holla dótið sem er hlaðið hitaeiningum? Ókei, hitaeiningar eru ekki skapaðar jafnar en þegar maður er komin upp í 3000 af þeim yfir daginn skiptir litlu hvort það var með BigMac eða hrárri kasjúhnetukókósolíuhrásúkkulaðihnetubombuköku. Hér er kjörið að hætta að ljúga og taka magnið saman af alvöru. 10 grömm, 10 grömm! af hnetum eru að meðaltali 60 hitaeiningar. Hnetur eða fræ sem maður stráir hugsunarlaust yfir meinhollann hafragrautinn eru oftast um 30 grömm. Það eru 180 hitaeiningar sem maður taldi eflaust ekki með. Númer eitt er þannig að skilgreina hvað er að standa sig vel og gera það svo í alvörunni.

Hvað er það að vera dugleg? Að afþakka köku í vinnunni en raða svo kexpakka í sig í einrúmi heima? Þá hefði verið betra að njóta kökunnar með vinnufélögunum frekar en að lifa með laumuátsskömminni. Þetta var minn akkilesarhæll árum saman. Að halda því blákalt fram að "ég borða ekki svo mikið!" Jú, fyrir framan aðra. Í einrúmi hinsvegar raðaði ég í mig af einurð, skipulagi og festu. Eitt það erfiðasta sem ég hef nokkrum sinnum gert að sýna Dave tóman kexpakkann í ruslinu. Ég þarf enn, eftir 7 ár, að passa mig að fela ekki pakkningar sem ég dæmi sem óhollar undir öðru rusli. Ég þurfti að æfa mig í að borða af ánægju fyrir framan fólk. Og það var heilmikið mál. En það var líka algerlega lausnin að þessu. Fyrsta skrefið að frelsi er að hætta að ljúga. Skýlaust. Allt, allt sem maður gerir í einrúmi, í skömm, allt þarf að draga fram og viðurkenna.

Þegar maður öðlast þessa sjálfsmeðvitund er svo næsta skref að vinna með sannleikanum. Sjálf geri ég það hér og svo með nokkrum öðrum tækjum og tólum. Ég held nokkuð nákvæma dagbók yfir hvað ég borða. Það tók mig langan tíma að þjálfa mig upp í að skrifa allt niður. Ef það er ekki skrifað niður gerðist það ekki gengur náttúrulega ekki upp í heimi sannleikans. Ég skrifa líka niður alla hreyfingu. Þannig veit ég hversu þungu ég lyfti í síðust viku eða hversu langt ég hjólaði og get bætt aðeins við í næstu viku. Ég hripa líka hjá mér hversu vel ég tók á. Af algerum sannleika gef ég mér % af ákefð. Lagði ég í alvörunni allt mitt í æfinguna? Ef svarið er nei þá veit ég það. Og geri betur næst.

Ég held líka heilindaskrá. Heilindaskráin er eitthvað sem ég reyni að gera reglulega. Þar skora ég á sjálfa mig til að koma með sönnun fyrir því sem ég held fram að ég sé að gera. Ég segist vera að borða hollt? Sannaðu það. 

Þessi sjálfsmeðvitund er algert lykilatriði að velgengni. Ef þú veist ekki hvað þú ert að gera þá geturðu ekki breytt neinu. Um leið og þú hættir að ljúga og mælir hegðun, hugsun og gjörðir í einhvern tíma getur sett baseline fyrir góða hegðun. Án sjálfsmeðvitundar og mælinga er ekki hægt að setja markmið, þú veist ekki hver raunveruleikinn er.


laugardagur, 23. janúar 2016

Af sálfræði

Ég var svo viss um að ég stæði í stað í þessari viku að ég eyddi þó nokkrum tíma á föstudagskvöldið í að upphugsa allskonar aðferðir sem myndu halda mér á góðu róli þegar ég myndi sjá sömu leiðindatöluna á vigtinni og í síðustu viku. Ég er ekki alveg viss um afhverju ég var svona viss um enga hreyfingu á spiki, ég hafði tvisvar sinnum verið stoppuð á gangi í vinnunni og verið hrósað fyrir sýnilegt fitutap og ég hafði farið í buxur sem ég hef ekki notað áður. Ég hafði einhverntíman tekið þær úr rekka á útsölu án þess að prófa og þegar heim var komið kom í ljós að þær voru aðeins of litlar. Ég nennti ekki að skila og setti bara inn í skáp. Datt svo í hug í vikunni að prófa þær og hey prestó! Smellpössuðu. Út frá því datt mér í hug að þó ég hefði kannski ekki misst nein grömm eða kíló þá gerist það oft hjá mér að spikið svona endurraðar sér utan á mér. Verður svona álitlegra eitthvað. Hvað ef ég kæmist núna aftur í buxur sem ég lagði hljóðlega til hliðar fyrir nokkru síðan þegar ég hætti að geta hneppt þeim? Það myndi nú vera hressandi og hvetjandi æfing, og það meira að segja þó engin hreyfing væri á vigtinni. Sjálfri finnst mér ótrúlegt að nokkrir spintímar og einn og einn pump tími geri það mikinn mun á vöðvamassa að maður léttist ekki. Fólk ofmetur hreyfingu sem þátt í þyngdartapi að mínu mati, það er.   Allt of auðvelt að fara tvisvar í viku og dóla sér á stigavélinni og borða svo tvöfalt meira í verðlaun. Og gapa svo í forundran og svekkelsi þegar vigtin sýnir meira en maður vill. Hreyfing er fyrir sálina, ekki fyrir líkamann, eins skrýtið og það nú er. 
Hvað um það, ég lét Dave ná í kassann með "vonandi einn daginn" fötunum mínum í morgun og dró upp buxurnar. Og mér til mikillar ánægju gat ég hneppt þeim. Ég myndi ekki segja að þær smellpössuðu en ég gat hneppt. Ég fór því salíróleg á vigtina. Skipti mig engu máli hvaða tala kæmi upp, ég var róleg í þeirri fullvissu að ég væri á réttri leið. Ég tók því þessvegna mjög rólega þegar ég sá að ég hafði lést um 1.2 kíló. Önnur kúla komin í marmaraskálina, 400 grömmum léttari en um jól og rétt rúm 10 kíló farin á fjórum mánuðum.
Hvernig er það? Á ekkert að fara að keep up with the Jones'?
 Aftur í buxurnar.

sunnudagur, 17. janúar 2016

Af holdafari

Ég léttisi ekki um eitt gramm í þessari viku. Og var nokkuð ánægð með hvað ég er orðin þjálfuð í að halda kúlinu. Ég auðvitað vonast eftir að sjá lægri og lægri tölu hverju sinni, en þegar það gerist ekki er ég líka alveg sallaróleg. Ég veit ég er að grennast, mér finnst ég slétt og hraust og vigtin er ekki be all and end all eins og þeir segja hér. Mér finnst gott og sjálfsagt að vigta mig til að hafa viðmið en hamingja mín veltur ekki einungis á tölunni. Mér finnst hinsvegar afskaplega skrýtið þegar fólk segir að holdafar tengist ekki hamingju. Nú veit ég að það er hroki einn að áætla að feitir séu ósjálfrátt óhamingjusamir og það er líka rugl að gera ráð fyrir að feitir séu algerlega óheilbrigðir. En það forðar því ekki að holdafar er einn þáttur, og það nokkuð stór, sem spilar inn í hamingju manns. Þannig myndi ég telja að góður nætursvefn myndi stuðla að almenni hamingju. Góður nætursvefn er ekki einfalt mál fyrir of feita. Sama gildir um að vakna og komast fram úr án liðaverkja, bakverkja og annarra slíkara kvilla. Að vera verkjalaus gerir mig allavega hamingjusamari. Svo er alltaf næs að geta farið inn í skáp og valið úr fötum sem eru sniðin og falla vel að líkamanum en eru ekki bara mismunandi útgáfur af tjöldum. Svo er gott að geta setið í lest án þess að fylla upp í tvö sæti, það er næs að enginn stari á mann með viðbjóðssvip og það er gott að geta tekið þátt í íþróttum, í leikjum með börnunum og lífinu yfir höfuð. Allt þetta er helmingi auðveldara með minna spik í farteskinu. Þessvegna finnst mér stórfurðulegt þegar fólk segir að holdafar tengist ekki hamingju. Nei, það er kannski ekki eini þátturinn en maður lifandi hvað það er auðveldara að vinna að hamingju ef maður þarf ekki líka að hafa áhyggjur af spikinu.

