mánudagur, 30. júní 2008

Það var dúndurstuð á laugardagskvöldið, við drukkum bara alveg passlega, enginn fullur en allir glaðir. Eðal alveg. Sarah, Jeff og Dave voru reyndar eitthvað með nostalgíu, þau muna öll Wrexham öðruvísi en borgin er núna. En það er óhjákvæmilegt, ég er nokk viss um að ég geti ekki farið út í Reykjavík núna. Hvað um það, það var bara óborganlegt að fá að fara í djammgalla og vera hress á laugardagskvöldi. Ekki að ég vildi gera þetta allar helgar en svo öðru hvoru er frábært.

Ég hafði svo ákveðið að ég væri í fríi á sunnudeginum. Ekki þannig að ég mætti éta út í eitt en ég mátti slaka aðeins á. Þegar til kom var einn poki af Minstrels allt og sumt og það var bara alveg fínt. Ég er svo búin að vera mjög aktív í dag og passa matinn mjög vel. Og er svo hress og jákvæð og bjartsýn. So good so far.

Ég er enn að finna út hvað hentar mér í sambandi við hreyfingu. Mig langar til að nota veðrið og fara í göngutúra og er búin að fatta að kvöldin sem Dave svæfir Láka get ég farið út beint eftir kvöldmat. Ceri og Shirley vilja endilega fara í ræktina með mig en við verðum að bíða þangað til að þær eru báðar búnar að unga út. Shirley vonandi í þessari viku og Ceri í miðjum júlí. Sundið hentar mér náttúrulega mjög vel, þá morgna sem ég þarf ekki að fara með Láka í skólann. Þetta er smá púsluspil en ef viljinn er fyrir hendi þá er allt hægt.

Svo er ég að velta fyrir mér hvort ég eigi að vigta mig eða hvort ég eigi að láta það vera minna mál. Sem stendur þá er ég of þung fyrir vigtina mína og þarf að fara til hjúkku til að vigta mig. Mér finnst alveg nóg að fara til hennar á 4 vikna fresti en langar ægilega til að geta fylgst meira með hvort það sé þyngdartap í gangi. Á ég að fara til hennar oftar eða á ég að hafa það fyrir takmarkið núna að létta mig niður í tölu sem sést á vigtinni minni? Ég held að það virki ekki fyrir mig að pæla ekkert í kílóafjöldanum, ég þarf að hafa keppni í gangi. (By the way skv. vigtinni í Boots er ég búin að léttast um 3 kíló en það er bara svona að gamni!)

föstudagur, 27. júní 2008

Ég er að reyna að leysa smá gátu hérna. Ég fer í vinnuna klukkan 10 mínútur yfir 8 á morgnana og kem heim klukkan korter yfir 6. Þá geri ég létt húsverk, elda mat,borða og baða Lúkas og svæfi. Svo tekur við nám og lestur í tvo tíma. Svo horfi á á sjónvarp í hálftíma áður en ég sofna í sófanum og er svo rekin upp í rúm. Hvenær á ég að koma þarna inn líkamsrækt? Samkvæmt basal metabolic rate þarf ég 1860 karólínur á dag til að viðhalda sömu þyngd og ég er núna ef ég hreyfi mig ekki neitt. Þannig að til að grennast þarf ég að borða 1360 karólínur á dag og stunda enga líkamsrækt. Eða þá að ég fæ að njóta meiri matar og hreyfi mig þá. Mér líst betur á það en hef ekki nógu marga klukkutíma í sólarhringnum. Mér datt í hug að kaupa mér Pilates for beginners á DVD. Einhverjar uppástungur?

fimmtudagur, 26. júní 2008

Jeij! 'Eg var að fá einkunn fyrir ritgerð númer tvö. C! Það þýðir að sem stendur er ég með B að meðaltali. (A+C/2=B, eða svona næstum því, stærðfræðingurinn hér rífur í hár sitt og skegg af rangfærslunni en þið vitið hvað ég meina!) Kúrsinn var skyldukúrs í fræðilegri bókfærslu og ég er svo glöð að fá C. Á minn órökhæfa hátt er það jafn fín einkunn og A í kúrs sem mér fannst skemmtilegur og áhugaverður.

