mánudagur, 28. febrúar 2011

Það er sjaldnast að hlutirnir ganga alveg þrautarlaust fyrir sig. Nú þegar ég var komin á gott ról með skipulagið á lífinu þá breytist allt. Nú er búið að breyta vinnutímanum hjá mér frá 9 - 5 í 8:30 - 16:15. Tímabundið reyndar en nógu lengi til að ég þarf að breyta öllu mínu. Ég kemst ekki í rækt fyrir vinnu lengur. Ég tek fyrsta strætó nú þegar þannig að ekki get ég bara lagt af stað fyrr. Ferðalagið tekur einn og hálfan tíma allt í allt og ég get ekki verið komin í rækt fyrir klukkan 7: 30. Með sturtu og málningu er bara of lítill tími eftir fyrir æfingu. Hádegismatartíminn er núna bara 45 mínútur svo aftur er ég komin í tímaþröng. Vinnuræktin lokar klukkan 16:30. Einn og hálfur tími á leiðinni heim og ætla svo að bæta þar ofan á ferðalagi í úthverfi til að komast í aðra rækt er bara útilokað þegar ég á lítinn strák sem bíður eftir mér heima. Fyrir utan að vera einfaldlega of þreytt til að flækjast um í þriðja og jafnvel fjórða strætóinn. Þetta virtist ætla að vera óyfirstíganlegt vandamál. Mín besta lausn var að vakna klukkan 5:15, fara út og hlaupa um hverfið í 40 mínútur og svo þaðan í sturtu og vinnu. Reyna svo að gera bara likamsþyngdaræfingar þess á milli, endalausar armbeygjur eða eitthvað. Því var þó ekki hægt að neita að ég var hálfangistarfull yfir þessu; hvað með fínu vöðvana mína? Hvað á að verða um þá? Ég fékk svo skilaboð frá stelpunni sem rekur ræktina í dag, hún er að plana nýtt skipulag þannig að það verður opið til hálf sex á kvöldin hjá henni. Ef ég fer úr vinnu klukkan 16:15, er byrjuð að æfa 16:30, búin rétt eftir 17:00 þá næ ég síðasta strætó frá Chester til Wrexham klukkan 17:15 og svo frá Wrexham til Rhos klukkan 18:20 og er komin heim nógu snemma til að eiga smá tíma með Láka. Þetta er allt í lagi tvisvar í viku, ekki jafn gott og að fara á morgnana en betra en ekkert. Ef ég fer svo út og hleyp hina morgnana þá ætti þetta að vera í lagi. Alltaf þarf lífið að komast upp á milli manns og plansins. En ég fæ þó vonandi að halda áfram að hnykla vöðvana.

laugardagur, 26. febrúar 2011

Jahso! 89.8 kíló. Hver hefði trúað þessu? Ég sá síðast áttunda tuginn á níunda áratugnum. Ég held ég hafi lafað fram yfir jól í fyrsta bekk í MS undir 90 kílóum. Það var 1991. Ég hef þessvegna grennst um 20 ár. Má ég vera smávegis ánægð með það? Er þetta líka ekki eins stuttur kjóll og við getum farið í áður en ég byrja að fá atvinnutilboð út á götu?


Það má vera að ég sé með ljótustu fætur í heimi!

föstudagur, 25. febrúar 2011

Við Dave fórum út í gærkveldi. Sem er hreinlega í frásögur færandi. Það er mjög sjaldan sem við gefum okkur tíma til að vera bara tvö saman, maður er vanalega svo gagntekin af samviskubiti yfir löngum vinnudegi sem þýðir nánast ekkert samband við barnið á virkum dögum að maður hikar við að láta hann í pössun til að vera bara tvö saman. En það er líka alveg nauðsynlegt til að rækta sambandið. Hér í Wrexham er núna mikið átak í gangi til að kynna menningu til sögunnar, og ekki veitir af, hér eru flestir afkvæmi Vicky Pollard og fótboltabullu, allt það versta í fari Breta má finna hér. Það er því ýmislegt í gangi, leikrit og tónleikar, sýningar á söfnum og svo uppistand það sem við fórum að sjá í gær. Þetta var voðalega gaman, við fengum okkur einn bjór og sátum svo og hlógum í tvo tíma. Ég álpaðist náttúrulega til að svara að ég væri Íslendingur þegar uppistandarinn spurði hvort það væru útlendingar í salnum og varð skotspónn að nokkrum heldur föstum bröndurum. En það gerði kvöldið nú bara enn skemmtilegra. Þessi eini bjór ætlar þó að verða mér dýrkeyptur, ég var 400 grömmum þyngri i morgun en ég var síðasta laugardag. Grefillinn sjálfur.