föstudagur, 15. janúar 2016

Af joie de vivre

 Á Hoffi Koffi, eina sjálfstæða kaffihúsinu í Wrexham.  
Ég hélt upp á árlegan dag Svövunnar í dag. Þetta er í þriðja skiptið sem ég geri þetta, tek mér frí í vinnu og tek dag í að gera vel við sjálfa mig. Ég mæli eindregið með svona "personal" dögum. Það þarf ekkert endilega að heita Svava, eða kalla þetta dag Svövunnar (þó það sé auðvitað líka rosa góð hugmynd) og má notast við hvaða nafn sem er. Aðalatriðið er að hverju sinni sé markmiðið að sinna sjálfinu af alúð. Síðastliðin ár hef ég farið til Liverpool og Chester, skoðað listasafn, gert vel við mig í mat, keypt mér snyrtivörur og skoðað það sem er fallegt í kringum mig. Í ár var mikilvægara að rækta líkamann en sálina. Ég bókaði mig því í tvo tíma í ræktinni sem ég myndi annars ekki komast í. Body pump tíminn var fínn en ég verð þó að viðurkenna að ég er of mikill old school járnmelur til að fíla svona létt en oft æfingar. En verð líka að segja að það var hressandi að hafa fólk í kringum sig. Leiðbeinandinn ruglaði mig aðeins í ríminu. Hann var langt frá í að vera fitt sem mér fannst fyrst gott mál. Ég er jú, talsmaður health at any size. En hann var ekki nógu harður. Hann sagði við mig og aðra að ef við yrðum þreytt þá bara taka pásu og létta lóðin. Það eru ekki leiðbeiningar sem veita mér innblástur. Enda tók ég bara um 80% á. Seinni tíminn var svo annað. Spin xtra. Leiðbeinandinn var eins og skorinn úr marmara og ég strax tók við mér, hér væri einhver sem ég gæti sýnt mig fyrir! Hann var svo alveg mergjaður leiðbeinandi. Talaði allan tímann um formið, hélt okkur algerlega við efnið hvað líkamstöðu varðaði. Þrýsta í gegnum hæl, ekki tá, magavöðvarnir spenntir, axlir slakar, rassinn út. Og það gerir ótrúlegan mun að hafa einhvern til að passa að maður haldi stanslaust forminu, líka þegar maður er þreyttur. Í 50 mínútur spinnaði hann, af meiri og meiri æsingi, byggði upp stemmninguna og kraftinn og tók okkur með allan tíman. Eftir á að hyggja hugsaði ég með mér að þetta var nánast eins og kynlíf, "I´m taking yoou to the top" æpti hann aftur og aftur, "come with me, don´t lose me! Taking you to the toooop!" Geggjað. Ég var alveg heilluð. Velti þessu fyrir mér þegar ég var svo komin niður í bæ á leið í augnpróf. Var þetta bara af því að hann var sætur? Ég held ekki. Spin kennarinn ýtti mér algerlega að mörkunum mínum og svo aðeins þar yfir, ég fann kraft sem ég vissi ekki að ég hafði og ég komst því á nýtt stig. Hann hafði þetta joie de vivre sem er svo smitandi, sem fær mann til að hlæja þó lærin brenni því maður er að hafa svo gaman. Ég þarf svona þrýsting. 
Augnprófið segir svo að ég þurfi tölvugleraugu. Ég er víst orðin svo gömul. Ég skemmti mér því við að skoða umgjarðir en gat ekki alveg valið. Þarf að skoða betur hvað er í tísku. Fór svo og náði í kjól sem ég hafði pantað fyrir jól (og er því löglegur í "engin föt keypt á 2016" áramótaheitinu mínu) og endaði svo á eina sjálfstæða kaffihúsinu hér í Wrexham. Mér finnst frábært að hafa eitt sem er ekki Starbux eða Costa og hef í hyggju að stunda það héðan í frá. Kannski get ég þá haft betri samvisku, Starbux borga engan skatt og ég hata að stunda viðskipti við þá. En elska kaffið. Erfitt á 21 öld.
Dagur Svövunnar var æðislegur í ár sem endranær. Það eru forréttindi að hafa tími til að gera svona en ég bara get ekki hugsað mér betri leið til að endurhlaða batteríin og tengja við sjálfan sig. Kynþokkaspin er bara bónus. 

