Við Láki fórum í bæinn í dag. Það er 18 stiga hiti og blíðskaparveður og þar sem við erum bæði sammála um að eitt það skemmtilegra í heimi hér er að kaupa hluti ákváðum við að skilja veikan Dave eftir heima og kanna hvort við gætum keypt okkur einn eða tvo hluti. Ég fór í gallabuxur, jakka og stígvél, setti hárið í hnút og svo röltum við okkur af stað. Þar sem við löbbuðum um Wrexham sá ég sjálfa mig endurspeglast öðruhvoru í gluggum og í hvert sinn hríslaðist um mig ánægjuhrollur. Í dag er mjór dagur.
Það sem ég elska mjóa daga.
Ég get ekki annað en verið steinhissa á að það sé mjór dagur í dag og ég verð eiginlega að nýta hann til að læra mikilvæga lexíu. Það eru nefnilega búnir að vera feitir dagar núna að undanförnu. Eiginlega bara heil feit vika. Ég er búin að leyfa vigtinni að ná tökum á greyið litla heilanum mínum í þessari viku. Þrátt fyrir kolvetnaleysi og lengri hjólreiðar í vikunni er ég búin að þyngjast um kíló. Ég vigta mig og vigta og smá saman nær meiri og meiri örvænting tökum á mér. Afhverju virkar þetta ekki? spyr ég sjálfa mig í angist. Það er alveg sama hvað ég geri, hvað ég fórna miklu, hvað ég reyni ég verð alltaf feit.
Og ég bara má ekki leyfa sjálri mér að hugsa þannig. Í fyrsta lagi þá skiptir það bara engu máli þó ég sé bara alltaf feit. Ég horfi á sjálfa mig og ég hugsa með mér hvað ég sé eiginlega að væla þetta? Það er bara ekkert að mér. Og mjóir dagar sanna það. Ef mér líður vel með sjálfa mig í dag, hversvegna ekki bara að líða vel með sjálfa mig alltaf? Ég er alveg jafn feit (eða mjó) í dag og ég var í gær.
Í öðru lagi þá líður mér rosalega vel með mataræðið mitt núna. Ég borða þannig að ég er alltaf södd og sátt. Hvað með það þó ég sé ein af þessu fólki sem bara grennist aldrei, alveg sama hvað er reynt. Þó ég sé með "set point" sem er í yfirvigt?
Í þriðja lagi þá er bara allt í fína lagi að bæði læra að sættast við líkama minn eins og hann er og á sama tíma halda áfram að betrumbæta heilsuna. Þetta þarf ekki að vera aðskilið. Ég þarf ekki að hata líkama minn þó ég vilji vera léttari, og ég þarf ekki að hætta að vilja grennast aðeins þó ég elski mig eins og ég er.
Ég ætla ekki að skrifa um hvað ég er þung á morgun. Ég bý til of mikla pressu á sjálfa mig að sanna að kolvetnalítill lífstíll sé sannur og réttur. Ég bý líka til þessa pressu sem segir að ég verði að léttast um x kíló á viku og að ég verði að ná x þyngd fyrir jól og svo framvegis. Og ég ætti að vita betur núna að þetta snýst ekki um það. Það að byrja að lifa kolvetnasnauðu lífi átti aldrei að verða að megrun. Það átti að láta mér líða betur ekki verr. Um leið og ég byrja að keppast við sjálfa mig um að léttast þá byrjar mér að líða illa.
Og ekki ætla ég að skemma mjóan dag með einhverjum leiðindum.
2 ummæli:
Lendi í því sama af og til! Einn daginn er ég bara fín og flott og töff, og hinn daginn hef ég lægri álit á mér en konu í crocks og 10-11 flíspeysu!
Mikið líturðu vel út, Svava Rán.
Kv. Sigurrós
Skrifa ummæli