Hádegismatur á frídegi.
Ég er í fríi í dag og er þessvegna með vatnsbrúsann í hendinni við að reyna að losna við þessi 400 grömm. Mikið sem er gott að eiga svona dag heima. Láki er enn hjá frænda sínum i sleepover og ég er búin að hoppa aðeins, þrífa húsið, elda mér quinoa grjóngraut í morgunmat, hasselback sæta kartöflu, kjúkling og grænt salat með mangósósu í hádegismat, setja í kald hefið brauð, tala við mömmu á skype, fá mér góðan kaffibolla og sit núna á sófanum og er að horfa á Nigellu Lawson í sjónvarpinu. Ég hugsa að ég fái mér bara lúr núna. Þvílíkt lúxus líf.

fimmtudagur, 24. febrúar 2011

Það er búinn að vera myljandi gangur hjá mér í ræktinni í þessari vikur. Það virðist sem svo að hvíldin hafi gert mér gott enda var ég hoppandi glöð þegar ég fékk lóðin aftur í lúkurnar á mánudagsmorgun. Svo hljóp ég 5 km upp brekkur á þriðjudaginn á rétt rúmum 40 mínútum. Og ég verandi ég varð æst og uppvæg að gera betur í dag. Skoppaði glöð til verksins í morgun með það á hreinu að ég myndi taka þetta á 39:59. Ég hafði fundið til hlaupagallann kvöldið áður til að gera morgunverkin létt og auðmelt og hafði af einskærum hégóma ákveðið að fara í nýja, smart lyftingabolinn minn. Hann er svo fínn og flottur og er búinn til úr einhverju efni sem er með einhverskonar spikviðnámi því hann þrýstir niður yfirmaga svo ég virka hoj og slank og mér líður alltaf eins og ég sé íþróttamaður þegar ég er í honum. Það sem hégóminn gerði ekki ráð fyrir voru þykkir saumar niður eftir síðunum á honum. Þegar ég er að komast á annan kílómetran byrja ég að finna fyrir sviða í neðanverðum upphandlegggjum, hviss hviss við hverja handahreyfingu eykst sársaukinn. Ég var fljót að fatta að saumarnir voru farnir að nudda handleggi svo tók í. Skiptir engu hugsaði ég, ég er rétt hálfnuð með brekkurnar, ég klára þær alla vega. Þegar brekkum lauk rétt að slaka í fjórða kílómetra var þetta orðið eins og vera sleginn með svipu við hvert skref. PAIN IS TEMPORARY! Öskraði innri nasistinn á mig, Djísús Kræst! hugsaði ég í sömu andrá, ég hljóma eins og geðveikur ammrískur fótboltaþjálfari! Koma svo var næsta hugsun, brekkurnar eru búnar og bara einn kílómetri eftir, þú getur þetta alveg. Og ég hljóp síðasta kílómetrann með hendurnar á lofti. Og kláraði 5 km á 39:53.
Ég verð oft vandræðaleg þegar ég fæ hrós fyrir sjálfstjórn, sjálfsstyrk og járnaga. Ég tók þá ákvörðun að verða hraust og léttast og það að mæta í ræktina er einfaldlega það sem þarf að gera til að vinna það verkefni. Þetta er ekkert mál, eða vesen eða erfitt. Þetta er það sem ég geri. En ég ætla líka að segja það að þegar ég geri hluti eins og að klára hlaupið með hendur á lofti þá verð ég stolt af sjálfri mér. Járnagi segirðu? Ég er sko búin til úr stáli.

þriðjudagur, 22. febrúar 2011

Quinoa-bollur
Með í huga þann gullna vísidóm sem ég núna lifi eftir, kom ég heim úr vinnu í gærkveldi úrvinda á sál og líkama og endurreisti andann og holdið með smá eldhússtússi. Kvöldmaturinn var reyndar bara bixí úr sunnudagssteikinni en það sem fékk hjartað til að slá hraðar var það sem átti að vera hádegismaturinn minn í dag. Quinoa-bollur. Uppskriftina að bollunum hafði ég séð á Tastespotting.com (matarklám!) og aðlagaði að mínum aðstæðum. Jeremías það sem þetta var gott. Hálfur bolli quinoa soðið í einum bolla af grænmetissoði, og látið kólna. Sveppir, rauðlaukur og rauð paprika hakkað niður og steikt á pönnu með salt og pipar, oregano og rósmarín. Vænni gommu af spínati skellt á pönnuna. Mikið sem spínat minnkar við steikingu. En hvað um það. 2 matskeiðar af furuhnetum (eða bara hvað hetum sem er, ég notaði hakkaðar hesli og valhnetur) sett út í og hrært saman. Svo skellir maður kældu quinoanu út í og einu eggi og hrærir í mauk. Myndar svo litlar bollur, penslar með eggi og bakar svo í ofni við 200 gráður þangað til þær eru gullnar. Ef ekki er hugi til að smyrja plötuna með olíu þá þarf að eiga sílikonflöt eða smjérpappír því þessar elskur festa sig við ofnplötuna. Ég fékk út úr þessu einar 12 bollur sem mér reiknast til að séu 2 hádegismatar, sér í lagi þegar þær eru lagðar ofan á próteingjafann, (lax í mínu tilfelli í dag) sem hvílir á hverju öðru en spínatbeði. Þetta var, þó ég segi sjálf frá, alveg hrikalega gott.

sunnudagur, 20. febrúar 2011

Ég hef að undanförnu verið með hálfgert æði fyrir súperfæðunni quinoa (kín-wa). Auðmelt og stútfullt af próteini og svo bragðgott. Það er voðalega auðvelt að skella í kúskús og þessvegna hef ég gert meira af því að nota það í salatið mitt en er núna búin að ákveða að öggulega litla meira fyrirhöfnin með quinoað er þess virði. Það er svo gott í salat. En ég hafði líka séð það notað í morgunmat, svona eins og hafragraut. Ég skoðaði mig því um á netinu og í gegnum 101 cookbooks rakst ég á uppskrift að sætum morgunverðar quinoa graut úr bók eftir Dr. John La Puma sem er bæði læknir og kokkur. Í nýjustu bókinni hans Chef MD's Big Book of Culinary Medicine má meðal annars finna þessa tilvitnun;

"...I have begun to think of a home kitchen in much the same way I think of a health spa - a place where people can come to be restored, feel better, experience pleasure, and become healthier. And this is how I'd like you to start thinking about your kitchen. Your kitchen is at the heart of your health."

Quinoa"grjóna"grautur og bláberjakrums
Ég varð fyrir uppljómun þegar ég las þetta. Hvað er ég alltaf að vesenast með að vera með samviskubit yfir ást mínum á mat? Þegar ég get notað hráefni sem bætir heilsu og sál, þegar það að setja saman nýja uppskrift gerir mig hamingjusama, þegar ég get nýtt mér þá guðsblessun að vera fær um að elda til að bæta heilsu mína og þeirra sem ég elska? Eldhúsið mitt er hjartað mitt. Ég vaknaði því í morgun sæl og glöð og bjó til sætan quinoa graut. Sauð quinoa með vatni og möndlumjólk og smá kanil. Teskeið af sweet freedom (ávaxtasætuefni) út í og svo heimabúin epla-bláberja krums og ristaðar pekanhnetur. Smá fyrirhöfn en hver kvartar á sunnudagsmorgni? Ég var hvort eð er að búa til epla og bláberja múffur fyrir vikuna og hjartað mitt er svo glatt með þetta alltsaman. Grauturinn var geðveikur, meira eins og grjónagrautur en hafragrautur og bláberja-epla krumsið mitt svona smá sætsúrt til að vega upp á móti rjómakenndri áferðinni á grautnum. Muldar og ristaðar pekanhnetur settu svo punktinn yfir i-ið. Mmmmmm. Mmm. Mm. Mmmmm.

Ég er búin að ákveða að 10 kílóa bil á milli framþróunarmynda sé of mikið núna, það eru jú bara 15 kíló eftir og ætla að setja inn nýja mynd þegar ég næ 90 kílóum. 90.1 í gærmorgun, og ég fann svakalega stuttan kjól í Next. Smá átök í þessari viku og we are good to go. Spennandi.

laugardagur, 19. febrúar 2011

Þegar ég náði yfir landamærin í "onederland" um daginn og ég fagnaði þeim áfanga spurði mamma hvenær 95 kílóa myndin var tekin, hún vildi fá að vita hvað það hafi tekið mig langan tíma að veltast við að taka af mér síðustu 5 kílóin. Ég skoðaði í myndaalbúmin mín og myndin var tekin 3. mars 2010. Það er sem sagt hægt að segja að það hafi tekið mig frá mars 2009 að léttast um 30 kíló og svo frá mars 2010 og fram í febrúar 2011 að léttast um 5 kíló. Og ég fagnaði þessum áfanga mínum af öllu hjarta. Og eins glöð og ég var með að hafa séð einhverjar tölur á vigtinni verð ég líka að segja að ég vil frekar hafa eytt þessu ári í að læra það sem ég kann og léttast bara um 5 kíló en að hafa lést um önnur 30 eins og fyrsta árið og vita ekki það sem ég veit núna. Sérstaklega eftir allt það sem ég er búin að vera að pæla í þessari viku. Í sama hlutfalli við það sem ég hef lært um hegðan mína, um hvernig ég bregst við aðstæðum, um hvað ég er fær um að gera gera, hefur þyngdartapið hægt á sér. Og það er líka engin spurning um að ég á enn eftir að læra svo mikið meira og ég á enn eftir að gera milljón mistök. En ég get sko sveiað mér upp á að ef ég hefði þrusað í gegnum næstu 30 án þess að læra að skilja sjálfa mig þá væru þau hvort eð er komin aftur, með vaxtavöxtum og ég væri jafn vit-og vonlaus og ég var áður. Nei, ég er sko enginn vitleysingur.