Við erum að fara út á lífið á laugardagsvköldið til að fagna þessu og að ég er búin að skila rigterð númer 3 . Við ætlum að hitta Söruh og Jeff á Fat Cat Café og skoða svo nýja franska barinn (!!! franskur bar í Wrexham!!!) og endum svo væntanlega á the commercial sem áður var Scruffy Murphys. Ég hlakka svo til, við fórum síðast út um áramótin, og þar á undan var það í Llandudno í júlí í fyrra. Verst að núna verð ég að telja karólínurnar í gin og tóník. Eða að ég fer bara í xtra langan göngutúr á sunnudaginn.

Ég er búin að lýsa eldhúsið mitt sem "matarlaust svæði". Hljómar kannski skringilega að banna mat í eldhúsinu en málið er að við borðum ekki í eldhúsinu, þar er ekki pláss fyrir borð og stóla, við borðum í stofu/borðstofu. Þannig að allur matur sem ég borða í eldhúsinu er milli mála, stinga í munninn án þess að taka eftir því, óþarfa karólínur. Héðan í frá mun ég bara elda þar, ekki borða.

miðvikudagur, 25. júní 2008

Þessi vefdagbók á að spila stórt hlutverk í endurbata mínum. Ég mun nota hana til koma skikki á hugsanir mínar.

Ég er og verð alltaf feit í hjarta mér, og ég vil hafa það þannig, en ég vil geta endurskoðað þá hugmynd að það að vera feit sé það sem geri mig að mér. Ég get ekki átt von á að takast í þessu átaki ef ég held áfram að skilgreina sjálfa mig sem feita manneskju. Það er verkefni vikunnar. Að finna út hvort ég get breytt matarvenjum mínum með því að endurskilgreina sjálfa mig í huganum.

Ég er búin að finna samfélag feitra bloggara til að leita til eftir stuðningi og hvatningu. Margt af þessu fólki hefur gengið í gegnum gríðarlegt þyngdartap. Allt þetta fólk hefur svo heppilegan kílóafjölda að losa sig við; helminginn af sjálfu sér. Það er hægt að vera með sniðuga orðaleiki og pælingar út frá því. Ég er ekki með nógu gott markmið að þessu leytinu til; ég ætla að losa mig við 5/12 af sjálfri mér. Ég þarf því annaðhvort að breyta þessu í 60 kg. og þá missi ég hálfa mig, eða 40 kg. sem er 1/3. Eða þá að ég held mig við 50 kg. og þykist bara vera góð í stærðfærði.

þriðjudagur, 24. júní 2008

WHO eða World Health Organisation hefur gefið það út að offita sé nú faraldur sem plagi hinn vestræna heim og hefur miklar áhyggjur af. Sjúkdómar og annað sem er bein afleiðing af offitu kosta nú orðið læknaþjónustu svipað og reykingar. Engu að síður er hér í Bretlandi ekki boðið upp á neina aðstoð. Fólk sem er of feitt eru sóðalegir aumingjar sem geta ekki drullast af rassgatinu og út að hlaupa. Þetta er almennt viðhorf sem ég verð vitni að. Sjálf er ég í svo mikilli hringavitleysu með skoðanir mínar á offitu að það er erfitt að vita hvar skal byrja. Ég hata feitt fólk og ég hata það að ég sé feit. Ég er engu að síður ákafur stuðningsmaður "réttinda"baráttu feitra. Að vera feitur er mjög óhollt og ætti ekki að gerast. Að vera sáttur við sjálfan sig, feitur eða mjór er nauðsynlegt. Feitt fólk er veikt og þarf hjálp. Feitt fólk ætti að horfast í augu við sannleikann og hann er að það borðar of mikið og hreyfir sig of lítið. Svona gæti ég haldið áfram lengi lengi. Hver og ein fullyrðing er andstæða þessarar á undan. Er nema skrýtið að maður sé smá ruglaður í ríminu?

mánudagur, 23. júní 2008

Upphafsþyngd: 120 kg.
Takmarkið: 70 kg.
Míní-takmark: 115 kg 21.júlí.