laugardagur, 9. janúar 2016

Af myrkraverkum

Vaknaði þvengmjó í morgun. Ég var örlítið hissa af því að mér fannst ég ekki hafa farið neitt sérstaklega varlega hvað hitaeiningar varðaði og ég komst bara tvisvar í ræktina. Það var því gleðilegt að sjá heilt kíló hypja sig. Stundum er fitutap hálfóútskýranlegt. Það eru vikur sem maður vigtar og telur, hleypur og lyftir, drekkur vatn og grænt te, þvær af sér málninguna áður en maður fer að sofa og tekur þátt í heimspekilegum umræðum við barnið sitt og maður þyngist um kíló. Svo eru vikur sem maður vaknar með maskarann á kinnunum, segir ekki orð við krakkann þó hann hafi verið í þrjá tíma samfleytt á xboxinu, borðar MacDónalds á hlaupum og drekkur bara kaffi og léttist um þrjú kíló. Ég var komin á það að á sama hátt og í stjarneðlisfræði er talað um "dark matter" þá sé svoleiðis líkamanum. Dark matter sést ekki í smásjá en engu að síður virðist vera það sem alheimurinn samanstendur af. Mér þótti því augljóst að ég væri líka búin til úr dark matter, efni sem hlýðir engum vísindum, og gerir bara eins og því sýnist. 
En þegar ég rannsakaði betur hvað ég hafði gert yfir vikuna kom í ljós að ég hafði í raun fylgt nokkrum reglum sem ég hef komist að virka fyrir mig.
Ég borðaði haframjöl. Ég borðaði skyr. Ég drakk ekkert diet kók. Ég drakk vatn. Ég hélt mig undir 1700 hitaeiningum yfir daginn. 
Hafragrautur á morgnana er alger súperfæða fyrir mig. Kolvetnalaus dagur er ónýtur dagur að mínu mati. Á meðan að ég tel að minnkun á hvítu hveiti og sykri sé af hinu góða er algerlega útilokað fyrir mig að sleppa hafragrautnum. Ég er södd og sæl fram að hádegi, ég get leikið með bragðtegundir ad infinitum og hitaeiningarnar eru meira en viðráðanlegar. Skyr eða grísk jógúrt er svo hinn þátturinn í velgengninni. Ég las einhverntíman grein um danska vísindamenn sem sönnuðu að fitusnauð mjólkurvara með háu próteingildi (skyr) ynni þannig í líkamanum að það í raun batt sig við fitu og vann úr henni. Ég léttist alltaf meira þær vikur sem ég passa að borða 200 grömm af skyri á dag. Sama með það og haframjölið, það er eins og ómálaður strigi sem listamaðurinn getur leikið sér að og endað með milljón ólík meistarastykki. Í vikunni hafði ég sameinað bæði og borðað epla og kanilhafraböku með grísku jógúrti alla vikuna. (Eitt epli raspað niður og hálf steikt, hálfsoðið í litlum potti með tsk af smjöri eða kókosolíu. Hrúga af kanil og dass af vanilludropum ásamt 20 grömmum af jumbo höfrum og 30 ml af vatni sett í pottinn og svisað aðeins til þar vatnið hverfur. Svo sett í dós og kælt niður. 100 g af grískri eða skyr útá og hamingjan er vís. Ég bæti stundum við 30 ml af léttum rjóma og er samt að hald þessu um 300 hitaeiningum) Ég meira að segja dúllaðist við að setja þetta í fallega krukku og valhnetur út á til að njóta enn frekar. Fallegur matur er svo miklu meira fullnægjandi.
Ég er ekki búin að snerta á sykurlausum gosdrykkjum núna síðan í september. Og er reyndar algerlega sannfærð um að það sé einn af stærri þáttunum í velgengninni. Ég drekk bara vatn og sódavatn. Ég er algerlega sannfærð um að aspartame sé undirrót alls ills. Ég nenni ekki út í vísindin og er ekki alveg sannfærð um krabbameinstengingar en veit að áhrifin á insúlínframleiðslu, og hvernig það fokkar með hormón og boð um seddu og sykurþörf er satt og rétt. Ég er meira að segja með orthorexiu hvað diet gosdrykki (og annað diet crap) varðar. Drekktu bara kók ef þú þarft gosdrykk, og teldu hitaeiningarnar. En diet drykkurinn fokkar upp öllu innra kerfinu og á að forðast. 
Ég drekk um það bil 3 lítra af vatni á dag. Ég er stanslaust á klósettinu en það er líka bara gott, þá stend ég upp frá skrifborðinu og næ að taka nokkur skref svona yfir vinnudaginn. 
Ég taldi líka samviskulega. Á sunnudaginn langaði mig í breska scone, með clotted cream og jarðaberjasultu. (Þið ykkar sem komið til Bretlands í helgarferð ég mæli með að fá sér scone with clotted cream and jam á testofum, það er ekta breskt og rosalega gott. Helst að finna stað sem segir "home made") Og við skutluðum okkur til Llan þar sem bestu scone á Bretlandseyjum eru til sölu. Með öllu taldi mín rúmar sjöhundruð hitaeiningar, næstum því helmingurinn af dagskammtinum. En þetta var bara það sem mig langaði í og þá var það sem ég fékk mér. Ég aðlagaði bara restina af deginum. Ég ruglaðist líka á föstudaginn og var komin upp í 1300 hitaeiningar um hálfellefu um morguninn. Og það þýddi bara léttur kvöldmatur og ég lærði mína lexíu að reyna að dreifa þessu betur. 
Þetta er svo borðleggjandi. Finna matinn sem passar þér og borða hann svo innan marka sem henta þínum líkama. Og svo bíður maður bara rólegur af sér vikurnar sem maður er fullur af dark matter.

