sunnudagur, 28. febrúar 2010Mér finnst ekki annað við hæfi en að þeir sem vinna hjá "Banka Grúppu" klæði sig samkvæmt "power dressing" reglum. Og þar sem að ég hef í hyggju að taka á honum stóra mínum í nýju vinnunni og vera alltaf í nýpressuðu, sterkjuðu og hæluðu þurfti ég að fara í bæinn í dag í smá leiðangur. Ég fann þessa líka dúndrandi fínu hæla/vinnuskó í Next ásamt hvítri skyrtu og þá þurfti bara að finna buxurnar. Ég keypti að endingu bara einfaldar svartar buxur sem er kannski ekki í frásögur færandi. Nei, það sem er spennandi við þetta er að þær eru agnarsmáar. Pínkuponsulitlar. Á minn mælikvarða það er að segja. Þegar ég held á þeim og skoða trúi ég eiginlega ekki að ég passi í svona smágerða flík. Þær eru nefnilega númer 16. Númer 16 er stærsta "eðlilega" númerið. Það má oftast búast við að finna það númer í flestum venjulegum verslunum. Á myndinni sjást buxurnar sem ég er í á 125 kílóa myndinni og svo ofan á þeim buxurnar sem ég keypti í dag. Mér finnst þetta eiginlega bara skemmtilegt. Ég get ekki hætt að flissa. Tíhíhíhíhí!

föstudagur, 26. febrúar 2010


Ég kláraði í morgun aðra 6 vikna áskorun í EA sports. Það er voðalega gaman að byrja á einhverju og klára það svo líka. Ég gerði þetta alveg sama hvað gerðist í lífinu, vaknaði á hverjum morgni (nema á sunnudögum, líkaminn þarf líka að jáfna sig aðeins) og lyfti, hoppaði og teygði í 40 mínútur. Yndislegt alveg hreint. En núna er prógrammið búið og spurning hvað tekur við. Ég hef ekkert hlaupið síðan á mánudaginn á meðan að hnéð var að jafna sig. En hef í hyggju að setja hlaupin í fyrsta sæti núna. Enda veðrið alltaf að skána og mér finnst hnéð vera skárra nú þegar ég er að léttast aftur. Þetta er líka góður tími til að hrista upp í dagskránni enda verð ég að breyta öllu til að komast í vinnu fyrir klukkan níu. Hef ég tíma til að fara út að hlaupa, fara í sturtu og gera mig sæta og komast í rétta lest á réttum tíma? Það er nefnilega mikilvægt fyrir mig að koma cardio inn first thing til að brenna fitu áður en maður er með kolvetni í systeminu. Þetta kemur til með að reyna á skipulagshæfileikana mína!

Kassinn frá Abel & Cole kom í morgun og viðheldur ævintýrum í grænu. Ég tók upp úr honum gulrætur og kartöflur, hvítkál, banana og mandarínur og Jerusalem Artichoke. Fyrstu fimm hlutirnir voru alveg fínir en hvað í fjáranum er Jerusalem Artichoke? Gvöði sé lof fyrir internetið og nú verða hér í matinn á morgun þessi líka fíni réttur eftir uppskrift frá Jamie Oliver. Verður lífið bara öllu meira spennandi en þetta?

