Ég hélt upp á árlegan dag Svövunnar í dag. Þetta er í þriðja skiptið sem ég geri þetta, tek mér frí í vinnu og tek dag í að gera vel við sjálfa mig. Ég mæli eindregið með svona "personal" dögum. Það þarf ekkert endilega að heita Svava, eða kalla þetta dag Svövunnar (þó það sé auðvitað líka rosa góð hugmynd) og má notast við hvaða nafn sem er. Aðalatriðið er að hverju sinni sé markmiðið að sinna sjálfinu af alúð. Síðastliðin ár hef ég farið til Liverpool og Chester, skoðað listasafn, gert vel við mig í mat, keypt mér snyrtivörur og skoðað það sem er fallegt í kringum mig. Í ár var mikilvægara að rækta líkamann en sálina. Ég bókaði mig því í tvo tíma í ræktinni sem ég myndi annars ekki komast í. Body pump tíminn var fínn en ég verð þó að viðurkenna að ég er of mikill old school járnmelur til að fíla svona létt en oft æfingar. En verð líka að segja að það var hressandi að hafa fólk í kringum sig. Leiðbeinandinn ruglaði mig aðeins í ríminu. Hann var langt frá í að vera fitt sem mér fannst fyrst gott mál. Ég er jú, talsmaður health at any size. En hann var ekki nógu harður. Hann sagði við mig og aðra að ef við yrðum þreytt þá bara taka pásu og létta lóðin. Það eru ekki leiðbeiningar sem veita mér innblástur. Enda tók ég bara um 80% á. Seinni tíminn var svo annað. Spin xtra. Leiðbeinandinn var eins og skorinn úr marmara og ég strax tók við mér, hér væri einhver sem ég gæti sýnt mig fyrir! Hann var svo alveg mergjaður leiðbeinandi. Talaði allan tímann um formið, hélt okkur algerlega við efnið hvað líkamstöðu varðaði. Þrýsta í gegnum hæl, ekki tá, magavöðvarnir spenntir, axlir slakar, rassinn út. Og það gerir ótrúlegan mun að hafa einhvern til að passa að maður haldi stanslaust forminu, líka þegar maður er þreyttur. Í 50 mínútur spinnaði hann, af meiri og meiri æsingi, byggði upp stemmninguna og kraftinn og tók okkur með allan tíman. Eftir á að hyggja hugsaði ég með mér að þetta var nánast eins og kynlíf, "I´m taking yoou to the top" æpti hann aftur og aftur, "come with me, don´t lose me! Taking you to the toooop!" Geggjað. Ég var alveg heilluð. Velti þessu fyrir mér þegar ég var svo komin niður í bæ á leið í augnpróf. Var þetta bara af því að hann var sætur? Ég held ekki. Spin kennarinn ýtti mér algerlega að mörkunum mínum og svo aðeins þar yfir, ég fann kraft sem ég vissi ekki að ég hafði og ég komst því á nýtt stig. Hann hafði þetta joie de vivre sem er svo smitandi, sem fær mann til að hlæja þó lærin brenni því maður er að hafa svo gaman. Ég þarf svona þrýsting.
Augnprófið segir svo að ég þurfi tölvugleraugu. Ég er víst orðin svo gömul. Ég skemmti mér því við að skoða umgjarðir en gat ekki alveg valið. Þarf að skoða betur hvað er í tísku. Fór svo og náði í kjól sem ég hafði pantað fyrir jól (og er því löglegur í "engin föt keypt á 2016" áramótaheitinu mínu) og endaði svo á eina sjálfstæða kaffihúsinu hér í Wrexham. Mér finnst frábært að hafa eitt sem er ekki Starbux eða Costa og hef í hyggju að stunda það héðan í frá. Kannski get ég þá haft betri samvisku, Starbux borga engan skatt og ég hata að stunda viðskipti við þá. En elska kaffið. Erfitt á 21 öld.
Dagur Svövunnar var æðislegur í ár sem endranær. Það eru forréttindi að hafa tími til að gera svona en ég bara get ekki hugsað mér betri leið til að endurhlaða batteríin og tengja við sjálfan sig. Kynþokkaspin er bara bónus.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli