sunnudagur, 29. ágúst 2010

Lúkas nýtur morgunverðarins.
Ein að fríka út!
Dagurinn hófst á alveg dásamlegan máta þar sem Jones fjölskyldan safnaðist saman við morgunverðarborðið til að gæða sér á nýsteiktum ammrískum pönnukökum með ýmsu meðlæti. Þar bar hæst súkkulaði-og bláberjasósa frá Blue Sauce. Blue Sauce er framleidd hér í nágrenninu og er eitt dæmi um hvað er hægt að gera þegar maður neyðist til að finna sér eitthvað til að lifa af. En það er önnur saga. Ég setti líka á borðið fersk bláber og banana, hnetusmjör, hlynsíróp, sultur og annað fleira gott. Við fáum voða sjaldan tækifæri til að setjast svona og njóta stundar saman út af löngum vinnudegi okkar hjóna og þessvegna finnst mér lífsnauðsyn að gera smávegis úr sunnudagsmorgunmatnum. Veðrið úti var ekkert sérlega spennandi og þessvegna ákváðum við að í dag myndum við ekki fara í neina langa göngutúra en frekar að skoða eitthvað nýtt sem væri mestmegin innandyra. Það er rosalega margt að sjá og gera hér í kringum okkur og maður þarf að hafa sig allan við til að fylgjast með öllu. Í dag er hinsvegar aftur komin "matardagur". Ég hafði heyrt um Hawarden Estate Farm svona út undan mér fyrir nokkru og lengi langað að kíkja. Þar eru þeir með Farmer´s market og lítinn veitingastað ásamt að vera með útibú frá Pedlars sem er uppáhaldsbúðin min í öllum geiminum. Hawarden er lítið þorp aðeins fyrir utan Chester. Það er engu að síður í Flintshire og þar með innan Wales. Við erum rétt um 25 mínútur að keyra þangað, mest megnis eftir litlum sveitavegum, þar sem maður getur séð náttúruna alveg óspillta. Þegar við komum að búðinni vissi ég að ég væri að fara í gósenland. Byggð úr endurunnu efni og allt öðru vísi byggingarstíll en allt sem ég hef séð hér í Bretlandi. Og það stóð heima. Þegar inn var komið varð ég að draga djúpt inn andann til að róa mig niður.

Olíu"bar"
Ég hefði getað eytt hundruðum punda þarna inni. Hægt að tína sitt eigið grænmeti, hænurnar röltu um bílastæðið, skemmtilegir fítusar eins og olíubarinn þar sem maður fyllir sjálfur á olíuflösku, allskonar brauð og ostar í tonnavís. Ég lét mér nægja hvítlauksblandað heilkorna sinnep, porcini sultu, chili sultu, smá grænmeti, kaffiís, velskan brie og það sem ég er spenntust fyrir; sjávarsalti frá Cornwall. Alveg náttúrulegt og óunnið salt og þegar maður er kominn með svona háþróaða og fíngerða bragðlauka (sem eru að jafna sig eftir áralanga misnotkun) þá verður allt í einu spennandi að finna mismunandi bragð og áferð af einhverju jafn einföldu og salti. Ef ég mætti velja mér atvinnu akkúrat núna þá myndi það vera að eiga svona delicatessen sem selur bara svona djúsí óþarfa. Ég held að það sé bara ekkert sem gerir lífið skemmtilegra en fallegur og góður matur. Þetta er svo sannarlega búinn að vera dagur sem fullnægjir matardónanum í mér. Hann er aldeilis sáttur og kátur núna.

