laugardagur, 21. ágúst 2010

Það er sena í Toystory 3 þar sem leikföngin hafa lent í ofni sem brennir rusl og þrátt fyrir tilraunir þeirra til að krafla sig út úr ógöngunum færast þau hægt og sígandi nær eldinum. Að lokum líta þau hvert á annað, takast í hendur, kreista aftur augun og bíða þess óhjákvæmilega. Þau sætta sig við örlög sín. Þau munu brenna og það er ekkert frekar sem þau geta gert. Ég var ósköp fegin því að vera með 3D gleraugu á mér í bíóinu þegar ég horfði á myndina því tárin runnu niður kinnarnar í stríðum, svörtum, maskarablönduðum straumum. Ég man nefnilega eftir svona mómenti í lífi mínu þar sem ég sætti mig bara við örlög mín og hætti að berjast. Ég var, hafði alltaf verið og yrði alltaf offitusjúklingur. Það var einfaldlega ekkert frekar sem ég gæti gert til að breyta mér og hvernig líf mitt yrði. Ég var ekki sátt við þessa ákvörðun mína en ég hélt að ég hefði reynt allt, kannað alla möguleika og allar útgönguleiðir til þrautar og að ég væri bjargarlaus. Af einhverjum ástæðum eitt kvöldið sló ég samt inn leitarorðinu "binge eating support" á google og var agndofa yfir magninu af upplýsingum sem ég fann. Mest fannst mér um að finna allt þetta fólk út um allan heim sem bloggaði um lífið á mismunandi stigum "nýs lífstíls". Sumir voru búin að léttast um yfir hundrað kíló allt bara með einfaldri aðferð; borða minna, hreyfa sig meira. Ég ákvað að prófa. Ég væri jafndauð fyrir. Það breytti öllu að fatta að ég var ekkert spes, allt þetta sem ég skammaðist mín svo fyrir, allt þetta sem ég hélt að ég væri ein að berjast við, var bara algilt hjá öllum hinum fitubollunum. Og 30 kílóum seinna er ég enn að klóra í bakkann. Mitt aðalstuðningstæki er ennþá internetið. Ég "rannsaka" fyrst allt sem ég geri. Og núna er ég búin að rannsaka þetta næsta stig mitt í lífstílnum. Ég er búin að finna mér lyftinga prógramm sem ég ætla að fylgja næstu sex mánuðina. Allt svona no nonsense og engin loforð um flatan maga á einni viku. Ég geri hinsvegar ráð fyrir að brenna fitu og stækka vöðva sem er það sem ég vil gera. Og ég hlakka svo til að byrja. Ég geri líka ráð fyrir að þessi fasi gangi eins og hefur hingað til hjá mér. Stundum gengur vel, stundum gengur illa en það sem er alveg óbreytanlegt er að ég ætla aldrei að kreista aftur augum og bíða þess óhjákvæmilega. Ég, eins og Woody, Buzz og félagar, á mér alltaf von.

1 ummæli:

Lilja Guðrún sagði...

Sæl
Ég hef verið að fylgjast með blogginu þinu og frábært hvað þú ert að standa þig vel. Til hamingju með árangurinn þinn

Ég var einmitt líka kominn á þann stað að ég yrði alltaf feit og var "næstum" búin að sætta mig við það.

En sem betur fer fann ég mína leið og tókst við mig sjálfa. Fann að ég átti við matarfíkn að stríða og fann leið til að takast á við hana, en erfiðast var að sættast við sjálfa mig og vinna með mig. Finna út yfir hverju ég væri að borða - binge eating.

nú hef ég verið í kjörþyngd í meira en ár og get hreyft mig eins og ég vil og hef getu til.

Gangi þér rosaleg vel í þinni baráttu og það er allt hægt og það að hafa trú á sjálfum sér kostar ekkert, maður bara græðir.:-)

kær kveðja
Lilja Guðrún