þriðjudagur, 28. september 2010

"Feel the fear, do it anyway" segir Jillian Michaels og mér finnst þetta ágætis mottó. Það er nefnilega aðdáunarvert það fólk sem veit hvað það hræðist og gerir það bara samt. Ég hræðist ýmislegt. Minn einna stærsti ótti er að mistakast eitthvað, að vera lúser. Og nú þegar mér finnst eitt og annað í lífi mínu ekki vera alveg eins og það á að vera þá er svo mikilvægt fyrir mig að ganga vel í þessari baráttu við spikið. Og samt ákkúrat núna gengur ekki vel. Ég lyfti og klifra, ég geri allt eins og á að gera, en samt finnst mér stanslaust eins og ég hafi bara fingranaglatak á þessu öllu saman. Mér finnst eins og ég sé meðvituð um þetta allt saman. Mér finnst eins og ég viti hvað ég á að gera til að sigrast á þessu, til að sigrast á sjálfri mér. Mér finnst eins og ég hafi til að bera alla þá þekkingu og gáfur sem þarf til að komast klakklaust frá þessu. Ég er ekki hrædd við vinnuna sem þarf að leggja í þetta. En hvað gerist eiginlega, hvað gerist þegar allt gengur eins og í sögu og skyndilega, skyndilega missi ég algerlega tökin og missi sveifluna. Hvað er eiginlega að mér?
Ég er ekki hrædd við að gera mistök, ég er hrædd við að læra ekki af þeim. Ég er hrædd við að leggja allt mitt í eitthvað til þess eins að þurfa að viðurkenna að ég get þetta ekki í alvörunni. Ég er ekki að segja að ég sé hætt að berjast. Ég ætla aldrei að hætta að berjast. Ég held að ég sé bara að biðja kosmósið að gefa mér smá breik. Ég er í vitlausri vinnu, er með nagandi áhyggjur af öllum ákvörðunum sem ég hef tekið hingað til í lífinu og mig vantar svo að það gangi eitthvað vel hjá mér.

Ég lygni aftur augunum og geri ímyndunaræfingarnar mínar. Ég sé sjálfa mig fyrir mér 75 kíló. Ég smjatta á tilfinningunni sem ég fann í mátunarklefanum þegar ég fór í buxur í stærð 16. Ég kalla fram hamingjutilfinninguna sem fylgir því að vera svona í mikilli stjórn á sjálfum sér. Og ég veit að ég hætti ekki að berjast, því þessar tilfinningar eru 100 sinnum betri en súkkulaði og pizza. Mig langar ekki einu sinni í súkkulaði og pizzu. Þetta snýst ekki um það. En mig langar svo til að skilja hvað er að. Því það er nánast útilokað að leggja svona mikla vinnu í verkefni án þess að fá laun fyrir. Ég reyni að minna sjálfa mig á það að viðhalda þyngdartapi í þetta langan tíma er sigur út af fyrir sig en í alvörunni þá er ég bara orðin þreytt og pirruð á þessu. Og þreytt og pirruð á sjálfri mér.

Er það bara ég eða eru þriðjudagar bara crap?

sunnudagur, 26. september 2010

Hún Rannveig mín setti mér það verkefni á Facebook að setja niður lista sem innihéldi 15 plötur sem hefðu einhverja þýðingu fyrir mig og það án þess að velta því fyrir mér, bara skrifa niður 15 plötur á 15 mínútum. Ég renndi yfir þær í huganum og kom auðveldlega með 10 plötur, þurfti aðeins að hugsa með nokkrar síðustu. Ég varð smá sorgmædd við þetta. Sumar af þessum plötum eru tónlist sem ég segji að hafi breytt lífi mínu, hafi mótað að hluta til hver ég er og með því að segja það er ég að segja að tónlist sé stór hluti af lífi mínu og skipti mig máli. Engu að síður þá er hægt að sjá af listanum að ný plata hefur ekki komist inn á hann í áraraðir. Jafnvel áratug. Sem þýðir að ég er hætt að hlusta á tónlist, hún einfaldlega skiptir mig ekki jafn miklu máli lengur. Og það gerir mig smávegis sorgmædda. Eins og ég hafi tapað hluta af sjálfri mér.