laugardagur, 28. ágúst 2010

Mægðin á leið í bæjaferð.
Ég keypti mér hjá henni Auði minni þennan dýrindis jakka nú þegar ég var á Íslandi. Jakkinn er klárlega uppáhaldsflík, það er alveg sama í hvað ég fer undir hann, hann gerir afganginn af átfittinu flott. Og ég virka alveg þvengmjó í honum. Hann er eins lítill og hann má vera á mér án þess að vera of lítill og ég hugsa að ég eigi dágóðan tíma eftir í honum ennþá áður en ég verð of hoj og slank. Mér datt samt í hug um daginn þegar ég var að dást að jakkanum að ég á fullt af fötum sem voru uppáhaldsflíkur sem nú eru of stór. Fíni Donna Karan jakkinn minn, leðurjakki úr New Look, buxur sem mér leið alltaf eins og milljón dollurum í þó þær væru í stærð 24, svarti kjóllinn sem ég var í
á síðasta Þollaradegi. Það er bara svo skrýtið hvað sjónarhornið breytist hjá manni. Og það er svo skrýtið að segja frá því en ég sakna þessara plagga stundum. Ég sakna þeirra reyndar ekki jafn mikið og mér finnst gaman að kaupa nýtt. Og vonandi get ég líka lagt þessum jakka fyrr en síðar. En ég ætla sko að gera mér aðra ferð til Auðar að kaupa hann þá í næstu stærð fyrir neðan. Klárlega uppáhaldsflík.

miðvikudagur, 25. ágúst 2010

(Nota bene, þetta er ekki ég á myndinni!)
Það er búið að vera ægilegt puð á mér að undanförnu, ég er búin að vera að mæta í ræktina allt í lagi með það, en það er bara ekki búið að vera gaman þar í dálítinn tíma. Þó að það væri aldrei spurning um að hætta að mæta, það kom ekki inn í jöfununa, en engu að síður þá vantaði allt stuð í mig. Ég ákvað því að það væri aftur kominn tími til að hrista upp í þessu öllu og fann þetta sex mánaða prógramm eftir langar rannsóknir sem ég byrjaði svo á í morgun. Ég bjóst við að bara það eitt að byrja á nýju setti væri nóg til að koma mér aftur í stuð þannig að ég var mjög hissa þegar ég vaknaði í morgun og var bara alls ekki í stuði. Ég skrönglaðist í tríkótí gallann og niður í tannburstun. Fann til hrágrautinn minn og hádegismatinn með hangandi hendi og puðaðist svo í lestina. Geispaði og gapaði og hugsaði með mér hvað þetta væri allt tilgangslaust. En ákvað svo í lestinni að fyrst ég væri ekki spennt og hress og í stuði í alvörunni þá myndi ég bara þykjast vera það. Ég laug að sjálfri mér að ég væri svona líka hress. Og svaraði svo þegar ég var spurð "how are you today?" "Fanbloodytastic". Byrjaði svo að hita upp og eftir mínútu eða svo var ég hætt að ljúga og komin í svona líka fínan gír. Svínvirkaði. Eftir upphitun tók ég tvö sett af hnébeygjum, 15 reps með 20 kílóa stöng og svo 15 reps með 10 kg viðbót. Tvö sett af armbeygjum á móti tveimur settum af sitjandi róðri með 40 kg lóð. Svo  tvö sett af step up með 10 kg lóðum á móti "prone jack knife". Þar setur maður hendur á gólf og sköflunga á bolta og rúllar svo hnjám að maga. Þetta var frábært og ég púlaði heilmikið, en hefði sjálfsagt getað tekið aðeins betur á því, ég gleymi því hvað ég er sterk og geri þessi reginmistök sem konur eiga mikið til að gera í ræktinni og tek ósjálfrátt upp Barbie lóðin. Ég hlakka nú til á föstudaginn þegar næsta æfing er plönuð og ég get bætt í þyngdir. Eftir þetta gat ég svo farið í vinnu blístrandi af alvöru kátínu. Haldiði að það sé munur?

mánudagur, 23. ágúst 2010

Lúkas byrjar aftur í skólanum í næstu viku og þar sem hann er að fara í "Year 2" þá er tími kominn á nýjan skólabúning. Við erum að sjálfsögðu að passa upp á hvert penný og keyptum þessvegna ekki búninginn beint af skólanum í ár heldur fórum á laugardaginn í stórmarkað hér í Wrexham sem selur búninginn meira en helmingi ódýrari. Eftir smá stúss í bænum settumst við á kaffihús og slökuðum aðeins á. Sumarið hafði ákveðið að sýna sig aftur í nokkra tíma og það var voðalega næs að sitja í sólinni og horfa á Wrexham-búa trítla hjá. Þar á meðal ung stúlka með barn í kerru. Sem er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi. Nema að þar sem þau labba framhjá okkur segir barnið hátt og skýrt; "Mamma, mig langar í tyggjó!" Lúkas leit á pabba sinn og sagði honum að "these people are Iceland people." Dave fannst það ólíklegt og sagði að hér færu Pólverjar. En nei, ég var alveg viss um að þetta hafi verið íslenska og hljóp því á eftir stúlkunni og spurði. Og jú, hér er loksins komin Íslendingur til náms í Glyndwr háskóla í Wrexham. Við snarlega buðum þeim í sunnudagslærið hingað til Rhos. Og áttum góðan dag saman. Ég get vonandi aðstoðað hana við að koma sér vel fyrir hérna svo að hún verði sem lengst. Og mér datt í hug að það væri kannski bara vitleysa að vera að gæla við að flytja heim, það er svo miklu auðveldara fyrir mig að sem flestir flytji bara hingað. Þetta er frábær staður að búa á og verður alltaf betri.

Akkúrat núna sit ég uppi í svefnherbergi á meðan Safestyle UK setur upp hjá mér nýjar útidyrahurðir. Ég fékk frí í vinnu til að sjá um að þetta fari allt vel fram og ég hlakka voða til að sjá hvíta hurð inni í stofu í stað brúna plankans sem er þar núna. Ég hugsa að þetta geri stofuna léttari og ljósari yfirlitum. Svo þarf ég að fara að huga að ritgerðarsmíð frekar en bloggskriftum. Reyndar skemmtilegt efni sem ég er með í huga og ef hún kemur vel út þá hugsa ég að ég noti hana sem grunnhugmyndina fyrir masters-ritgerðina. Engu að síður. Þá langar mig ekki til að nota svona óvæntan frídag í lærdóm. Ég þarf svo líka að mæla mig alla og skrá niður. Héðan í frá ætla ég ekki að skrá kíló í mínus en setja frekar niður kíló í plús. Það er að segja kíló í plús sem ég get lyft. Og sentimetra sem hverfa. Matarplanið nýja er einfalt, ég er reyndar að reyna að sætta heilann í mér sem er skilyrtur til að skilja bara kalóríusvelti hvað ég má í alvörunni borða mikinn mat. Maður hefði haldið að maður yrði himinlifandi yfir fréttunum en neibb, ég er svo skemmd af áratuga áróðri um að skrapa af sér kalóríur að ég get ekki hætt að vera nett stressuð yfir að auka inntöku þeirra. Æfingarplanið er mikið og ég þarf að koma mér upp excel skjali til að halda skrá yfir hvað æfingu ég er að gera og hvað ég bæti í þyngdina en það er nú bara spennandi verkefni. Já, nú er sko gaman að vera til.

