sunnudagur, 20. október 2013

Það sem er að bærast innra með mér akkúrat núna er eiginlega of viðkvæmt, of framandi og of nýtt til að ég geti myndað setningar og sett á blað. Allt síðan að ég ákvað að ég væri ekki gölluð, ég væri bara feit, hefur ný og ókunnug stemning verið innra með mér. Ég er sátt. Mér líður vel. Ég þarf ekki að vera mjó.

Sko! Ég sagði það. Ég bara þarf ekki að vera mjó.

Eins og ég segi þá er þetta afskaplega nýtt og viðkvæmt ennþá og ég þarf að næra tilfinninguna vel og hlúa að henni. Ég gleymi mér enn oft á dag og ætla að rjúka í megrun. En oftast næ ég að grafa upp tilfinningarsprotann sem segir að ég þurfi ekki að vera mjó og í hvert sinn verður tilfinningin sterkari.

Nei, ég get ekki skrifað um þetta ennþá. Allar setningar hljóma skinheilagar eða eins og að ég hafi fundið einvherja lausn og það er ekki rétt eða satt. Þetta hefur með þann aldargamla sannleik að gera að þegar maður sættist við sjálfa sig eins og maður er þá er loksins hægt að gera breytingar. Þetta hefur með það að gera að þegar keppikeflið er ekki kíló heldur heilbrigði þá er þetta hægt. Þetta hefur með það að gera að þegar ég eitra ekki fyrir sjálfri mér með sykri og hveiti þá get ég hugsað skýrt.

Mér líður rosalega vel.

laugardagur, 19. október 2013

Eru ekki einhver lög sem segja til um að maður eigi að borða nammi á laugardögum? Mér finnst endilega að ég hafi heyrt það einhverstaðar. Og ekki er leiðinlegt að fá Pipp.

Ég fann þessa uppskrift á netinu og breytti aðeins til að henta mér betur og hef í hyggju að nasla á þessu í kvöld yfir Strictly. Fyrst þarf ég reyndar að vefja trefli um háls og horfa á Wrexham taka Woking í bakaríið. Og allt þetta í nýjum kúrekastígvélum, lukkan yfir mér alltaf hreint.

Settu í skál 120 ml kókósolíu, 1/4 bolla möndlusmjör, 4 mtsk kakó, 1 mtsk hreint hlynsýróp, 1 tsk vanilludropar og 1/2 tsk piparmyntudropar og hræra saman. Smella svo í örbylgju í svona 40-50 sekúndur og hræra svo þar til allt er orðið smooth og glansandi. Hella svo út í mallið hálfum bolla af kókós og hálfum bolla af niðurmuldum, ristuðum, blönduðum hnetum (eins og pekan, möndlum og macadamia). Setja í sílíkónform inn í frysti og skera svo niður í hvernig svo sem bita sem maður vill. Ef ég væri einhver svona dúllerí kokkur hefði ég sjálfsagt sett í lítil form, eða í súkkulaðimót en ég er bara ekki þannig. Hvað sem því líður þá er þetta ógeðslega gott.miðvikudagur, 16. október 2013

Maður lifir víst ekki á brauði einu saman og það er víst heldur ekki hægt að gefa bara kökur. Brauðlaust er nesti alltaf smávegis umhugsunarefni, sér í lagi þegar manni bara langar ekki í salat. Ég hef því að undanförnu verið að gera tilraunir með blómkálstortillakökur sem er auðvelt að hantera með í vinnuna.

Eftir að lesa milljón mismunandi útgáfur er ég komin á það að það er engin ein uppskrift sem er best en það er hinsvegar eitt sem er algerlega nauðsynlegt að gera. Það er að vinda vatnið úr blómkálinu. Ég sker það niður og gufusýð svo í örbylgjunni. Mauka svo niður og legg í múslín klút. Svo vindur maður og vindur allt vatn úr. Þegar maður getur bara ekki undið meira þá bætir maður út í eggi eða tveimur, osti og eða kryddi að lyst, fletur út í litlar tortilla kökur og bakar svo þartil gullið. Svo er hægt að geyma í ísskáp í nokkra daga. Það er reyndar líka voðalega gott að smella á pönnu og rista aðeins, þannig kemur enn betra bragð. Svo er bara að nota hugmyndaflugið, túnfisksalat eða skinka og ostur, lifrakæfa eða grænmeti og sósa eða bara ostur og tómatsósa. Rúlla upp eða brjóta saman og maður er búinn að fá grænmetisskammt án þess að taka eftir því!

Maukað kálið komið í klúinn og byrjað að leka úr því.

Svo bara vinda og kreista, vinda og kreista.

Blómkáls"deigið" og allt blómkálsvatnið. Þetta er bara hálfur haus þannig að sjá má hvað það er mikið vatn.

Tortilla! Namm!

laugardagur, 5. október 2013

Við Láki fórum í bæinn í dag. Það er 18 stiga hiti og blíðskaparveður og þar sem við erum bæði sammála um að eitt það skemmtilegra í heimi hér er að kaupa hluti ákváðum við að skilja veikan Dave eftir heima og kanna hvort við gætum keypt okkur einn eða tvo hluti. Ég fór í gallabuxur, jakka og stígvél, setti hárið í hnút og svo röltum við okkur af stað. Þar sem við löbbuðum um Wrexham sá ég sjálfa mig endurspeglast öðruhvoru í gluggum og í hvert sinn hríslaðist um mig ánægjuhrollur. Í dag er mjór dagur.

Það sem ég elska mjóa daga.