fimmtudagur, 25. febrúar 2010

Mikil ægileg lukka er yfir mér alltaf hreint. Ég léttist um hálft kíló þessa vikuna og það með því að borða dajm og indverskan og kjötbollur og snakk og snikkers. Og ég er bara búin að hlaupa einu sinni vegna íþróttameiðsla. Samt léttist ég. Kannski var þetta líka út af danska kúrnum. Eða "second wind" sem ég hef fengið þessa vikuna. Síðan um jól er ég bara búin að vera með hendina hálfa í þessu öllu saman. Hef verið stressuð og pirruð og hrædd. En ég fattaði svo á mánudaginn að ég er ekkert búin að vera með neitt hálfkák. Það má vera að ég sé ekki að léttast með ofurhraða, eða Biggest Loser style, en heila málið er að ég byrja alltaf aftur.Í næstum heilt ár hef ég flogið og fallið og hlaupið og hrasað, en ég dusta alltaf af mér rykið og byrja bara aftur. Og það er það eina sem skiptir máli. Það má vera að ég sé kannski ekki "poster girl" fyrir megrunarkúra, en þetta er að virka. Hvað um það. Ásta kom með upplýsingar um danska kúrinn og þegar ég fór að skoða hann kom í ljós að hann er prótínkúrinn minn. Mjög takmarkað af kolvetnum, heilmikið prótín og gífurlegt magn af grænmeti. Mamma hafði að sjálfsögðu reynt að koma mér í þetta fyrir löngu síðan en ég bara var ekki tilbúin þá. Það er ýmislegt að danska kúrnum. Í fyrsta lagi þá er er hann "proper" megrunarkúr. Og það er blótsyrði á þessu heimili. (Og ætti að vera allstaðar) Í öðru lagi er alls ekki lögð nógu mikil áhersla á "clean eating" og það er allt of mikið notað af sætuefni. Í þriðja lagi er hvergi minnst á hnetur og svona ýmislegt fleira smálegt. Þannig að ég tók planið og aðlagaði að mínum vísindum og fékk við það þennan second wind sem mig vantaði. Þannig að núna hlakka ég bara til í næstu viku. Ég ætla nefnilega að sleppa dajm og indverskum og snakki og snikkers. Og halda svo bara áfram.

þriðjudagur, 23. febrúar 2010


Það er alveg merkilegt hvað við höfum öll mismundandi sýn á lífið, tilveruna og okkur sjálf. Ég spjallaði í smástund við hana Huldu mína um daginn og hún minntist á að hún væri í gallabuxum. Í fyrsta sinn í mörg ár enda þætti henni hún loks vera orðin nógu slank til að vera í svoleiðis fatnaði. Mér fannst þetta dálítið merkilegt. Ég hefði aldrei sagt að maður þyrfti að vera visst mjór til að geta verið í gallabuxum, gallabuxur henta öllum. Hins vegar myndi ég frekar ganga um nakin en að að fara í pils. Hulda hinsvegar veit ég að hefur verið í pilsi lengi. Ég get núna farið í stutta kjóla en finnst pils ennþá vera alveg hræðileg á mér. Margar feitar konur fara svo líka í víð, síð pils sem mér finnast ættu að vera gerð ólögleg. Mér finnst fínt að vera í eins þröngu að ofan og hægt er en margir myndu segja að feitir ættu að vera í rúmgóðum peysum. Eitthvað sem einum hentar er alrangt fyrir næsta mann.
Ég sagði upp í vinnunni í dag. Sló þannig vopnin úr hendi Elísabetar Drottingar og var á undan að segja henni upp áður en hún hætti með mér. Ég byrja að vinna hjá Lloyds Banking Group mánudaginn 15. mars. Þetta er ljómandi lítið starf í Chester þannig að ég fer í vinnuna með lest á hverjum degi. Hversu erlendis er það?! Vinnutíminn frá 9-5 sem er þvílíkur munur og frí um helgar. Verst hvað ég lækka í launum. En það er víst ekki hægt að kvarta, ástandið hér er hræðilegt og ég er bara lukkuleg að fara úr einni vinnu í aðra. Það er víst ekki hægt að vera fúll þegar maður getur borgar reikningana. Og ég bara svipast um og finn vonandi eitthvað meira við mitt hæfi svona þegar fram líða stundir. Mér datt svo líka í hug að ég hef núna tækifæri til að kynnast fólki sem þekkir mig ekki sem 130 kílóa manneskju. Nýju vinnufélagarnir eiga kannski eftir að hafa allt aðrar hugmyndir um hvernig manneskja ég er því þeir sjá bara svona smá chubby kjellingu, ekki offitusjúkling. Það verður merkilegt að athuga hvort ég taki eftir einhverjum mun á viðbrögðum fólks.