laugardagur, 21. ágúst 2010

Það er sena í Toystory 3 þar sem leikföngin hafa lent í ofni sem brennir rusl og þrátt fyrir tilraunir þeirra til að krafla sig út úr ógöngunum færast þau hægt og sígandi nær eldinum. Að lokum líta þau hvert á annað, takast í hendur, kreista aftur augun og bíða þess óhjákvæmilega. Þau sætta sig við örlög sín. Þau munu brenna og það er ekkert frekar sem þau geta gert. Ég var ósköp fegin því að vera með 3D gleraugu á mér í bíóinu þegar ég horfði á myndina því tárin runnu niður kinnarnar í stríðum, svörtum, maskarablönduðum straumum. Ég man nefnilega eftir svona mómenti í lífi mínu þar sem ég sætti mig bara við örlög mín og hætti að berjast. Ég var, hafði alltaf verið og yrði alltaf offitusjúklingur. Það var einfaldlega ekkert frekar sem ég gæti gert til að breyta mér og hvernig líf mitt yrði. Ég var ekki sátt við þessa ákvörðun mína en ég hélt að ég hefði reynt allt, kannað alla möguleika og allar útgönguleiðir til þrautar og að ég væri bjargarlaus. Af einhverjum ástæðum eitt kvöldið sló ég samt inn leitarorðinu "binge eating support" á google og var agndofa yfir magninu af upplýsingum sem ég fann. Mest fannst mér um að finna allt þetta fólk út um allan heim sem bloggaði um lífið á mismunandi stigum "nýs lífstíls". Sumir voru búin að léttast um yfir hundrað kíló allt bara með einfaldri aðferð; borða minna, hreyfa sig meira. Ég ákvað að prófa. Ég væri jafndauð fyrir. Það breytti öllu að fatta að ég var ekkert spes, allt þetta sem ég skammaðist mín svo fyrir, allt þetta sem ég hélt að ég væri ein að berjast við, var bara algilt hjá öllum hinum fitubollunum. Og 30 kílóum seinna er ég enn að klóra í bakkann. Mitt aðalstuðningstæki er ennþá internetið. Ég "rannsaka" fyrst allt sem ég geri. Og núna er ég búin að rannsaka þetta næsta stig mitt í lífstílnum. Ég er búin að finna mér lyftinga prógramm sem ég ætla að fylgja næstu sex mánuðina. Allt svona no nonsense og engin loforð um flatan maga á einni viku. Ég geri hinsvegar ráð fyrir að brenna fitu og stækka vöðva sem er það sem ég vil gera. Og ég hlakka svo til að byrja. Ég geri líka ráð fyrir að þessi fasi gangi eins og hefur hingað til hjá mér. Stundum gengur vel, stundum gengur illa en það sem er alveg óbreytanlegt er að ég ætla aldrei að kreista aftur augum og bíða þess óhjákvæmilega. Ég, eins og Woody, Buzz og félagar, á mér alltaf von.

mánudagur, 16. ágúst 2010


Það gekk ekki upp að komast í ræktina í síðustu viku. Þar sem ég hafði ekki fengið borgað fyrir að vera í fríi átti ég lítilla kosta annarra en að taka að mér eins mikla yfirvinnu og ég mögulegast komst í. Þegar leið á vikuna og ég enn ekki farin í rækt fór ég að verða smávegis stressuð. Hvað ef ég nota þetta frí sem afsökun til að byrja bara ekki aftur? Annað eins hefur nú gerst og nánast þriggja vikna frávera væri vanalega fullkomið tækifæri til að láta alltaf lengri og lengri tíma líða hjá og svo allt í einu er komið ár síðan maður síðast hreyfði sig. Svoleiðis gerist það. Mataræðið er búið að vera alveg á hreinu síðan fríinu lauk og kílóin þrjú sem ég bætti á mig nánast öll farin aftur. Engar áhyggjur þar. Það var því mikill léttir að vakna í morgun, hendast í trimmgallann og skjótast í ræktina. Það var líka mikill léttir þegar ég fann að mig langaði til að fara. Og þar sem ég hamaðist á brettinu laust niður í mig sú hugsun að ég er bara fín eins og ég er. Ég sá sjálfa mig fyrir mér í fötunum sem ég hafði planað fyrir daginn og hugsaði með mér að ég er bara fín. Ég þarf ekki að léttast meira. Ég þarf ekki að svitna til að mjókka. Ég get keypt mér falleg föt og mér líður vel með sjálfa mig. Allt það sem áður angraði mig, að geta ekki gert hitt og þetta fyrir spiki er bara ekki þannig lengur. Og ég sagði við sjálfa mig að það er orðið alveg ljóst að ég er ekki að þessu lengur til að léttast um kíló. Ef ég léttist ekki meir þá er það bara allt í lagi. Svo lengi sem ég get hlaupið hraðar, lyft þyngra og farið í dýpri jógapósu. En til að ná framförum og árangri í ræktinni þarf ég að leggja mig meira fram þar. Ég þarf að koma af stað æfingaprógrammi sem miðast að því að geta lyft þyngra og þyngra. Mér er mikill léttir að fatta þetta, það er miklu fargi af mér létt að þurfa ekki að halda áfram að puða við að friðþægja baðvogina. Hún er harður húsbóndi. Og ég er alveg viss um að það er miklu meira gefandi að skrá niður framfarir í fittness. Mig vantar bara prógrammið. Nú þarf ég að leggjast í rannsóknir.
Ps. er ég ekki bara fín ;)?