Ég er svo núna búin með sálarrannsóknarpakkann í bili. Það er bara svo mikið af naflakuski sem er hægt að grafa upp hverju sinni. Ég er svo sátt við allar mínar uppgötvanir og er í rússandi stuði til að halda ótrauð áfram. Og ætla núna að fókusa algerlega á líkamlegu hlið málsins og leyfa andanum að hvíla sig. Og set vonandi inn 90 kílóa myndina innan tíðar. Ég er bara að spá hvar ég fæ styttri kjól en þann sem ég er í á 95 kílóa myndinni. Og í framhaldi af þvi hvar kjólarnir mínir eiga eiginlega eftir að enda!

miðvikudagur, 16. febrúar 2011

Mér líður vel í dag. Ég fór í rækt í morgun og tók ágætlega á en var með smá svima. Ég ákvað þessvegna að ég ætla að taka mér frí fram í einn eða tvo daga, endurhlaða batteríin. Ég er búin að taka stórt skref í áttina að gera lífstílinn að eðlilegu lífi með þvi að leyfa sjálfri mér að slaka aðeins á líka. Ég vil læra að skilja sjálfa mig og fatta hvað er sem virkar fyrir mig og hvað ég geri til að skemma fyrir sjálfri mér og þetta að skilja að ég verð að leyfa sjálfri mér að vera ekki fullkomin stundum var dýrmæt lexía. Ég er ekki að segja að ég geti bara slökkt á refsihugsunum einn, tveir og þrír en það að skilja hvað er að gerast í þankaganginum hjá mér þýðir að ég get notað skilninginn til að þokast í átt að jafnvæginu mínu.

Það var svo um daginn að ég var hálf ómöguleg öll í sálinni. Ekkert sem ég gat fest fingur á, ég hugsa að það hafi verið smá leiði yfir að komast ekki á Þorrablót í Þorlákshöfninni minni kæru eða kannski út af nýju fjárhagsáraninni. Ég stikaði um og þegar Dave spurði hvað væri að sagði ég það fyrsta sem mér datt í hug; "I'm upset and I´m even more upset that I can´t reach for food which up until now has been my coping mechanism to deal with being upset." Og um leið og ég sagði þetta rann upp fyrir mér að ég er að stika stórum skrefum í átt að þessu langþráða jafnvægi mínu. Bara það að staldra við áður en ég teygi mig í nammið er svo mikil framför og ég er búin að gera það núna í langan tíma án þess að hrósa sjálfri mér fyrir. Mér dettur ekki í hug að fá mér nammi til að deyfa vanlíðan lengur. Mér finnst bara að mig langi í nammi af því að það er svo kunnugleg tilfinning. En hún er ekki sönn lengur. Ég held það bara. Það að skilja að ég nota mat sem hækju, sem afsökun, sem verðlaun, sem ást er framför. Ég nota skrifin til að díla við leiðinlegar tilfinningar í staðinn fyrir mat og ég fer í rækt og ég kaupi ný föt og ég nýt líkamans og finn nýjar, hollar uppskriftir og og og. Endalausar aðferðir til að díla við fýlu með öðru en mat. En svo er það hitt öllu alvarlegra sem hrjáir mig og það er að ég vil líka borða þegar ég er glöð. Og ég er miklu oftar glöð en ég er leið. Þegar ég hætti að reykja þá var það sígarettan eftir kvöldmat (best í heimi!) sem stóð aðeins í mér. Ég tókst á við þá löngun með því að rjúka beint í uppvask og tiltekt til að dreifa huganum. Það flokkast núna sem frekara eldhússtúss og hjálpar ekki. Mér finnst einhvern vegin orðið eins og að það sé alveg sjálfsagt að fá sér ekki að borða til að fæla burtu leiðindi. Það er viðurkennd meinsemd á meðal fitubolla að nota mat sem meðal og smyrls og eðlilegt að ég takist á við það sem einkenni á "ástandinu" á mér. Og mér finnst orðið minnsta mál að díla við löngun í mat þegar ég er leið eða döpur.  En ég á alveg eftir að fatta upp á hvað ég geri þegar mig langar í mat þegar ég er glöð. Á ég kannski bara að vera í fýlu það sem eftir er?

þriðjudagur, 15. febrúar 2011

Það byrjaði allt vel í morgun. Ég svaf vel og spratt upp eins og fjöður spennt og kát að takast á við brekkuhlaup. Þegar í rækt var komið hitaði ég upp og byrjaði svo að hlaupa. Fyrsta settið var ekkert mál, og svo var líka um sett númer tvö. Þegar ég var hálfnuð með númer 3 byrjaði mér að líða skringilega. Hausinn var eins og blaðra og ég heyrði illa. Þegar ég varð svo alveg dofin í handleggjunum, ég leit meira niður til að tjékka á að þeir væru ennþá fastar á mér, þá hætti mér að lítast á blikuna. Ég stoppaði og hné niður á gólfið þar sem ég þurfti að liggja í smástund til að ná aftur áttum. Og mín fyrsta hugsun var failure. Lúser. Þú hefðir átt að þrýsta þér í gegnum þetta, þetta var bara veggur, ekki bara gefast upp. Faiiiillll! Og ég fékk tár í augun. Vegna þess að þetta er akkúrat sá hugsunarháttur sem ég þarf að breyta. Afhverju er ég svona hörð við sjálfa mig? Ef þetta hefði verið hver sem er annar þá hefði ég sagt, step off the treadmill, líkaminn er að segja þér að stoppa núna. En við mig segi ég að ég sé aumingi, að ég ætti að reyna meira, gera meira. Ég jafnaði mig og fór aftur á brettið, reyndar bara á labb. Og hugsaði málið á meðan ég labbaði. Ef ég get lagað þennan hugsunarhátt, þar sem ég fókusa bara á allt það sem ég geri vitlaust og lendi í "work hard, setback, work harder, more setback, failure" hugsunarhættinum og byrjað að fókusa á það sem gengur vel þá verður þetta í lagi. En það er engin spurning um að ég get ekki haldið þessu úti ef ég ætla að refsa sjálfri mér og rífa sjálfa mig svona niður í hvert sinn sem eitthvað fer ekki eftir plani. Ég verð að læra að það að mistakast eða að fara út af plani er ekki vísbending um að það sé eitthvað að mér. Það gera allir mistök og það gengur ekki alltaf allt upp. Og það er svo sannarlega allt í lagi að hlusta á líkamann þegar hann biður um pásu. Það er allt í lagi að mistakast. Og ég ætla að hætta að refsa sjálfri mér svona. Ég á svo miklu, miklu betra skilið frá sjálfri mér.

mánudagur, 14. febrúar 2011

Eftir að hafa borðað haframúffurnar mínar í nokkurn tíma ákvað ég að til að eiga ekki á hættu að fá leiða á þeim að ég þyrfti að breyta til. Og ég byrjaði að borða hrágrautinn minn aftur. (Haframjöl sem liggur í möndlumjólk yfir nótt og borðaður kaldur) Ég hef vanalega gert hann sætann með því að strá í hann nokkrum rúsínum. En maður fær svo fáar rúsínur fyrir allt of mörg kolvetni (lesist rúsínur eru bara sykur) þannig að ég er búin að vera að prófa mig áfram með epli og banana. Bananarnir eins einfalt og hægt er, bara sneiða niður hálfan slíkan, raða á grautinn og hræra svo út um morguninn. Geggjað. Eplin flysja ég og kjarnhreinsa og búta svo niður. Set í pott með matskeið af vatni, teskeið af kanil og teskeið af sykurlausri sultu og sýð svo í sýrópsgums. Og set út á hafragrautinn, út á jógúrt, út á ostakökuna fínu... madre de dios, þvílík hamingja. Mér datt svo í hug um daginn að setja eplakrums út í múffu uppskriftina mína. Skipti út banana fyrir epla og bláberja barnamat og sleppti jógúrtinu. Og góða gommu af eplakrumsi. Sæt "tart" bragðið af eplunum að vegar  upp á móti jarðneska himnaríkisbragðinu af höfrunum og eplamúffurnar mínar eru fullkomnar. Þvílikt og annað eins. Ég bakaði líka um daginn sæta kartöflu með bútum af rauðlauk og papriku og stráði yfir ólífuolíu og sítrónupipar og ítölsku kryddi. Þetta var ljómandi gott svona miðjarðarhafsmedley með kjúklingabringu. En eitthvað hafði ég misreiknað mig og það var heilmikill afgangur. Í stíl við nýja fjárhagsóárann setti ég grænmetið því í skál og bætti aðeins við af olíu og liquid smoke dropunum minum og maukaði saman í mús til að nýta afganga. Geðveikislega gott og hægt að nota kalt með salati, eða smurt á ommilettu eins og ég gerði, eða með köldum laxi og salati, eða kjúlla. Ég hugsa meira að segja að þetta væri gott sem álegg á hrökkbrauð. Er svo kominn tími á að ég reyni að taka mér frí í eldhúsinu. Eða allavega þegar ég er búin að prófa gljáð butternut squash. Og þessa quinoa klatta sem ég sá um daginn. Og þessi egg fyllt með sætri kartöflu. Og eina uppskrift að sykurlausum hafrakökum...

sunnudagur, 13. febrúar 2011

Myndin sem fylgir er óskyld fréttinni.
Og hvað sem innri og ytri markmiðum líður þá gat ég ekki að því gert að að taka nokkur nett dansspor þar sem ég stóð kviknakin á vigtinni í gærmorgun. Ekki það að þetta skipti neinu máli í stóra samhenginu og ég veit að þetta eru bara tölustafir og jaddíjaddíjadda en ég komst inn í "onederland" í gær. Það er að segja að þegar vigtin sýnir töluna 90.7 kg þá hoppar hún líka úr 200 niður í 199.97 lbs. Sem þýðir að væri ég ammríkani þá myndi ég fagna af sama kappi og þegar Evrópubúi fer úr þriggja stafa tölu í tveggja. Ammríkanarnir sem ég les af kappi hafa kosið að nefna þennan áfanga að ná í onederland (wonderland) og ég get ekki annað gert en fagnað að hafa komist þangað inn. Ég er í undralandi.