sunnudagur, 21. febrúar 2010


Það er fátt betra en góður vinur. Og að eiga jafn fallega vinkonu og hana Ástu er betra en gull og gersemar. Við erum búnar að hafa það voðalega gott síðan á miðvikudagskvöld; fórum til Chester, í IKEA (Jibbí!), í göngutúr upp á Rhos-fjall og alveg óvart á rugby leik. Borðuðum indverskan og fórum út að dansa í Wrexham. Og mest af öllu erum við búnar að spjalla og gera lífinu og tilverunni góð skil. Það er voðalega gott að tala um þetta ferli mitt og stíga svona aðeins út úr því og skoða utan frá. Og það sem mest stendur upp úr er að ég sé að ég er bara að leggja um það bil 80% í þetta. Það eru þarna 20% að flækjast sem gera það að verkum að ég er ekki alveg sátt. En ég veit hvað ég þarf að gera, ég hef alla þá þekkingu sem ég þarf til að gera þetta í alvöru. Og það er kominn tími til að spýta í lófana og herða róðurinn, naga skjaldarendur, skíta út fyrir lunningu og tussa þessu í gegn. Nú skal dansinn hefja.

fimmtudagur, 18. febrúar 2010

Grömmin 300 farin í morgun þannig að ég er aftur komin í Magna þyngd. Ánægð með það eftir hálfgert hálfkák þessa vikuna. Kannski að þetta hafi bara verið áhyggjur, en nú er ég komin með nýja vinnu þannig að áhyggjurnar eru farnar og Ásta komin í heimsókn þannig að það eru skemmtilegir dagar framundan. Góðar stundir.

mánudagur, 15. febrúar 2010

Mamma mía! Samkvæmt hlaupaprógramminu mínu á ég að hlaupa stanslaust í 20 mínútur á föstudaginn! Ég er ekki alveg viss um að ég sé tilbúin í það. Fyrir utan að ég get ekki hlaupið lengur en í 6 mínútur án þess að koma að brekku. Og ég get ekki hlaupið upp brekku. Á morgun ætla ég að hlaupa í 5 mín, ganga í 3, hlaupa í 5 o.s.frv. í hálftíma. Ég get það. Svo hlaupa í 8 mínútur. Það er lengra en ég get núna. Og að lokum hlaupa stanslaust í 20 mínútur. Hversu spennandi getur lífið bara orðið? Ég bara get varla þolað æsinginn!