laugardagur, 14. ágúst 2010

Lífstíllinn þróast og breytist eftir því sem tíminn líður. Þegar ég fyrst byrjaði að spekúlera í þessu lét ég mér nægja að telja kalóríur. 15-1800 á dag og skipti litlu máli hvernig þær voru samsettar. Allt sem var "low-calorie" var gott því þá fékk ég meira magn fyrir minni kalóríur. Svo fór ég að spá aðeins í samsetningu kalóríanna og þá fór allt "diet" og "light" drasl í ruslið því þegar maður fer að skoða t.d. sykurmagn í afurðum sem eru fitusnauðar og aukaefnin í fitulausu og þar frameftir götunum fyllist maður hálfgerðum viðbjóði. Ég fór því að velta meira fyrir mér næringarinnihaldi frekar en hitaeiningum. Hvað fæ ég mikla næringu og hversu lengi heldur maturinn mér ósvangri frekar en hvað má ég borða mikið af honum. Þar kom hafragrauturinn minn yndisgóði inn í spilið. Svo kom samsetning næringarefna, hversu mikið á maður að fá af próteini, kolvetnum og fitu? Hitaeiningar, kom í ljós, eru nefnilega ekki skapaðar jafnar. Svo varð mikilvægt að afurðirnar væru lífrænar og óunnar sem mest og því grófara því betra. Í dag smakkaði ég svo loksins hinn heilaga graleik. Ég er búin að vera að lesa mikið um brauð búið til úr spíruðu korni en fann hvergi hér í kringum mig. Og ef satt skal segja þá hafði ég ekki áhuga á að spíra korn sjálf. Þangað til í gær þá sá ég að það leyndist einn hleifur falinn í Holland og Barrett. Spírað brauð er búið til úr spíruðu korni eða sojabaunum og er ekki bakað úr hefðbundnu hveiti. Sjálf kaupi ég ekki hypið í kringum að brauðið sé gert samkvæmt uppskrift úr biflíunni, Ezekíel 4:9. Eftir því sem ég kemst næst þá inniheldur sú uppskrift mannaskít sem mér þykir óskemmtilegur í brauð hvort sem það er lífrænn kúkur eður ei. Það þarf ekkert að selja mér þá hugmynd að eitthvað sé hollt bara vegna þess að það er 2000 ára gamalt. Ég kaupi bara inn í hugmyndina að ég fái meiri trefjar, meira prótein, meiri vítamín, auðmeltari mat. Brauðið sem ég keypti hefur mjög suttan innihaldslista: Sprouted wheat. Það er allt og sumt, ekkert hveiti, enginn sykur, ekkert ger, engin olía, engin egg, ekkert. Bara spírað korn. Með mun hærra hlutfall af trefjum og próteini ásamt vítamínum er enginn vafi að það er betra að fá sér sneið af því en aumingjabrauði. Það er auðmeltara og heldur blóðsykri jöfnum. What´s not to love? Ég var því líka dauðfegin þegar í ljós kom að það er líka ljúffengt. Ég fékk mér í morgunmat eina sneið með osti og eina sneið með hnetusmjöri og St.Dalfour sultu. Massíft og dálítið rakt og nánast sætt á bragðið, sneiðin með ostinum var góð en þegar bætt var við grófu hnetusmjöri og sultu var ég að borða manna. (Af himnum, ekki hinsegin) Nú hlakka ég bara til að prófa með húmmús á morgun.