Já, í dag er fyrsti dagurinn af afgangnum af ævinni. Ég þarf að létta mig um 50 kg. og hef gefið mér 2 ár til að gera það. Ég hef gert þetta áður og get bara vonað að í þetta sinnið virki þetta allt saman. Hvað ætla ég að gera öðruvísi núna? Það eina sem ég hef er fullvissan um að í þetta sinnið gangi þetta upp.

1. Reyna að læra að þekkja tímapunktana sem eru hættutímar. Þ.e. hvenær er ég veikust fyrir óhollustunni.
2. Reyna að skipta út hvítu hveiti og sykri fyrir hollari staðgengla.
3. Halda mig við sundið.
4. Ef ég fæ mér óhollustu, ekki gefast upp, og ekki fara á viku"fyllerí". Bara byrja upp á nýtt.
5, Fara á 4 vikna fresti til hjúkku í vigtun.
6. Tala við fólk ef ég finn að ég er að fara að falla.
7. Nota smoothie-maker.
8. Hafa augun á markmiðinu.
9. Halda dagbók.

laugardagur, 21. júní 2008

Ef ég gat hætt að reykja, þá get ég hætt að borða. Matur er ekki óvinur minn. Ég er óvinur minn. Og þessu lýkur hér.

fimmtudagur, 19. júní 2008

Lúkas er alltaf að verða fullorðnari. Hann er að læra að hafa stjórn á skapi sínu. Ég sagði við hann í gær að hann ætti að fara í sturtu eftir kvöldmat, "æji mamma, má ég fara í sturtu á morgun?" bað hann og ég sagði ókei, en að hann YRÐI að fara í sturtu á morgun. Þannig að þegar hann kom heim í kvöld sagði ég honum að fara úr og í sturtuna. Hann öskraði á mig og sagðist ætla í tölvuna. Ég sagði nei og að í tölvuna færi hann aldrei framar ef hann öskraði svona á mig. "Allright" sagði hann þá og dreif sig í bað. Fyrir hálfu ári síðan hefði þetta tekið tvo til þrjá tíma af gráti, öskrum, hótunum og fleiru. Við hefðum bæði sofnað útgrátin og uppgefin, ég blautari en hann eftir slagsmál í sturtunni. Núna tók þetta eina mínútu og allir ánægðir. Nú er bara að fá hann til að samþykkja það sem ég segji án þess að öskra. Eða er það til of mikils ætlast?

Hann þurrkaði af borðinu eftir matinn um daginn. Ég lét hann fá það sem var af klinki í veskinu mínu til að setja í Lightning Mcqueen baukinn í staðinn. Ein 24 pens. Síðan þá hefur hann náð sér í tusku og þurrkað af eftir matinn á hverju kvöldi. En varð hálf fúll þegar ég lét hann fá 50 pens pening. Það var ekki jafn gott og 24 enda þá um fleiri peninga að ræða.

Sjálf er ég búin að gráta í 3 og 1/2 dag en er að jafna mig núna. Ég þarf að setja niður á blað það sem ég er að hugsa en kem því ekki frá mér. Ég er compulsive overeater og ég þarf að viðurkenna að ég þarf hjálp en ég get það ekki. Ég þarf að breyta viðhorfi mínu til sjúkdómsins, þ.e. viðurkenna að þetta er sjúkdómur og að ég er ekki veiklunduð og misheppnuð en ég get það ekki heldur. Ég get heldur ekki tekið ákvörðun um hvað gerist næst og ég get svo sannarlega ekki hætt að borða. Ekki skrýtið að ég sé dáltið svekkt. Góðir tímar.

laugardagur, 14. júní 2008



Við erum Dalekar. Við munum útrýma mannkyninu. Við erum óvinir mannanna. Hræðist okkur. YOU WILL BE DELETED!

miðvikudagur, 11. júní 2008

Ég fór heim úr vinnunni í gær veik. Held núna að þetta hafi bara verið fyrsta alvarlega heymæðiskastið og ég tekið því svona illa. Það er nefnilega erfitt þegar maður fær þessi ósköp á fullorðinsaldri og hefur ekki vanist þessu. Ég ákvað að vera heima í dag þó mér liði mun betur. Og nýtti tímann vel; er búin að skrifa, prenta út og senda ritgerð númer 2. Bókhaldsritgerðina sem ég hélt að ég gæti aldrei gert. Er ekki of ánægð með afraksturinn en verð að viðurkenna að þar eð þetta er skyldukúrs sem mér er nokk sama um þá er nóg að ná bara. Ég þarf ekki A fyrir þessa. Og ég get ekki eytt meiri tíma í hana: númer þrjú þarf að vera tilbúin fyrir þann 30. Já, there is no rest for the wicked.

mánudagur, 9. júní 2008

Aðeins búin a draga úr dramanum hérna megin, enda aldrei getað hatað sjálfa mig lengi, finnst ég of æðisleg til þess. Verð bara að hætta að borða og er búin að finna upp nýjan megrunarkúr. Númer eitt; skrá mig á lista hjá lækni til að komast í "magateygjuaðgerð". Númer tvö fara í hverju hádegishléi í Next og svekkja mig á að komast ekki í fötin þeirra og og svekkja mig í að borða minna þar af leiðandi. Númer þrjú komast loksins að í aðgerðina eftir tveggja ára biðlista og til þess eins að fatta að Next kúrinn virkaði og ég er orðin þvengmjó! Ekkert mál!

Ég er nefnilega enn svo lukkuleg þið sjáið til. Fyrir utan að eiga fallegustu viskustykki í heimi sem láta eldhúsið mitt breytast í hálfgert listasafn, þá vann ég úr í vinnunni. Já, ég er duglegust í Norður-héraði við að selja Police gleraugu og vann þetta líka fína úr að virði 120 pund. Nú þarf ég bara að selja það einhvernvegin og þá get ég keypt mér nýja borðstofustóla. Mínir eru að liðast í sundur. Haldiði að maður sé með lukkuna yfir sér.

föstudagur, 6. júní 2008

Ég fór í klippingu eftir vinnu núna í kvöld. Ég hef aldrei verið jafn ánægð með hárið á mér og núna, fannst ég algjört æði þegar ég leit í spegilinn. Flýtti mér heim til að láta Dave taka mynd til að sýna öllum að ég væri ekkert eins og Eiki Hauks. Ég skælbrosti framan í myndavélina og teygði mig svo eftir henni til að tjékka á árangrinum. Hárið er flott, hárið er frábært. Afgangurinn af mér er viðbjóður hinsvegar og ég get ekki sýnt myndina. Ég er að springa, ég er svo ógeðslega feit að ég skil ekki að ég þurfi ekki að borga fyrir tvö sæti í strætó. Mig langar til að sökkva ofan í jörðina, ég hef aldrei áður séð sjálfa mig svona. Og ég ræð ekkert við þetta. Ekki neitt. Ég er viðbjóðsleg.

fimmtudagur, 5. júní 2008

Ég fékk frí í vinnunni í dag til að vinna að næstu ritgerð. Þetta byrjaði allt voða vel í morgun, er komin með frábæra beinagrind og einstaklega vel unninn formála. En svo upp úr hálftíu fór úr mér allur kraftur. Ólíkt sjálfri mér þá get eig ekki fengið kjöt á beinin. Smá pása núna og svo reynum við aftur. Nú er nefnilega markið sett hátt; ég verð að fá A+ næst!

þriðjudagur, 3. júní 2008

Gvööööð ég var að eignast fallegustu viskustykki í heimi. Er hægt að segja svona? Og er í lagi að vera í alvörunni æst yfir því að eignast falleg viskustykki?
Já og svo vann ég í vinnulóttóinu ein 80 pund! Haldiði að maður sé ekki lukkulegur alltaf hreint! Ég pantaði mér med de samme tíma í bjútí, klipping og fínerí. Núna er bara spurning hvort ég sleppi við Eika Hauks í þetta sinnið eða hvort Stóri Rauði ætli að lafa við mig lengur.

mánudagur, 2. júní 2008



Lúkas þarf núna að vera í sumarbúning þegar hann fer í skólann, mér finnst hann svo sætur að ég bara varð að setja mynd inn. Við erum bæði hæstánægð með skóla akkúrat núna, hann fær broskall á hverjum degi og ég fékk A fyrir fyrstu ritgerðina mína. Núna allavega veit ég að ég er á réttri braut, og hef fengið endurnýjaða orku til að skrifa næstu tvær. (Er að renna út á tíma.)