sunnudagur, 12. mars 2017

Plan, plan, plan.

Ég er að hugsa um að hætta með Paddy. Hrokinn sem í upphafi lét mig hafa efasemdir um hversu vel við myndum vinna saman virðist hafa verið á rökum reistur. Paddy er einfaldlega of ungur, of óreyndur til að geta dílað við svona kellingu eins og mig. Og ég er bara ekki að fá það út úr sambandinu sem ég óskaði eftir. Eiginlega alveg öfugt.

Nú er ég alveg með á hreinu hvert mitt hlutverk í sambandinu er, það er ekki eins og ég sé haldin einhverjum villigrillum um að það eitt að borga einkaþjálfara þýði að ég þurfi ekki að gera neitt og að ég vakni bara mjó að morgni til. Ég veit að ég þarf að mæta í ræktina, gefa 100% í hverja æfingu og standa algerlega skil á minu af hreinskilni og natni. Það sem ég ætlaðist síðan af honum fyrir peninginn sem ég borga honum var gott æfingaprógramm sem héldi mér við efnið og tæki mið af brjósklosinu en aðallega var ég að sækjast eftir "accountability". Frá honum til mín það er að segja. Ég ætlaðist til að hann myndi krefjast ábyrgðar frá mér á athöfnum og ákvörðunum mínum. Að hann myndi fá mig til að verða aftur kappsöm. Að hann myndi hjálpa mér til að finna markmiðið með þessu.

Þess í stað hefur hann mætt illa, og þegar við vinnum saman er það ég sem þrýsti á að vinna meira, þyngra, hraðar. Hann er eins og smávegis hræddur við mig. Hann frestaði svo alveg síðustu tveimur tímum sem þýðir að ég er ekki búin að mæta núna í tvær vikur. Eins og áhugaleysi hans hafi smitast yfir í mig og ég sé lítinn tilgang í að mæta sjálf.

Ég er ósköp leið yfir þessu. Mig langaði svo að fá smá innspýtingu, eitthvað sem myndi koma mér í gang aftur og upp úr þessu "sjá allt sem ég hafði áður en hef glutrað úr greipum mér" hugsanahætti, en það virðist sem ég sé aftur komin aftan fyrir byrjunarreit.

Mig vantar bara svo eitthvað konkret að vinna að. Áfangastað og endapunkt sem ég get svo endurskoðað þegar þangað er komið. Ég borgaði fyrir 3 mánuði með Paddy þannig að ég ætla að klára það dæmi og á meðan það rennur sitt skeið ætla ég að hugsa mitt mál. Nú er komið vor og tilvalið að fara að huga t.d. að lengri hjólatúrum og lengri göngutúrum. Það hlýtur að vera markmið að setja. Hvað með að geta hjólað frá Wrexham til Liverpool? Ég get auðveldlega hjólað til Chester og mér skilst að þaðan sé hjólastígur alla leið til Mersey. Setja mér að gera það einhvern ákveðinn dag. Í Júní kannski? Það er ágætis hugmynd. Svo er ég líka búin að kaupa flugmiða heim í Ágúst. Kannski að ég geti sett sem markmið að geta labbað upp eitthvert fjallið á Íslandi?

Sko! Þetta var nú ekki svo erfitt svona þegar ég set smá hugsun í það. Og svona kemur byrjun á plani. Og það vita allir að planlaus kona er glórulaus kona. Nú er það bara að setja endapunkt á binge-ið sem ég er búin að leyfa mér að undanförnu og byrja að hugsa vel um sjálfa mig. Hálfnað verk þá hafið er og allt það.