sunnudagur, 14. febrúar 2010

Ég borða góðan og hollan mat. Ég borða mestmegnis grænmeti, gott prótín, flókin kolvetni og holla fitu. Ég hleyp a.m.k. þrisvar í viku, lyfti fjórum sinnum í viku og labba heilmikið. Ég rannsaka og læri og kenni sjálfri mér. Ég les og skrifa og finn upplýsingar. Ég er búin að léttast um 28 kíló síðan í mars. Það er ekkert sem ég veit ekki um "lífstílsbreytingar". Engu að síður finnst mér að ég þurfi að byrja upp á nýtt öðruhvoru. Ég þarf stanslaust að hrista upp í þessu öllu saman. Stundum virkar það, og stundum ekki. Oftast skemmti ég mér konunglega, en stundum skoða ég "spreadsheetið" mitt og hugsa með mér að ég sé alltaf að skemma fyrir sjálfri mér, að í hvert sinn sem ég kemst á flug og vel gengur þá geri ég eitthvað þannig að ég þarf að byrja upp á nýtt. Mér finnast 600 grömm á viku að meðaltali bara ekki vera nóg. Stundum skoða ég önnur blogg og verð græn af öfund af sögum af fólki sem er búið að léttast helmingi meira en ég á helmingi minni tíma. Eins mikið og ég veit þá held ég samt áfram að gera svo margt vitlaust. Og það er alltaf eins og það gerist þegar ég nálgast einhver takmörk. Eftir þrjár vikur verður heilt ár síðan ég byrjaði að garfa í þessu. Og ég væri óskaplega mikið til í að geta sagt að ég hafi lést um 30 kíló á þessu ári. En er núna nagandi mig í sjálfsefa um að það takist. Ég veit að þetta var núna bara einn (enn) sunnudagur í rugli og ég byrja upp á nýtt á mánudegi, ekkert mál, en ég bara nenni ekki lengur þessu "byrja upp á nýtt". Mig langar til að taka allt matarkyns út sem ýtir á rofann í heilanum á mér sem kveikir á "binge" hegðuninni. En er ekki alveg nógu sterk til þess. Það kemur alltaf upp hin hliðin á málinu sem segir mér að í öll hin skiptin sem ég léttist helmingi meira á helmingi minni tíma og var ekkert í neinu rugli þá kom alltaf sá tími þar sem ég fór í ruglið og komst ekki út úr því aftur. Er ekki betra að vera bara róleg í þeirri fullvissu að fyrir hvern ruglaðan sunnudag fylgja a.m.k. sex brilljant dagar? Ég er mjög tvístígandi yfir þessu. Kannski svona eins og alkahólisti sem gerir sér grein fyrir að hann á við vandamál að stríða vegna þess að hann heldur áfram að drekka einn heima eftir að partýinu lauk en enginn annar veit neitt því alkinn var hrókur alls fagnaðar á meðan partýinu stóð. Ég veit í hjarta mér að þetta "sex góðir dagar, einn vondur" er fínt ef ég ætla að halda mér stöðugri þar sem ég er, en ef ég ætla að halda áfram að léttast þá er komið gott. Ég verð að finna rofann inn í mér sem kveikir á "koma svo!" hegðuninni. Æji, ég veit það ekki. Ég veit alveg hvað ég þarf að gera, en nenni því ekki núna. Held að ég sé að fiska eftir samúð. Eða smá sparki í rassinn. Heill pistill og ekki kemst ég að niðurstöðu. Mikið djöfull er þetta mikið vesen. Mikið djöfull er þetta flókið! Mikið djöfull em þetta er líka einfalt mál! Djöfullinn sjálfur!

föstudagur, 12. febrúar 2010


Á leiðinni heim eftir að skila Láka af mér í skólann gekk ég fram á tvo eldri herramenn sem höfðu stoppað til að spjalla. "Good morning William" sagði sá fyrri. "It´s a cold one John," svaraði hinn. Í sömu andrá hjólaði sá þriðji framhjá og kallaði "Morning Brian, morning Henry" "It´s a cold one Jim" kölluðu þeir tilbaka. Bíddu nú við. Hver er Brian og hver er Henry? Eða er Jim kannski bara rugludallur og John og William láta það bara eftir honum að kalla sig Brian og Henry? Þetta voru skrýtnar skrúfur. Walesverjar eru skrýtnar skrúfur að mati flestra Englendinga. Við tölum með afdalahreim sem gefur til kynna að við séum sveitafólk og sakleysingjar. Á sama hátt og ef fólk að sunnan heyrir í Scouse, Liverpool hreim þá grípur það fast í veskið því eins og allir vita þá eru Scousers þjófar og glæpamenn. Við hér í Rhos erum svo Jackos. Það er nú ekki gott að vera Jacko, við erum víst frekar illa gefin og undan hvort öðru komið. Svona dálítið skrýtin. Kannski dálítið eins og Þollarar. Það er kannski ekkert skrýtið að ég hafi endað hérna. Ættum við ekki að setja upp svona vinabæjasamband?

fimmtudagur, 11. febrúar 2010

Góðu fréttirnar eru að ég er hætt að sjá hundrað. Að kvöldi til, í gallabuxum og skóm og ópissuð er ég samt undir hundrað. Good riddance segji ég nú bara. Slæmu fréttirnar eru að ég brást vísindunum. Þau brugðust mér ekki, ég brást þeim. Eftir kolvetnispartýið á sunnudaginn og föstuna á mánudaginn hafði ég fyllilega í hyggju að fylgja prótín kúrnum en eitthvað var áhyggju-og kvíðahnúturinn í maganum á mér að flækjast fyrir mér þannig að ég náði ekki að plana vikuna nógu vel. Hélt mér reyndar undir 1500 kal en allt kom fyrir ekki og ég þyngdist um 300 grömm þessa viku. Ekki spennandi. (Getur verið að áhyggjur vegi allt upp undir 2 kíló? Ef svo er þá er ég í fínum málum!) En sem betur fer veit ég hvað ég gerði vitlaust og get bara gert mitt besta til að reyna að gera ekki sömu mistökin aftur.

þriðjudagur, 9. febrúar 2010

Til þess að sanna fyrir sjálfri mér að ég sé ekki með skapgerðarbrest, að ég sé algerlega við stjórnvölinn ákvað ég að borða ekki neitt í gær. Mér tókst að forðast súkkulaðikökuna á sunnudaginn, en borðaði nokkrar skonsur og eitthvað fannst mér geðveikt við hvernig ég var öll inni í mér og það er svo mikilvægt fyrir mig að þetta allt saman sem ég er að gera leiði til þess að ég verði svona nokkurnvegin eðlileg þannig að mér fannst ég þyrfti að gera eitthvað. Skapgerðarbrestur eður ei þá ákvað ég að sýna sjálfri mér hvað ég bý yfir miklum ofur viljastyrk. Og drakk bara vatn í gær. Og hræddi sjálfa mig smávegis því ég skemmti mér of mikið við það. Það var yndislegt að hafa svona mikið vald yfir sjálfri mér og mat og umhverfinu og öllu saman. Þetta var ekki gert til þess að léttast, ég meira segja veit að þegar ég borða of lítið hefur það vanalega öfug áhrif, þetta var algerlega sálfræðileg athugun. En þetta var líka bara dæmi um öfga frá hinum sjónarhólnum og alls ekki sniðugt að því leytinu til. Ég þarf aðeins að melta þessar upplýsingar allar og ákveða hvað ég geri við þær. Svo er líka kannski ekkert skrýtið að ég hafi verið smávegis skrýtin um helgina. Mér, og þúsundum öðrum opinberum starfsmönnum, var sagt upp á föstudaginn. (Einhvern vegin þarf Gordon Brown að borga mínusinn í ríkiskassanum sem Icesave skildi eftir sig!) Frá og með 1. apríl er ég atvinnulaus. Það er ef ég finn ekki nýja vinnu fyrir þann tíma. Það er ekki um auðugan garð að gresja en ég er nú svo sem ekki með neinar ofur áhyggjur. Þetta er bara smá svona vesen sem ég ætla að vinna úr og það án þess að þyngjast um 30 kíló. Nú er sko aldeilis tækifæri til að prófa skapgerðina, mína eðlislægu bjartsýni og allar mínar kenningar. Það er sko engin afsökun fyrir ofáti þó maður fái slæmar fréttir.

