miðvikudagur, 9. febrúar 2011
Nýja fjárhagsáætlunin mín er heldur nöturleg. Hún gerir ráð fyrir að ég borgi af húsbréfum, láni, vísakorti og rafmagni, vatni og gasi. Hún gerir hinsvegar ekki ráð fyrir mat, fötum, snyrtivörum, skemmtunum eða einkaþjálfara. Hún gerir hreinlega ekki ráð fyrir neinu sem er skemmtilegt í lífinu. Ég þarf þessvegna núna að endurskoða allan mat sem ég borða og finna út hvernig ég get búið til skemmtilegan og hollan mat úr vatni og baunadós.(Og þessum hálfa, skorpnaða lauk sem virðist alltaf enda í ísskápshurðinni hjá mér) Ég þarf að finna út hvernig ég get verið smart og sæt í fötum sem verða allt of stór á mig eftir að hafa bara borðað vatn og baunir svo vikum skipti. Ég þarf að byrja að umfaðma náttúrulega fegurð mína þar sem að það er orðið heldur lítið eftir af maskaranum mínum. Ég þarf að draga fram Trivial spilið því við Dave þurfum að gera okkur eitthvað til skemmtunar. (Spurning hvað við munum mikið sem gerðist 1986) Og ég þarf að fara að undirbúa að standa aftur á eigin fótum þegar kemur að líkamsrækt og mataræði. Sem verður auðvitað ekkert mál; vatn og berfætt útihlaup því fjárhagsáætlun gerir ekki ráð fyrir rækt eða nýjum hlaupaskóm. Mín innri Pollýanna neitar meira að segja að taka þátt í þessu, ekki einu sinni hún getur fundið jákvæðu punktana. Nei, hún er ekki skemmtileg nýja fjárhagsáætlunin mín.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli