Allt um höfundinn

Halló!
Það kemur sá tími að maður þarf að ákveða sig. Ætla ég að vera feit eða ætla ég að gera eitthvað í þessu spiki? Ef ákvörðunin er að vera bara feit þá er líka um að gera að umfaðma það og vera ánægð með lífið eins og það er. Það er ekki hægt að væla yfir því og gera svo ekkert í því. Ég ákvað að ég væri frekar til í að reyna að takast á við lýsið því ég gat ekki verið ánægð með sjálfa mig eins og ég var. Og þar með var það byrjað aftur. Eftir baráttu við mat síðan ég man eftir mér og endalausar megrunartilraunir síðan á barnsaldri ákvað ég að eitthvað nýtt væri það eina sem kæmi til greina. Ég hef síðan í mars 2009 þessvegna reynt að tækla sjálfa mig frá öllum sjónarhornum, ekki bara farið í megrun. Ég hef reynt að nálgast þetta allt saman á mun heilsteyptari hátt og reynt að grafast fyrir um ástæðurnar fyrir ofátinu. Stundum gengur vel  og stundum gengur illa, en er það ekki eins og með allt annað í lífinu? Og ég get með heilum hug sagt að meira að segja þegar að það gengur rosalega illa þá líður mér betur en þegar ég var 125 kíló. Það er ekkert sem réttlætir vanlíðanina sem fylgir því að geta ekki beygt sig niður eftir hundrað kalli.

Ég hef breytt um lífstíl og hugsunarhátt. Ég fylgi engum megrunarkúr en reyni að borða af hófi, skynsemi og hollustu 97% tímans. Hin 3% eru svo geymd til að fullnægja Hlussunni minni. Ég stunda líkamsrækt af nokkrum móð og þar mestmegnis lyftingar í bland við létt hlaup. Ég geri ekkert sem mér finnst vont eða leiðinlegt, hvers vegna að gera þetta erfitt fyrir sjálfum sér? Mér mistekst oft og ég geri oft algera vitleysu en ég kýs að líta svo á að ég læri alltaf eitthvað af öllum mistökunum og ég komi vitrari frá því.

Sem stendur er ég að reyna að kenna sjálfri mér að tölustafir á vigt eða markmið sem hafa verið plokkuð úr tómu lofti eru ekki það sem þetta snýst um. Ég vil vera hraust, heilbrigð og sátt við sjálfa mig.

Ég er enginn sérfræðingur og allt sem ég skrifa er um mínar upplifanir eða túlkanir á hlutunum, en ég hef líka verið að spá í mat og spiki í áraraðir og er búin að læra ýmislegt sem ég vil deila með sem flestum. Og það er líka alltaf hægt að læra meira.