sunnudagur, 7. febrúar 2010


Ég vaknaði í morgun með sorg í hjarta og harðákveðni að borða mína eigin vigt í heróíni. Fór þessvegna niður og byrjaði daginn á að baka hefðbundnar enskar skonsur (scone). Lúkas stakk upp á að ég myndi einnig baka eina súkkulaði köku og fyrst ég var með allt heróínið á borðinu hvort eð var og ég var með sorg í hjartanu þá hljómaði þetta eins og hin besta hugmynd. Ég skellti því í eina Ástu súkkulaðiköku á meðan skonsurnar voru inni í ofni. Það sló hraðar í mér hjartað af spenningi við að fá súkkulaðiköku, ég meina ein eða tvær skonsur með smjöri og sultu eru eitt en sneið af (eða heil) súkkulaðiköku er eitthvað allt annað. Bara tilhugsunin um lyktina, áferðina og tilfinningunni á tungunni, um bragðið og æsingin um að fá næsta bita á meðan ég kjamsa á þeim fyrsta var nóg til að ég þyrfti að grípa í borðbrúnina svo mér myndi ekki bara byrja að svima. Og ég hugsaði með mér að þetta væri ekki eðlileg hegðun. Og ég er búin að segja við sjálfa mig að ég fái ekki neitt heróín þangað til að ég er sannfærð um að ég ráði við það. Og ég veit að ég ræð ekki við það núna. Ef það gerist aldrei, so be it, ég tek þá bara þeim hundi eins og hann kemur. Ég minnti sjálfa mig á hvað ég geri þegar ég fer í Co-op; fyrsta hugsun: "Vá, hvað mig langar í eitthvað", næsta hugsun: en þú ætlar ekki að kaupa eitthvað þannig að þú getur allt eins hætt að hugsa um það núna." Og ég hætti að hugsa um það og kaupi bara það sem ég átti að kaupa. Sama með þessa köku. "Þú ætlar ekki að fá þér kökusneið þannig að þú getur allt eins hætt að hugsa um hana núna." Kakan er komin ofan í kökustamp og ég fer með hana í vinnuna á morgun og gef teyminu mínu. Það er óþarfi að henda henni. Og ég slepp við heróínneyslu í dag. Við ætlum að fara í smá göngutúr núna fjölskyldan. Það er alltaf gaman að rölta um Ty Mawr svona þegar vorið er á næsta leyti.

laugardagur, 6. febrúar 2010

Ég lauk við dag þrjú í viku þrjú í C25K prógramminu á laugardagsmorgun. Ég hljóp miðvikudag, föstudag og laugardag og þannig var í lagi að ég sleppti mánudeginum. Ég man aldrei fyrr en ég er hálfnuð með hringinn að ég ætlaði að taka með mér snýtiklút. Ég hlýt að vera eins og algjör gonkóli á hlaupum, með hálfvitaglottið allan hringinn, eldrauð í framan og með horið í löngum taumum frá nefi og út á kinnar. Ég er eiginlega hálfhissa að einhver góð sál hafi ekki komið og farið með mig aftur á sambýlið. Engu að síður er gleðin svo mögnuð að mér er alveg sama, meira að segja um hortaumana, ég bara fæ ekki nóg af þessu. Og það er með ólíkindum hvað maður er fljótur að verða betri. Ég get núna hlaupið í einum rykk göngustíginn sem ég þurfti að skipta í þrennt í upphafi. Ég bara hlakka til að sjá hvað vika fjögur ber í skauti sér.

föstudagur, 5. febrúar 2010


Á leiðinni til Wrexham í gær þá pústaði bíllinn aðeins. Dave segir að hann haldi að það sé einhver hundur í einhverri leiðslu, hann hafi sett grugg í bensínið. Ég sagði að ef pabbi ætti bílinn þá myndi hann opna húddið og finna sér eina eða tvær leiðslur og/eða pípur og blása rösklega í þær. Það væri alltaf lausnin á svona vandamálum. Mikið er ég fegin að pabbi þinn valdi sér ekki kvensjúkdómalækningar sem atvinnugrein svaraði Dave þá, það hefði getað leitt til nokkurra vandræðalegra atvika.