  1. A-ha, Scoundrel Days. Fyrsti geisladiskurinn minn, keyptur í London 1986 í dagsferð frá Bournmouth þar sem ég var í enskuskóla. Ég er ennþá hrifin af þessum og á hann til ennþá.
  2. Led Zeppelin, Led Zeppelin. Ég hlustaði rosalega mikíð á Zeppelin á Básahrauni 11 og hlýt því að hafa verið 13 eða 14. Mér finnst eins og Fríða María og Viddi hafi kynnt mig fyrir Zeppelin. Ég á mér enn draum að syngja Dazed and Confused fyrir áhorfendur.
  3. The Smiths, The queen is dead. Ég hefði getið talið allar plöturnar þeirra upp en valdi þessa af því að hún hefur mesta merkingu fyrir mig. Ég held að ég gleymi aldrei þegar ég heyrði Morrisey fyrst syngja "Ohh, mother, I can feel, the soil falling over my head.." Allar mínar tánings "angst" fengu loksins útrás.
  4. Pixies, Surfer Rosa. Ég var stödd inni í Gramminu þegar þessi var sett á fóninn og allt mitt líf tók nýja stefnu. Alternative tónlist. Og þýddi að ég gat verið eins öðruvísi og mér sýndist. Það var bara töff.
  5. Blur, Leisure. Síðasta platan sem ég keypti á vínyl. Ég var ofboðslega hrifin af New Britain.
  6. Throwing Muses, Hunkpapa. Stelpur er líka ógeðslega miklir töffarar.
  7. Grant Lee Buffalo, Fuzzy. Ný stefna þarna og ég fæ enn hamingjuhroll um mig þegar ég hugsa um kvöldin í Belgíu með þennan á spilaranum. Titillagið syngur í beinagrindinni á mér.
  8. R.E.M., Out of Time. Aftur, hefði getað valið allar plöturnar þeirra en þessi situr hvað mest í mér.
  9. Stone Roses, Stone Roses. Hvað þarf maður að segja?
  10. Nirvana, Nevermind. Gleymi aldrei þegar ég heyrði Smells like Teenage Spirit á Rósenkrans í fyrsta sinn. Eftir allt þetta fokkings nýbylgjukjaftæði komst ég aftur í ræturnar, í rokkið. Yndislegt.
  11. 16 Horse power, Sackcloth 'n ashes. Ég sá þessa spila læf í Belgíu og þetta er einn af örfáum diskum sem ég næ í öðruhvoru og spila enn.
  12. Dead Kennedy´s, Fresh Fruit for Rotten Vegetables. Mér fannst ég vera svo geðveikt rebel þegar ég hlustaði á þessa, var alltaf að vona að mamma myndi æpa eitthvað á mig svo ég gæti verið reiður unglingur en hún brosti bara alltaf. Sem mér finnst betra núna auðvitað. Mömmur vita alltaf best.  
  13. Tori Amos, Little earthquakes. Mig langar alltaf til að vera söngkona þegar ég hlusta á Tori.
  14. Pearl Jam, Ten. Ég hlustaði gat á þessa og fékk í hnén við tilhugsunina um Eddie Vedder. Mig langar enn til að eiga heima í Seattle þegar ég hugsa um Pearl Jam.
  15. Backstreet Boys, I want it that way. Þetta er reyndar ekki plata heldur singull en ég verð að telja með vegna þess að þetta lag breytti mér dálítið. Ég viðurkenndi loksins að það að þurfa stanslaust að vera öðruvísi og kúl og töff var bara eitt form að fordómum líka. Ég leyfði sjálfri mér og öðrum bara að fá að vera þeir sjálfir loksins. Nema R´n B. Það er náttúrulega bara ógeð og fyrir fávita.
Yngsta platan á listanum frá 1999 eða 2000. Það segir margt um hvað tónlist skipar stóran hluta í lífi mínu núna. Ég set aldrei plötu á fóninn. Ég hlusta á i-pod og hef hlaðið niður fullt af tónlist í hann, en allt bara eitt og eitt lag. Flest lögin á Florence + The Machine sem er sá tónlistamaður sem ég hef mest tekið eftir undanfarin ár. Og þess vegna er ég í smá fýlu yfir listanum. Á honum sést svart á hvítu hvað ég er gömul og halló. Að mér finnst mikilvægara að horfa á Grey´s Anatomy en að setja plötu á fóninn. Eða heitir þetta kannski bara að þroskast?

