laugardagur, 9. janúar 2016

Af myrkraverkum

Vaknaði þvengmjó í morgun. Ég var örlítið hissa af því að mér fannst ég ekki hafa farið neitt sérstaklega varlega hvað hitaeiningar varðaði og ég komst bara tvisvar í ræktina. Það var því gleðilegt að sjá heilt kíló hypja sig. Stundum er fitutap hálfóútskýranlegt. Það eru vikur sem maður vigtar og telur, hleypur og lyftir, drekkur vatn og grænt te, þvær af sér málninguna áður en maður fer að sofa og tekur þátt í heimspekilegum umræðum við barnið sitt og maður þyngist um kíló. Svo eru vikur sem maður vaknar með maskarann á kinnunum, segir ekki orð við krakkann þó hann hafi verið í þrjá tíma samfleytt á xboxinu, borðar MacDónalds á hlaupum og drekkur bara kaffi og léttist um þrjú kíló. Ég var komin á það að á sama hátt og í stjarneðlisfræði er talað um "dark matter" þá sé svoleiðis líkamanum. Dark matter sést ekki í smásjá en engu að síður virðist vera það sem alheimurinn samanstendur af. Mér þótti því augljóst að ég væri líka búin til úr dark matter, efni sem hlýðir engum vísindum, og gerir bara eins og því sýnist. 
En þegar ég rannsakaði betur hvað ég hafði gert yfir vikuna kom í ljós að ég hafði í raun fylgt nokkrum reglum sem ég hef komist að virka fyrir mig.
Ég borðaði haframjöl. Ég borðaði skyr. Ég drakk ekkert diet kók. Ég drakk vatn. Ég hélt mig undir 1700 hitaeiningum yfir daginn. 
Hafragrautur á morgnana er alger súperfæða fyrir mig. Kolvetnalaus dagur er ónýtur dagur að mínu mati. Á meðan að ég tel að minnkun á hvítu hveiti og sykri sé af hinu góða er algerlega útilokað fyrir mig að sleppa hafragrautnum. Ég er södd og sæl fram að hádegi, ég get leikið með bragðtegundir ad infinitum og hitaeiningarnar eru meira en viðráðanlegar. Skyr eða grísk jógúrt er svo hinn þátturinn í velgengninni. Ég las einhverntíman grein um danska vísindamenn sem sönnuðu að fitusnauð mjólkurvara með háu próteingildi (skyr) ynni þannig í líkamanum að það í raun batt sig við fitu og vann úr henni. Ég léttist alltaf meira þær vikur sem ég passa að borða 200 grömm af skyri á dag. Sama með það og haframjölið, það er eins og ómálaður strigi sem listamaðurinn getur leikið sér að og endað með milljón ólík meistarastykki. Í vikunni hafði ég sameinað bæði og borðað epla og kanilhafraböku með grísku jógúrti alla vikuna. (Eitt epli raspað niður og hálf steikt, hálfsoðið í litlum potti með tsk af smjöri eða kókosolíu. Hrúga af kanil og dass af vanilludropum ásamt 20 grömmum af jumbo höfrum og 30 ml af vatni sett í pottinn og svisað aðeins til þar vatnið hverfur. Svo sett í dós og kælt niður. 100 g af grískri eða skyr útá og hamingjan er vís. Ég bæti stundum við 30 ml af léttum rjóma og er samt að hald þessu um 300 hitaeiningum) Ég meira að segja dúllaðist við að setja þetta í fallega krukku og valhnetur út á til að njóta enn frekar. Fallegur matur er svo miklu meira fullnægjandi.
Ég er ekki búin að snerta á sykurlausum gosdrykkjum núna síðan í september. Og er reyndar algerlega sannfærð um að það sé einn af stærri þáttunum í velgengninni. Ég drekk bara vatn og sódavatn. Ég er algerlega sannfærð um að aspartame sé undirrót alls ills. Ég nenni ekki út í vísindin og er ekki alveg sannfærð um krabbameinstengingar en veit að áhrifin á insúlínframleiðslu, og hvernig það fokkar með hormón og boð um seddu og sykurþörf er satt og rétt. Ég er meira að segja með orthorexiu hvað diet gosdrykki (og annað diet crap) varðar. Drekktu bara kók ef þú þarft gosdrykk, og teldu hitaeiningarnar. En diet drykkurinn fokkar upp öllu innra kerfinu og á að forðast. 
Ég drekk um það bil 3 lítra af vatni á dag. Ég er stanslaust á klósettinu en það er líka bara gott, þá stend ég upp frá skrifborðinu og næ að taka nokkur skref svona yfir vinnudaginn. 
Ég taldi líka samviskulega. Á sunnudaginn langaði mig í breska scone, með clotted cream og jarðaberjasultu. (Þið ykkar sem komið til Bretlands í helgarferð ég mæli með að fá sér scone with clotted cream and jam á testofum, það er ekta breskt og rosalega gott. Helst að finna stað sem segir "home made") Og við skutluðum okkur til Llan þar sem bestu scone á Bretlandseyjum eru til sölu. Með öllu taldi mín rúmar sjöhundruð hitaeiningar, næstum því helmingurinn af dagskammtinum. En þetta var bara það sem mig langaði í og þá var það sem ég fékk mér. Ég aðlagaði bara restina af deginum. Ég ruglaðist líka á föstudaginn og var komin upp í 1300 hitaeiningar um hálfellefu um morguninn. Og það þýddi bara léttur kvöldmatur og ég lærði mína lexíu að reyna að dreifa þessu betur. 
Þetta er svo borðleggjandi. Finna matinn sem passar þér og borða hann svo innan marka sem henta þínum líkama. Og svo bíður maður bara rólegur af sér vikurnar sem maður er fullur af dark matter.

Engin ummæli: