þriðjudagur, 1. október 2013


Hingað til er ekki hægt að segja að hópíþróttir hafi átt mikið upp á pallborðið hjá mér. Ég hef frekar stært mig af því að vera ein og einstök frekar en að taka þátt í einhverjum múgæsing. En svo varð ég ástfangin og þegar maður er ástfangin þá vill maður taka þátt í áhugamálum þess maður elskar. Og maðurinn er fótboltaáhugamaður. Og það er ekki eins og hann velji sér lið sem er auðvelt að halda með, lið sem að minnsta kosti vinnur öðru hvoru. Nei. Hann er Wrexham áhangandi. Og ég, góða eiginkonan sem ég er hlustaði á hann tala um liðið og hvernig gekk, hvatti hann til að fara á völlinn, huggaði þegar illa gekk og fagnaði þegar vel tókst til. Svo kom að því að ég fór að fara með honum. Og svo fór ég að hafa gaman af. Og svo fór ég að hlakka til. Og svo fór ég að bera velferð liðsins fyrir brjósti, mér leið illa þegar við töpuðum og vel þegar við unnum.

Það er eitthvað alveg sérsakt við að halda með sínu eigin liði. Að finna fyrir smá fiðringi í maganum af því að maður veit bara ekki hvort maður verði himinlifandi eða heartbroken eftir leik. Samkenndin sem maður finnur fyrir þegar maður labbar í gegnum bæinn og smásaman sér maður fleiri og fleiri á leið á völlinn og svo er maður orðinn hluti af stærri heild, hluti af þúsundum manns í rauðum peysum. Söngurinn, gleðin, sorgin.

Ég er nógu stór manneskja til að viðurkenna að ég er núna Wrexham fótboltaaðdáandi eins hallærislegt og það er. Ég er nógu stór til að viðurkenna að það er í lagi að taka þátt í hjarðhegðun svona annanhvern laugardag. Það er ekkert að því að vera fótboltabulla. En vandinn sem ég er í núna er mun flóknari en svo.

Mig langar svo að vera í búningi eins og allir hinir.

Mig langar í Wrexham peysu svo ég geti verið eins og allir hinar fótboltabullurnar. Og það bara gengur ekki upp. Það er ekkert í heimi hér jafn ljótt og kjélling i fótboltapeysu.

Ég á í nógu miklu klandri bara að velja í hvaða fötum ég á að fara í á völlinn (þau eiga að vera töff, þægileg, smá sportí en engu að síður smart og snyrtileg, hvernig í ósköpunum setur maður það saman?) þó að í ofan á lag bætist ekki við rauð peysa í kallasniði!

En samt. Mig langar svo að vera með. Ég tók því hikandi skref í áttina á laugardaginn og keypti mér trefil. Hélt honum hátt á lofti og söng Wrexham, Wrexham þegar við skoruðum á móti Cambridge United. Bar hann stolt um hálsinn þegar ég gekk í gegnum bæinn og sönglaði Wreeexham, Wreeexham með sjálfri mér svona öðru hvoru.

Ég ætlaði að skrifa ægilega fyndinn pistil um fótboltabullur og tísku og mig. En sé það núna að það er ekkert fyndið við þetta. Þetta er grafalvarlegt.

1 ummæli:

Hanna sagði...

Þú ert svo mikill tittlingur :-)
Knús
Hanna