föstudagur, 24. september 2010

 
Óbeisluð gleði.
Næstum heil vika síðan ég skrifaði síðast. Ég er búin að vera voða mikið að hugsa þessa vikuna og hef að miklu leyti til verið að sætta heilann við hjartað. Heilinn er hress og kátur og skilur að góðir hlutir gerast hægt, hjartað er alveg trítilótt og neitar að skilja hvað er að gerast. Afhverju ég léttist ekki. Ég sveiflast upp og niður með þeim báðum; stundum salíróleg, stundum fnæsandi af vonsku. Ég er að gera eitthvað vitlaust en drep ekki fingri á það. En það horfir allt til betra vegs núna, ég þarf bara að halda mér við efnið og missa ekki dampinn, halda mér við prógrammið og nota tímann til að rannsaka aðeins matarvenjur mínar. Ég er alltaf jafn kát í ræktinni. Það kom nú samt upp á um daginn að ég var farin að meiða mig í lófunum þegar ég lyfti. Ég var farin að missa gripið áður en ég var búin með vöðvana. Það var ekki hjá komist. Ég trítlaði því í Chester Sports í einu hádegishléinu í vikunni og keypti mér hanska. Ég er búin að vera flissandi yfir því síðan. Ég er svo mikill köggull að ég lyfti með hönskum! En því verður ekki neitað ég get meira með hanskana og ég er ekki frá því að þeir auki eitthvert testesterón flæði.


Koma svo, upp með þig!

Hífa!

Allavega þá "deddaði´" ég 32.5 kílóum plús 20 kílóa stöng í morgun. 3 sett með 10 reps. Og endaði svo á nokkrum pull ups. Ég er með 55 kílóa mótvægi en engu að síður það þýðir að ég er að hosa upp rúmum 40 kílóum. Og það er ekki hægt að neita því að ég er geislandi af kátínu. Ekki veit ég afhverju mér finnst svona gaman að lyfta en það gerir að verkum að ég er sátt við að vakna klukkan fimm á morgnana og dröslast um með íþróttatösku og vera með leðurgrifflur á almannafæri. Mikið vildí ég bara óska að ég gæti komist á þetta stig með mataræðið. Ég þarf að tækla það alveg upp á nýtt, rífa það upp á rassgatinu og tækla með sömu gleði og ég höndla járnin. Það er ekki nóg að vera sterkur að morgni, það þarf að vera sterkur að kvöldi líka.