þriðjudagur, 5. janúar 2016

Af marglyttum

Ég fór í ræktina í dag. Það er þó nokkur tími síðan ég gat síðast sagt þetta. Ég er búin að vera svona on/off ræktarrotta síðan rétt fyrir aldamót. Ég man nú ekki til að hafa stundað neina hreyfingu að ráði þegar ég bjó í Þorlákshöfn, einn og einn eróbikktími hjá mömmu og Önnu Lú í félagsheimilinu og svo bara skólasund. Og í menntó var ég eins mikill anti-sportisti og hægt var, öll hreyfing, fyrir utan dans á 22veimur, var geðsjúklega halló. Það var svo ekki fyrr en ég var í háskóla að ég prófaði að fara í rækt fyrst. Var hjá einkaþjálfara í stöð ekki langt frá Frostaskjóli, man ekki núna hvað hún hét. Ég gat labbað þangað þaðan sem ég bjó á Hringbraut. Ég var þar í tæpt ár og lyfti eins og moðerfokker og borðaði á sama tíma undir 1200 hitaeiningar á dag. Léttist um rúm 30 kíló og var geðveik skutla. Svo flutti ég og komst ekki í þá rækt lengur. Prófaði aðra rækt, svakalega lúxusrækt rétt við hótel Esju sem ég man heldur ekki hvað hét. Þar var Ásta mín nuddari og ræktin svo flott að maður gat farið í heitan pott eftir tækjatíma og Ásta og fleiri lærðir nuddarar komu og nudduðu á manni axlirnar. Þar hefði ég sjálfsagt haldið áfram hefði ekki komið upp á atriði sem skildi eftir ör á sálinni. Ræktin var svo fín að maður þurfti ekki einu sinni að koma með sundbol. Það hengu einfaldlega fullt af sundbolum á snögum við pottana sem maður mátti nota að vild. Eftir tíma einhverju sinni ákvað ég að nýta mér þetta og greip venjulegan svartan bol sem hékk þar á snaga. Hann var í smærra lagi en ekkert til að hafa áhyggjur af. Þegar ég kom svo upp úr pottinum stóð í búningsklefanum kona sem þá las fréttir á Stöð 2 að mig minnir, Bergþóra held ég að hún hafi heitið. Og hún var algerlega trítilóð af vonsku, gersamlega apeshit af því að ég hafði tekið sundbolinn hennar. Hún hafði semsagt hengt hann upp á snagana með sameiginlegu bolunum og ég tekið hann án þess að fatta. Hún stóð þarna öskrandi og gólandi um hvernig svona hlussa eins og ég dirfðist að taka sundbolinn, hann væri ónothæfur eftir að ég hafði teygt hann til með öllu þessu spiki og að ég væri búin að rústa fyrir henni deginum með því að vera svona viðbjóðslega feit. Ég gat ekkert gert nema beðist afsökunar á því að vera svona feit og boðist til að borga fyrir nýjan sundbol. Ég man að ég fékk reikningsnúmer hjá henni og þegar ég lagði inn á hana lét ég skrifa "fyrir óbætanlegan sálarskaða" á útskýringuna. Þetta atvik varð til að ég hrökklaðist úr ræktum í langan tíma. Mér fannst þetta vera sönnun á að þetta væri í alvörunni stríð, þetta væri feitir gegn mjóum, og að í þetta sinnið hafði þessa mjóa tussa unnið. 
