þriðjudagur, 9. febrúar 2010
Til þess að sanna fyrir sjálfri mér að ég sé ekki með skapgerðarbrest, að ég sé algerlega við stjórnvölinn ákvað ég að borða ekki neitt í gær. Mér tókst að forðast súkkulaðikökuna á sunnudaginn, en borðaði nokkrar skonsur og eitthvað fannst mér geðveikt við hvernig ég var öll inni í mér og það er svo mikilvægt fyrir mig að þetta allt saman sem ég er að gera leiði til þess að ég verði svona nokkurnvegin eðlileg þannig að mér fannst ég þyrfti að gera eitthvað. Skapgerðarbrestur eður ei þá ákvað ég að sýna sjálfri mér hvað ég bý yfir miklum ofur viljastyrk. Og drakk bara vatn í gær. Og hræddi sjálfa mig smávegis því ég skemmti mér of mikið við það. Það var yndislegt að hafa svona mikið vald yfir sjálfri mér og mat og umhverfinu og öllu saman. Þetta var ekki gert til þess að léttast, ég meira segja veit að þegar ég borða of lítið hefur það vanalega öfug áhrif, þetta var algerlega sálfræðileg athugun. En þetta var líka bara dæmi um öfga frá hinum sjónarhólnum og alls ekki sniðugt að því leytinu til. Ég þarf aðeins að melta þessar upplýsingar allar og ákveða hvað ég geri við þær. Svo er líka kannski ekkert skrýtið að ég hafi verið smávegis skrýtin um helgina. Mér, og þúsundum öðrum opinberum starfsmönnum, var sagt upp á föstudaginn. (Einhvern vegin þarf Gordon Brown að borga mínusinn í ríkiskassanum sem Icesave skildi eftir sig!) Frá og með 1. apríl er ég atvinnulaus. Það er ef ég finn ekki nýja vinnu fyrir þann tíma. Það er ekki um auðugan garð að gresja en ég er nú svo sem ekki með neinar ofur áhyggjur. Þetta er bara smá svona vesen sem ég ætla að vinna úr og það án þess að þyngjast um 30 kíló. Nú er sko aldeilis tækifæri til að prófa skapgerðina, mína eðlislægu bjartsýni og allar mínar kenningar. Það er sko engin afsökun fyrir ofáti þó maður fái slæmar fréttir.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Mér finnst það mjög góð ábending frá þér að það þurfi ekki að halda upp á allt með því að borða hvorki þegar þarf að fagna einhverju eða þegar manni líður illa. Matur á ekki að vera fyrsta hugsun.
Skrifa ummæli