sunnudagur, 19. september 2010

Eplapíkanpæ og Man U v. Liverpool
Á sunnudagseftirmiðdegi er gott að liggja í leti. Opna tölvuna og fara á léttan bloggrúnt. Og taka út af uppáhaldssíðum nokkra bloggara sem eru hættir að skrifa. Ég finn reyndar alltaf nýja í staðinn, en engu að síður þá er alltaf smá sorglegt að fylgjast með fólki, fólki sem ég þekki ekkert, fólki út um allan heim sem er alveg eins og ég, smá saman hætta að blogga, missa þróttinn og hverfa síðan orðlaust í algleymi veraldarvefsins. Þetta fólk er búið að reyna þetta vel flest, búið að gefast upp og byrja aftur, búið að prófa allar pillurnar, alla hristingana, öll tækin sem lofa að með engri vinnu fái maður þvottabretti í magastað. Dettur svo niður á þetta "borða hollt og gott, hreyfa sig aðeins meira" tæknina en með örfáum undantekningu gefast flestir upp á því líka. Halda í einhvern tíma að með því að blogga sé hægt að viðhalda þessu lengur og það er engin spurning að fyrir marga er þessi ábyrgð gagnvart gerókunnugum mikilvæg til að halda manni við efnið. Engu að síður þá fer oft að líða lengra á milli færsla, bjartýnistónninn hverfur og að lokum hættir maður að nenna að tékka á fólki. Ég skrifa með þá hugsun að það sé enginn nema mamma að lesa. Mér finnst mikilvægt að reyna að halda þeirri hugsun, því ég vil skrifa eins og ég sé að skrifa í dagbókina mína. Ég nota bloggið til að flokka hugsanir, til að reyna að greiða úr flækjunni sem ég kem heilabúinu oft í, og með því að skrifa þetta niður líður mér betur. En auðvitað vona ég að sem flestir lesi. Og því fleiri ókunnugir því betra. Ég veit fátt betra en hrós, og þegar ég skrifa um það sem vel gengur fæ ég hrós í kommentin mín. Frábært. Þegar illa gengur fæ ég hvatningu og það er ekkert betra en hvatning þegar illa gengur. Fyrir mér er engin spurning að bloggið er lykillinn að þessu öllu hjá mér, ég fæ útrás, ég get prófað hugmyndir, ég fæ hrós og ég fæ hvatningu. Og þessvegna er mjög ólíklegt að ég hætti nokkur tíman að skrifa. Stundum fæ ég ógeð á "lífstílnum", og langar ekkert til að skrifa, en svo dettur mér eitthvað í hug sem ég bara verð að setja á blað til að skilja það betur og áður en ég veit af er pistill kominn.

Slátrarinn minn
Láki fær muffin.
Núna er helgi númer tvö án sykurs og hvíts hveitis. Mér líður rosalega vel, finnst ég vera stinn og sterk og hörð og hrein. Ég lyfti af kappi og hlakka til hverrar æfingar. Ég ákvað að það væri samt tími til komin á sunnudegi að kæta aðeins braglaukana, hressa við brennslukerfið og leyfa matardónanum aðeins að flassa. Við skelltum okkur því til Wrexham í gær og heimsóttum slátrarann minn og keyptum smávegis af velskum lambalærisneiðum og svo náði ég í poka af pecan hnetum til að búa til pekanhnetu eplapæ samkvæmt þessari  uppskrift. Ég sleppti reyndar öllum sykri úr uppskriftinni. Mér finnst alltaf voða gaman að þessum bæjarferðum og mér finnst voðalega gaman að fara til slátrarans. Það er svo fínt hjá honum og mér finnst svo mikilvægt að fá þetta svona beint af kúnni. Eða lambinu. Við setjumst oftast niður á kaffihúsi og ég og Dave fáum skinny latte og Láki fær muffin. Ég eldaði svo stórhættulegar kótilettur í raspi í hádeginu í dag. Reyndar bjó ég til raspinn sjálf úr heilhveiti en engu að síður stórhættulegt. Eftir svoleiðis máltíð sem endaði svo með ehem "sneið" af píkanpæ er ég heldur betur sátt. Og sannaði svo hið margkveðna að það skiptir litlu máli þó kakan sé "holl", ef maður borðar 3/4 af henni er lítið eftir af hollustunni!