fimmtudagur, 10. febrúar 2011

Það er svo auðvelt að festast í ytri markmiðum eins og "léttast um 20 kíló" eða "verða mjó". Ég sé og skil að það er ekki ekki leiðin að innihaldsríku lífi. Ég reyni og reyni þessvegna að setja sjálfri mér markmið sem hafa meira með að gera hvernig ég vil að mér líði. Ég vil vera frjáls í umgengni minni við mat og ég vil vera sterk og öflug og ég vil öðlast jafnvægi. Jafnvægi til að lifa heilbrigðum lífstíl en enda ekki í "megrun, mistök, meiri megrun, meiri mistök, gefast upp" ferlinu mínu. En það er meira en að segja það að breyta þessum hugsunarhætti. Þegar maður hefur nálgast viðfangsefnið frá þeirri hugsun frá upphafi að maður sé latur, feitur, ómögulegur, með engan viljastyrk, veikur.. hvað svo sem hverri fitubollu dettur í hug þá er er ekki einfalt að breyta þessari löngun í að sjá árangur núna! til að reyna að sanna fyrir sjálfum sér að maður sé ekki latur, feitur, ómögulegur og án viljastyrks. Allar misfellur á ferðalaginu túlkar maður sem skapgerðarbresti. Ég get til dæmis ekki hætt að hugsa að mig langar bara til að losna við þennan maga. Ég toga í spikið framan á mér og ég vil það í burt núna, burt núna! Mig langar ekki til að vera sátt og róleg og taka þessu sem ferðalagi fyrir lífstíð. Mig langar bara til að vera mjó. Núna. Að róa sig niður úr þessu ferli er ekkert smá mál og ég er á fullu að reyna að finna leiðir til að lifa í innri markmiða hugsunarhættinum. Ég veit að ég verð ekki mjó núna! og get þessvegna alveg eins hætt að hugsa um það. Það er bara svo erfitt. Ég efast stundum um að ég geti nokkurn tíman náð þessu jafnvægi, að fyrir mig verði jafnvægið alltaf þessi slagsmál við sjálfa mig. En andskotakornið ég ætla sko ekki að hætta að reyna.

miðvikudagur, 9. febrúar 2011

Nýja fjárhagsáætlunin mín er heldur nöturleg. Hún gerir ráð fyrir að ég borgi af húsbréfum, láni, vísakorti og rafmagni, vatni og gasi. Hún gerir hinsvegar ekki ráð fyrir mat, fötum, snyrtivörum, skemmtunum eða einkaþjálfara. Hún gerir hreinlega ekki ráð fyrir neinu sem er skemmtilegt í lífinu. Ég þarf þessvegna núna að endurskoða allan mat sem ég borða og finna út hvernig ég get búið til skemmtilegan og hollan mat úr vatni og baunadós.(Og þessum hálfa, skorpnaða lauk sem virðist alltaf enda í ísskápshurðinni hjá mér)  Ég þarf að finna út hvernig ég get verið smart og sæt í fötum sem verða allt of stór á mig eftir að hafa bara borðað vatn og baunir svo vikum skipti. Ég þarf að byrja að umfaðma náttúrulega fegurð mína þar sem að það er orðið heldur lítið eftir af maskaranum mínum. Ég þarf að draga fram Trivial spilið því við Dave þurfum að gera okkur eitthvað til skemmtunar. (Spurning hvað við munum mikið sem gerðist 1986) Og ég þarf að fara að undirbúa að standa aftur á eigin fótum þegar kemur að líkamsrækt og mataræði. Sem verður auðvitað ekkert mál; vatn og berfætt útihlaup því fjárhagsáætlun gerir ekki ráð fyrir rækt eða nýjum hlaupaskóm. Mín innri Pollýanna neitar meira að segja að taka þátt í þessu, ekki einu sinni hún getur fundið jákvæðu punktana. Nei, hún er ekki skemmtileg nýja fjárhagsáætlunin mín.