Ég hefði líka alveg verið til í að blása í nokkrar leiðslur í heilanum á mér þegar til Wrexham var komið. Ég fór inn í eina búð, tók beint strik í fituhlussudeildina, snérist í nokkra hringi, fattaði að ég á ekki heima í þessari deild lengur, og hringsnérist svo um venjulegu fötin. Og vissi bara ekkert hvað mig langaði í. Ræflaðist um og það eina sem ég gat hugsað var að þetta væri of mikið val, þetta er of erfitt. Ég er ekki tilbúin til að finna minn eigin stíl ennþá. Væri helst til í að vera Pin-Up girl held ég. Fann svo loksins voðalega fínar buxur og hélt þeim upp til að sýna Dave. Hann varð skrýtinn á svipinn og spurði svo hvort ég væri að reyna að segja honum eitthvað. Sá þá að á strengnum var þessi líka fína teygja fyrir óléttu bumbu! Þær fóru beint aftur á rekkann. Ég gafst bara upp. Ég reyni bara aftur um næstu helgi. Ég keypti mér bara prótein duft í staðinn. Jebb, ég er bara orðin hardcore lyftingakjelling sem treð í mig prótínsjeikum. Allt náttúrulegt efni, fitulaust og nánast engin kolvetni. Bara til að reyna að koma meira prótíni í mig, það er alveg nánast vonlaust að gera það einungis með mat. Við enduðum svo á Starbucks þar sem ég fékk besta skinny latte í heimi. Ég er ekkert of stressuð yfir buxunum, um leið og ég fer að fatta hvernig ég er í laginu núna þá finn ég út hvað ég vil og í hverju ég vil vera og hvar ég vil versla. Það er líka kannski að fara að koma tími á eina góða verslunarferð, hmm stelpur?

fimmtudagur, 4. febrúar 2010

Vísindin virka, vísindin blífa, vísindin eru komin til að vera. Ég er búin að fylgja 40% prótín, 40% kolvetni, 20% fitu matseðlinum mínum núna síðan á mánudag og ég hef lést um 2 kíló þessa vikuna. Ég er núna eins mjó (eða eins feit ef maður er glasið er hálftómt manneskja) og ég var þegar ég var hjá Magna. Ekki nóg með það heldur er fitan sem eftir er búin að raða sér á mun skipulegri hátt um líkamann og ég er öll orðin svona straumlínulagaðri. Mér líkar vel við straumlínur. Ég held að ég sé enn ánægðri með þetta allt saman en ella af því ég lagði vinnuna í þetta, ég fann upplýsingarnar, ég vann úr þeim og ég skapaði velgengnina sjálf. Og þetta er ekkert leyndarmál, þetta er ekkert flókið, þetta er ekki einhver kreisí megrunarkúr, þetta snýst um að skilja líkamann og gefa honum það sem þarf til að hann vinni sem fullkomna vélin sem hann er. Kertsjíííng!

Ég og Dave erum í fríi núna í tvo daga. Sem er voðalega næs, mér finnst ofboðslega gaman að vera í fríi úr vinnunni. Lúkas í skólanum og við hjónakornin ætlum að fara í kaffirölt um Wrexham og kannski kaupa á mig nýjar buxur. Þessar númer 18 eru nebblega orðnar dálítið rúmar um sig. Og skinny gallabuxurnar mínar? Þær eru meira svona gúlpandi gallabuxur. Það er nú óþarfi að vera að gera mann stærri en maður er í alvörunni. Er þaggi?

mánudagur, 1. febrúar 2010

Dagur eitt, vika þrjú og ég slasa mig. Hér er fljúgandi hálka og því miður hnykkti ég í hnéð þegar ég lagði af stað í morgun. Ekkert alvarlegt en nóg til að ég snéri við og þrykkti bara í annan tíma hér heima í EA active. Ég vil frekar bíða í einn eða tvo daga á meðan hálkan fer en slasa mig alvarlega og þurfa að bíða miklu lengur. Og svo þarf að spýta í lófana því ég er búin að skrá mig í Race for Life í lok Júní. 5 kílómetra hlaup til að safna pening fyrir Cancer Research UK. Að hugsa með sér. Ég, í alvöru hlaupi. Það má að sjálfsögðu labba en takmarkið mitt er að geta hlaupið í allavega 30 mínútur stanslaust þegar að því kemur. Þetta er nú aldeilis spennandi. Jæja, best að fara í vinnuna hlaðin spínati, feta og kjúklingabringum.