miðvikudagur, 11. ágúst 2010

Enn spila ævintýri í grænu út með trompi. Lárperur, eða avocado, er eitthvað sem ég hef keypt nokkrum sinnum en alltaf látið malla í ávaxtaskálinni þangað til það var orðið seif að henda þeim bara. Mig óaði eitthvað við áferðinni, litnum og framandleikanum. Af einhverjum ástæðum ákvað ég að nú væri komið að því að prófa sem þátt í grænum ævintýrum enda margsannað að þrátt fyrir að vera nokkuð hitaeiningaríkt er það meinhollt. Það er nánast 20 sinnum meiri fita í lárperum en í öðrum ávöxtum en þetta er að sjálfsögðu meinholl fita sem hjálpar við að halda frá hungri og hjálpar til við brennslu. Að öðru leyti má nefna að lárperur hjálpa til við andremmu, lækka blóðþrýsting og kólesteról og geta hjálpað til við að róa magasár ásamt ýmsu öðru svona fíneríi. Ég fann svaka fína uppskrift að einföldu kjúklingasalati með lárperu bitum. En þegar ég skar það í tvennt kom í ljós að það var orðið vel þroskað og mér fannst það vera of mjúkt til að hafa í bitum í salati. Ég smakkaði og mér fannst meira til um áferðina en bragðið. Þetta færi ekki í salat hjá mér, ég þarf að hafa salat "crunchy". Hvað var þá að gera við gripinn? Annarshugar skrapaði ég kjötið úr berkinum og setti í skál. Ýtti svo í það með gaffli, ýtti því til og sneri aðeins. Klóraði mér í hausnum og velti þessu fyrir mér. Og skyndilega var í skálinni grænt mauk. Og þá kom það. Út í maukið fór ein túnfiskdós, hakkaður laukur og smá chili pipar ásamt pipar og smokey paprika. Þetta maukaði ég svo alveg með magimixer. Harðsoðið egg og skeið af chilisultu. Besta túnfisksalat sem ég hef nokkurn tíman smakkað. Og alveg laust við majónes en alveg jafn djúsí. Sletta á þýska brauðið mitt og hamingjan er alger. Ég vissi að lárperur væru notaðar sem uppistaða í svona ífdýfum, þær eru jú aðalmálið í guacamole, en að það væri hægt að skipta út majónesunni, það vissi ég ekki. Alltaf lærir maður eitthvað nýtt.