þriðjudagur, 8. febrúar 2011

Þegar mig dreif að ræktinni i morgun var þar allt í niðamyrkri og allt harðlokað og læst. Ég stóð fyrir utan í hlaupagallanum (sem by the way er ekki smart) og var ekki skemmt. Klukkan er rétt að draga í sjö, tveggja tíma roundtrip heim augljóslega ekki inni í myndinni ef ég ætlaði að mæta í vinnu fyrir níu og ekki gat ég bara tekið skokkhring í Chester því ég komst ekki í sturtu. Ég skundaði því í vinnuna, klæddi mig inni á klósetti og reyndi af veikum mætti að draga úr hárflókanum. Sem betur fer var teymistjórinn komin í vinnu og hún var dauðfegin að sjá mig, það var nóg af verkefnum til að sýsla við. Og þar sem ég sat við útreikninga á vöxtum fattaði ég að ég var ekki pirruð út af því að hafa misst af því að sofa lengur, sem ég hefði gert ef ég hefði vitað að ræktin væri lokuð, og ég var ekki pirruð út af því að hafa þurft að vera ósturtuð í vinnunni eða vegna óþarflega langs vinnudags. Ég var pirruð vegna þess að ég missti af brekkuhlaupi. Ég iðaði inni í mér að komast á brettið til að sjá hvort ég gæti hlaupið aðeins lengur á 8, 9 og 10 gráðu hallanum. Og þegar ég fattaði þetta var ég ægilega glöð. Og svo fölnaði það aðeins þegar ég fékk tilkynningu að ræktin yrði opin í hádeginu. Og ég fór upp brekkurnar mínar.

sunnudagur, 6. febrúar 2011

Gef oss í dag vort daglegt brauð.
Það er nú ekkert leyndarmál að mér finnst afskaplega gaman að stússast í eldhúsinu. Og það er alveg sérlega skemmtilegt á sunnudögum. Ekki bara af því að á sunnudögum er notast aðeins meira við smjér og gúrmeti sem aðra daga er ekki boðstólum, heldur miklu meira vegna þess að á sunnudögum hef ég tíma til að setja ást og alúð í matinn minn. Ég held meira að segja að ef við ættum fullt af peningum þá væri ég til í að vera bara heimavinnandi húsmóðir svo ég hefði tíma í þetta alla daga. Svo lengi sem ég þyrfti ekki að sjá um börn og þvott, bara matinn. Hin ástæðan fyrir gleðinni á sunnudögum er svo fegurðin. Það fær fátt hjartað mitt til að slá hraðar en fallegur pottur, hvít munnþurrka, litríkur matur. Ég eignaðist um síðustu helgi þennan líka forláta "oven to table" pott. Og fannst við hæfi að prófa að nota hann í dag. Krumsaði saman ítölskum lamba-rauðvínspottrétti og að sjálfsögðu nýjasta æðið mitt hasselback kartöflur með steinselju. Og svo piéce de resistance; rustic artisan brauð. Ég get auðveldlega bakað brauð og kann margar uppskriftir að góðu brauði. Hef að sjálfsögðu undanfarna mánuði verið heilmikið að prófa allskonar holl hveiti og gerlaust og spírað og þar fram eftir götunum. Brauð er einn af minum veikleikum, ég get borðað endalaust af því (og ég er ekki að ýkja hér, í alvörunni E N D A L A U S T) og þar sem ég fæ ekki fullnægju mína af því þegar ég er að vera skynsöm þá hentar mér miklu betur að sleppa því bara. Nota frekar kolvetnin mín í það sem ég fæ meira bang for my buck eins og kús kús, grjón, quinoah og þess háttar. En það forðar því ekki að mér finnst líka voðalega gaman að baka brauð. Ég er slump og tilfinningakokkur. Brauðbakstur, öfugt við kökubakstur sem krefst nákvæmnis vinnulags og vísinda, er meira slump og tilfinning. Enda er ég líka búin að komast að því að kökur eru það allra versta fyrir mig. Kökur gera mig geðveika en það er annar pistill. Brauðið sem ég bjó til í dag til að þurrka upp rauðvínssósuna af disknum sló öllu öðru brauði út og ég sé ekki frekari ástæðu til að leita að uppskriftum eða borða annað "inferior" brauð. Uppskriftin er eins einföld og hægt er. Ger, vatn, hveiti og salt. Það er allt og sumt. Og með hnoðkróknum á vélinni minni var þetta sára lítil vinna. Og svo gott. Svo, svo gott. Og fallegt. Hefur nokkurn tíman sést jafn fallegt brauð? Og er lífið bara ekki svo miklu betra þegar maturinn manns er svona fallegur?

laugardagur, 5. febrúar 2011


Getur þessi klipping falið 130 kíló?
Skór og veski eru bestu vinir feitu konunnar. Eða svo fannst mér allavega alltaf vera. Það mátti vera sem svo að ég fyndi aldrei fallega flík til að spóka mig í en skó og veski má alltaf finna í sinni stærð. Klipping fylgdi svo fast þar á eftir. En sársaukablandin þó. Ég gekk milljón sinnum í gegnum sama ferlið. Ómöguleg öll útlits en datt svo í hug að kannski ef ég færi í klippingu, ef ég fengi réttu klippinguna þá væri í lagi með mig. Fann svo mynd af einhverju sem mér fannst fínt og bað um svoleiðis. Vonin um að einhverjir töfrar myndu láta klippinguna lagfæra allt hitt var svo sterk. En undantekningalaust var þetta vonlaus æfing. Það er eitthvað við lýsinguna á hárgreiðslustofum sem gera andlitið á mér eins og tungl í fyllingu. Það er allt of mikið af speglum sem sýna allt. Sláin sem maður er settur í er svo stór að hlussur verða enn meiri hlussur. Og þrátt fyrir velvilja hárgreiðsludömunnar er það borin von að klipping breyti mér í Jennifer Aniston. Og niðurbrotin kom ég út í hvert sinn og lét ár líða á milli klippinga. Þegar sama sagan hófst upp á nýtt. 
 