þriðjudagur, 14. september 2010

Að undanförnu hef ég nokkuð markvisst verið að rekast á fyrirbæri sem er kallað "intuitive eating" eða át samkvæmt innsæi. Hugmyndin er að með því að "hlusta" á líkamann geti maður þjálfað sig upp í að skilja hvað hann vantar af næringu og þar með smásaman lagfært brenglað samband við mat. Vandamálið er hinsvegar að á meðan líkaminn hvíslar "prótein, flókin kolvetni og góða fitu takk" þá er önnur og sterkari rödd sem oftast heyrist æpa "Snickers! Núna!" Og sú rödd yfirgnæfir að miklu leyti til mjóróma hvíslið í skynsama líkamanum. Eins gáfulegt og mér finnst innsæjisát vera og hversu aðlaðandi mér finnst tilhugsunin um að geta bara borðað það sem þarf án þess að vera með áráttu yfir því þá ætla ég að láta það vera alla vega eitthvað lengur. Ég treysti sjálfri mér ekki í þetta. Það má vera að það þýði að ég sé kannski ekki í alvörunni að lagfæra brenglaða sambandið mitt við mat en það verður bara að hafa það. Ég er ekki tilbúin til að láta af hækjunum mínum; kalóríutalningu og matseðilsskipulagi svo örlar á áráttuhyggju. Það er mjög áhugavert að skoða þetta ferli allt saman með það í huga að hér berjast tveir persónuleikar. Matarfíkillinn vs. Mataráhugamanninum. Það er kannski gott mál að ég sé mataráhugamaður því ég get skoðað, pælt og stússast þangað til að ég er búin að búa til eitthvað sem mér finnst voðalega gott en er líka hollt. Svona eins og hollustu plokkfiskurinn sem ég eldaði í kvöld. Ég fæ sem sé alltaf eitthvað gott og djúsí. Og það er svo mikilvægt að fá gott og djúsí, lífið er bara ekki þess virði að lifa því þegar maður fær ekki gott og djúsí. En í sömu andrá fæ ég hjartaflökt af áhyggjum yfir því að það sé matarfíkillinn sem ræður þegar ég segi svona setningar. Auðvitað þarf ég ekkert alltaf að fá gott og djúsí, ég þarf bara að fá góða næringu sem viðheldur heilbrigðu ástandi líkamans. Hvar dregur maður mörkin við hvað "má" pæla mikið í því sem maður borðar áður en fíkillinn tekur við af áhugamanninum? Ég finn allavega að það væri óðs manns æði að reyna á innsæjið núna; ég er víst nógu sjálfhverf fyrir þó ég fari ekki bæta við að þurfa að hlusta á sjálfa mig líka!

sunnudagur, 12. september 2010

Gætum ekki verið kátari.
Ég byrjaði á því að hugsa að ég get ekki gert upp við mig hvort það sé gott og hjálplegt að vera svona bjartýn og jákvæð alltaf hreint eða hvort maður geri ekkert nema valda sjálfum sér stanslausum vonbrigðum. Ég held að flest gerum við okkur sek um að áætla hlutina svona frekar lauslega byggða á staðreyndum og verða svo hissa þegar þeir ganga ekki eftir. Það getur verið að það hafi verið Einstein sem sagði að það væri merki um geðveiki að endurtaka sömu athöfnina aftur og aftur og búast við mismunandi útkomu. Ég hef árum saman af jákvæðni og bjartsýni endurtekið sama megrunarferlið til þess eins að fá sömu útkomuna; feitari í ár en í fyrra. Sama virtist ætla að gerast í þetta sinnið. Ég byrjaði full bjartsýni, þurfti að léttast um 50 kíló, það eru 52 vikur í ári, flott er, eitt kíló á viku, ég verð orðin mjó að ári og get meira að segja tekið mér tveggja vikna frí í desember. Sem betur fer fattaði ég snemma að það þyrfti eitthvað nýtt að gerast til að ég myndi ekki enda eins og vanalega með súkkulaði framan í mér og tvö eða tíu kíló í plús. Og ég breytti um plan og ákvað að slaka aðeins á með væntingarnar til sjálfrar mín og ákvað að gera þetta að skemmtilegu verkefni. Svo kom tími þar sem þetta gekk ekki jafnvel og suma daga hélt ég að ég sæji aftur sömu útkomuna. En mér tókst alltaf að snúa þessu aftur í sigur og ég varð aftur jákvæð og bjartsýn. Að undanförnu hef ég svo þrátt fyrir stöðuga líkamsrækt átt í smávegis klandri með matinn. Og ég vissi að það væri tími til kominn að breyta athöfninni til að tryggja nýja útkomu. Ein vika án sykurs og hvíts hveitis, andinn sterkur og glaður og verðlaunin í vikulok alveg af nýju tagi. Ekkert súkkulaðisukk fyrir mig, nei ég fæ nýja íþróttatösku í verðlaun. Næst á dagskrá er svo að kenna sjálfri mér að ég þurfi ekki alltaf "verðlaun" fyrir "góða" hegðun. Verðlaunin er heilbrigð sál í hraustum líkama. En það kemur næst. Þangað til ætla ég bara að kaupa mér dót. Ég elska nefnilega dót. Og halda áfram að vera jákvæð og bjartsýn. Það er það eina sem ég er að hugsa um að breyta ekki. Það er nefnilega örugglega skemmtilegra lífið hjá okkur jákvæðu kjánunum.