þriðjudagur, 10. ágúst 2010

Ég man ekki annað en að ég hafi alltaf borðað í laumi. Þ.e.a.s ég faldi það sem ég borðaði, laug til um það, kom sönnunargögnum fyrir kattarnef (nema auðvitað spikinu utan á mér- það sjá allir) plottaði og planaði næsta skammt sem ég gæti borðað ein og án þess að neinn sæji til mín. Þetta faldi í sér t.d. að setja "næs kvöld" nammið í skál en borða upp úr skálinni á leiðinn upp stigann til að fá sem mest. Fara út í sjoppu og borða helminginn á leiðinni heim til að láta sem svo að keypt hafði verið helmingi minna. Fara í tvær til þrjár sjoppur í sömu sjoppuferðinni svo sjoppukellingin sæji ekki magnið. Plotta út hvenær maður er einn heima til að geta borðað í friði. Fela umbúðir vandlega. Borða hratt inni í eldúsi á meðan maður eldar og borða svo kvöldmat líka. Finna tilfinninguna sem er jafnhendis alsæla og alger hryllingur. Ég er ekki með á hreinu afhverju þetta byrjaði, ég man bara ekki eftir mér öðruvísi en hugsandi um næsta skammt og um leiðir til að aðrir föttuðu ekki hvað ég borðaði mikið. Eitthvað sagði mér bara að þetta væri ekki eðlileg hegðun. Hvað mig langaði svakalega mikið í "eitthvað gott". Í mínum huga er hreint samasem merki á milli laumuáts og geðveikinnar minnar. Ef ég núna borða í laumi eða lýg eða plotta þá er ég óbreytt og get bara aftur orðið 130 kíló. Búið spil. Það er skýrt að daginn sem ég kom heim úr C0-Op og sagði Dave frá því að ég keypti í alvörunni alltaf þrjú snickers, eitt handa mér á leiðinni heim, eitt handa mér og eitt handa honum, var dagurinn sem ég breytti hegðun minni til betri vegar. Það var hræðilegt að viðurkenna þetta en frelsandi á sama máta. Það er svo mikilvægt fyrir mig að vera gegnsæ og þessvegna verð ég líka að viðurkenna það þegar ég borða of mikið. Ég fann að mamma og pabbi voru farin að horfa á mig með áhyggjusvip í fríinu en það er svo mikilvægt að það sé allt til sýnis, warts and all. Ef ég ætla að borða rugl þá verður það að vera uppi á borði, fyrir framan alþjóð og ég verð að standa með ákvörðun minni að borða ruglið. Um leið og ég byrja að ljúga er þetta búið spil. Mig langar alltaf til að fá að vera í friði með nammið mitt og ég hugsa að það breytist aldrei, svona eins og mig langar alltaf smávegis í sígó. En baráttan er þess virði. Þetta er allt á batavegi.

mánudagur, 9. ágúst 2010Það hefur verið sjéllega klént sumarið hér á Bretlandseyjum. Og ef ég má segja mína meiningu þá bara nenni ég ekki þessu lengur og vona bara að veturinn fari að koma. Mér finnast sumarföt alveg glötuð á miðað við haust-og vetrarlínurnar og ég á líka svo fínan hatt frá Farmer´s Market sem ég bara get ekki beðið eftir að byrja að nota. Hvað sem því líður þá var hér núna bara afskaplega fallegt sumarkvöld. Og ég hugsaði með mér að það væri að fara að líða að síðasta sjens á að bera fram sumarlega rétti. Eins og þennan geðveika eggaldinrétt sem ég aðlagaði að mínum ísskáp frá uppskrift á netinu. Skera niður eitt eggaldnin í 2 cm þykkar sneiðar. Salta aðeins og leggja svo á eldhúsrúllu til að sjúga út vökva. Láta vera í hálftíma. Þegar sneiðarnar eru orðnar þurrari velta þá upp úr eggi og svo smávegis röspuðum parmesan. Steikja á báðum hliðum upp úr smá olívu olíu eða rapeseed olíu. 3 mín á hvorri hlið eða svo. Hrauka spínati á disk og leggja sneiðarnar þar ofan á. Ofan á hverja sneið fer sneið af ferskum mozzarella og tómatsneið. Rifið yfir ferskan basil og svo slettur af balsemic. Geðveikt, geðveikt. Dave fékk smá kjúklinga bringu með en ég fékk mér bara sneið af þýsku brauði. Það er örugglega gott að nota þetta sem forrétt eða þá eins og ég gerði sem aðalrétt og þá með salati og smá brauði. Mmmmmmmm.