Ég get ekki annað en verið steinhissa á að það sé mjór dagur í dag og ég verð eiginlega að nýta hann til að læra mikilvæga lexíu. Það eru nefnilega búnir að vera feitir dagar núna að undanförnu. Eiginlega bara heil feit vika. Ég er búin að leyfa vigtinni að ná tökum á greyið litla heilanum mínum í þessari viku. Þrátt fyrir kolvetnaleysi og lengri hjólreiðar í vikunni er ég búin að þyngjast um kíló. Ég vigta mig og vigta og smá saman nær meiri og meiri örvænting tökum á mér. Afhverju virkar þetta ekki? spyr ég sjálfa mig í angist. Það er alveg sama hvað ég geri, hvað ég fórna miklu, hvað ég reyni ég verð alltaf feit.

Og ég bara má ekki leyfa sjálri mér að hugsa þannig. Í fyrsta lagi þá skiptir það bara engu máli þó ég sé bara alltaf feit. Ég horfi á sjálfa mig og ég hugsa með mér hvað ég sé eiginlega að væla þetta? Það er bara ekkert að mér. Og mjóir dagar sanna það. Ef mér líður vel með sjálfa mig í dag, hversvegna ekki bara að líða vel með sjálfa mig alltaf? Ég er alveg jafn feit (eða mjó) í dag og ég var í gær.

Í öðru lagi þá líður mér rosalega vel með mataræðið mitt núna. Ég borða þannig að ég er alltaf södd og sátt. Hvað með það þó ég sé ein af þessu fólki sem bara grennist aldrei, alveg sama hvað er reynt. Þó ég sé með "set point" sem er í yfirvigt?

Í þriðja lagi þá er bara allt í fína lagi að bæði læra að sættast við líkama minn eins og hann er og á sama tíma halda áfram að betrumbæta heilsuna. Þetta þarf ekki að vera aðskilið. Ég þarf ekki að hata líkama minn þó ég vilji vera léttari, og ég þarf ekki að hætta að vilja grennast aðeins þó ég elski mig eins og ég er.

Ég ætla ekki að skrifa um hvað ég er þung á morgun. Ég bý til of mikla pressu á sjálfa mig að sanna að kolvetnalítill lífstíll sé sannur og réttur.  Ég bý líka til þessa pressu sem segir að ég verði að léttast um x kíló á viku og að ég verði að ná x þyngd fyrir jól og svo framvegis. Og ég ætti að vita betur núna að þetta snýst ekki um það. Það að byrja að lifa kolvetnasnauðu lífi átti aldrei að verða að megrun. Það átti að láta mér líða betur ekki verr. Um leið og ég byrja að keppast við sjálfa mig um að léttast þá byrjar mér að líða illa.

Og ekki ætla ég að skemma mjóan dag með einhverjum leiðindum.

þriðjudagur, 1. október 2013


Hingað til er ekki hægt að segja að hópíþróttir hafi átt mikið upp á pallborðið hjá mér. Ég hef frekar stært mig af því að vera ein og einstök frekar en að taka þátt í einhverjum múgæsing. En svo varð ég ástfangin og þegar maður er ástfangin þá vill maður taka þátt í áhugamálum þess maður elskar. Og maðurinn er fótboltaáhugamaður. Og það er ekki eins og hann velji sér lið sem er auðvelt að halda með, lið sem að minnsta kosti vinnur öðru hvoru. Nei. Hann er Wrexham áhangandi. Og ég, góða eiginkonan sem ég er hlustaði á hann tala um liðið og hvernig gekk, hvatti hann til að fara á völlinn, huggaði þegar illa gekk og fagnaði þegar vel tókst til. Svo kom að því að ég fór að fara með honum. Og svo fór ég að hafa gaman af. Og svo fór ég að hlakka til. Og svo fór ég að bera velferð liðsins fyrir brjósti, mér leið illa þegar við töpuðum og vel þegar við unnum.

Það er eitthvað alveg sérsakt við að halda með sínu eigin liði. Að finna fyrir smá fiðringi í maganum af því að maður veit bara ekki hvort maður verði himinlifandi eða heartbroken eftir leik. Samkenndin sem maður finnur fyrir þegar maður labbar í gegnum bæinn og smásaman sér maður fleiri og fleiri á leið á völlinn og svo er maður orðinn hluti af stærri heild, hluti af þúsundum manns í rauðum peysum. Söngurinn, gleðin, sorgin.

Ég er nógu stór manneskja til að viðurkenna að ég er núna Wrexham fótboltaaðdáandi eins hallærislegt og það er. Ég er nógu stór til að viðurkenna að það er í lagi að taka þátt í hjarðhegðun svona annanhvern laugardag. Það er ekkert að því að vera fótboltabulla. En vandinn sem ég er í núna er mun flóknari en svo.

Mig langar svo að vera í búningi eins og allir hinir.

Mig langar í Wrexham peysu svo ég geti verið eins og allir hinar fótboltabullurnar. Og það bara gengur ekki upp. Það er ekkert í heimi hér jafn ljótt og kjélling i fótboltapeysu.

Ég á í nógu miklu klandri bara að velja í hvaða fötum ég á að fara í á völlinn (þau eiga að vera töff, þægileg, smá sportí en engu að síður smart og snyrtileg, hvernig í ósköpunum setur maður það saman?) þó að í ofan á lag bætist ekki við rauð peysa í kallasniði!

En samt. Mig langar svo að vera með. Ég tók því hikandi skref í áttina á laugardaginn og keypti mér trefil. Hélt honum hátt á lofti og söng Wrexham, Wrexham þegar við skoruðum á móti Cambridge United. Bar hann stolt um hálsinn þegar ég gekk í gegnum bæinn og sönglaði Wreeexham, Wreeexham með sjálfri mér svona öðru hvoru.

Ég ætlaði að skrifa ægilega fyndinn pistil um fótboltabullur og tísku og mig. En sé það núna að það er ekkert fyndið við þetta. Þetta er grafalvarlegt.