Eftir þetta fór ég ekki í rækt á Íslandi. Flutti svo til Bretlands og það var svo þar sem ég fann það aftur hjá mér að fara í rækt. Það var eftir að hafa unnið upp kjark og þor með að hreyfa mig í tölvuleik hér heima. Ég var svo rosalega heppin að það var rækt í Lloyds þegar ég byrjaði þar. Pínkulítil og krúttleg rækt sem var rekin af yndislegri stelpu sem vissi ekkert betra en að hjálpa fólki að finna réttu hreyfinguna. Þar byrjaði ég að lyfta af alvöru, fylgdi fyrst bók en fékk svo að fara í fjarþjálfun hjá Röggu Nagla. Það var frábært og innsiglaði ást mina á járninu. Sú rækt var svo rifin niður og bílaplan byggt þar yfir. Bókstaflega "paved paradise and put up a parking lot!" 
Eftir það ráfaði ég um í villilöndum. Fór í Total fitness, sem var fínt en þeir fóru svo á hausinn. Svo reyndi ég ræktina í sundlauginni þar sem maður þurfti að fara í kynningu. Á meðan á kynningu stóð þóttist leiðbeinandinn ekki taka eftir mér, né svaraði spurningum, en eyddi tímanum í að strjúka rassinn á einni af ungu stúlkunum sem var á stigavélinni. Fokk that shit sagði ég og fór ekki aftur. Svo reyndi ég rækt sem var rekin í bílskúrnum hjá einhverju steratrölli og það var áhugavert en smávegis scary líka. Svo reyndi ég að fara í boxrækt en varð að hrökklast frá vegna þess að hún var í raun bara fyrir karlmenn og ég gat hvergi farið í sturtu eða á klósett. 
Ég var eiginlega bara búin að gefa rækt upp á bátinn. Ég hjólaði og hugsaði með mér að ég er og hef alltaf verið einyrki í þessu. En ég gat ekki hætt að hugsa að ég saknaði andrúmsloftsins sem fylgir góðri rækt. Þar sem allir eru að stefna að sama markmiðinu, þar sem maður er hamingjusamur og getur verið maður sjálfur. Og ég sakna þess að hitta fólk. Ég lét því slag standa og prófaði nýja rækt sem opnaði hér í Wrexham um daginn. Hugsaði svo með mér að mig langaði til að prófa eitthvað alveg nýtt og ekki bara lyfta heldur prófa tíma líka. Fór sem sagt í spin í morgun. Og það var geðveikt. Frá fyrstu stundu fann ég að hér væri gott að vera. Allir á fullu, allir tilbúnir að leiðbeina, allt hreint og bjart. Og það var svo gaman í timanum. Ég góla og gala í takt við tónlistina og tempóið á meðan rassherptir Bretarnir skíta á sig af vandræðalegheitum fyrir mína hönd. Greyin kunna ekki að vera í stuði. Og ég stóð mig eins og hetja, þetta var vinna en ekkert sem ég gat ekki haldið uppi. Hélt að ég væri seif og að ég væri kannski bara enn í nokkuð góðu formi. Fór svo í magaæfingatíma á eftir til að prófa. Og ég gat ekkert. Ekki rassgat. Lá bara eins og marglytta á gólfinu, baðaði út öllum öngum í angist og kvíða algerlega hjálparlaus. Fylgdist bara með hvernig spikið á mér hristist og skókst til. Ég ætlaði alveg að fara yfir um að hryllingi yfir þessu öllu saman þegar ég leit upp fattaði að ég þarf bara að fókusa á andlitið á mér, ég er nefnilega svo sæt. 
Ég er semsagt komin í ræktina aftur. Annar tími bókaður á morgun og planið að vinna í þessu marglyttu dæmi. Ég man hvað það var hrikalega gaman að vera stinn og sterk. Að hnykla vöðvana og dást ekki bara að fallegu andliti, heldur að sterkum, þjálfuðum líkama líka.