sunnudagur, 8. ágúst 2010

Ég er með út í garði hjá mér runna nokkra sem á vaxa svona líka fín brómber (eða ég held að þetta séu brómber.) Nokkur síðustu ár hef ég leyft sígaununum að eiga þau, eða sko þau ákváðu að ég myndi leyfa þeim að eiga berin og voru alltaf bara mætt inn í garð hjá mér með dalla og poka til að losa mig við berin. Ekki ætlaði ég að rífast við fólkið. Ég borgaði bara frekar £2 fyrir dall af berjum í ASDA til að setja í smoothie eða út á jógúrt. En nú eru sko aðrir tímar og maður verður að halda fast í pundin sín. Ég hef alltaf þráð að verða grænmetisræktandi hænueigandi en drep allar plöntur og er með fóbíu fyrir fuglum þannig að ég ætti að fara fagnandi út í garð að tína þær afurðir sem þó vaxa í garðinum þrátt fyrir skortinn á ást og umhyggju frá eigandanum. Þannig að þegar ég vaknaði í morgun við sólargeislana datt mér strax í hug að byrja daginn á berjatínslu og að það myndi svona setja tóninn fyrir sjálfbæran dag. Önnur hugsun var reyndar að setja berin svo í ávaxtaköku en við erum ekkert að dvelja við það neitt. Ég fór því í hippalegustu fötin mín, setti blóm í hárið og greip tupperware dall og fór út. Þar sá ég í röndóttar skuplurnar á tveimur sígaunakellingum sem voru í óðaönn að klára berin af runnanum mínum. Ég brosti ofurfallega til þeirra og sagði þeim að ég ætti berin. Þær voru nú ekki á því. Jú, það má vera að garðurinn sé minn en þær eru búnar að tína hér ber á hverju ári og aldrei neinn kvartað. Ég útskýrði að ég hefði ekki notað berin hingað til en að núna væri ég fátæk og ætlaði að borða þau. Sem fékk þær til að hlæja ógurlega. Sá sem á hús og bíl og ber er ekki fátækur fékk ég þá útskýrt fyrir mér. Við gerðum því díl. Þær skilja eftir nóg svo ég geti fryst í nokkra smoothie og í eina köku. Svo sturtaði ein úr poka í dallinn minn og ég valhoppaði aftur inn í eldhús. Og líður hálf kjánalega. Eins gott að kakan verði góð.

miðvikudagur, 4. ágúst 2010

Þetta var besta sumarfrí til Íslands frá upphafi sumarfría. Dagsferð til Eyja með stórfjölskyldunni, pjattrófuferð í Borg Óttans, frænkuhittingur, útilega, Gullfoss og Geysir, kokteilboð, vinir, fjölskyldan og frábært veður. Og það þrátt fyrir að ég hafi algerlega sleppt af mér beislinu og gert það sem ég hafði ekki í hyggju að gera og nagaði mig í gegnum Suðurlandið. En það hefur bara eitthvað breyst í heilanum á mér sem þýðir að ég get ruglast svona í smátíma án þess að verða geðveik. Sem bara einhvern vegin þýðir að ég hef alltaf tök á að hella mér aftur í hreyfingu og hollustu fyrr en síðar. Ég þyngist kannski um um einhver x kíló en ég missi aldrei sjónar á sjálfri mér og því sem ég vil ekki kalla lokatakmarkinu vegna þess að þessu lýkur aldrei, en frekar svona lífsástæðunni minni. Það er stundum hægt að snúa sér við og fara í hina áttina og svo langt að maður sér ekki leiðina tilbaka. En ég virðist vera búin að koma mér upp einhverju innbyggðu hollustu GPS kerfi sem kemur mér á réttu brautina aftur. Allt þetta þýðir að ég skemmti mér konunglega og komst aftur hingað heim án þess að synda um í sykur-og hatursþokunni minni. Ég sakna Íslands og það er ekki hægt að neita því að mig langar aðeins meira að eiga heima þar en hér, en mér líður líka rosalega vel hér og á erfitt með að slíta mig upp. Og ég er ekki viss um að ég sé nógu sterk til að búa á landi sem selur ís með dýfu og Nóakroppi. Mamma mía! Ég ætla ekki að nota söknuðinn til að afsaka meira át, ég er enn í sumarfríi og kemst kannski ekki hundrað prósent inn í rútínuna mína, (enda með nýja rútínu í farvatninu) en það er heldur engin afsökun fyrir einhverju endalausu rugli. Við erum með ýmisleg planað fyrir þessa viku; Chester Zoo, Toystory 3, Fjallganga og Sund. Og ég þarf að komast í matvöruverslun. Það er ekki sjéns að reyna að vera heilbrigður ef það er ekkert í ísskápnum. Það er bara ávísun á Fish and Chips.