fimmtudagur, 9. september 2010

Mikið eru vísindin dásamleg! Nú er búið að sýna fram á að það er ekki hægt plata heilann og líkamann. Þegar maður borðar mat eða drykk sem eru gerðir sætir með gervisykri þá greinir heilinn að maður er að reyna að plata hann með því að gefa bragð sem vanalega myndi líka innihalda orkugefandi kalóríur. En þegar orkan kemur ekki þá gerir heilinn okkur bara aftur svöng. Rannsóknir sýndu að þeir sem fengu gosdrykk með sykri borðuðu um það bil 140 kalóríum minna í næstu máltíð en þeir sem fengu diet gosdrykk. Er þetta ekki frábært?

miðvikudagur, 8. september 2010

Fullkomin nytjahönnun.
Það er margt sem mér finnst ægilega skringilegt hér í Bretlandi. Mörgu er ég orðin vön, en annað fer enn í taugarnar á mér. Ég á t.d enn alveg svakalega erfitt með að fara í sund hérna þar eð (skítugir) Bretar sjá ekki ástæðu til að skrúbba sig áður en haldið er ofan í laug. Þar er allir með þurrt hárið og hafa jafnvel farið í sundbolinn heima og eru bara í honum undir fötunum þangað til í vatnið er komið. Hræðilegt. Óþarfi er að tala um gólfteppi út um allt, baðherbergi og eldhús meðtalið og áráttu þeirra til að setja edik á franskar. Eitt sem ég man sérlega eftir að hafa farið í pirrurnar á mér er eitthvað sem þeir kalla washing bowl. Þetta er lítið plastfat sem er sett ofan í eldhúsvaskinn og heitt vatn er sett í fatið til að vaska upp frekar en að setja bara vatn í vaskinn og tappann í. Fyrir utan að skapa minna pláss þá fannst mér þetta vera enn eitt bakteríusöfnunin, undir plastskálinni safnast alltaf einhver slikja af drullu og þarf reglulega að vaska upp vaskaskálina. Öll heimili sem ég hef komið inn á hér eru með svona og ég þurfði að díla við þetta sjálf  í staffa eldhúsinu í Dollond & Aitchison. Það segir því víst mikið um hvað mér finnast hlutir æðslegir þegar við vorum i Pedlars um daginn að skoða að ég sá þar hlut sem mig langaði í. Jú, það er til washing bowl sem er svo smart hönnun að mig dauðlangaði í. Það er ekki alveg í lagi með mig. Þannig að annaðhvort er kominn tími til að ég flytji heim áður en ég breytist í Breta eða ég þarf eitthvað að fara að skoða "langar í allt!" syndrómið sem ég greinilega þjáist af.