Bara hár, ekkert kraftaverk.
 Núna eru rúmir 18 mánuðir síðan ég fór síðast og þá bara til að láta Helgu snikka endana. Engar æfingar í gangi. Og hárið bara fengið að vaxa í fax síðan. En svo kemur að ég bara varð að fara að láta laga endana. Og ég dreif mig í morgun. Þetta var alveg ný lífsreynsla fyrir mig. Ég var ekki með neitt spes í huga, bara að láta laga endana og klippa þannig að örsnöggur blástur á morgnana eftir rækt sé allt sem þarf til að líta sómasamlega út. Kannski að það hafi verið munurinn, ég var ekki að vonast eftir kraftaverki, mig langaði bara til að líta út eins og ég. Ég settist í stólinn og andlitið var bara eðlilegt að stærð. Sláin lagðist bara að mér og ég sá ekki fjallið sem sat þar fyrir tveimur árum síðan. Og svo klippti stelpan mig, krullaði lokkana og ég þakkaði bara fyrir mig. Ekkert drama, engin vonbrigði, bara gleði. Ég fór bara í klippingu og naut þess.

föstudagur, 4. febrúar 2011

New York Vanillu "ostakaka"
Fátt veit ég betra í heimi hér en eftirrétti. Ef ég mætti ráða þá myndi ég fá mér eftirrétt í forrétt og aðalrétt líka. Þannig að ég er voða glöð að planið hennar Röggu gerir ráð fyrir kvöldsnarli. Og ég get haft það sem eftirrétt. En þar sem kolvetni eru úr myndinni þarf aðeins að hugsa þetta út. Kotasælubrjálæðið sem ég sá á blogginu hennar Röggu var upphafið að þessu öllu saman. Kotasæla blönduð saman við sykurlaust sýróp, kanil og ristaðar möndlur og hamingjan er allsráðandi. En það er með það sem og annað, eftir dágóðan tíma fær maður smá leið og þarf á tilbreytingu að halda. Með það í huga lagðist ég í smá rannsókn og fann uppskrift að kolvetna, sykur og fitulausri ostaköku sem hefur kotasælu að uppistöðu. Uppskriftin var á síðu sem er skrifuð með Dukan-Kúrinn í huga. Með smá tilfæringum til að aðlaga að mínu plani kom svo þessi í kvöld. 300 g virtually fat free kotasæla, 200 g fitulaus smurostur, 1 eggjarauða og 1 1/2 tsk gæða vanilludropar. Ég setti svo hálfan bolla af gerfisykri út í líka. Ég er ekki hrifin af svoleiðis en svona smá einu sinni er kannski í lagi. Alla vega þangað til ég er búin að prófa mig áfram með annað sætuefni. Allt þeytt saman þar til það er silkimjúkt og kögglalaust. 3 eggjahvítur stífþeyttar og svo eru 2 mtsk kartöflumjöl blandað út í hvíturnar og því svo blandað varlega saman við ostablönduna. Þessu er svo hellt í mót og bakað við 160 gráður í 40 mínútur. Kæla svo alveg niður í ísskáp. Ég ristaði svo pekan hnetur og stráði yfir ásamt hnetusmjörsbitum og teskeið af sykurlausu sýrópi. Ekki slæmt með kaffibolla. Það má ekki halda að þetta sé eins og ostakaka, það er náttúrulega enginn botn og áferðin er önnur út af kotasælunni en ef maður dæmir hana bara á eigin forsendum er ekki hægt að amast mikið við henni.

fimmtudagur, 3. febrúar 2011

Láki tók á móti mér þegar ég kom heim í kvöld með miklum fagnaðarlátum. Hann hoppaði upp og niður og veifaði bréfi í andlitið á mér. "You´ve got to do it mamma! you got to run!" Hann hafði séð póstinn og að Cancer Research UK hafði sent mér bréf til að minna mig á að Race for Life færi aftur fram núna 22. maí. Og hann mundi eftir hlaupinu frá í fyrra og var svona æstur í að ég tæki aftur þátt. "You can get another medal mamma" minnti hann mig á til að fá mig til að samþykkja að vera með. En það þarf ekkert að tæla mig neitt í þetta, ég er meira en til í að vera með aftur. Þetta var alveg geggjað síðast og þvílík tímamót og merkisviðburður fyrir mig. Og það er náttúrulega bara gaman fyrir mig að geta keppt við sjálfa mig til að ná í mark á betri tíma en síðast. Rúmar 33 mínútur ef ég man rétt. Og nú þegar ég er farin að hlaupa upp brekkur (run to the hill!) ætti ég að taka 5 km á jafnsléttu í aðra nösina! Þa´ eld é nú!