föstudagur, 3. september 2010

Ég tók gífurlega áhættu í þessari viku og kannaði hversu mikið hvítt hveiti og sykur ég má borða án þess að bíða skaða af. Ég er mjög dofin gagnvart orsök og afleiðingu svona vanalega, hafði t.d aldrei pælt í því að ég fæ í magann ef ég drekk mjólk og fæ óþægilegt slím í munninn þegar ég borða ís. Sumir hefðu sjálfsagt dregið einhverskonar lactósa-óþols ályktanir en ég fattaði ekki þetta samhengi. Þegar það kemur að hveiti og sykri hinsvegar hefur mig engu að síður að undanförnu grunað að í mínu tilfelli er það meira en bara að hvítt hveiti og sykur eru engar sérlegar hollustuvörur. Ég geri ráð fyrir að flest eðlilegt fólk (hvað svo sem það nú þýðir) geti fengið sér eina ristaða brauðsneið eða eina kökusneið eða jafnvel nammi án þess að það hafi nein svakaleg áhrif. Flestir vita að það er betra fyrir meltinguna, tennurnar og blóðsykurinn að fá sem minnst af þessu efni en geta líka notið þess í meðalhófi. Ég vissi að ég ætti erfitt með að stoppa að borða við vissar aðstæður en hafði alltaf reynt að setja mig í tilfinningaátshópinn og útskýra afbrigðilegt samband mitt við mat sem tilfinningabrenglun. En núna eftir þessa mjög svo tvísýnu tilraun þar sem ég fórnaði nánast lífi og limum í nafni vísindanna er niðurstaðan empirísk og óhrekjanleg. Þegar ég borða hvítt hveiti og eða sykur get ég ekki hætt að borða. Bara líkamlega get það ekki. Og því meira sem ég fæ því ómögulegra er það að hætta. Ég fékk mér brauð í morgunmat einn daginn og eftir allskonar ævintýri endaði sá dagur á heilum kexpakka sem var ryksugaður upp á nó tæm. (Note to self; afhverju var til kexpakki?) Allavega, niðurstaðan er sú að ég ætla að losa mig algerlega við hveiti. Eins mikið og ég er á móti því að banna eitthvað, þá er þetta að því að er ég tel eina lausnin fyrir mig. Og ég get ekki séð að það sé neitt svaka mál að sleppa hveitinu. Nýbakað snittubrauð um helgar, ein og ein pizza, ég drepst ekki við að sleppa þessu. Sykurinn aftur á móti meira mál. Ég ætla því að byrja á að taka út vörur sem eru með sykur í fyrstu þremur sætunum í upptalningu á innihaldi. Ég er mjög sátt við þessa tilraun mína. Ég lagði nokkur kíló í sölurnar og kom með svarið. Ég neita algerlega að ég sé fórnarlamb eða að ég sé ekki sterkari en hveitið og sykurinn, ég tek alltaf 100% ábyrgð á gjörðum mínum. En að sama skapi þá get ég heldur ekki séð að það þjóni neinum tilgangi að vera eitthvað að reyna að borða þetta í meðalhófi ef ég veit að áhrifin eru sú að ég geri sjálfri mér erfiðara fyrir. Ég veit líka að það er smávegis erfitt til að byrja með og svo verður það auðveldara og auðveldara. Mig langar ekki til að borða sætindi, mig langar frekar til að borða spírað brauð og hnetusmjör, ég gleymi því bara stundum eins skringilega og það hljómar. Ég er skilyrt til að halda að sætindi séu eftirsóknarverð, að þau séu verðlaun fyrir góða hegðun, að þau séu "trít" sem ég "á skilið" þegar sannleikurinn er sá að mér líður best andlega og líkamlega þegar ég er ekki með sykur í blóðinu. Ég myndi gefa hægra heilahvelið til að geta borðað drullu í hóflegum skammti. Ég er bara ekki þannig. Þannig að sykur er ekki bannaður, mig langar bara ekki í hann lengur. Það hljómar betur.

1 ummæli:

LiljaGuðrún sagði...

sæl
Það sem er líka bannað er miklu meira spennandi.
Ég hef haft það þannig hjá mér að ég hef alltaf val. Val að borða sykur og hveiti en ég kýs að gera það ekki því það veldur með vanlíðan.
Ef ég fer að banna mér eitthvað þá verður þetta miklu erfiðarar.
Valið er mitt og ábyrgðin er mín.

Það er nefilega með hveiti og sykurinn, að í flestum tilfellum kallar líkaminn eftir meiru.

Gangi þér vel
kv
Lilja