mánudagur, 6. september 2010

Hver getur staðist svona krúttbúð?
Við fórum með nýbúana í smá sunnudagsrúnt í gær, keyrðum um uppsveitir Wrexham County Borough og til Denbighshire og enduðum í Llangollen. Þangað er nauðsyn að fara með gesti og gangandi enda allt þar eins og á póstkorti. Ég var enn í smá losti eftir tilraunirnar í lok vikunnar og gerði þau mistök að fara inn í Cottage Cream ´n Candy. Þar er selt fudge. Fudge er búið til úr rjóma, smjöri og sykri. Og hvað gerði ég? Jú, keypti mér hálft kíló af óskapnaðinum og sagði svo OG TRÚÐI ÞVÍ að "ég á þetta svo bara heima svona þegar það koma gestir." Ég er enn með harðsperrur af hlátri. Þvílíkt djók. Hvað entist klumpurinn lengi? Til hálftíu á sunnudagskvöld. Komu gestir? Neibb. Og ég með magaverk og samviskubit og niðurgang og sjálfshatur og allt sem svona óhófnaði fylgir. Og kíló í refsingu. Ég barðist svo við sjálfa mig í smástund í morgun þegar ég ætlaði að halda áfram að vera með samviskubit og sjálfsásakanir (tilhvers ertu eiginlega að fara í ræktina, ég veit ekki hvern þú ert að reyna að blekkja, þú borðar kíló af fudge og þykist svo ætla að vera einhver líkamsræktar gúru? Meiri kjáninn) en neyddi sjálfa mig til að láta af þessum hugsunum, það er augljóst að þær hjálpa ekki meðan það er örugglega betra að skilja þessi mistök bara eftir heima og drífa sig í að lyfta smávegis. Og það stóð heima. Um leið og ég er búin að setja stöngina á rekkann er ég hamingjusöm aftur og er alveg sama um gærdaginn. Það er dagurinn í dag sem skiptir máli og ég ætla að láta hann skipta máli. Svo skemmti ég mér konunglega við að prófa planka æfinguna sem Ragga Nagli sýndi á blogginu sínu í gær. Þeir hópuðust í kringum mig strákarnir sem vanalega eru fyrir mér þar sem þeir standa við endalaus bicep-curl og allir vildu þeir fá að prófa. Mér fannst bera nokkuð gott vitni um hvað þeir eru illa að sér í fræðunum því þeir skildu ekki hvaða vöðva ég var að reyna að æfa, gátu ekki séð að þetta er core æfing. Merkilegt alveg hreint. Góður dagur í dag.

föstudagur, 3. september 2010

Ég tók gífurlega áhættu í þessari viku og kannaði hversu mikið hvítt hveiti og sykur ég má borða án þess að bíða skaða af. Ég er mjög dofin gagnvart orsök og afleiðingu svona vanalega, hafði t.d aldrei pælt í því að ég fæ í magann ef ég drekk mjólk og fæ óþægilegt slím í munninn þegar ég borða ís. Sumir hefðu sjálfsagt dregið einhverskonar lactósa-óþols ályktanir en ég fattaði ekki þetta samhengi. Þegar það kemur að hveiti og sykri hinsvegar hefur mig engu að síður að undanförnu grunað að í mínu tilfelli er það meira en bara að hvítt hveiti og sykur eru engar sérlegar hollustuvörur. Ég geri ráð fyrir að flest eðlilegt fólk (hvað svo sem það nú þýðir) geti fengið sér eina ristaða brauðsneið eða eina kökusneið eða jafnvel nammi án þess að það hafi nein svakaleg áhrif. Flestir vita að það er betra fyrir meltinguna, tennurnar og blóðsykurinn að fá sem minnst af þessu efni en geta líka notið þess í meðalhófi. Ég vissi að ég ætti erfitt með að stoppa að borða við vissar aðstæður en hafði alltaf reynt að setja mig í tilfinningaátshópinn og útskýra afbrigðilegt samband mitt við mat sem tilfinningabrenglun. En núna eftir þessa mjög svo tvísýnu tilraun þar sem ég fórnaði nánast lífi og limum í nafni vísindanna er niðurstaðan empirísk og óhrekjanleg. Þegar ég borða hvítt hveiti og eða sykur get ég ekki hætt að borða. Bara líkamlega get það ekki. Og því meira sem ég fæ því ómögulegra er það að hætta. Ég fékk mér brauð í morgunmat einn daginn og eftir allskonar ævintýri endaði sá dagur á heilum kexpakka sem var ryksugaður upp á nó tæm. (Note to self; afhverju var til kexpakki?) Allavega, niðurstaðan er sú að ég ætla að losa mig algerlega við hveiti. Eins mikið og ég er á móti því að banna eitthvað, þá er þetta að því að er ég tel eina lausnin fyrir mig. Og ég get ekki séð að það sé neitt svaka mál að sleppa hveitinu. Nýbakað snittubrauð um helgar, ein og ein pizza, ég drepst ekki við að sleppa þessu. Sykurinn aftur á móti meira mál. Ég ætla því að byrja á að taka út vörur sem eru með sykur í fyrstu þremur sætunum í upptalningu á innihaldi. Ég er mjög sátt við þessa tilraun mína. Ég lagði nokkur kíló í sölurnar og kom með svarið. Ég neita algerlega að ég sé fórnarlamb eða að ég sé ekki sterkari en hveitið og sykurinn, ég tek alltaf 100% ábyrgð á gjörðum mínum. En að sama skapi þá get ég heldur ekki séð að það þjóni neinum tilgangi að vera eitthvað að reyna að borða þetta í meðalhófi ef ég veit að áhrifin eru sú að ég geri sjálfri mér erfiðara fyrir. Ég veit líka að það er smávegis erfitt til að byrja með og svo verður það auðveldara og auðveldara. Mig langar ekki til að borða sætindi, mig langar frekar til að borða spírað brauð og hnetusmjör, ég gleymi því bara stundum eins skringilega og það hljómar. Ég er skilyrt til að halda að sætindi séu eftirsóknarverð, að þau séu verðlaun fyrir góða hegðun, að þau séu "trít" sem ég "á skilið" þegar sannleikurinn er sá að mér líður best andlega og líkamlega þegar ég er ekki með sykur í blóðinu. Ég myndi gefa hægra heilahvelið til að geta borðað drullu í hóflegum skammti. Ég er bara ekki þannig. Þannig að sykur er ekki bannaður, mig langar bara ekki í hann lengur. Það hljómar betur.

miðvikudagur, 1. september 2010

Ég tók eftir ókunnugri íþróttatösku í ræktinni í síðustu viku. Og með töskunni kom ný kona. Hávaxin og mjög þrekleg og hún hafði greinilega ekki hugmynd um hvað maður á að gera í ræktinni. Hún settist á hjólið og hjólaði í smástund og sat svo á róðravélinni í smástund áður en hún hvarf inn í búningsklefann. Ég kláraði settið mitt, teygði aðeins á og fór svo í sturtu. Hún var að klára að klæða sig og ég spurði hvort hún væri ný og hvernig henni litist á. Og eins og mig grunaði þá var hún stressuð yfir þessu öllu saman, hafði tekið ákvörðun um að léttast um 50 kíló og hafði séð fyrir sér að léttast um tvö kíló á viku og taka næstu 25 vikurnar í þetta verkefni. Hvernig hún ætlaði að gera það var ekki alveg jafn ljóst. Ég sagði henni hvað ég væri búin að vera að gera og henni brá dálítið þegar ég sagði henni hvað þetta er búið að taka mig langan tíma. Henni brá enn meira þegar ég æpti upp yfir mig þegar hún sagði mér að hún borðaði 1200 kalóríur á dag. 120 kílóa manneskja á 1200 kalóríum! Þegar ég sagði henni að þetta væri bara geðveiki og ávísun á geðsjúkt binge um helgina viðurkenndi hún lika að hún væri banhungruð, máttlaus og niðurdregin. Og það eftir tvo daga! Hún spurði mig spjörunum úr og ég, sjálfhverfa ég, var meira en glöð að láta smávegis af viskunni uppi. Aðallega sagði ég að þegar maður er búinn að koma sér svona kirfilega fyrir í offitu og ofáti þá þarf meira til en bara að dútla á hjóli í tíu mínútur og taka tvo daga í megrun. Það þarf áætlun og rannsóknir og tilraunir og mistök og ofurgleði og örvæntingu og nýtt sjónarhorn og bjartsýni og ákveðni og stuðning og stuð og vinnu og vinnu og vinnu og vinnu. Svo óskaði ég henni velgengis og að ég hlakkaði til að hitta hana aftur á morgun í ræktinni. Það er óþarfi að taka fram að ég hef ekki séð hana síðan. Þetta er víst meira en að segja það.